Skessuhorn - 15.04.2015, Blaðsíða 20
20 MIÐVIKUDAGUR 15. APRÍL 2015
Virkjunin sem Jökullinn knýr
Skammt innan við Ólafsvík, und-
ir lágu klifi, stendur hvítmálað hús
sem kannski lætur ekki miðið yfir
sér við fyrsta augnakast. Þeir sem
til þekkja vita þó að þarna er ákaf-
lega merkileg bygging sem á sér
rúmlega 60 ára sögu. Þetta er Rjúk-
andavirkjun sem var gangsett form-
lega 18. september 1954. Hún sá
íbúum utanverðs Snæfellsness fyr-
ir birtu og yl um áratugaskeið. Síð-
ar var hún tengd inn á raforkunet
allra landsmanna og er þannig ein
fjölda virkjana sem í dag sjá Íslandi
fyrir orku. Fyrir réttu ári síðan var
Rjúkandavirkjun gangsett að nýju
eftir að hafa verið endurnýjuð nán-
ast alfarið.
Ný virkjun í dag
„Virkjunin var öll endurnýjuð vet-
urinn 2013 til 2014. Það var skipt
um allar pípur, vélbúnað og raf-
búnað. Stíflan var endurnýjuð og
hækkaðir veggirnir á henni. Þetta
er hreinlega ný virkjun sem fór í
gang eftir þessar endurbætur. Við
ræstum hana að nýju í apríl á síð-
asta ári, það er fyrir ári síðan,“ seg-
ir Snorri Böðvarsson rafvirki. Hann
er eini starfsmaður virkjunarinnar.
Rjúkandavirkjun er í eigu Orku-
sölunnar sem er innan Rafmagns-
veitna Ríkisins (RARIK). „Þetta er
bara hlutastarf að sjá um Rjúkanda-
virkjun. Kannski 20 til 30% staða.
Virkjunin gengur bara nánast af
sjálfu sér. Við fylgjumst með öllu í
gegnum tölvuna. Hitinn á vatninu,
hæðin í lóninu, rennslið, rafmagns-
framleiðslan og alls kyns aðrir
þættir sem skipta máli. Svo erum
við með vefmyndavélar þar sem
þess þarf. Tölvutæknin gerir okk-
ur kleift að fylgjast með virkjun-
inni á skrifstofunni í Ólafsvík eða í
Reykjavík eða bara hvaðan sem er,“
útskýrir Snorri þar sem hann bend-
ir á tölvuskjá í stjórnherbergi virkj-
unarinnar.
Efldist verulega við
endurbæturnar
Rjúkandavirkjun sækir afl sitt úr
Fossá sem á upptök sín í sjálfum
Snæfellsjökli. Nafn sitt dregur hún
einmitt af fossinum Rjúkanda sem
er þekktur fyrir úða sinn. Áin renn-
ur neðanjarðar í jarðlögum vikurs
en sprettur svo fram úr lindum við
Gerðuberg.
„Þetta er lindarvatn úr Snæfells-
jökli hér ofan að sem síðan bland-
ast yfirborðsvatni þegar rignir og í
leysingum. Vatninu er safnað í lít-
ið lón hér fyrir ofan, fellur hér 196
metra niður hlíðina gegnum pípu
og í gegnum túrbínuna sem fram-
leiðir 1.800 kílóvött af rafmagni í
dag. Þetta er virkjun sem malar gull
og hefur alltaf gert. Eftir endurbæt-
urnar í fyrravetur þá stefnir hún í
að framleiða um 13 milljón kíló-
vattsstundir á ári. Gamli búnaður-
inn afkastaði átta milljón kílóvatt-
stundum árlega,“ segir Snorri.
Virkjun er einstaklega snyrtileg
að koma inn í. Fyrir miðju gólfi í
aðalsalnum stendur túrbínan sem
framleiðir rafmagnið. Frá henni
berst niður sem segir okkur að nú
streymi vatnið í gegnum hana. Það
fær hana til að snúast og framleiða
strauminn.
Ýmislegt gengið á
í vetur
Snorri Böðvarsson segir að það hafi
gengið svo til alveg hnökralaust að
keyra virkjunina eftir að hún fór aft-
ur í gang eftir endurnýjunina miklu
sem lauk í fyrra. „Við þurftum
reyndar að taka túrbínuna upp í vet-
ur og skipta um legur í henni. Það
er ekki búið að gefa það út enn hver
orsökin var að legurnar entust svona
stutt. Þær áttu auðvitað að endast
miklu lengur. Kannski var það ein-
hver skekkja í uppsetningunni. Við
vitum það ekki enn. Utan þessa hef-
ur allur búnaðurinn reynst mjög vel.
Túrbínan er framleidd í Austurríki
og rafbúnaðurinn er frá Króatíu.“
Miklir umhleypingar í vetur hafa
líka gert það að verkum menn hafa
þurft að vakta virkjunina af kost-
gæfni. „Í vetur hefur komið svo mik-
ill mosi með vatninu. Elgurinn sem
hefur fylgt óveðrunum í vetur hef-
ur tætt mosann upp. Hann sest svo
í ristarnar hjá okkur. Það er feikna
mikil vinna við að raka hann úr. Svo
hafa verið aurskriður og jafnvel flóð
eftir asahlákur. Veðurlagið hefur
aldrei verið svona öfgakennt og nú
í vetur. Eini kosturinn fyrir okkur
er að umhleypingarnir hafa gert það
að verkum að nú er mikill snjór. Það
hefur rignt og snjóað, þiðnað og
fryst á víxl. Við þær aðstæður hleðst
snjórinn oftast upp yfir lengri tíma.
Það lítur því vel út með vatnsforða
fyrir sumarmánuðina,“ segir Snorri.
Halda utan um söguna
Upphaflega þjónaði Rjúkandavirkj-
un aðeins Hellissandi og Ólafs-
vík. „Síðan kom Grundarfjörður
inn árið eftir. Síðan kom lína yfir
Kambsskarð í Breiðuvík og í Staðar-
sveit þegar lína var lögð þangað yfir.
Gamla túrbínan sem var hér áður
sá þessu öllu fyrir rafmagni. Áður
en sjálf vatnsaflsvirkjunin kom var
hér notast við díselvélar sem voru
staðsettar í Hraðfrystihúsi Ólafs-
víkur. Þær framleiddu rafmagn fyrir
Ólafsvík fyrstu árin. Árið 1958 voru
tvær 600 kílóvatta vélar settar upp
í Ólafsvík. Þær voru keyrðar allan
sólarhringinn til 1973. Þá tengdist
Rjúkandavirkjun landsnetinu fyrsta
sinni.“
Fimm díselvélar standa enn í dag
í Rjúkandavirkjun. „Þær eru notað-
ar til að framleiða rafmagn ef bil-
un verður í raflínukerfinu út á Snæ-
fellsnes. Það á að duga fyrir utan-
vert nesið. Síðan er einnig hægt að
fá rafmagn frá Grundarfirði ef lín-
an þaðan út á nes er í lagi,“ útskýr-
ir Snorri.
Starfsmenn RARIK á Snæfellsnesi
hafa vitund fyrir sögunni. Gegn-
um tíðina hafa þeir varðveitt ýmis-
legt sem tengist rekstri raforkukerf-
isins. Á efri hæð Rjúkandavirkjun-
ar er lítið en ákaflega merkilegt safn
með ýmsum búnaði sem Snorri og
félagar hans hafa bjargað frá glötun
og varðveita í dag. Það er vel þess
virði að skoða þær gersemar en í lýs-
ingum á þeim leyfum við myndun-
um sem fylgja þessari grein að tala
sínu máli.
mþh
Rjúkandavirkjun í dag. Fremst til hægri streymir vatnið út sem notað hefur verið til að knýja túrbínu
virkjunarinnar og framleiða rafmagnið. Lón virkjunarinnar er uppi á brún klifsins að baki virkjunarhúsinu.
Þar í hlíðinni er svo pípan sem vatnið fellur niður um.
Nýja túrbínan í Rjúkandavirkjun þar
sem hún stendur á gólfi í sal virkjunar-
hússins.
Díselrafstöðvar Rjúkandavirkjunar
sem taka við ef það verður rafmagns-
laust á utanverðu Snæfellsnesi. Fremst
er þýsk MAK vél, tæplega fimmtug að
aldri og mikill vinnuhestur enn þann
dag í dag.
Gamli stjórnveggur virkjunarinnar
sem ekki er notaður í dag nema að litlu
leyti. Hann fær þó að halda sér sem
merkileg heimild um söguna.
Hér stendur Snorri við hluta af gömlu aðrennslispípunni fyrir vatn að virkjuninni.
Eins og sjá má var hún úr timbri. Snorri er rafvirki og sér um daglegan rekstur
Rjúkandavirkjunar. Hann á að baki 45 ára feril hjá RARIK á Snæfellsnesi. Hann hóf
störf þar 1. maí 1970.
Hjól úr gömlu túrbínu virkjunarinnar
hangir á vegg. Blöð þess eru bæði
skörðótt og slitin.
Tækniminjasafn Rjúkandavirkjunar er merkilegt og vitnar um sögu raforkunnar á
Snæfellsnesi. Bruggtækin til vinstri á myndinni voru eitt sinn í eigu gamals manns
í Ólafsvík. Hann henti græjunum þegar ÁTVR opnaði verslun sína í Ólafsvík því
hann vildi ekki ógna þeim rekstri með samkeppni.
Á þennan síma í stjórnstöð Rjúkanda-
virkjunar eru skrifuð öll nauðsynleg
númer sem menn þurftu að grípa til
svo hægt væri að hafa samband vítt og
breitt um Snæfellsnes á ögurstundum.
Þessar snjóþrúgur í safni virkjunarinnar eru þögull vitnisburður um fórnfúst starf RARIK-manna sem
oft þurfa að glíma við erfiðar og hættulegar aðstæður til að komast að línum þegar bilanir verðar í
vitlausum vetrarveðrum.
Gömul talstöð úr einum af bílum
RARIK. Þær komu sér oft vel þegar
menn voru við störf á víðavangi.