Morgunblaðið - 14.08.2019, Side 21
MINNINGAR 21
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 14. ÁGÚST 2019
„venjulegum“ bústaðaferðum.
Dísa var alltaf boðin og búin að
aðstoða við hvers kyns veislur.
Eftir að við fórum sjálf að elda
gátum við alltaf hringt í hana til
að fá ráð og oft var okkur bent á
að fletta upp í matreiðslubókinni
hennar. Hún kenndi okkur alls
konar servíettubrot og að leggja
fallega á borð. Hún gaf okkur
stundum að gamni einkunnir fyr-
ir góða frammistöðu og gátum við
verið svo heppin að fá 11 eða jafn-
vel 12 í einkunn.
Dísa frænka var ómissandi í
öllum boðum. Hjá okkur byrjuðu
jólin ekki klukkan sex, heldur
upp úr klukkan sjö þegar Dísa
kom úr kirkju. Enn finnst sumum
okkar að jólin eigi að hefjast á
þeim tíma. Mikilvægust voru þó
hennar eigin boð, enda engin boð
eins og „Dísuboð“.
Það var mikið lán fyrir okkur
öll þegar Hjörtur kom inn í henn-
ar, og í leiðinni inn í okkar, líf.
Þau voru einstaklega góðir vinir
og jákvæðni og bjartsýni ein-
kenndi fas þeirra og hugarfar.
Þau eru okkur einstakar fyrir-
myndir. Dísa sagði oft í gamni að
maður ætti að vera skemmtilegt
og sjarmerandi gamalmenni og
henni tókst það svo sannarlega.
Elsku Dísa frænka. Við sökn-
um þín en yljum okkur við hlýjar
og notalegar minningar. Þær
munu lifa með okkur. Megum við
vera svo lánsöm að læra af þínu
jákvæða, bjarta og hvetjandi
hugarfari og fá að feta, þó ekki
nema að litlu leyti, í fótspor þín.
Sigrún, Björgvin,
Dóra og María.
Elsku Bryndís kom inn í líf
okkar þegar „afi nafni“ Hjörtur
endurnýjaði kynni sín við hana,
nokkru eftir að hann varð ekkill.
Þræðir þeirra höfðu verið sam-
ofnir um stund tæpri hálfri öld
áður en leiðir þeirra skildu.
Þegar við fjölskyldan flutt-
umst heim eftir langdvöl erlendis
eignuðust börnin þrjú „ömmu
Dísu“. Hún varð strax hluti af
fjölskyldunni og umhyggja henn-
ar og hjálpsemi var einstök. Að
sjá aftur blik í auga og bros á vör
afans gladdi okkur öll og yndis-
legt var að fylgjast með þeirra
góða lífi saman sem einkenndist
af hlýju og virðingu. Þau nutu
lífsins á efri árum á einstakan
hátt, sóttu tónleika, fóru í leikhús
og ferðuðust innanlands og er-
lendis fram undir nírætt. Það var
alltaf ánægjulegt að umgangast
Bryndísi og bar hún með sér
gleði hvar sem hún kom. Hún var
ávallt tilbúin til að aðstoða, sér-
staklega þegar eitthvað stóð til,
og henni þótti ekkert skemmti-
legra en að undirbúa veislur og
vesenast með okkur í eldhúsinu.
Öll okkar börn hafa fengið bókina
„Við matreiðum“ að gjöf ásamt
svuntu og munu vonandi bera
hróður hennar áfram. Hún var
sjálf barnlaus en átti stóran hóp
bræðrabarna og það var með ein-
dæmum hversu vel hún fylgdist
með hverjum og einum og fjöl-
skyldum þeirra. Það þurfti því
enga samfélagsmiðla til þess að
fá fréttir af fólkinu hennar.
Eftir að heilsunni fór að hraka
á þessu ári áttum við góðar
stundir saman fram á síðasta
dag. Líkaminn hrörnaði en hug-
urinn ekki og jákvæðnin og bjart-
sýnin voru áfram á sínum stað.
Enn spurði hún sem fyrr „hvað
get ég gert fyrir ykkur?“ þegar
við heimsóttum hana. Þannig var
Bryndís, alltaf að hugsa um aðra
og ætlaðist ekki til neins fyrir
sjálfa sig.
Elsku afi nafni, Ingimar,
Snorri, bræðrabörn og fjölskyld-
ur. Við geymum minningu um
dásamlega konu sem við erum
þakklát fyrir að hafa kynnst. Hvíl
í friði.
Sigrún Hjartardóttir og
Björn Geir Leifsson.
Í dag er kvödd Bryndís Stein-
þórsdóttir hússtjórnarkennari,
sem mig langar að minnast og
kveðja með nokkrum orðum.
Hún var í saumaklúbbi með móð-
ur minni Kristveigu Björnsdótt-
ur sem lést fyrir tæpum tíu árum
og er Bryndís síðust þeirra sem
fellur frá. Fyrir rúmum sextíu ár-
um var klúbburinn þeirra stofn-
aður af systrum og æskuvinkon-
um á Fjölnisveginum, miklum
hannyrðakonum eins og Bryndís
orðar það í minningarorðum um
móður mína og síðar bættust
fleiri í hópinn. Níu hressar og lífs-
glaðar konur úr ólíkum starfs-
stéttum og með fjölmörg áhuga-
mál sem áttu ógleymanlegar
samverustundir sem einkennd-
ust af vináttu og hjálpsemi.
Ég kynntist ung þessum vin-
kvennahópi en þar voru líka Ásta
móðursystir mín og Kristjana
frænka mín og fékk ég stundum
að koma og hitta þær þegar
klúbbur var hjá mömmu. Þá var
oft glatt á hjalla og um margt að
spjalla og ekki skorti handavinn-
una. Þá var enginn klúbbur án
þess að spáð væri í bolla. Eitt árið
leit Bryndís í bolla móður minnar
og sagði að hún sæi barn í boll-
anum – kannski ömmubarn á
leiðinni. Það reyndist rétt vera,
en þá gekk ég með dóttur mína,
Bryndísi, fyrsta barnabarn
mömmu.
Þegar við hjónin hófum bú-
skap gaf mamma okkur mat-
reiðslubók þeirra Önnu Gísla-
dóttur og Bryndísar
Steinþórsdóttur sem fylgt hefur
okkur frá útgáfu hennar 1976 og
er enn í notkun. Þegar þær end-
urbættu og gáfu bókina út að
nýju heimsótti ég Bryndísi og
fékk hjá henni bækur til að gefa
mínum afkomendum.
Ég vil þakka Bryndísi ómælda
tryggð, en hún hefur haft sam-
band við mig á hverju ári und-
anfarin ár og spurt frétta af fjöl-
skyldunni. Það gladdi mig og
áttum við ávallt skemmtilegt
spjall.
Ég kveð þessa dugnaðar- og
atorkukonu og sendi Hirti og fjöl-
skyldu hennar allri innilegar
samúðarkveðjur.
Minningin lifir.
Sigríður Jóhannsdóttir.
Stórt skarð er nú höggvið í
vinahópinn þegar Bryndís Stein-
þórsdóttir hefur kvatt eftir stutt
veikindi. Bryndís var einstök
kona, svo glaðlynd, góðlynd og
greind. Hún átti líka marga góða
vini og velunnara sem nú syrgja
hana sárt. Hún vildi öllum gott
gera og öllum þótti gott að eiga
hana að. Bryndís var glögg-
skyggn á eiginleika samferða-
fólks og annarra og ófeimin að
láta skoðanir sínar í ljós. Aldrei
var hún meinleg í orðum, heldur
jákvæð, skemmtileg og gaman-
söm í tali. Hún var höfðingi í lund
og lagði sig fram um að öllum
sem nálægt henni væru liði sem
best, bæði á sál og líkama. Hún
var framúrskarandi vinkona, við-
mótshlý og skilningsgóð, ætíð fús
að leggja góðu máli lið og veita af
hjálpsemi sinni og hæfileikum.
Við Bryndís kynntumst
snemma á lífsferli okkar, feður
okkar voru samstarfsmenn og
góðir vinir, kennarar við Barna-
skólann á Akureyri. Við endur-
nýjuðum kynnin og vináttuna
þegar við hittumst aftur fyrir
sunnan og hefur vináttan vaxið
og orðið traustari með hverju ári.
Reglulega höfum við hist vinkon-
urnar úr Húsmæðrakennaraskól-
anum og er þá ætíð glatt á hjalla
og það er ekki síst Bryndísi að
þakka. Við erum þakklátar fyrir
samfylgdina og allt sem hún lagði
til að samverustundirnar yrðu
okkur kærar og eftirminnilegar.
Nú er haustið í nánd og við
syrgjum fráfall góðrar og merki-
legrar konu sem lét mikið gott af
sér leiða.
Minning Bryndísar mun lifa
lengi og ég kveð hana með ein-
lægri þökk og ósk um endur-
fundi. Ég sendi fjölskyldu hennar
innilegar samúðarkveðjur og bið
þeim allrar blessunar.
Sigríður Kristjánsdóttir.
Saumaklúbbur okkar sex
kvenna sem allar eru kennarar
hefur starfað í sátt og samlyndi í
rúmlega 65 ár. Bryndís okkar
kæra vinkona er sú fyrsta sem
fellur frá og er söknuður okkar
sár. Bryndís var gædd frábærum
hæfileikum sem nutu sín vel í
starfi hennar sem kennari og
einnig í ýmsu félagsstarfi. Hlý
framkoma og nærgætni setti svip
á allt viðmót hennar gagnvart
nemendum og samstarfsfólki.
Eftir starfslok við kennslu á
ýmsum stigum og einnig sem
námsstjóri í menntamálaráðu-
neytinu í nokkur ár settist Bryn-
dís aldeilis ekki í helgan stein.
Þá tók hún að sér að miðla
fróðleik í „Fræðsluhorninu“ í
tímariti eldri borgara: Listin að
lifa. Hún fékk þá oft uppskriftir
og leiðbeiningar af ýmsu tagi í
þennan þátt frá lesendum sem
kom sér örugglega vel fyrir
marga.
Nýlega var endurútgefin bók-
in „Við matreiðum“ sem Bryndís
og Anna Gísladóttir skrifuðu á
sínum tíma. Hefur þessi bók ver-
ið kennd lengi við framhaldsskóla
og notið mikilla vinsælda. Bryn-
dís var mjög hjálpsöm að eðlis-
fari, og eflaust munu margir
standa í mikilli þakkarskuld við
hana. Bryndís var einhleyp meg-
inhluta ævinnar, en síðustu rúm
20 árin átti hún frábæran vin,
Hjört Þórarinsson, sem hefur
verið henni stoð og stytta öll
þessi ár. Hann hefur einnig
reynst okkur klúbbsystrum góð-
ur vinur, t.d. verið fararstjóri í
mörgum ferðum okkar um landið
síðari árin okkur til mikillar
ánægju.
Fjölskylda Bryndísar var
henni afar kær, kom það glöggt í
ljós með þátttöku í stórafmæli
hennar sl. haust. Bróðir hennar
heimsótti hana hvern dag á
sjúkrahúsið, þar sem hún dvaldi
síðustu mánuðina, sýndi það vel
hug hans til systur sinnar.
Nú er komið að kveðjustund.
Allar klúbbsystur okkar kæru
vinkonu Bryndísar Steinþórs-
dóttur senda ættingjum hennar
ásamt vini okkar Hirti innileg-
ustu samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning hennar.
Guðrún Kristinsdóttir,
Ingibjörg Þórarinsdóttir.
Okkar kæra Gammasystir,
Bryndís Steinþórsdóttir hús-
stjórnarkennari, er látin 91 árs
að aldri.
Þegar Gammadeild Delta
Kappa Gamma International var
stofnuð á Íslandi, 5. júní 1977, var
hún ein af stofnfélögunum. Það
var mikill happafengur fyrir
deildina, því Bryndís var mjög
virk í starfi og ætíð tilbúin að
taka að sér verkefni og trúnaðar-
störf fyrir samtökin sem hún
vann með gleði og jákvæðum
huga. Hún var strax kosin í
stjórn og gegndi hlutverki ritara
fyrstu árin. Eftir því var tekið
hversu nákvæm og samviskusöm
hún var og voru fundargerðir
hennar, þá handskrifaðar, algjört
augnayndi, svo fallega og vel var
staðið að verkum.
Hún var hússtjórnarkennari
og sótti sér menntun víða, svo
sem til Noregs og Danmerkur.
Sótti nám í uppeldis- og kennslu-
fræði fyrir kennara á vegum KHÍ
1975-1976. Kenndi við Fjölbraut í
Breiðholti frá 1975 og var einn af
stofnendum matvælabrautar sem
þar var starfrækt, var um tíma
námsstjóri í heimilisfræði og
vann að námsskrám og er þá fátt
upptalið.
Bryndís Steinþórsdóttir var
mjög ritfær og skrifaði margar
greinar og fræðslurit um nær-
ingu, matreiðslu og heimilishald.
Bryndís var annar höfunda mat-
reiðslubókarinnar „Við matreið-
um“ sem fyrst kom út árið 1976.
Bókin hefur verið notuð til
kennslu í grunn- og framhalds-
skólum um langa tíð og hún er
einnig vinsæl á heimilum lands-
manna.
Höfundarnir endurskoðuðu
bókina í 6. skipti til nýrrar útgáfu
árið 2018 og var Bryndís þá orðin
níræð. Hún var heiðruð og færð
rauð rós í tilefni af endurútkomu
bókarinnar „Við matreiðum“ á
fundi Gammadeildarinnar 11.
apríl 2018 en rauða rósin táknar
andríki og sköpunargáfu. Rauði
liturinn er tákn þess hugrekkis
sem þarf til að ná árangri og allt
þetta hafði Bryndís í ríkum mæli.
Hún starfaði fyrir félag eldri
borgara og sá til margra ára um
mjög vinsælan fræðsluþátt um
matreiðslu og heimilishald í
fréttabréfi þeirra, Listin að lifa.
Bryndís var mjög virk í starfi
Gammadeildarinnar, var áhuga-
söm um starf deildarinnar og allt
sem laut að skólastarfi og mennt-
un unga fólksins og var virk í um-
ræðum.
Hún mætti á alla fundi, enda
vel hress allt þar til seinni hluta
síðasta vetrar þegar heilsu henn-
ar fór hrakandi, en samt kom hún
færandi hendi með afmælis-
kringlu í tilefni af 90 ára afmæl-
inu sínu.
Hún var alltaf svo létt og
skemmtileg og ég held að Bryn-
dís hafi um margt verið á undan
sinni samtíð.
Bryndís hafði sérstaklega fal-
lega og hæverska framkomu, var
kurteis og einstaklega smekkleg í
öllu sem hún kom að. Hún var
glöð og jákvæð og allt fallegt í
kringum hana svo unun var að
samveru við hana.
Delta Kappa Gamma, félag
kvenna í fræðslustörfum, kveður
mæta félagskonu með þakklæti
og söknuði. Aðstandendum henn-
ar vottum við dýpstu samúð.
Blessuð sé minning Bryndísar
Steinþórsdóttur.
Fyrir hönd Gammasystra,
Hertha W. Jónsdóttir.
Þá er hæfileika- og heiður-
skonan Bryndís Steinþórsdóttir
látin. Ég man fyrst eftir Bryndísi
á aðalfundi Hússtjórnarskóla Ís-
lands 1957. Ég dáðist að þessari
ungu kennslukonu sem var
brennandi af áhuga fyrir starfinu
og átti mjög auðvelt með að tjá
sig. Síðar kynntist ég Bryndísi og
í mínum huga var hún leiðtogi og
frumkvöðull. Árið 1977, er Fjöl-
brautaskólinn í Breiðholti hafði
starfað í tvö ár, bað Bryndís mig
að sækja um kennslu þar. Ég af-
þakkaði en hún hélt áfram og í
lokin sló ég til. Ég er Bryndísi
þakklát fyrir það að fá mig til að
kenna í FB. Bryndís skilur eftir
sig mikið starf sem kennari og
skipuleggjandi.
Elsku Bryndís, með djúpri
þökk og virðingu fyrir þína góðu
vináttu. Ég votta ástvinum Bryn-
dísar innilega samúð. Blessuð sé
minning hennar.
Borghildur Jónsdóttir.
Árin líða eitt af öðru og ekkert
fær stöðvað tímanns rennsli. Við
mannfólkið erum svo lítið brot af
eilífðinni. Það hugsa ég oft þegar
ég frétti lát góðra samstarfs-
manna og vina frá fyrri árum.
Hún Bryndís var ein af þeim.
Ég kynntist Bryndísi fyrst
persónulega þegar ég var kosin í
stjórn Landssambands eldri
borgara árið 2009. Hún hafði þá
þegar unnið þar að margvísleg-
um málum í mörg ár, setið bæði í
stjórn og nefndum. Það var ómet-
anlegt að hafa slíkan reynslu-
bolta meðan ég var að setja mig
inn í starfsemi landssambands-
ins, fyrst sem ritari í stjórn og
síðar formaður. Við Bryndís unn-
um lengi saman að ýmsum mál-
um innan Landssambands eldri
borgara Við vorum saman í þjón-
ustunefnd, síðar velferðarnefnd,
ásamt Ragnheiði Stephensen
sem stýrði nefndinni af miklum
skörungsskap. Þar funduðum við
reglulega um ýmis mál, fengum
til okkar sérfræðinga, fórum á
fund landlæknis, hittum ráð-
herra, ferðuðumst um og skoðuð-
um hjúkrunarheimili. Í framhaldi
sendum við frá okkur ályktanir,
bréf og tillögur. Það var
skemmtilegt og fræðandi að
vinna með Bryndísi, sem var full
af áhuga fyrir því að bæta allt
sem sneri að þjónustu við eldra
fólk. Matur, næring, umhirða,
menntun starfsfólks í heimaþjón-
ustu, allt þetta lét hún sig varða
og meira til. Og hún taldi aldrei
eftir sér þá vinnu sem þessu
fylgdi. Bryndís var einnig ásamt
mér og fleirum í ritnefnd tíma-
ritsins Listin að lifa allt frá árinu
2009 til 2017. Þar átti hún sér-
stakan þátt sem hét Heilsuhorn-
ið. Hún átti frumkvæði að þeim
þætti í blaðinu á sínum tíma og sá
um hann allt frá árinu 2000 til
2017. Þetta var vinsæll þáttur þar
sem hún miðlaði alls konar fróð-
leik. Hún var með góð húsráð,
mataruppskriftir, handavinnu
alls konar og föndur. Auk þess
kom hún með margar hugmyndir
að efni í blaðinu og hafði sam-
band við ýmsa aðila um áhuga-
vert efni til birtingar. Hún var
lærður hússtjórnarkennari og
miðlaði samfélaginu reynslu sinni
og þekkingu. En hún var líka vin-
ur vina sinna. Við héldum alltaf
góðu sambandi með reglulegum
símtölum og hittumst þegar tími
var til. Hún vildi lítið tala um las-
leika eða veikindi sín, hún hafði
svo mörg önnur áhugamál sem
hún vildi ræða. Það er sjónar-
sviptir að slíkri konu þegar hún
fellur frá. Ég mun sakna spjall-
tímanna okkar en geymi í minn-
ingunni allar samverustundirnar
frá fyrri árum, sem ég þakka
henni innilega fyrir. Þrúður syst-
ir mín, sem einnig vann með
Bryndísi í nokkur ár í ritnefnd
Listarinnar að lifa, biður fyrir
kveðju.
Ég votta ættingjum og vinum
Bryndísar innilega samúð og sér-
staklega vini hennar til margra
ára Hirti Þórarinssyni. Guð
blessi minningu hennar.
Jóna Valgerður
Kristjánsdóttir.
Lífshlaupi mætrar konu er
lokið, 1. sepember nk. hefði hún
orðið 91 árs gömul.
Við vissum hvor af annarri,
höfðum báðar lokið námi frá Hús-
stjórnarkennaraskóla Íslands og
aukið við menntun okkar erlend-
is, en kynni okkar hófust ekki
fyrr en árið 1977. Bryndís starf-
aði þá við Fjölbrautaskólann í
Breiðholti. Skólinn tók til starfa
árið 1975. Guðmundur Sveinsson
var fyrsti skólameistari skólans
og stýrði hann uppbyggingu skól-
ans ásamt úrvalsliði kennara úr
hinum ýmsu stéttum þjóðlífsins.
Bryndís stýrði hússtjórnarsviði
skólans. Nafni sviðsins var síðan
breytt í matvælasvið.
Árið 1977 hafði Bryndís sam-
band við mig og bauð mér
kennslu í næringarfræði. Ég var
þá heimavinnandi með litlar dæt-
ur og gat tekið boði hennar. Á
haustönninni kenndi ég næring-
arfræði á ýmsum sviðum skólans.
Engin kennsla var fyrir mig á
vorönninni, svo ég fór þá að sinna
fyrra starfi mínu sem næringar-
ráðgjafi á Borgarspítalanum.
Næsta haust var mér boðin full
staða við skólann og átti ég eftir
að starfa þar í tæp 20 ár.
Mestallan þann tíma stýrði
Bryndís matvælasviðinu með
mikilli prýði. Sviðið okkar tók
smám saman breytingum, þar
störfuðu saman hússtjórnar-
kennarar, næringarfræðingur,
matreiðslu- og framreiðslumeist-
ari. Þeir síðastnefndu kenndu
nemendum matreiðslu og fram-
reiðslu fyrir hótel og veitingahús.
Hússtjórnarkennarar kenndu
nemendum að matreiða og skipu-
leggja daglegar hollar máltíðir.
Næringarfræðingur kenndi nem-
endum um nauðsyn þess að fá
lífsnauðsynleg næringarefni úr
matnum. Bryndís sjálf kenndi
nemendum matvælavörufræði og
að skipuleggja eldhúsin. Bryndís
var sérstaklega lagin í samskipt-
um bæði við nemendur sína og
okkur kennarana sem störfuðu
undir hennar stjórn. Má segja að
hún hafi kunnað stjórnunarhætti
eins og þeir þekkjast bestir í dag.
Hún var líka lagin við að velja
rétt fólk, þegar ráða þurfti nýja
kennara. Öll mál voru rædd í
mesta bróðerni og ágreiningsmál
leidd til lykta á farsælan hátt.
Bryndís hafði ákaflega létta
lund, var ætíð glöð og skemmti-
leg. Hún var heilsuhraust og ég
minnist þess ekki að hún hafi ver-
ið frá kennslu öll árin sem við
störfuðum saman. Hún naut þess
að kenna og mætti ætíð glöð á
hverjum morgni. Það var mann-
bætandi að umgangast hana dag-
lega.
Bryndís var sérstaklega fær í
matreiðslu, allt lék í höndum
hennar. Þetta fengum við sam-
kennarar hennar að sannreyna
þegar við hjálpuðumst að við
stórveislur á heimilum okkar.
Samstarfi okkar lauk 1997
þegar ég fór í kennaraleyfi til
Þýskalands og deildin okkar var
flutt í Menntaskólann í Kópavogi.
Þar starfaði Bryndís í eitt ár, þar
til hún lauk starfsævi sinni.
Vinátta okkar Bryndísar hefur
nú staðið í rúmlega fjörutíu ár.
Við þrjár vinkonur úr stétt hús-
stjórnarkennara höfum hist
reglulega þar sem við ræddum
áhugamál okkar. Ætíð spurði
Bryndís frétta úr FB og MK, þar
sem starfsnámið sem við þróuð-
um í FB er enn kennt.
Ég kveð Bryndísi mína með
miklum söknuði og óska henni
velfarnaðar í nýjum víddum. Guð
blessi minningu hennar. Ástvin-
um hennar sendi ég innilegar
samúðarkveðjur.
Elísabet S. Magnúsdóttir.
Minningarvefur á mbl.is
Minningar
og andlát
Vefur þar sem er sameinað efni sem snýr að
andlátum og útförum. Þar eru birtar andláts-,
útfarar- og þakkartilkynningar sem eru að-
gengilegar öllum en auk þess geta áskrifendur
lesið minningargreinar á vefnum.
þjónustuaðila sem aðstoða þegar andlát ber
ætlaðar aðstandendum við fráfall ástvina.
www.mbl.is/andlát