Morgunblaðið - Sunnudagur - 10.03.2019, Blaðsíða 14
VIÐTAL
14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 10.3. 2019
A
ugu þeirra mættust á dansgólf-
inu eins og í rómantískri skáld-
sögu einn góðan veðurdag í
miðri danskeppni í London árið
2016. Pétur Fannar Gunnarsson
ákvað að stíga skrefið og nálgaðist Polinu
Poddr frá Úkraínu og kynnti sig. Það reyndist
gæfuspor því stuttu síðar voru þau orðin dans-
par og ekki leið á löngu þar til ástin kviknaði.
Þrjú ár í röð, 2016, 2017 og 2018 urðu þau
heimsmeistarar í latíndönsum undir 21 árs en
eru nú farin að keppa í flokki fullorðinna.
Óhætt er að segja að þau hafi smollið saman en
þrotlaus vinna skilaði þeim á verðlaunapallinn
í þrígang. Á köldum og fallegum marsdegi
settist dansparið unga niður með blaðamanni
og leiddi hann í allan sannleikann um hinn
töfrandi en jafnframt krefjandi heim dansara.
Ástin kviknaði á dansgólfinu
Stuttu eftir fyrstu kynnin bað Pétur Polinu að
verða dansfélagi hans. „Oft í lífinu þarf maður
að ganga hreint til verks og spyrja bara,“ segir
hann og brosir. Hún tók tilboðinu eftir smá hik
og leið þeirra sem dansara hefur legið upp á
við frá þeirri stundu.
„Okkur gekk mjög vel frá upphafi; strax í
annarri keppni okkar, sem var í Blackpool í
Englandi, náðum við fimmta sætinu. Áður var
ég í 48. sætinu þannig að þetta var stórt stökk
fyrir mig,“ segir Pétur.
„Við dönsuðum saman og vorum saman all-
an daginn þannig að ástin kviknaði fljótt,“ seg-
ir Polina og Pétur viðurkennir að hann hafi
fljótt orðið skotinn í þessari fallegu stúlku frá
Úkraínu. „Við byrjuðum að dansa og smullum
bara saman. Rómantík á dansgólfinu,“ segir
hann og brosir.
Þau skötuhjú búa nánast í ferðatösku en
eiga athvarf bæði á Íslandi og í Úkraínu hjá
foreldrum Polinu. „Svo ferðumst við mikið,
bæði á keppnir og eins til þess að æfa með
þjálfurum okkar,“ segir Pétur.
Polina segist hafa æft dans nánast daglega
frá sex ára aldri og lærði hún að dansa bæði
standard-dansa og latíndansa, en fimmtán ára
gömul fór hún að einbeita sér eingöngu að lat-
índönsum eða suðuramerískum dönsum sem
eru fimm talsins; cha-cha-cha, samba, rumba,
paso doble og jive. Svokallaðir standard dans-
ar, stundum nefndir ballroom-dansar, eru vals,
tangó, vínarvals, foxtrot og quickstep.
„Það er meiri tilfinning í latíndansi og ég get
tjáð mig meira,“ segir Polinu og Pétur tekur
undir það. Hann segir klæðnaðinn frjálslegri í
latíndansinum. „Karlinn er með skyrtuna opna
og konan er í styttri kjólum og þetta er meira
eins og partíklæðnaður,“ segir hann.
Lærði sporin þriggja ára
Pétur var ekki hár í loftinu þegar hann byrjaði
að dansa, aðeins þriggja ára gamall. „Mamma
og pabbi voru sjálf í danskennslu og leist svo vel
á þetta þannig að þau settu eldri bróður minn
Alex í dans, en hann er fimm árum eldri en ég.
Þannig að eftir að ég fæddist var ég alltaf uppi í
dansskóla,“ segir hann og þess má geta að Alex
er í dag dansari og býr í Hong Kong.
„Hann er í ballroom-dansi þannig að við er-
um ekki að keppa á móti hvor öðrum; það er
bara ást á milli okkar,“ segir hann brosandi.
„En sem smábarn var ég alltaf á hliðarlín-
unni og fylgdist með bróður mínum og var allt-
af búinn að læra öll sporin. Ég fékk svo mikinn
áhuga og þegar ég var orðinn þriggja ára var
ég loks orðinn nógu gamall til þess að fara í
hóptíma með litlu krökkunum,“ segir Pétur og
það varð ekki aftur snúið.
Fyrstu dansskrefin voru tekin í dansskóla
Sigurðar Hákonarsonar en í dag eru þau í
dansskóla Jóns Péturs og Köru og æfa þar
daglega þegar þau eru á landinu. Þau eru með
tvo erlenda þjálfara sem þau hitta reglulega
utan landsteinanna og er annar þeirra fjórtán-
faldur heimsmeistari í dansi.
Pétur sér ekki eftir því að hafa byrjað í
dansinum. „Ég hef alltaf verið ánægður í dans-
inum og það er svo gaman þegar maður nær
árangri. Svo kynnist maður svo mörgu fólki og
það hefur hjálpað mér varðandi að hafa sam-
skipti við fólk. Í dansinum er maður svo vanur
að tala við bæði stelpur og stráka og maður
verður svo opinn,“ segir hann.
„Mér finnst að allir ættu að læra að dansa,
þetta er svo gott fyrir líkama og sál. Dansinn
veitir manni hamingju og ég tel að allir geti
dansað. Svo læra krakkar svo góða framkomu
og kurteisi í dansinum.“
Dansinn er lífsstíll
Skiptar skoðanir hafa verið uppi um hvort
dans sé íþrótt eða list og sem íþrótt hafi dans-
inn ekki oft verið til umfjöllunar í fjölmiðlum.
Pétur segir það hafa breyst mikið síðustu árin
en þó mætti gera betur. Þau hafa til að mynda
ekki oft komist í fjölmiðla, þrátt fyrir fram-
úrskarandi árangur og þrjá heimsmeist-
aratitla.
Pétur segist telja dansinn bæði vera íþrótt og
list. „Ég sé báðar hliðarnar; þetta er list en ég
horfi líka á dansinn sem íþrótt. Við erum að
þjálfa og keppa og förum á stór mót, eins og
gert er í öðrum íþróttum. Svo sé ég hina hliðina,
að þetta sé list. Það er oft ekki hægt að útskýra
listina; það er bara einhver tilfinning, þetta er
svo mikil tjáning við tónlistina og samhæfing.
Það er kannski mesti vandinn, samhæfing
tveggja manneskja á dansgólfinu,“ segir hann.
Spurð um hvað sé erfiðast við dansinn svar-
ar Polina:
„Þetta er bara lífsstíll; við elskum þetta svo
mikið. Við hugsum ekkert um hvað sé erfitt.“
Dagarnir hjá Pétri og Polinu snúast um að
æfa. Daglega dansa þau fjóra til fimm tíma á
dag og á milli þess stunda þau annars konar
líkamsrækt. „Stundum æfum við dans meira
en fimm tíma á dag,“ segir hún.
„Oft förum við á morgnana og tökum svo hlé
og æfum svo aftur á kvöldin,“ segir hann.
„Svo ef við eigum frítíma reynum við að
hitta vini og fjölskyldu,“ segir Pétur og nefnir
að þau séu mikið áhugafólk um kvikmyndir,
myndlist og tónlist.
„Við fáum innblástur úr öðrum listgreinum.
Við njótum þess að fara á söfn, á tónleika, í
leikhús eða í bíó. Svo finnst mér bara gaman að
fylgjast með fólkinu á götunni; hvernig það
hagar sér. Þannig að við tökum mikið frá
menningu og listum og notum það í dansinum.
Varðandi tónlist, þá hlustum við á allt; rapp,
djass, óperu og að sjálfsögðu latíntónlist,“ seg-
ir hann.
„En ef við heyrum latíntónlist viljum við
strax fara í stúdíóið að æfa dans þannig að við
reynum að setja þá tónlist ekki á heima,“ segir
Polina og hlær.
„Já, þá förum við alltaf að spá í sporin.
Heima reynum við að gera annað en að dansa,“
segir hann.
Þau viðurkenna bæði að dansinn smjúgi oft
inn í drauma hjá þeim. „Þegar maður æfir
svona mikið dreymir mann dans,“ segir hún
hlæjandi.
„Stundum vakna ég á nóttunni með andfæl-
um og Polina vaknar og spyr hvað sé að. Þá hef
ég verið að klúðra sporunum í danskeppni í
draumi.“
Dansað fram á nótt
„Dansinn er 100% vinna hjá okkur,“ segir Pét-
ur og segir þau lifa á styrkjum frá góðu fólki.
Nú er Pétur orðinn 21 árs og hætta þau því að
keppa í keppnum fyrir undir 21 árs. Við tekur
að keppa í flokki fullorðna áhugamanna og að
nokkrum árum liðnum geta þau keppt í at-
vinnumannaflokki fullorðna.
Þau ferðast mikið vegna dansins og sem
dæmi má nefna að allan janúar voru þau á ferð
og flugi. „Við vorum hér um áramót en strax
annan janúar fórum við til Ítalíu í æfingabúðir
og þaðan fórum við til Englands að æfa og
kepptum þar á stórmóti. Þaðan fórum við í
vikufrí til Úkraínu og svo beint í æfingabúðir
til Spánar. Þetta er bara janúar. Nú þessa dag-
ana erum við hér ein heima að æfa sjálf og ger-
um það sem okkur finnst við þurfum að gera.
Okkur finnst mjög gott að vera á Íslandi og
Polinu finnst svo mikið frelsi hér. Við erum
með svo góða aðstöðu hjá henni Köru og erum
bara með lykil. Við getum farið snemma á
morgnana og jafnvel æft þar fram á nótt. Oft
reynum við að æfa á erfiðum tímum fyrir stór-
mót en ég er meiri kvöldmanneskja en hún
morgunmanneskja. Á stórmótum er nefnilega
oft dansað mjög seint og eitt sinn var dansað
til tvö um nóttina. Þá var maður búinn að
keppa með hléum í fjórtán tíma. Þannig að við
æfum stundum viljandi á skrítnum tímum.“
„Þetta er eins og spretthlaup og maður gef-
ur allt í þetta. Þegar maður er búinn að
dansa svífur maður út af dansgólfinu í
leiðslu,“ segir Pétur Gunnarsson en hann
og Polina Poddr hafa þrisvar hampað
heimsmeistaratitlinum í latíndansi.
Rómantík á
dansgólfinu
Pétur Fannar Gunnarsson og Polina Poddr eru sam-
stiga á dansgólfinu sem og í lífinu. Þessir þreföldu
heimsmeistarar í latíndönsum stefna á fleiri sigra í
framtíðinni og leggja allt í sölurnar.
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
Það var ólýsanleg tilfinning að standa á verð-
launapalli með gull um hálsinn að sögn þeirra
Péturs og Polinu.