Morgunblaðið - 11.09.2018, Qupperneq 30
30 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 11. SEPTEMBER 2018
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves
verður haldin í Reykjavík 7.-10.
nóvember og er enski tónlistar-
maðurinn Hak Baker meðal þeirra
sem troða munu upp. Ferill Baker
er óvenjulegur og hófst í „grime“
og „garage“ tónlist sem hann sneri
baki við eftir að hafa afplánað
stuttan fangelsisdóm og nýtt af-
plánunina í að læra á gítar og
semja lög og texta. Nú er tónlist
Baker flokkuð sem þjóðlagatónlist,
„folk“ á ensku, og hefur Baker vak-
ið bæði athygli og fengið lof fyrir
góðar lagasmíðar og persónulega
texta.
Baker er 28 ára og fæddur og
uppalinn í Isle of Dogs, hverfi í
austurhluta London þar sem hann
býr enn. Blaðamaður þekkir ekki til
þessa svæðis í London og biður Ba-
ker um að segja sér aðeins frá því.
„Þetta er skrítið svæði,“ segir
hann. „Hér var áður fyrr bær sem
verkamenn byggðu og unnu við
skipaþjónustu en núna er þetta víst
aðalfjármálamiðstöð Evrópu, Can-
ary Wharf, þó allir aðrir en við
verkalýðsstéttin njóti góðs af því.“
Byrjaði ungur
Blaðamaður heyrir í gítar-
strengjum og spyr Baker hvort
hann sé að æfa sig. „Ég er bara í
hljóðveri að prófa mig áfram,“ segir
hann og er spurður að því hvenær
hann hafi byrjað að fikta við tónlist.
„Ég var mjög ungur þegar ég byrj-
aði að semja með vinum mínum, 12
eða 13 ára. Svo hætti ég að búa til
tónlist í mjög langan tíma en hef nú
sinnt henni í tvö ár.“
Þar sem Baker er ekki orðinn
þrítugur hefur hann byrjað að
semja tónlist og flytja upp úr alda-
mótum, um 2001 eða 2002. Hann er
spurður að því hverju hann og vinir
hans hafi verið hrifnir af og sótt
innblástur í á þeim tíma. „Við
hlustuðum á garage og grime, gam-
alt efni, reggí líka. Þetta var blanda
af þessu öllu,“ segir Baker.
–Ég heyri líka greinileg áhrif af
reggíi í tónlistinni þinni?
„Já, alveg 100%, reggí er mjög
mikill áhrifavaldur.“
–Þú tilheyrðir grime-hópnum
B.O.M.B. Squad á sínum tíma.
„Já, við vorum bara að leika okk-
ur sem strákar, það var engin al-
vara í þessu. Við vorum bara að
semja tónlist,“ svarar Baker og er
spurður að því hvort hópurinn hafi
notið vinsælda. „Algjörlega, bæði
hér í hverfinu og í London almennt.
En við græddum í raun ekkert á
þessu, eiginlega ekki neitt.“
Slæmar ákvarðanir
Baker segist hafa hlustað mikið á
tónlist þar sem gítar er í öndvegi og
að það sé tónlistin sem honum líki
best við og vilji helst af öllu semja
og flytja. Sem fyrr segir lærði Bak-
er á gítar í fangelsi og blaðamaður
spyr fyrir hvaða sakir hann hafi
setið inni. „Ég fór í fangelsi af því
að ég var á slæmum stað í lífinu,
tók margar slæmar ákvarðanir,“
svarar Baker og vill greinilega ekki
fara nánar út í þá sálma.
–Og komstu þaðan gjörbreyttur
maður?
„Nei, ég var sami gaurinn en
vissi betur hver ég var og að ég
vildi fá meira út úr lífinu, sjálfum
mér og mínu fólki. Með mínu fólki á
ég við fólkið sem ég ólst upp með,
vini mína, verkalýðinn. Ég er ekki
að vísa til kynþáttar, þeldökkra,
eins og allt virðist snúast um þessa
dagana og er notað til að sundra
þeldökku fólki og fólki af ólíkum
kynþáttum sem er bara kjaftæði,“
svarar Baker.
Minning um vin
–Samdirðu marga texta í fang-
elsi?
„Já, ég hef ekki notað þá en ég
samdi þá marga.“
–Textarnir þínir eru mjög per-
sónulegir og í einum þeirra syngur
þú um vin þinn sem dó. Geturðu
sagt mér meira frá honum?
„Hann var besti vinur minn og
þetta er texti beint frá hjartanu, um
hann og ég er bara að segja frá vin-
um mínum og hvernig mér og þeim
líður. Það er svo sem lítið meira um
þessa texta að segja annað en að
þeir eru beint frá hjartanu.“
–Tónlistin hlýtur að veita þér
mikla losun og frelsi?
„Vissulega og sérstaklega þegar
ég er á sviði. Ef ég drykki ekki
svona mikið myndi mér líða frábær-
lega að loknum tónleikum en mér
líður samt sem áður mjög vel, ég
þarf bara að takast á við timbur-
mennina næsta dag. Þetta er ákveð-
ið læknandi ferli fyrir mig.“
–Líður þér vel á sviði þegar þú
ert að spila og syngja?
„Ég er alltaf kvíðinn fyrstu tíu
mínúturnar hið minnsta en svo
dregur úr kvíðanum eftir því sem á
líður.“
–Og það breytist ekkert, það eru
alltaf þessar tíu mínútur af kvíða?
„Já, maður, þetta er alltaf sama
sagan,“ segir Baker og hlær við.
Önnur plata væntanleg
–Þú hefur gefið út eina stuttskífu,
Misfits, sem hefur að geyma sex
lög. Veistu hversu mörg lög þú
munt flytja á Íslandi?
„Sennilega sex eða sjö, fer eftir
því hversu lengi ég verð á sviðinu.
Ég held ég hafi bara hálftíma og
get því varla spilað fleiri lög. Þetta
er stuttur tími en ef ég fæ 40 mín-
útur mun ég líklega spila átta lög,“
svarar Baker og vonast greinilega
til þess að mínúturnar verði 40
frekar en 30.
Hann segist vera að vinna að
annarri plötu og að lögin á henni
verði bæði lík og ólík fyrri lögum
hans. „Tónlistin er alltaf að breyt-
ast í hljóðverinu, allt eftir því
hvernig okkur líður hverju sinni,“
útskýrir hann.
Baker segist að lokum hlakka til
þess að heimsækja Ísland og segist
sérstaklega áhugasamur um að sjá
hveri og heilsulindir. Hann þekkir
lítið til íslenskrar tónlistar og segist
því spenntur að sjá og heyra í ís-
lenskum tónlistarmönnum á Air-
waves.
Vildi fá meira út úr lífinu
Enski tónlistarmaðurinn Hak Baker kemur fram á Iceland Airwaves Lærði á gítar í fangelsi og
gerðist söngvaskáld Textarnir beint frá hjartanu Alltaf kvíðinn fyrstu tíu mínúturnar á sviði
Einlægur Hak Baker syngur m.a. um vini sína og lífið í Isle of Dogs í London.
Ný plata Víkings Heiðars Ólafs-
sonar píanóleikara, með 35 verkum
eftir Johann Sebastian Bach, kom út
hjá hinu virta útgáfufyrirtæki
Deutsche Grammophon á föstudag-
inn var. Samdægurs mælti gagnrýn-
andi The New York Times, Joshua
Barone, með og jós lofi splunkunýjar
plötur tveggja norrænna píanóleik-
ara sem hafa verið á hraðferð upp á
stjörnuhimin klassíska heimsins,
hins norska Leif Ove Andsnes, sem
leikur næturljóð og ballöður eftir
Chopin á útgáfu frá Sony, og Vík-
ings Heiðars.
Rýnirinn segir unnendur píanó-
leiks geta fagnað dásamlegum upp-
tökum beggja píanóleikaranna.
Hann segir frumraun Víkings Heið-
ars hjá Deutsche Grammophon á
etýðum eftir Philip Glass hafa verið
„opinberun“, músíkalska uppgötvun
í verkum sem forðist iðulega að vera
hljómfögur. Í nýju upptökunum hafi
Víkingur Heiðar á viðlíka hátt kafað
niður í dýpi fjölröddunar í prelúdíum
og fúgum Bachs, sem og í allmörg
önnur minni verk, þar á meðal í út-
setningum eftir Rachmaninoff og
Busoni á tónsmíðum Bachs. „Honum
auðnast að koma á óvart, jafnvel í
kunnuglegustu verkunum, í því
hvernig hann hefur örugga stjórn á
hinum ólíkustu röddum en veitir um
leið svigrúm fyrir ævintýralega
snúninga – þar blandast virðing og
fífldirfska og afraksturinn er hressi-
leg viðbót við þegar þéttskipaðan
akur upptaka með verkum Bachs.“
Víða er getið í alþjóðlegum miðl-
um um útgáfuna á Bach-diski Vík-
ings. Franska útvarpsstöðin FIP
valdi hann til að mynda disk sept-
embermánaðar. Þá getur Víkingur
Heiðar þess á samfélagsmiðlum að
plata hans með etýðum Glass hafi
verið söluhæsta plata Deutsche
Grammophon í fyrra.
Útgáfutónleikar Víkings Heiðars
hér á landi verða í Eldborgarsal
Hörpu 13. október næstkomandi.
Virðing og fífldirfska
blandast í túlkun á Bach
Morgunblaðið/Einar Falur
Lof Nýr diskur Víkings Heiðars er
lofaður í The New York Times.
Meira til skiptanna