Umbrot - 15.12.1978, Blaðsíða 17

Umbrot - 15.12.1978, Blaðsíða 17
Ég fór á síðastliðnu vori til Sand- gerðis. Þá varð mér hugsað til þess þegar ég fór í fyrsta sinn til vertíðar róðra þar, og hvað þar hafa orðið miklar breytingar síðan. Mig langar að lýsa aðbúnaði og vinnu þeirra sem þar voru á vertíð fyrir rúmri hálfri öld, ef það gæti gefið hugmynd um, hvað þeir menn sem nú eru sem óðast að hverfa úr atvinnulifinu urðu að leggja á sig til að sjá fyrir sér og sínum. Héðan frá Akranesi fóru þá til róðra í Sandgerði 7 bátar, frá 9-13 lestir, sem voru kallaðir land- róðrarbátar. Þeir voru. Egill Skallagrímsson, Víkingur, Valur, Elding, Einar þveræingur, Trausti, Sigurfari og 5 svokallaðir stóru- bátar, Geir goði 36 lestir, Kjartan Ölafsson 34 lestir, Svala um 30 lestir, Hrefna 34 lestir og Hrafn Sveinbjarnarson 22 lestir. Þessir gerðu að og söltuðu aflann um borð og losuðu heima. Á hausti voru bátar teknir í slipp til hreinsunar. Með því hófst í raun og veru undirbúningur að ver- tíðinni. Við það unnu menn sem á bátunum voru og einnig við að setja upp línu til að fá nokkrar krónur fyrir jólin. Þá mun hafa verið greitt 3 kr. á bjóð sem í voru 510 krókar með áhnýtingu og fengu færri en vildu. Á heimilum var unnið að útbúnaði á því sem menn höfðu með sér, svo sem fötum og fl. Þá mátti víða sjá ljós fram eftir nóttu, þá stóð einnig yfir undirbúningur fyrir jólin. Þetta var mikil vinna á stórum heimilum, að mestu unnin af húsmæðrum, e.t.v. af litlum efnum, og blandin kviða þegar heimilisfeður fóru í margra mánaða fjarveru. Ég minnist þess t.d. að við fórum 4 frá okkar heimili til Sandgerðis árið 1925 en heima var móðir min ein með 7 börn. Annan janúar var borið i bátana það sem tilheyrði svo sem veiðar- færi og dót manna sem á bátunum voru. Kl. 5 siðdegis var sjómanna- messa sem alltaf var vel sótt af sjómönnum og þeirra fjölskyldum, en um kvöldið vár silnaðarsam- koman, sem kölluð var (en var síðar haldin 30. des. það þótti ekki viðeigandi að fara á skemmtun eftir messu), með ýmsum skemmti- atriðum og síðan dansað til morguns. Að morgni 3. janúar fóru þeir sem tilbúnir voru til Sand- gerðis ef veður leyfði, og hofst þar með fjarvera manna frá heimilum sínum til páska. Þegar til SOandgerðis kom var öllu dóti skipað upp, síðan var lagt út legufærum sem báturinn lá við (og kallaðar voru múrningar). Að því búnu var öllu sem tilheyrði bátnum komið á sinn stað, menn fóru með sitt dót í verbúðina sem var eitt herbergi með 6 rúmum fyrir tvo, sem kallaðir voru laxmenn. í þessu herbergi, sem var 6 metra lángt og 4-5 metra breitt voru 10 menn og ráðskona. I því var fríttstandandi kolaeldavél til upphitunar og matseldar, einnig var hún notuð við þvotta, þvi þetta fór allt fram í einu og sama herberginu. Við hverjar verbuðar- dyr stóð vatnstunna fyrir neysiuvatn skipshafnar og í mörgum tilfellum geymsla beint á móti fyrir sjóföt og fl. Þegar menn voru búnir að búa um rúm sín og koma skrínum sínum fyrir sem höfðu að geyma brauð og annað sem menn lögðu sér til, var drukkið fyrsta kaffi hjá ráðskonunni. Að því loknu fóru landmenn að undirbúa beitningu. Venjulega var byrjað með 10-12 bjóð, en þeir sem á sjónum voru fóru að útbúa færi og annað sem tilheyrði um borð. Venjulega var róið kl. 2-4 að nóttu, þá var öll lína beitt í trog sem borin voru á herðum sér í og úr íshúsi niður í bát, en ef fjara var þegar farið var á sjóinn þá fram fyrir bryggju, því þær stóðu á þurru og þá í bjóðabátinn. Einnig var öll beita borin á bakinu í beitingarhús. Rafmagn var framleitt frá rafstöð sem var sameign stöðvanna Haraldar Böðvarssonar og Lofts Loftssonar, það var slökkt kl. 12 á miðnætti nema þegar ró’ð var þá eftir því hvað aðgerð stóð lengi. A landróðrarbátum voru 5 menn í landi, beittu línuna og gerðu að aflanum. Þegar beitningu var lokið var línan sett á ishús, nema liti út fyrir sjóveður eða ef frost voru. Ef línan var mjög klömmuð þegar komið var af sjónum var stundum hitaður sjór og hlet yfir bjóðið. Þá var ekki upphitun í neinu beitningar plássi, menn höfðu ótrú á að láta beituna þiðna. Þegar búið var að hreinsa beitningarpláss var farið að taka salt i væntanlegan afla, einnig það urðu menn að bera í söltunarhús, síðan sóttur sjór niður á bryggju og honum ekið á handvagni að uppvöskunarkari. Að þessu loknu var farið heim í verbúð. Þeir sem áttu að sækja vatn fyrir ráðskonuna þann daginn fóru í það (þá var allt vatn sótt í fötum í brunn), hinir fóru að greiða flækjur ef til voru, eða hnýta á. Það var alltaf gert ef tími var til, aðallega þó i landlegum. Þegar bátar fóru að koma að urðu menn að vakta sinn bát, gat sú bið oft orðið löng ef einhverjar tafir urðu á sjónum eða vegna veðurs þá voru ekki komnar talstöðvar í báta til öryggis og til að láta vita um væntanlegan komu- tíma í landi eins og nú tíðkast. Þegar báturinn kom að var fiskinum skipað upp, stundum á bjóðabátum, þegar lágsjávað var og kastað upp á kláf, sem var við bryggjuhausinn, þaðan upp á bryggju og síðan ekið í handvögnum að aðgerðarkassa. Einnig var linunni sem kom af sjónum ekið með sama hætti. Það má geta þess, að hjá Haraldi voru vagnar á teinum fram á bryggju, til að aka bjóðum og salti og þóttu mikil þægindi. Þegar því var lokið hófst aðgerð. Þá var allur fiskur flattur í salt, hver fiskur vandlega þveginn og kreist úr allt blóð, enda var fiskur þá hvítur og fallegur. Lifur var öll hirt og komið að bræðsluhúsdyrum, sömuleiðis öll hrogn hirt og söltuð. Á sumum bátum var hafður maður til að skera sundmaga úr hryggjum og salta. Þeir hjálpuðu til við for- færingu á fiski og fl. Ef ekki var skipað upp var komið með 5 bjóð í land handa landmönnum til að beita á meðan beðið var eftir að báturinn flyti að bryggju. Það var hver timi notaður. Þetta var mikil og erfið vinna, þegar afli var góður var oft lítill svefn. Þá voru menn samtaka og hjálpuðu hver öðrum ef með þurfti. Það var metnaður i mönnum að afla sem mest og sem dæmi um hvað menn voru samtaka komu sjómennirnir oft í aðgerð ef afli var góður og voru í 1-2 tíma. Það munaði mikið um 5 menn þennan tíma, áður en þeir fóru á sjóinn aftur. Þrátt fyrir mikla vinnu og vökur voru menn kátir. Mátti oft heyra tekið lagið eða kveðst á þó beitt væri af kappi. Það sem her hefur verið sagt á að mestu við störf þeirra sem í landi voru. Fæði var mjög einhæft. Mikið notaður fiskur, oft tvisvar á dag, kl. 10 f.h. Mjólkurgrautur úr dósa- mjólk kl. 3 og fiskur að kveldi, og fór eftir ráðskonunni hvernig hann var framreiddur. Kjöt sást varla nema ef ferð féll að heiman og mönnum var sendur biti ásamt einhverju með kaffi, og bréf með fréttum að heiman. Þegar landlegur voru var hnýtt á og sett upp lína ef með þurfti. Þá var einnig fiskur forfærður, kunningjar voru heimsóttir, stundum spilað og stundum voru dansleikir eða leiksýningar. Hjá þeim sem á sjónum voru hófst róðurinn með því að settur var fram hinn svonefndi bjóða- bátur. í hann var beitta línan tekin og róið með þau um borð. Á þessum minni bátum var línan höfð í lest á útleið, vélamaður fór að hita upp vélina og gangsetja, síðan var legufærum sleppt. Kveikt var upp í ofnkút sem var í lúkar til upphitunar. Þá voru ekki kojur í mörgum þessum minni bátum, heldur bekkir sitt hvoru megin sem menn lágu á. Þá var venja að lesa sjóferðabæn, formaður kallaði til skipverja: við skulum biðja fyrir okkur. Tóku þá allir ofan höfuðföt á meðan. Á miðin var 1 1/2-3 tíma sigling. Eftir landlegur urðu hásetar að yfirfara færi, þá voru öll færi undin upp á belgina. Þeir vildu leka loftinu. Varð þá að taka færin af, belgirnir blásnir upp og færin síðan undin upp á þá aftur. Menn fengu oft hrátjöru á varir sér, en um það fékkst enginn. Þetta varð að gera þó það þætti ekki gott sjó- sóttarmeðal ef menn voru sjó- veikir. Þegar komið var á miðin kallaði formaður að leggja. Menn gölluðu sig og fóru síðan upp að lagningunni. Þá var öll lína lögð á höndum með þeim hætti að bjóðið stóð á stól út við lunningu, venju- lega stjórnborðsmegin. Sá sem lagði stó fyrir aftan bjóðið og tíndi út línuna, fyrir haftan hann sat maður sem kallaður var stoppari, hann átti að vera tilbúinn að taka í linuna ef flæktist á meðan sá sem lagði reyndi að greiða og láta vita ef of mikil ferð var á bátnum. Lagningin tók 1-1 1/2 tíma. Þetta var mjög kaldsamt verk, t.d. í norðanátt og frosti. Þá stóð vindur og ágjöf í fang þessara manna. Sá sem lagði varð alltaf að vera berhentur, flestum þótti sem róðurinn væri búinn þegar búið var að leggja linuna og ljósbaujan komin á endann með olíulugt, sem andæft var við þar til farið var að draga. Það kom fyrir að slokknaði á lugtinni. Var þá haldið sig við næsta bát eða andæft á færi sem haldið var í, menn skiptust á að standa baujuvakt á meðan legið var yfir. Þá voru ekki allir bátar raf- lýstir, en lýstir upp með karbít- ljósum en í lúkar og vélarúmi voru oliulugtir. Áður en byrjað var að draga var hitað ketilkaffi. Kaffið sett útí þegar vatnið sauð og látið setjast til. Siðan fengu menn sér kaffi og brauð. Vatn var haft á trékút sem tók 40-60 lítra, sem var eingöngu í kaffi og til drykkjar, þá höfðu sjómenn með sér matarkassa. Það voru flestir sem drógu 3 bjóð á klukkutíma og sumir minna. Menn höfðu þá trú að ef dregið væri hart myndi fiskurinn slitna af. Það kom fyrir ef afli var góður, en slæmur botn, að línan var tekin af spilinu og dregið á höndum. Öll færi voru dregin á höndum. Þá voru ekki færaskífur á spilinu. Ef línan slitnaði og veður var slæmt og dimmviðri, gat tekið langan tíma að finna hana aftur og kom fyrir að hún fannst ekki. Þegar búið var að draga línuna var gengið vel frá öllu á dekki, lestarlúgur skálkaðar. Ef mótvindur var í land var fram- mastur fellt. Það voru margir minni bátar sem gátu fellt mastur svo minna stæði í, og gengi betur. Oft var langt landstim ef hvessti af austri eða suð-austri og fylgdi oft dimmviðri. Hafa varð gát á öllu sem gat gefið til kynna að farið væri að nálgast land. Það voru ýmis merki, sem menn höfðu, svo sem sjolag, straumar, fugl o.fl. Þá voru engin þau hjálpar- og öryggistæki sem eru nú algeng, svo sem ratar, dýptarmælar o.fl. Það eina sem menn höfðu var áttaviti og handlóð til að mæla dýpi. Þegar farið var að nálgast land og dimmviðri var, var oft hafður maður fram á til frekara öryggis, gá að vitum og ljósum í landi. Þegar í land var komið kom ráðskonan með kaffi handa sjómönnunum, síðan var skipað upp aflanum og bjóðin tekin ef leit út fyrir sjóveður, bátnum síðan lagt í legufærin þar til farið var í róður aftur. Svona gekk þetta til út vertíðina. Það var farið heim á miðvikudag eða skírdag og verið heima þar til á annað eða þriðja í páskum. Þá var farið aftur og verið til loka, sem voru 11. maí. Þegar heim kom var öllu dóti skipað á land við bryggjuna í Steinsvör, síðan var farið með bátinn vestur á Lambhúsasund og legufærum lagt. Venjulega var allur fiskur viktaður og lagður inn sem kallað var áður en farið var heim. Það munu hafa verið 2-300 skippund, i skippundi voru 500 pd af fullstöðnum fiski, þ.e. af fiski sem búinn var að standa í salti kannski allan veturinn. Úrgangsfiksi, sem kallaður var tros var skipt, það var aðallega salt- fiskur sem kom á heimilin og þótti góður þegar búið var að þvo hann og þurrka. Hlutir munu hafa verið frá 600-1200 kr. á hæstu bátum. Ef menn þurftu að leita læknis , varð að fara gangandi yfir Miðnes- heiði til Keflavikur, því enginn læknir var þá í Sandgerði. En síðar setti Haraldur Böðvarsson á stofn lesstofu fyrir skipshafnir, með tímarit og blöð, einnig gátu menn skrifað þar bréf. I sambandi við stofuna hafði Rauði krossinn hjúkrunarkonu á staðnum, og var oft leitað til hennar með fingurmein o.fl. í Sandgerði voru aðallega tvær verslanir sem stöðvarnar áttu. Þar versluðu menn, sem á bátunum voru. Þessar verslanir höfðu sin á milli samkomulag um að gefa mönnum sem kallað var milliskrift upp á vörur, sem þá vantaði, og ekki voru til t.d. hjá H.B. en fengust hjá L.L. og öfugt, þvi peningar sáust ekki. Á sunnudögum voru lesnir hús- lestrar á sumum bátum, eða farið í kirkju, þá suður á Hvalsnes, eða inn að Útskálum. A útilegubátum, það er bátum sem söltuðu aflann um borð, var önnur tilhögun. A þeim voru 7 menn á sjónum með kokk og 4 í landi, sem biettu línuna og fóru um borð í aðgerð.Þegar komið var að í myrkri voru gefin merki með ljósum þegar beygt var inn álinn. Þá fóru menn á stað um borð í aðgerð og tóku beittu linuna með ef leit út fyrir sjóveður, annars voru menn sendir í land á nóttunni. Þegar róið var, varð að hafa hraðann á til að verða ekki langt á eftir öðrum. Þegar aðgerð var lokið komu lifrarbátar sem stöðvarnar áttu, til að sækja lifur, hún var flutt í land í pokum. Á þessum bátum voru 5 menn sem fóru í alla útilegubáta. 17

x

Umbrot

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Umbrot
https://timarit.is/publication/1333

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.