Skessuhorn - 23.11.2011, Síða 72
72 MIÐVIKUDAGUR 23. NÓVEMBER
„Ég hef leikið mér að orðum frá
því forðum,“ segir Kjartan Trausti
Sigurðsson frá Geirsstöðum á
Akranesi sem í vor sendi frá sér
ljóðakverið Kjartans Kver. Kjartan,
sem síðustu áratugina hefur verið
leiðsögumaður fyrir íslenska
ferðamenn víða um lönd, segist hafa
farið inn í ljóðahóp fyrir tveimur
árum þegar hann hélt að hann
væri endanlega kominn heim frá
útlöndum, þar sem hann hefur verið
meira eða minna hátt í þrjá áratugi.
Ljóðin í bókinni eru bæði í bundnu
og óbundnu máli og flest þeirra
nýleg. Frá því Kjartans Kver kom út
hefur Kjartan selt það sjálfur vinum
og vandamönnum. Hann er nú búinn
að selja fyrstu prentun og hefur
fengið aðra prentun í hendurnar og
stefnir að kynningu í Kirkjuhvoli á
Akranesi í byrjun desember.
„Þarna í ljóðahópnum í
Kópavoginum, sem ég fór í, var ég
undir leiðsögn Þórðar Helgasonar,
sem hefur gefið út fullt af bókum
og hjálpað fólki við ljóðagerð. Þegar
ég komst þarna inn vildi hann fá að
sjá hvað ég hefði fram að færa og
ég sýndi honum það sem ég átti. Þá
sagði hann að ég væri tilbúinn með
þetta allt saman og við ættum bara
að klára þetta þennan vetur. Þetta er
meira leikur að orðum en eitthvað
annað,“ segir Kjartan og sýnir hluta
af kveðskap sem Skagamenn ættu að
þekkja. Hann segist eiga eitthvað af
eldri kveðskap sem hann eigi eftir
að taka saman og það birtist kannski
seinna.
Fjaran og fótboltinn
Kjartan er fæddur og uppalinn
á Akranesi og bjó þar fram undir
þrítugt. Hann er sonur hjónanna
Sigurðar Jónssonar vörubílstjóra og
Kristínar Guðbjargar Jónsdóttur,
sem lengi sinnti smábarnakennslu
á Geirsstöðum við Skólabraut,
eða í Háskólanum á Geirsstöðum
eins og Skagamenn nefndu
gjarnan þessa starfsemi Kristínar.
„Pabbi og mamma fluttu hingað á
Skagann árið 1939 frá Skálanesi í
Barðastrandarsýslu og ég fæddist
hér það ár í húsinu Bakka á horni
Bakkatúns og Krókatúns. Þar fæddist
ég uppi í risi. Þau fluttu svo fljótlega
á Geirsstaði við Skólabrautina og
bjuggu þar alla tíð.“ Kjartan segir
æskuárin á Akranesi hafa verið
einföld hjá honum eins og öðrum.
„Það var bara fjaran og fótboltinn,
flóknara var það ekki.“
Knattspyrnan var ofarlega á
listanum hjá Kjartani og hann æfði
og spilaði upp alla yngri flokka og
þótti efnilegur markmaður. „Annars
var minn árgangur á svolítið
óheppilegum tíma því þegar við
komum upp á meistaraflokksaldur
er gullaldarliðið búið að blómstra í
nokkur ár og þar var engum nýjum
hleypt inn að heitið gat. Þannig að
við náðum því aldrei að verða annað
en efnilegir og flestir okkar gáfust
upp á að æfa. Ég hélt einna lengst
út og var varamarkvörður hjá Helga
Dan í áratug eða meira. Þá tíðkaðist
ekki að menn skiptu um félag til
að komast áfram í fótbolta. Menn
bara fæddust í sitt félag og héldu
tryggð við það. Svo var ég talsvert í
handbolta og líka í badminton.“
Með fulla tösku
af seðlum
Skátastarfið átti líka hug Kjartans
auk íþróttanna og hann gekk í
Skátafélagið þegar hann hafði aldur
til og hann starfaði þar alveg þangað
til hann flutti til Reykjavíkur 1965. Á
Akranesi starfaði Kjartan á skrifstofu
Sementsverksmiðju ríkisins. „Þá
þurfti maður að fara til Reykjavíkur
að ná í peningana fyrir útborgun
til starfsmannanna. Aðalskrifstofa
Sementsverksmiðjunnar var
þar. Þá fór ég með Akraborginni
með peningatösku sem var
hlekkjuð við úlnliðinn á mér
á heimleiðinni. Þetta var
skemmtilegur tími þarna
hjá Sementsverksmiðjunni.
Þannig voru öll árin á Akranesi,
þau voru skemmtileg. Í
bæjarpólitíkinni voru átök og
áberandi menn sem höfðu
mikið persónufylgi. Svo
voru alls konar skemmtilegir
karakterar í bænum. Þá voru
menn kenndir við húsin sín.
Margir höfðu að auki sín
viðurnefni og þekktust ekki
öðruvísi.“
Árið 1965 flutti Kjartan til
Reykjavíkur. „Það kom ung
og fönguleg ljósmóðir hingað
á Skagann, Unnur Jensdóttir,
og við felldum hugi saman,
giftum okkur og eignuðumst
tvö börn þau Kristínu sem er
fædd 1966 og Sigurð Trausta
sem fæddist 1968. Kristín
sem er búsett í Svíþjóð er
gift dönskum manni og á
þrjú börn. Sigurður Trausti
lést af slysförum við vinnu sína í
Danmörku fyrir sex árum en hann
var tæknifræðingur.“
Settist í hlið
Laugardalsvallarins
„Þegar við fluttum til Reykjavíkur
hóf ég nám í endurskoðun og vann
síðan á skrifstofum borgarinnar.
Síðan gerðist ég framkvæmdastjóri
hjá vörubílastöðinni Þrótti og
undir lok áttunda áratugarins
varð ég fyrsti framkvæmdastjóri
Knattspyrnusambands Íslands
í stjórnartíð Ellerts B. Schram
þar. Þetta var tilraun að ráða
framkvæmdastjóra í fullt starf hjá
KSÍ en menn höfðu bara verið með
þetta í hlutastarfi heima hjá sér fram
að því.“ Kjartan var í um tvö ár hjá
KSÍ en hann sagði litla peninga hafa
verið til hjá sambandinu enda ekki
neinar tekjur af Evrópukeppnum
eða neinu slíku þá. Kjartan vakti
á þessum tíma mikla athygli
fjölmiðla þegar hann settist í hliðið
á Laugardalsvellinum svo að bíll
frá Sjónvarpinu kæmist ekki inn á
völlinn til að mynda landsleik. „Já,
þetta vakti mikla athygli og var oft
sýnt í sjónvarpinu auk þess sem
myndir birtust í blöðum en það
höfðu ekki náðst samningar um
greiðslur milli KSÍ og Sjónvarpsins
og Ellert sagði mér að sjá til þess að
sjónvarpsmenn kæmust ekki inn á
völlinn með bílinn og það gerði ég
svo eftir var tekið.“
Til Noregs að framleiða
mokkafatnað
Eftir veruna hjá KSÍ segist Kjartan
hafa verið orðinn hreinskilinn,
fráskilinn, misskilinn og auðskilinn.
„Ég var svolítið leitandi á þessum
tíma og fór í stutta sambúð sem
slitnaði upp úr. Þá fór ég til
Noregs að tilhlutan manns sem
lofaði gulli og grænum skógum
þar. Við fórum héðan út tveir og
stofnuðum fyrirtæki í samvinnu
við þennan mann og sveitarfélagið
Steinkjær í NorðurNoregi. Þetta
fyrirtæki hét Edda pels og rak
verksmiðju sem framleiddi klæðnað
úr íslenskum mokkaskinnum. Þar
var ég framkvæmdastjóri en þetta
entist ekki nema í tvö til þrjú ár.
Þaðan fór ég til Osló í ýmis verkefni,
var þar síðast skrifstofustjóri hjá
fyrirtæki sem framleiddi prentliti
fyrir grafíska iðnaðinn. Svo var það
fyrirtæki sameinað öðru og sá sem
var skrifstofustjóri í því fyrirtæki
var með lengri starfsreynslu en ég
og fékk því starfið. Á þessum tíma,
sem ég var í Noregi, komu börnin
til mín á sumrin og voru þar í vinnu,
sem var mjög gott. Þarna í Noregi
sá ég svo auglýsingu frá dönskum
fararstjóraskóla á Mallorka. Ég
hafði oft velt því fyrir mér að fara
í fararstjórn og þarna lét ég slag
standa og fór í skólann. Það var
gamall samverkamaður Simon Spies
sem rak þennan skóla þarna suður
frá.“
Fararstjóri í
hartnær 30 ár
Þar með hófst fararstjóraferill
Kjartans, sem staðið hefur í tæpa þrjá
áratugi. „Þegar ég var búinn með
skólann tók hinn reyndi fararstjóri
og vinur minn Kjartan L. Pálsson
með sér starfsumsókn frá mér heim
til SamvinnuferðaLandsýnar. Í
millitíðinni talaði ég við Guðna í
Sunnu og spurði hvort hann vantaði
ekki fararstjóra í ferðir sem hann var
með fyrir eldri borgara frá jólum
fram að páskum. Guðni svaraði því
til að hann og fjölskylda hans væru
nú bara í þessu. Svo hringir hann í
mig tveimur dögum seinna og sagði
mér að ég gæti fengið bíl og íbúð
þarna úti og tekið við þessu. Þetta
var byrjunin hjá mér að vera með hóp
eldri borgara þennan vetur. Þetta var
eiginlega jafnmikill skóli og ég hafði
verið í því þessi hópur reyndist mér
mjög vel. Þegar þau vissu að ég væri
að leita að vinnu við áframhaldandi
fararstjórn skrifuðu þau bréf til allra
ferðaskrifstofanna á Íslandi til að segja
frá þessum undragóða fararstjóra.
Þessu vissi ég ekki af fyrr en eftir á.
Þegar ég fór frá þeim afhentu þau
mér skrautritaða gestabók að gjöf.
Svo um páskana þetta ár fékk ég
svar frá SamvinnuferðumLandsýn
um að ég gæti fengið starf þar.
Ég tók því og hef síðan nánast
verið gestur hér á Íslandi í
tæplega þrjátíu ár.“
Hefur víða farið
Í mörg ár var Kjartan
alltaf á Mallorka á sumrin,
í Edinborg á haustin og á
Kanarí á veturna. Seinna
bættust svo fleiri lönd við eins
og Tyrkland, Kúba, Kanada,
Mexíkó, Karabíska hafið og
Dóminikanska lýðveldið en
þar var hann á vegum Ingólfs
Guðbrandssonar. Lengst af
hefur Kjartan verið hjá Úrvali
Útsýn, sem er í dag hluti af
Ferðaskrifstofu Íslands. Hann
segist hafa haft mjög gaman
af fararstjórninni í öll þessi
ár, ekki síst að kynnast nýjum
löndum og nýjum siðum. Þá
hafi hann kynnst fjölmörgu
góðu fólki í þessu starfi sínu.
Hann segist ekki hættur í
fararstjórninni þótt nú hafi
kennsla í Ferðamálaskólanum
tekið við að hluta. „Ég held
þessu áfram svo lengi sem
einhver vill hafa mig í þessu en
ég hélt ég væri að hætta þegar ég
komst á ellilífeyrisaldur en þá kom
Friðjón Sæmundsson skólastjóri
Ferðamálaskólans að máli við mig
um að við tækjum fararstjórn erlendis
til kennslu í skólanum. Við gerðum
það og nú er fimmta kennsluárið
að hefjast. Við lögðum grunninn að
þessu ásamt öðru góðu fólki.“ Kjartan
segist hafa verið óvænt á Almeria í
þrjá mánuði í sumar. Það hafi komið
upp með fjögurra daga fyrirvara og
síðan var það ferð með eldri borgara
núna í byrjun nóvember til Tenerife.
„Maður tekur það sem manni býðst
og svo kenni ég á milli.“
Kjartan ætlar að leyfa
Skagamönnum að kynnast kveðskap
sínum í Kirkjuhvoli á Akranesi
sunnudaginn 4. desember klukkan
16. „Þá ætla ég að kynna ljóðakverið
og líka að leyfa fólki að heyra ljóð og
sögur af Skaganum frá því í „den“.
Kannski flýtur einhver óbirtur
kveðskapur með,“ sagði hinn síungi
Kjartan Trausti Sigurðsson að
endingu. hb
Hef haft mjög gaman af fararstjórninni í öll þessi ár
Kjartan tekur í hurðarhún Geirsstaða sem nú standa við Byggðasafnið í Görðum.
Frá brúðkaupi Kjartans og Unnar. Foreldrar hans sitja með þeim til borðs.
Gömlu félagarnir úr skátastarfinu og íþróttunum á Akranesi, Kjartan og Svavar
Sigurðsson.
Kjartan með barnabörnin sín.