Morgunblaðið - Sunnudagur - 09.02.2019, Qupperneq 34
34 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 10.2. 2019
LESBÓK
Í lífi Hörpu Óskar Björnsdóttur, sópran-söngkonu og háskólanema, er eins og jan-úarmánuður hafi keppst við að bæta upp
fyrir janúar í fyrra, sem reyndist henni fádæma
erfiður mánuður. Í ár er annað upp á teningn-
um. Ekki aðeins var hún valin einn fjögurra sig-
urvegara í einleikarakeppninni Ungir einleik-
arar 2019 heldur líka Rödd ársins 2019 í
keppninni Vox Domini, þar sem hún hafnaði líka
í fyrsta sæti í sínum flokki; háskólaflokki, og
hlaut auk þess áhorfendaverðlaunin. Ekki of-
mælt að Harpa Ósk hafi slegið í gegn síðustu
helgina í janúar í Salnum í Kópavogi. Á sama
tíma í fyrra hafði hún áhyggjur af að söngferill-
inn væri fyrir bí. Komum að því síðar.
Eins og undanfarin ár stóð Félag íslenskra
söngkennara, FÍS, fyrir Vox Domini, söng-
keppni klassískt menntaðra söngvara. Keppt
var í þremur flokkum; háskólamenntaðir
kepptu í opnum flokki, háskólanemar í há-
skólaflokki og framhaldsflokkurinn var fyrir þá
sem lokið höfðu framhaldsnámi. Rödd ársins
var svo valin þvert á flokka. Keppninni er ætlað
að vera vettvangur fyrir söngnema til þess að
koma fram og kynnast því hvernig áheyrnar-
prufur og keppni í öðrum löndum fara fram.
Framtak í þágu söngmenningar með öðrum
orðum.
Sigur eykur sjálfstraustið
„Við vorum 14 af 23 sem þriggja manna dóm-
nefnd, með Elmar Gilbertsson óperusöngvara í
forsæti, valdi á laugardeginum til að keppa til
úrslita á sunnudagskvöldið. Sem betur fer
þurftum við ekki að bíða eftir úrslitunum í Tón-
listarskóla Garðabæjar þar sem undankeppnin
var haldin, heldur gátum við farið heim og beðið
eftir tilkynningu um hvort við ættum að syngja
daginn eftir. Mig langaði á skíði af því það var
svo gott veður en þorði ekki að fara ef kallið
kæmi,“ segir Harpa Ósk.
Þrátt fyrir að hafa tíu dögum áður sungið í
Eldborg í Hörpu í tilefni sigursins í keppninni
Ungir einleikarar 2019, sem Sinfóníuhljómsveit
Íslands stendur árlega fyrir í samstarfi við
Listaháskóla Íslands, segist hún hafa verið pínu
smeyk um að komast ekki gegnum undan-
úrslitin í Vox Domini. „Mér finnst ég bara vera
raunsæ, en fólk er alltaf að segja að ég eigi að
hafa meiri trú á sjálfri mér. Þátttaka í keppnum
eins og Ungum einleikurum og Vox Domini er
dýrmæt reynsla. Sigur eykur sjálfstraustið og
er kannski vísbending um að ég eigi að halda
söngnáminu áfram og gera sönginn að atvinnu.
Mér hefur alltaf fundist fólk þurfa að hafa alveg
sérstakan haus til að funkera í óperuheiminum.
Þeir sem eru með óbilandi sjálfstraust þrífast
best og ég þarf bara að læra af þeim.“
Ekki var þó annað að merkja en Harpa Ósk
væri full sjálfstrausts þegar hún steig á svið
Eldborgar og söng rómantíska franska aríu eft-
ir Gustave Charpentier, brá sér í hlutverk Næt-
urdrottningarinnar í Töfraflautu Mozarts og
sýndi loks leikræn tilþrif sem Kúnígúnd í „Glitt-
er and be Gay“ úr óperettunni Candide eftir
Leonard Bernstein, sem byggð er á Birtingi eft-
ir Voltaire. Eða þegar hún heillaði dómarana í
Vox Domini og áhorfendur með „Ave Maria“
eftir Sigvalda Kaldalóns og Næturdrottning-
unni sem hún valdi að syngja aftur þar sem svo
skammur tími var milli viðburðanna í Eldborg
og Salnum. Á úrslitakvöldinu söng hún „Svarta
Rosor“ eftir Sibelius og „Depuis le jour“ eftir
Charpentier.
Næturdrottningin hentaði raf-
magnsverkfræðingnum
„Næturdrottningin og Kúnígúnd eru drauma-
hlutverkin mín. Mér finnst ég hafa verið heppin
að hafa fengið tækifæri til að syngja þau og
meira að segja Næturdrottninguna þrisvar, því
ég fór fyrst með hlutverkið í uppfærslu nem-
endaóperu Söngskólans á Töfraflautunni í
Hörpu fyrir
tveimur árum.
Mér finnst
skemmtilegast að
syngja fjörugar
og flúraðar aríur
sem bjóða upp á
að ég geti brugðið
svolítið á leik,“
segir Harpa Ósk
og bætir við –
svona eins og í
framhjáhlaupi –
að hlutverk Næt-
urdrottningarinnar hafi verið mjög hentugt fyr-
ir manneskju eins og hana sem jafnframt stund-
aði nám í rafmagnsverkfræði í Háskóla Íslands.
„Ég þurfti ekki að syngja á öllum æfingunum
því Næturdrottningin kemur bara þrisvar sinn-
um inn á sviðið í uppfærslunni. Hún syngur
stutt, en er tilkomumikil og vekur mikla at-
hygli,“ útskýrir hún.
Upp úr dúrnum kemur að Harpa Ósk útskrif-
ast með BS í rafmagnsverkfræði eftir nákvæm-
lega tvær vikur, hinn 23. febrúar. „Algjör klikk-
un,“ svarar hún einfaldlega þegar hún er spurð
hvernig sé að hefja söngnám í LHÍ og vera á
sama tíma að útskrifast í gjörólíku fagi frá HÍ.
Þegar hér er komið sögu er vert að staldra
við og líta aðeins yfir farinn veg: Harpa Ósk og
systkini hennar tvö eru alin upp við mikla tón-
list. Hún segir móður sína, Heiðrúnu Hákonar-
dóttur, söngkennara og kórstjóra, og föður sinn,
Björn Þrastar Þórhallsson, tannlækni, ætíð
hafa stutt þau og verið hvetjandi. „Ég var fjög-
urra ára þegar ég byrjaði að læra á píanó hjá
Kristni Erni Kristinssyni, sem löngu seinna var
undirleikari minn í Söngskólanum í Reykjavík.
Þegar ég var níu ára dreif mamma mig í kór, en
hún stjórnaði kór Snælandsskóla í 12 ár, var
sjálf í Þjóðleikhúskórnum á sínum tíma og hefur
sungið með kammerkórnum Hljómeyki áratug-
um saman. Fjórtán ára byrjaði ég í Gradualekór
Langholtskirkju hjá Jóni Stefánssyni og einnig í
söngnámi hjá Þóru Björnsdóttur í kórskólan-
um. Árið 2012 fór ég svo yfir til Ólafar Kol-
brúnar Harðardóttur í Söngskólanum í Reykja-
vík.“
Þaðan lauk Harpa Ósk 8. stigs prófi vorið
2018 og er nú á fyrsta ári á bakkalárstigi í LHÍ
undir leiðsögn Ólafar Kolbrúnar, Hönnu Dóru
Sturludóttur, Kristins Sigmundssonar og Þóru
Einarsdóttur. „Ég valdi sönginn fram yfir pí-
anóið þegar ég var sautján ára því þá var orðið
of mikið fyrir mig að stunda nám í hvoru
tveggja samhliða náminu á eðlisfræðibraut í
Menntaskólanum í Reykjavík. Þegar ég byrjaði
í LHÍ valdi ég píanó sem aukahljóðfæri og fór í
vikunni í minn fyrsta píanótíma í sjö ár. Mjög
skemmtilegt.“
Bílslys setti strik í reikninginn
Hörpu Ósk gengur nú allt í haginn, þótt slys
sem hún varð fyrir í janúar í fyrra hafi sett strik
í reikninginn og hún hafi um hríð óttast um
röddina af þess völdum. „Maður sem var undir
áhrifum fíkniefna keyrði jeppanum sínum aftan
á Yarisinn minn þar sem ég beið eftir rauðu
ljósi. Ég fékk tvö högg, fyrst skelltist höfuðið
aftur og síðan fram þannig að brjósk milli
hryggjarliðanna skaddaðist með þeim afleið-
ingum að ég þarf ennþá að vera í sjúkraþjálfun.
Sem betur fer höfðu meiðslin ekki áhrif á rödd-
ina, en það var mjög sárt að þurfa að hætta að
æfa og segja mig frá tveimur verkefnum. Ann-
ars vegar hlutverki Adele í Leðurblökunni í
uppfærslu Söngskólans í Hörpu og hins vegar
sópranhlutverkinu í Messíasi með kór Lang-
holtskirkju. Mér finnst erfiðast að sitja lengi, en
kannski hef ég bara gott af að standa og hreyfa
mig meira. Ég get sungið og það er fyrir
mestu.“
Í fyrrasumar var Harpa Ósk næstum ákveðin
í að starfa sem rafmagnsverkfræðingur. Hún
hafði hlotið styrk til að vinna að þróun ígræð-
anlegrar rafrásar í tíu vikna rannsókn við einn
fremsta háskóla heims, California Institute of
Technology – Caltech í Pasadena í Kaliforníu í
Bandaríkjunum. „Rafrásin mælir glúkósa í
blóði og er hugsuð fyrir sykursjúka svo að þeir
þurfi ekki að mæla sig með því að stinga sig sí-
fellt með nál í fingurgómana. Ég hugsaði með
mér að ég vildi starfa við eitthvað þessu líkt en
þegar ég kom heim og fór að syngja meira
gleymdi ég því öllu saman og langaði bara að
syngja.“
Söngurinn spyr um aldur
Harpa Ósk kveðst þó hafa í huga að rafmagns-
verkfræðin spyrji ekki jafn mikið um aldur og
söngurinn. Hár sópran eins og hún sé endist
ekkert rosalega lengi öfugt við til dæmis bass-
ann. „Ég ætla því að einbeita mér að söngnámi
og söng á næstunni og hvíla verkfræðina aðeins,
hún getur alveg beðið,“ segir Harpa Ósk og við-
urkennir að hún líti svolítið á sigur í keppni á
borð við Unga einleikara og Vox Domini sem
skilaboð um að leggja fyrir sig söng – að
minnsta kosti fyrst um sinn.
Harpa Ósk Björnsdóttir
valdi sönginn fram yfir píanó-
ið þegar hún var sautján ára.
Morgunblaðið/Eggert
Rafmögnuð óperusöngkona
Harpa Ósk Björnsdóttir var einn fjögurra sigurvegara í einleikarakeppninni Ungir einleikarar 2019. Skömmu síðar var hún valin
Rödd ársins 2019 í Vox Domini-söngvakeppninni þar sem hún hlaut líka fyrsta sætið í sínum flokki og áhorfendaverðlaunin
Valgerður Þ. Jónsdóttir vjon@mbl.is
’Rafrásin mælir glúkósa í blóðiog er hugsuð fyrir sykursjúkasvo að þeir þurfi ekki að mæla sigmeð því að stinga sig sífellt með
nál í fingurgómana. Ég hugsaði
með mér að ég vildi starfa við
eitthvað þessu líkt en þegar ég
kom heim og fór að syngja meira
gleymdi ég því öllu saman og
langaði bara að syngja.Rödd ársins 2019.