Morgunblaðið - 02.05.2019, Blaðsíða 52
52 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 2. MAÍ 2019
Verslun – Snorrabraut 56, 105 Reykjavík
Sími 588 0488 | feldur.is
VINDUR
rauðrefstrefill
15.500
DRÍFA
skinnkragi
31.900
HREFNA
refaskinnsvesti
69.000
BYLGJA
silfurrefskragi
24.600
Velkomin í hlýjuna
SARA
mokkakápa
238.000
SIF – vesti úr
íslensku lambaskinni
50.400
Mikið á hann Orgeir gott.Þegar allt er fariðfjandans til, fjölskyldaná vonarvöl, rekin burt af
heimilinu fyrir sakir heimsku hans og
blindu þá standa þau með honum,
faðma hann og gráta honum til sam-
lætis í stað þess að hrækja á hann og
klóra úr honum augun eins og hann á
skilið, ekki síst fyrir þá taumlausu
fyrirlitningu sem hann hefur sýnt
þeim öllum með ákvörðunum sínum
undanfarið og orsaka þá stöðu sem
upp er komin í leikslok. Þegar and-
legi leiðtoginn hefur verið afhjúpaður
svo allir, meira að segja blinda ætt-
móðirin, sjá í gegnum yfirdrepsskap-
inn og illan ásetning. Þegar hann
stendur engu að síður með pálmann í
höndunum og lyklana að húsinu með-
an skósveinar hans skipta málverki
út fyrir spegil og rífa klukkuna af
veggnum.
Aldrei hefur mér fundist eins skýrt
að Orgeir er aðalhlutverk Loddarans
og í þessari uppfærslu Stefans Metz.
Einungis hann, af aðalpersónum
verksins, breytist eða þroskast. Allir
aðrir á heimilinu hafa séð í gegnum
Guðreð þegar tjaldinu er lyft. Sjálfur
er loddarinn auðvitað bara það sem
hann er. Eins og guð.
Nafnið Guðreður er auðvitað ein af
bráðfyndnum uppáfinningum Hall-
gríms Helgasonar í sinni lipru og
smellnu þýðingu. Önnur er nafnið
Orgeir. Linnulaus straumurinn af
AABBCC-rímuðum fimmliðunum
reynir nokkuð á þolrifin þegar fer að
síga á seinni hlutann en engu að síður
er þýðingin afrek hjá Hallgrími að
halda þetta út. Það er síðan allur
gangur á hvernig hún skilaði sér út í
salinn, leikmyndin virðist skapa
nokkra glymjandi og ekki allir leik-
ararnir nógu passasamir með að
fylgja línunum sínum eftir allt til
enda.
Annars hvílir mikil ábyrgð á text-
anum í þessari uppfærslu. Fyrir utan
nútímaleg snið búninganna er farið
einstaklega sparlega með brögð leik-
sviðsins til að auka við merkingu leik-
ritsins, bregðast við henni, skerpa
eða snúa á hvolf. Það sama á við um
grínið, sem fyrir utan fyrirskipuð
farsabrögð og glaðbeitta þjónustu-
stúlku hvílir nær eingöngu í text-
anum. Þótt hefð Moliéres eigi rætur í
skopleikjaformi Commedia Dell’Arte
með sínum stílfærðu persónum og
líkamlega gríni heldur Stefan Metz
sýningunni nánast algerlega á
raunsæislegu plani. Svo mjög reynd-
ar að það er varla hægt að tala um
persónusköpun, hvað þá týpusmíð,
umfram þau einkenni sem atburða-
rásin leiðir í ljós.
Það er fátítt, jafnvel gleðiefni, að
sjá leiktexta treyst jafn afdráttar-
laust til að bera hitann og þungann af
áhrifum og erindi leiksýningar núna
á öld leikstjóra-, samsköpunar- og
konseptleikhússins, en þá verður
textinn að vera traustsins verður. Ég
veit ekki alveg hvort það sé raunin
með þessa skörpu og sniðugu en
dýptarlausu lýsingu Moliéres á
hræsni og maklegum málagjöldum
fáviskunnar. Fyrir vikið fáum við litla
innsýn í hvernig fólk þetta er. Hvern-
ig Guðreður náði þessum heljar-
tökum á huga Orgeirs. Hvort það
skýrist frekar af sakleysi eða ein-
feldningshætti fórnarlambsins eða út-
geislun og sannfæringarkrafti hins
andlega leiðtoga. Við sjáum reyndar
heldur ekki nein merki um áhrif Guð-
reðar í heimilislífinu eða á hegðun
þeirra sem hafa gerst lærisveinar
hans. Við vitum heldur næstum ekk-
ert um samband Orgeirs og Elmíru
konu hans, hvaða stöðu frú Petrúnella
hefur á heimili sonar síns eða hvers
konar áhrif Guðreður hefur á börnin.
Það er eitthvað meinlætalegt við það
hvernig verkinu er boðið að tala fyrir
sig sjálft. Það kemur líka í ljós að það
hefur ekki margt merkilegt, óvænt
eða hugvekjandi að segja. Vissulega
falla kjánar enn fyrir náðarvaldi
sjarmerandi síkópata. Vissulega fæð-
ist einn slíkur enn á mínútufresti eins
og P.T. Barnum sagði kannski. Og
vissulega hefur orðsnilld og rímflæði
gildi í sjálfu sér, í það minnsta
skemmtigildi. En samt. Af hverju er
verið að sýna okkur Tartuffe? Sýn-
ingin svarar því ekki á sannfærandi
hátt.
Hún gefur þétt skipuðum leik-
hópnum heldur ekki mikil færi á að
glansa. Einu karakterarnir sem verða
sæmilega eftirminnilegir sem slíkir
eru Dóra vinnukona sem Kristín Þóra
Haraldsdóttir nýtur greinilega að
skapa og sýna, þótt ekki sé hún alsak-
laus af fyrrnefndum textameðferðar-
göllum, og kostuleg lögmærin hennar
Dóru Jóhannsdóttur, sem vissulega
er örhlutverk. Hennar „aðalhlutverk“
er Vala, heitmey heimasætunnar.
Hún birtist í einni senu sem hefur elst
hvað verst af texta Moliéres og verð-
ur algerlega tilgangslaus sé ekki unn-
ið með afstöðu og persónueinkenni
þeirra Völu og Maríönnu Orgeirs-
dóttur. Lára Jóhanna Jónsdóttir gaf
þeirri síðarnefndu sviðssjarma en
ekki eftirtektarverðan persónuleika.
Danni, bróðir Maríönnu, er öllu til-
þrifameiri í sínum fyrirgangi hjá Oddi
Júlíussyni, en ekki er hann nú sérlega
skýr samt. Það hefur sína kosti að
kynbreyta tilvonandi ektamaka Marí-
önnu, en kostar líka sitt. Til dæmis
það að kynhneigð heimasætunnar
trompar allt annað sem hún gæti haft
á móti því að giftast Guðreði. Ein-
hverjum hefði líka þótt það dauðafæri
að „jarðtengja“ trúarkreddur lodd-
arans með því að gefa honum, og læri-
sveini hans, færi á að tjá á einhvern
hátt vanþóknun á samkynja hjúskap,
en það er ekki gert. Þetta er ekki svo-
leiðis sýning.
Baldur Trausti Hreinsson er mágur
Orgeirs og hefur tilhneigingu til að
láta línuendingar sínar fjara út en var
annars aðsópsmikill í vanþakklátu
hlutverki. Ragnheiður Steindórs-
dóttir var reffileg frú Petrúnella, en
ekki fannst mér blinda hennar ýkja
sannfærandi. Fyrir utan að ég skildi
ekki tilganginn, þetta er almennt ekki
uppfærsla sem krefst þess að vera
skilin táknrænum hætti. Nína Dögg
Filippusdóttir blómstraði í langbita-
stæðasta atriði verksins, þar sem
húsfrúin Elmíra táldregur guðs-
manninn til að afhjúpa hann loksins
fyrir eiginmanninum. Guðjón Davíð
Karlsson fer prýðilega með hlutverk
Orgeirs, og ekki við hann að sakast
hvað frelsi til skoptilþrifa eru af
skornum skammti í túlkunarleið sýn-
ingarinnar. Hilmir Snær Guðnason
glímir við sama vanda, en er einnig
ágætur innan hins þrönga ramma.
Hann byrjaði reyndar með þreytandi
„stórleikararaddbeitingu“ í fyrstu
innkomu sinni, eitthvert hljómfall
sem jaðrar við flámæli, en svo hvarf
það og styrkleiki hans í textameðferð
nýtist vel. Það eru samt sorglega
mörg glötuð tækifæri í afstöðu-
leysinu. Í hverju felst náðarvald
hans? Hefur taumlaus neyslan sem
lýst er í upphafi haft einhver áhrif á
hann? Er hann jafnvel sérlega ógeð-
felldur í augum allra annarra en Or-
geirs og móður hans? Það nægir ekki
að aflita hárið og láta Guðreð bera
krem á fæturna á sér til að trompa
stjörnuútgeislun Hilmis Snæs.
Leikmynd Seans Mackaoui og
búningar eru umtalsvert augnayndi.
Sérstaklega létt og litrík föt fína
fólksins, þótt klæðnaður Danna stingi
þar í stúf. Erfitt er að lesa í búninga
Völu og Guðreðar, hvort beri að skilja
þá samfélagslegum eða táknrænum
skilningi. Það þarf almennt að kveða
fastar að í túlkun verksins og það
gildir um umgjörð hennar líka. Lýs-
ing Ólafs Ágústs Stefánssonar er til
sóma, skörpu „blakkátin“ mjög
skemmtileg. Tónlist Elvars Geirs
Sævarssonar var sniðug og flutn-
ingur leikhópsins á sálmi Sibeliusar
var íðilfagur.
Loddarinn virkar heldur yfirborðs-
kennt verk í þeirri mynd sem það fær
á sig í þessari sýningu. Að sumu leyti
óhjákvæmilegt, hinn hreini og beini
framsetningarmáti Moliéres er í það
minnsta einfaldur, og jaðrar við að
vera einfeldningslegur, séð með bak-
sýnisspegli nútímans. Það virðist
vera meðvituð listræn ákvörðun að
leyfa einfaldleikanum að tala að
þessu sinni. Þar fara að mínu mati
forgörðum ótal möguleikar til að gera
þessa kvöldstund bæði skemmtilegri
og umhugsunarverðari.
Leiðtogi lífsins
Ljósmynd/Hörður Sveinsson
Þjóðleikhúsið
Loddarinn bbbnn
Eftir Molière. Íslensk þýðing: Hallgrímur
Helgason. Leikstjórn: Stefan Metz. Leik-
mynd og búningar: Sean Mackaoui. Lýs-
ing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Tónlist og
hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson. Leik-
arar: Baldur Trausti Hreinsson, Dóra
Jóhannsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson,
Hilmir Snær Guðnason, Kristín Þóra
Haraldsdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir,
Nína Dögg Filippusdóttir, Oddur Júlíus-
son og Ragnheiður Steindórsdóttir.
Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhúss-
ins 27. apríl 2019.
ÞORGEIR
TRYGGVASON
LEIKLIST Yfirborðskennt
„Loddarinn virkar
heldur yfirborðskennt
verk í þeirri mynd
sem það fær á sig
í þessari sýningu.“