Morgunblaðið - Sunnudagur - 09.12.2018, Page 15
Nína giftist föður Unu,“ segir Scott.
„Dagsetningin var tveimur mán-
uðum áður en mamma giftist pabba.
Svo hún hefur líklega sært hann og
valið pabba minn, það er hugsanlegt.
Þau höfðu verið saman áður en hún
hitti pabba, en hann var giftur maður.
Og svo giftist hún öðrum, og hvers
vegna var hann svona svekktur, hann
var giftur annarri,“ segja þau og
hlæja.
Þannig að þið haldið að hann hafi
nefnt mömmu þína og sagt hana
kommúnista?
„Já, það er mögulegt. Það er bara
ágiskun. Ég veit ekki hver annar það
hefði getað verið,“ segir hún og nefnir
að kannski hafi hann verið fúll yfir því
að hún hafi valið annan fram yfir
hann.
„Kannski hugsaði hann bara, hún
er farin til Íslands, ég nefni hana
bara,“ segir Scott.
„Í yfirheyrslunum spurðu þau
hana: „Ef þú værir kommúnisti,
hvort myndir þú velja Stalín eða
Trotsky?“ Hún svaraði: „Jæja,
Trotsky þá!“ Og þeir voru sigri hrós-
andi og töldu hana þar með hafa ját-
að,“ segir hann.
„Þetta var svo sorglegt, hún vissi
varla neitt um muninn á þeim, aum-
ingja mamma,“ segir Una Dóra.
„Ef maður les bréfin sem hún
skrifaði Erlendi í Unuhúsi sér maður
að hún var enginn kommúnisti; frek-
ar kapítalisti ef eitthvað var. Hún
hafði alls kyns hugmyndir hvernig
ætti að græða peninga; hún vildi
flytja bíla frá Ameríku til Íslands,
hún vildi byggja kvikmyndahús á Ís-
landi. Hún var með alls kyns kapítal-
ískar hugmyndir, hún var tæplega
kommúnisti!“
„Hún fór allt of ung“
Við vendum kvæði okkar í kross og
ræðum samband þeirra mæðgna, en
Nína lést langt fyrir aldur fram, að-
eins 55 ára gömul. Þá var Una Dóra
aðeins sautján ára gömul. Hún segir
þær mæðgur alltaf hafa verið nánar
og góðar vinkonur.
„Hún var bæði fyndin og skemmti-
leg. Mamma var skilningsrík þegar
ég var unglingur. Ég var með smá
unglingaveiki síðasta árið sem hún
lifði, því miður. Ég hafði auðvitað
ekki hugmynd um að hún myndi
deyja. Hún var með krabbamein í
eggjastokkunum. Hún var ekki svo
veik þetta síðasta ár, kannski svolítið
þreytt. Þetta gerðist frekar hratt,
hún fór á spítala í desember og lést í
júni árið eftir. Það var ekki vitað hvað
var að henni fyrr en alltof seint. Á
þessum árum var ekki talað mikið um
brjóst og eggjastokka; það var sagt
að hún hefði verið með magakrabba,
og ég hélt það sjálf í mörg ár. Það var
ekki fyrr en löngu seinna að ég las á
netinu að hún hefði dáið úr krabba-
meini í eggjastokkum,“ segir hún.
„Hún fór alltof ung. Hún átti eftir
að gera svo margt. Hún hafði samt
uppgötvað margt í lífinu, hluti sem
við uppgötvum oft síðar í lífinu. Hún
hafði verið listakona síðan hún var
unglingur og hún var mjög fókus-
eruð,“ segir hún og bætir við að hún
sakni enn yndislegra foreldra.
„Ég veit að Ísland var alltaf í
hjarta hennar og hún skipti aldrei um
ríkisfang. Hún hélt nafninu sínu líka
alla tíð, Tryggvadóttir. Hún var sjálf-
stæð. Við töluðum alltaf saman á ís-
lensku, það var málið sem við áttum
saman og gátum talað í leyni,“ segir
hún og heldur áfram að lýsa móður
sinni.
„Hún var svakalega vinnusöm. Í
New York var mamma með vinnu-
stofu í eins konar glerhúsi, eins og
gróðurhúsi, sem var uppi á þaki þar
sem var frábært útsýni yfir borgina.
Þar málaði hún í mörg ár. Reyndar
deildu foreldrar mínir annarri
vinnustofu neðar í borginni, þar sem
nú er kallað Noho. Þar málaði hún
stærri verkin,“ segir hún.
Gegnsýrð af málningu
Una Dóra rifjar upp uppátæki sín
þegar hún var barn í París. Þá var
hún gjarnan hjá mömmu sinni þegar
Nína málaði sín meistaraverk. Hún
segir að þótt hún hafi verið rólegt
barn hafi hún átt það til að borða
málningu móður sinnar.
„Aumingja mamma,“ segir Una
Dóra og hlær. „Mamma var að mála
í stofunni heima og ég sat þarna við
hliðina á henni á litlum stól við lítið
borð með litina mína. Ef hún þurfti
að skreppa á snyrtinguna eða í sím-
ann laumaðist ég að litapallettunni
hennar. Þetta var svo litríkt og
freistandi að ég borðaði máln-
inguna! Mamma kom að mér og
þurfti að fara með mig á slysó að
láta dæla upp úr maganum á mér.
Þetta gerðist nokkrum sinnum!“
segir hún.
„Við höfum farið til Parísar og
Una bent á spítala og sagt: „Þarna
var venjulega dælt upp úr mér!““
segir Scott og þau skellihlæja.
„Málningin er mjög eitruð. Í
hvert skipti hélt hún örugglega að
ég myndi deyja. Hún reyndi að
færa túpurnar ofar í hillur og sagði
mér að snerta þær ekki, en allt kom
fyrir ekki og ég náði alltaf í þær. Ég
þurfti að borða þessa liti! Ég segi
gjarnan við fólk að ég sé gegnsýrð
af málningu,“ segir hún og hlær.
Nína Tryggvadóttir málaði mynd af einkabarni sínu, Unu Dóru, þegar hún var
kornabarn. Þetta málverk er í uppáhaldi hjá Unu Dóru og er eitt af fáum mál-
verkum sem hún ætlar að halda eftir en gefa svo safninu eftir sinn dag.
9.12. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15
Reykjavíkurborg hefur skrifað
undir viljayfirlýsingu um að festa
kaup á öllu Hafnarhúsinu þannig
að allt húsið verði tileinkað
myndlist, en Faxaflóahafnir eiga
hluta hússins. Borgarráð sam-
þykkti í maí síðastliðnum að sett
yrði á fót listasafn sem beri nafn
Nínu Tryggvadóttur (1913-
1968). Borgin mun fá listaverka-
safn Nínu að gjöf, auk verka eftir
eiginmann hennar, Al Copley
(1910-1992), og verk eftir aðra
listamenn sem eru í eigu Unu
Dóru og eiginmanns hennar.
Listaverkin eru rúmlega þrjú
þúsund talsins. Einnig mun
Reykjavíkurborg erfa fasteignir
þeirra Unu Dóru og Scott, á
Manhattan og í Reykjavík, eftir
þeirra dag.
Arna Schram, sviðsstjóri
menningar- og ferðamálasviðs
hjá Reykjavíkurborg segir þetta
einstaka gjöf.
„Þetta er höfðingleg gjöf til
borgarbúa og frábært að fá ann-
að safn en Gerðarsafn sem er
kennt við konu,“ segir Arna.
„Það verður sett stjórn yfir
safnið hennar Nínu og þegar nær
dregur verður auglýst eftir safn-
stjóra. Stærsta viðfangsefnið
núna er að ganga frá endan-
legum samningi en fyrir liggur
viljayfirlýsingin. Það á eftir að
kortleggja safneignina og ráða
fólk í það verkefni. Síðan þarf að
endurhanna húsnæðið með hlið-
sjón af þörfum safnsins og fara í
framkvæmdir,“ segir Arna.
Ólöf Kristín Sigurðardóttir,
safnstjóri Listasafns Reykjavíkur,
segist afar ánægð að fá verk
Nínu Tryggvadóttur heim.
„Það sem mér finnst mikil-
vægt við þessa gjöf er að arfleifð
Nínu komi heim og verði sýnileg
hér á landi. En það er einnig mik-
ilvægt að myndlist tuttugustu
aldar kvenna verði gert hátt
undir höfði og Nína er fram-
úrskarandi fulltrúi fyrir þær.
Burðarstólpar í okkar safneign
eru Kjarval, Ásmundur og Erró
og það er stórkostlegt að
Reykjavíkurborg geti tekið við
listaverkagjöf sem réttir af þenn-
an halla,“ segir Ólöf.
Hún segir mikið verk fyrir
höndum að undirbúa húsið, skrá
verkin og flytja heim. „Þetta
mun taka að minnsta kosti tvö til
þrjú ár.“
Una Dóra segist lengi hafa
gengið með þessa hugmynd í
maganum og hefur passað vel að
selja ekki frá sér merk málverk
móður sinnar.
„Okkur finnst Nína vera einn
merkasti listamaður Íslands. Við
viljum að verk hennar verði öll-
um aðgengileg, því þau eru hluti
af menningarsögu landsins. Við
höldum að þetta muni verða
allri þjóðinni til góða,“ segir
Scott, eiginmaður Unu Dóru.
„Rýmið verður að sjálfsögðu
mikið notað undir hennar verk
og það verður oft skipt um verk,
því safnið hennar sjálfrar telur
um tvö þúsund verk. Hún gerði
svo margt og það eru mörg
tímabil. Það eru málverk, stór
og smá, klippimyndir, glerverk,
portrett, teikningar, barnabæk-
ur, textílverk og fleira. En þarna
verða líka sýningar eftir aðra ab-
strakt listamenn; kannski af
hennar kynslóð og eftir vini for-
eldra minna. Eða jafnvel nútíma-
listamenn sem einnig kenna sig
við abstrakt-málverkið,“ segir
Una Dóra.
„Við geymum nokkur verk
sem eru okkur tilfinningalega
verðmæt. Svo þegar við Scott
hverfum héðan fær safnið þau
öll.“
Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Nína Tryggvadóttir hélt oft sýn-
ingar í Bogasal Þjóðminjasafnsins.
Höfðingleg gjöf
öllum til góða