Morgunblaðið - Sunnudagur - 20.01.2019, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - Sunnudagur - 20.01.2019, Blaðsíða 34
34 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 20.1. 2019 LESBÓK Þögnin er Páli Stefánssyni ljósmyndaraminnisstæðust, eftir að hafa ferðast í 37ár um allan heim með myndavélina sína og séð bæði fegurð sem og hörmungar og neyð sem enginn ætti að líða. „Þessi ærandi þögn í endalausri víðáttu Vatnajökuls, líka þrúgandi þögnin í Cox’s Baazar í Bangladess þar sem hálf milljón flóttamanna hafði misst málið,“ er haft eftir honum á vefsíðu Ljósmyndasafns Reykjavíkur þar sem sýning hans, … núna, verður opnuð kl. 15 í dag, laugardaginn 19. janúar. Ef Páll væri ekki frægur fyrir útúrsnúninga væri þögnin í símanum líka þrúgandi eftir að hann er spurður af hverju sýningin heiti … núna? „Góð spurning,“ segir hann loks, „ég hef bara ekki hugsað út í það. Þú verður að hringja í mig eftir klukkutíma.“ Þögn. „Eigum við að byrja aftur?“ Samþykkt. „Sýningin heitir … núna vegna þess að á henni eru viðfangsefni sem ég er að fást við akkúrat núna. Ég er ekkert voðalega mikið gefinn fyrir að líta til baka,“ segir hann og bætir við að ferillinn sé enda rétt að byrja. Einmitt. Mikilvægt að horfa fram á við „Mér finnst ákaflega mikilvægt fyrir lista- menn að horfa fram á við og ekki spegla sig í einhverju sem þeir gerðu fyrir löngu. Sýningin er með tvö þemu; annars vegar birtuna í ís- lensku landslagi, sem ég er alltaf að glíma við, og hins vegar flóttamenn. Undanfarin misseri hef ég verið að skrásetja aðstæður þeirra og farið ótal ferðir til Mið-Austurlanda og alla leið til Bangladess, Brasilíu og Malí, grísku eyjanna Lesbos og Kos, Ítalíu, Tyrklands og fleiri staða til að mynda lítið brot af þeim 58 milljónum manna sem eru á flótta í heim- inum.“ Hvað eru mörg verk á sýningunni? „Hringdu í mig eftir klukkutíma, ég ætla að telja,“ segir Páll. Og svo nennir hann ekki að vera fyndinn lengur. „Þrjátíu og öll í lit,“ svar- ar hann. Hvenær og hvað kveikti í þér að mynda flóttamenn og aðstæður þeirra? „Fyrir um fjórum árum þegar ég var að keyra hér heima og hlustaði á tvö-fréttir á RÚV. Þær voru eitthvað á þessa leið: „Bíll rann út af veginum í Skagafirði, enginn slas- aðist, talið er að ein milljón flóttamanna frá Sýrlandi sé komin til Líbanons, Börkur NK kom til Norðfjarðar með metsíldarafla,“ las þulurinn í belg og biðu. Mér var auðvitað ekki ókunnugt um flóttamannavandann, enda fylg- ist ég ágætlega með alþjóðamálum, en það sló mig sérstaklega að ein milljón sýrlenskra flóttamanna væri í landi þar sem íbúar eru fjórar milljónir. Ég var kominn til Líbanons þremur dögum síðar. Mig langaði til að leggja mitt af mörkum svo fólk áttaði sig á hversu mikinn vanda við væri að etja og vekja hjá því samkennd með öllum þeim sem eru á flótta víðsvegar í heim- inum.“ Eins vont og það getur orðið Frá árinu 2015 hefur Páll farið nokkrar ferðir gagngert til að mynda flóttamenn. Hann ferð- aðist á eigin vegum og fyrir sjálfsaflafé, en segir Rauða krossinn og Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hafa greitt götu sína. „Það tekur á að sjá neyðina í flóttamanna- búðunum og skynja þessa þrúgandi þögn sem verður þegar allt er eins vont og það getur orð- ið. Maður verður aldrei samur á eftir,“ segir Páll, sem er langt kominn með að vinna bók með myndum af flóttafólkinu og aðstæðum þess. 38. ljósmyndabók sína. Samt er ferillinn bara rétt að byrja. Eða þannig. Árið 1982 kom Páll heim frá ljósmyndanámi í Svíþjóð, réðst til starfa hjá Iceland Review þar sem hann vann þar til í hittifyrra, en þá hafði hann um alllangt skeið verið hvort tveggja ljósmyndari og ritstjóri. Ljósmynda- verkefnin hafa verið af ýmsum og ólíkum toga í áranna rás, bæði fyrir tímaritið og ýmis inn- lend og erlend fyrirtæki og stofnanir. Önnur verkefni hefur hann búið sér til sjálfur. Orð- sporið hefur víða ratað. Fyrir áratug fól UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, honum að mynda byggingar á heimsminjaskrá í Afríku og er þá ekki allt upp talið af vegtyllunum. Þess má þó geta að hann hefur í nokkur ár verið einn fimmtíu sendi- herra Sony-mynda- véla í heiminum. „Maður veit að minnsta kosti að mað- ur er að gera eitthvað rétt. Ég prófa ný tæki frá Sony, sem notar myndirnar mínar í auglýsingar á myndavélum, linsum og öðrum ljósmyndavörum. Og kynnir mig fyrir heimsbyggðinni í leiðinni,“ upplýsir sendiherrann. Speglar andstæðurnar Sýningin … núna speglar andstæðurnar sem Páll fæst jöfnum höndum við í verkum sínum og lýsir með eftirfarandi hætti á vefsíðu Ljós- myndasafns Reykjavíkur: „Flóttamenn á far- aldsfæti, straumhörð á sem líður áfram. Kona í hvarfi bak við þúfu eða hól. Hól sem breytist í fjall. Fjallmyndarlegur maður sem á ekkert. Ekki einu sinni framtíð.“ Páll segir einu gilda hvert myndefnið sé – kyrrlátt, íslenskt landslag eða ringulreiðin í flóttamannabúðum úti í heimi – blæbrigði birt- unnar séu ævinlega galdurinn við að ná góðri mynd. „Mér finnst ljósmynd svo fallegt ís- lenskt orð, því ljósið er það sem skilur á milli góðrar myndar og mjög góðrar myndar,“ skýt- ur hann inn í áður en hann svarar hvort á Ís- landi séu einhverjir staðir sem hann langar meira til að mynda en aðra. „Langanes, Mel- rakkaslétta og Bakkafjörður, þótt ég hafi ábyggilega myndað þar svona þrjátíu sinnum. Ósnortin fegurðin kemur mér alltaf jafn mikið á óvart.“ Tíu menguðustu staðir heims Hefur landið og heimsmyndin breyst frá því þú fórst á stjá með ljósmyndavélina? „Við höfum ekki haldið nógu vel á spilunum. Fjöldi ferðamanna hefur trúlega fimmtíufald- ast á þessum árum, en okkur hefur ekki tekist að dreifa þeim. Sumir staðir liggja undir skemmdum af því að þeir þola ekki áganginn. Í vikunni þurfti að loka Fjaðrárgljúfri við Kirkju- bæjarklaustur, en á sama tíma er landverð- inum, sem á að passa þetta, sagt upp störfum. Við erum svo vitlaus. Svo eru það virkjanirnar. En varðandi heimsmyndina, þá hefur heimur- inn fyrst og fremst minnkað. Maður getur til dæmis ákveðið með dagsfyrirvara að vera í Reykjavík í dag og Bangladess á morgun.“ Páll er ekki aðeins að vinna að sinni 38. bók heldur einnig þeirri 39., sem fjallar um tíu menguðustu staði heims. Hann er kominn vel á veg og hefur meðal annars myndað í Perú, Aserbaídsjan, Indlandi og Kína. Flóttamanna- verkefninu er lokið. „Maður verður einhvers staðar að setja punktinn og takast á við nýjar áskoranir,“ segir hann og heldur áfram. „Ég ætla að einbeita mér að umgengni okkar við móður jörð, menguninni, plastinu og eiginlega bara fjalla um umhverfismál í sem víðustum skilningi. Umhverfisvernd er stóra málið, sem við verðum að taka á og hefðum mátt gera það fyrr. Aðalatriðið er að finna snertiflöt sem er myndrænn og vekur fólk til umhugsunar um ástand sem við öll eigum þátt í að skapa.“ Ertu á leiðinni eitthvað núna? „Já, vestur í bæ. Ég er að opna sýningu … núna.“ Páll segir einu gilda hvert myndefnið sé, blæbrigði birt- unnar séu ævinlega galdurinn við að ná góðri ljósmynd. Morgunblaðið/Einar Falur Þrúgandi þögn þjáninganna Myndir af hól sem breytist í fjall og önnur af fjallmyndarlegum flóttamanni, sem ekkert á, eru meðal margra á ljósmyndasýningunni … núna, sem Páll Stefánsson opnar í dag, laugardag, í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Valgerður Þ. Jónsdóttir vjon@mbl.is ’Mér finnst ljósmynd svo fal-legt íslenskt orð, því ljósið erþað sem skilur á milli góðrarmyndar og mjög góðrar myndar.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.