Morgunblaðið - Sunnudagur - 09.09.2018, Síða 16
VIÐTAL
16 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 9.9. 2018
læra að sitja í rúmi, ekki með neina maga-
vöðva. Maður þarf að læra allt upp á nýtt, eins
og að klæða sig.“
Hún segir marga hafa verið í sumarfríi og
sundlaugin hafi verið lokuð. Hún hitti aldrei
sálfræðing á Grensási en hitti síðar geðhjúkr-
unarfræðing á vegum Icelandair sem sérhæfir
sig í áfallahjálp. Spurð hvort það hafi hjálpað
segist hún hreinlega ekki vita það.
„Ég er ekki mikið fyrir að tjá mig neitt
djúpt.“
Varstu ekki reið?
„Jú. Ég var svolítið brjáluð. Ég er núna
hætt að vera reið. Ég veit ekki hvernig ég á að
orða það, málið var að ég var alveg andstaðan
við þetta, ég var alltaf úti í fjallgöngum, að
hjóla og að fljúga. Og í byrjun sá ég bara allt
sem ég gat ekki. En svo hægt og rólega reyndi
maður að breyta hugarfarinu.“
Við ræðum hversu fáránleg örlögin geta
verið; einn daginn er Lára að fljúga breiðþot-
um yfir heimsins höf og næsta dag er hún löm-
uð á spítala. Eitt sekúndubrot sem ekki verður
aftur tekið breytti öllu.
Lára nefnir sem dæmi að hún hafi þurft að
flytja.
„Við áttum heima í gömlu húsi í miðbænum
með þröngum stigum og ég bara komst ekki þar
um. Ég fór aldrei aftur í þá íbúð. Ég fór bara út
að hjóla og fór aldrei aftur heim. Við keyptum
svo þessa íbúð þegar ég lá ennþá inni á Grens-
ási. Leifur og mömmurnar fóru að skoða og hún
var bara keypt,“ segir Lára og hlær.
Heldurðu að þú getir sætt þig við þetta?
„Maður verður bara að gera það. Ég hef
ekki val og þá verður maður að gera það besta
úr þessu fyrst þetta er skeð,“ segir hún og seg-
ist enn vera að vinna úr áfallinu en hver dagur
sé aðeins betri en sá á undan.
„Ég er hætt að hugsa dagsdaglega; verð ég
einhvern tímann aftur glöð? Nú er allt orðið
aftur eðlilegt. Svo verður maður að læra að
hlæja að alls kyns óþægilegum hlutum sem
maður lendir í núna,“ segir hún og þau Leifur
segjast oft skella upp úr vegna aðstæðna sem
komi upp. Húmorinn er ekki langt undan,
þrátt fyrir erfiðleikana.
Andlega og líkamlega styrkjandi
Í Reykjavíkurmaraþoni 2017 hlupu fjölmargir
til styrktar Láru, en safnað var svo hún gæti
komist á endurhæfingarstöð í Bandaríkjunum.
„Ég náði ekki utan um þetta allt, þetta var
stórkostlegt. Ég fékk kveðjur frá ótrúlegasta
fólki sem ég þekkti ekki einu sinni,“ segir Lára
og segir þennan dag, mitt í sorginni, hafa verið
mikinn gleðidag.
„Já, það var geggjað veður og rosa mikil
gleði.“
Lára og Leifur gátu notað það fé sem safn-
aðist til þess að fara í þrjár ferðir til Denver í
Colorado, þar sem þau dvöldu fimm til sex vik-
ur í senn. Hún segir endurhæfinguna þar hafa
reynst sér vel og verið á allt öðru plani en hér
heima.
„Stöðin sérhæfði sig í heila- og mænuskaða.
Það var margt fólk þarna inniliggjandi en
þarna var mest ungt fólk. Það var svo gaman
að umgangast það og heyra sögur þess. Það er
eina fólkið sem skilur mig. Læknarnir mínir
þarna úti voru tveir í hjólastól líka. Amerík-
anar eru svo glaðir og opnir og þjálfararnir
þarna voru allir svo hressir og reyndir og alltaf
til í að prófa eitthvað nýtt,“ segir Lára og út-
skýrir að mikið hafi verið lagt upp úr meðferð í
gegnum tómstundir, útivist og hreyfingu.
„Einu sinni í viku var farið í ferð og við próf-
uðum alls konar nýtt, eins og að fara á kajak
og hjól. Það var svo mikið í boði. Það eru svo
miklir möguleikar. Sumar af þessum græjum
vissi ég ekki að væru til. Mér fannst dvölin
þarna hjálpa mér mjög mikið. Þetta var mjög
styrkjandi bæði líkamlega og andlega,“ segir
Lára og segist hafa eignast nokkra vini sem
hún fylgist með á samfélagsmiðlum. Leifur var
með henni allan tímann og gat hann unnið
vinnuna sína fyrir Creditinfo frá Denver.
Að hámarka líkur á bata
Leifur segir þau gjarnan hafa viljað fara til
Bandaríkjanna því auðvitað vildu þau prófa
allt sem gæti mögulega stuðlað að einhvers
konar bata.
„Það var alveg ljóst strax að þetta væri mjög
alvarlegt, en það fylgdi þessu svo mikil óvissa.
Hvað gerist næstu mánuði? Fær hún bata? Við
vildum hámarka líkurnar á bata og fórum því á
þessa endurhæfingarstöð í Bandaríkjunum.
Hversu litlar sem líkurnar eru reynir maður
að gera sitt besta. Við vorum farin út þremur
mánuðum eftir slys, sem er í rauninni mjög
snemmt,“ segir Leifur.
„Grensás gerði grunnþjálfunina ágætlega
með það að markmiði að koma henni á þann
stað þar sem hún er sjálfbjarga, og þá var
þeirra verki lokið. Þeir eru ekki að fylgja fólki
út í lífið og opna dyr að möguleikum. Að gera
þig að bestu útgáfu sem þú mögulega getur
verið. Þeirra verkefni er bara að bjarga þér,“
segir hann.
„Þeim fannst það kannski bara tímaeyðsla
að fara út til Bandaríkjanna. Þó að hún hafi
ekki fengið kraftinn í lappirnar aftur var
endurhæfingin að koma henni út í lífið svo
miklu betri þarna úti. Þar náði hún að breyta
hugarfarinu og hitta fullt af fólki sem er búið
að afreka ótrúlega hluti. Hér heima er SEM
(Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra) að
vinna gott starf og hafa þau komið og hitt Láru
og sýnt henni hvað sé hægt að gera. Þau hafa
sagt henni að hún geti hringt í þau dag og
nótt,“ segir hann og bætir við að það sé afar
mikilvægt að hafa einhverja aðra en lækna til
að spyrja og þá sérstaklega að hafa fólk sem
stendur í sömu sporum og Lára.
„Þau komu niður á Grensás stuttu eftir að
ég slasaðist og það var mjög gott að hitta þau.
Það er ein stelpa á mínu reki, Arna Sigríður,
og einn strákur sem er aðeins eldri, og þau
gera bara allt sem þeim dettur í hug. Arna er
rosa öflug og stefnir á Ólympíuleikana. Það
hjálpaði mjög mikið að sjá að þau geta gert
allt,“ segir Lára.
Eftir endurhæfinguna í Denver fylltist Lára
eldmóði og sá að ýmsir möguleikar væru í boði
til þess að stunda hreyfingu og útivist þótt hún
væri lömuð.
„Ég keypti mér götuhjól og við erum að
hugsa um að kaupa okkur kajak, enda stutt að
fara héðan út á sjó,“ segir Lára, en hún æfir
sig oft á hjólinu meðfram strandlengjunni.
„Ég fór líka á skíði í Colorado, það var mjög
erfitt. Maður er í sæti með einu skíði og stafirnir
eru líka með skíði. Þetta er dálítið erfið tækni að
læra en þegar þetta er komið er þetta örugglega
mjög skemmtilegt, ég var orðin sæmileg eftir
nokkra daga,“ segir Lára og brosir.
„Svo eru til gönguskíði sem ég væri til í að
prófa, nokkuð sem ég vissi ekki að væri til.“
Hjónin virðast ekki láta neitt stoppa sig og
nefna að hlutirnir gætu verið verri.
„Við erum líka þakklát fyrir að þetta fór
ekki verr, sérstaklega eftir að við vorum þarna
úti og sáum fólk sem var kannski ekki með
kraft í höndum eða sem hafði lent í höfuð-
meiðslum. Þetta gæti verið talsvert verra. Við
getum gert gott úr því sem við höfum í dag, þó
að það sé mikil breyting í lífinu,“ segir Leifur.
„Já, það er ótrúlegt hvað hægt er að gera, þó
að ég sé bara með not í kannski 30% af líkam-
anum,“ bætir Lára við.
Lára keypti sér götuhjól sem hún knýr áfram með handafli. Hún æfir sig oft meðfram strand-
lengjunni fyrir utan blokkina í Bryggjuhverfinu þar sem þau búa. Næst á dagskrá er fjallahjól.
Það er fátt sem ekki er hægt eins og sannaðist þegar Lára prófaði skíði í Colo-
rado. Hún segist ætla að æfa sig frekar á skíðum í framtíðinni.
Leifur og Lára hafa alltaf stundað hreyfingu
og útivist saman og ætla að halda ótrauð
áfram á þeirri braut. Þau hafa planað ýmsar
ævintýraferðir í framtíðinni og Lára lætur
hjólastólinn ekki stöðva sig.
’ En hún er að massa þettaverkefni, hún Lára, hún erótrúleg. Hún gerir sjálf oft lítiðúr því hvað hún er að gera mikið
af mögnuðum hlutum og segist
stundum ekki skilja að fólk sé að
hrósa henni. Henni finnst þetta
bara venjulegt. Ég hef sagt við
hana, það er ekki fyrir hvern sem
er að sigrast á svona áskorunum.
Lára prófaði ýmislegt nýtt í endur-
hæfingunni í Bandaríkjunum.
Endurhæfingin í Bandaríkjunum gerði
Láru gott, bæði andlega og líkamlega.