Skessuhorn - 15.04.2015, Blaðsíða 26
26 MIÐVIKUDAGUR 15. APRÍL 2015
Fyrrtur prýði, þreki og þrótti - þurfalýður hórgetinn
Vísnahorn
Það er varla hægt að ætlast
til þess að fólk sem tæpast
getur hugsað sér að fara út
af malbiki geti gert sér í
hugarlund hvernig samgöngur voru fyrir svona
70-80 árum og reyndar er ekki svo langt síð-
an það þótti eðlilegt ástand ýmissa fjallvega að
þeir væru aðeins færir svona þrjá mánuði á ári.
Margir hafa lagt leið sína á Siglufjörð á undan-
förnum árum og skoðað þá merku uppbyggingu
sem þar hefur átt sér stað. Ekki er þó öruggt að
allir hafi velt því ýkja mikið fyrir sér hvernig lífið
var á þeim árum þegar síldarævintýrið stóð sem
hæst og þó sérstaklega á fyrri árum þess. Mörg-
um þótti á sinni tíð hrikalegt að fara Siglufjarð-
arskarð en hvernig var þá áður en Siglufjarðar-
braut var lögð? Um framgang ferðalaga á þeim
tímum segir svo í Bragskælingarímu:
Siglufjörður svo er gjörður,
að sérhver örðug þar er leið.
En hetjur kjörðu að hlaða vörður
um hæstu skörðin út úr neyð.
Ferðalangar fyrr og síðar
fengu stranga útivist.
Í djöfulgangi hörku og hríðar
hafa svangir Niflheim gist.
Kappar sneiða kletta skeiðar,
kröpp er leið um skörðin há.
Þráðu greiðar, beinar, breiðar,
brautir heiða klungrin á.
Vegurinn þar yfir hlýtur óhjákvæmilega að
hafa verið verulegt mannvirki á sinni tíð þeg-
ar nánast allt var unnið með handverkfærum.
Verkstjóri í Siglufjarðarskarði var lengst af Lúð-
vík Kemp og meðal undirsáta hans þar voru
menn eins og Þorvaldur Þórarinsson frá Hjalta-
bakka. Stefán Vagnsson og nafni hans Stef-
ánsson kenndur við Móskóga voru þá einnig á
Siglufirði og gat margt borið til að auka þeim
sálufélag. Hefur væntanlega oft verið glatt á
hjalla þar í tjöldum eftir vinnu enda ýmsir and-
ans menn þar staddir og verkstjórinn með orð-
högustu mönnum og tæplega dregið úr gleð-
skapnum viljandi. Þeir Bragskælingar þ.e.a.s
Kemp og hans aðstoðarskáld sem ég því miður
kann ekki að nafngreina nema alltof fáa lögðu
í sérstakt einelti Árna nokkurn Sveinsson frá
Mælifellsá og ortu um hann svokallaða Brag-
skælingarímu. Þar í eru meðal annars þessi er-
indi:
Settist að á Siglufirði
sómamaður Árni þá.
Skyldukvaðir, skattabyrði
og skálkavaður gerði hrjá.
Að Árna tíðum ólmur sótti,
ekki fríður, rangsnúinn,
fyrrtur prýði, þreki og þrótti,
þurfalýður hórgetinn.
Ingibjörg hans ektakvinna
átti í mörgu að vasast þá.
Pilsavörgum vondum sinna,
varð því örg og sýrð á brá.
Árni var einnig nokkuð hagmæltur en kannske
ekki vandvirkur um of en svo langt gekk þetta
eineltismál að Árni taldi sér nauðsynlegt að fá
sérstakan ritara til afnota svo hann mætti ein-
beita sér að yrkingum en þyrfti ekki að tefja
sig við ritstörf. Varð hershöfðingi röskmann-
lega við þeirri bón og var Árna skipaður ritari
er skrá skyldi allar hans andlegu snilldarafurðir.
Því miður mun megnið af þeim lausavísum glat-
að sem þar urðu til í Skarðinu en Bragskælinga-
ríma er til og þar segir svo um Árna skáld:
Kommúnistum lagði lið,
laufa kvistur breytti um sið.
Sækja stundum þurfti þrátt
þeirra fundi dag og nátt.
Þar af skaða og skapraun hlaut,
en skauttogaði erkinaut.
Sinnisharður sótti því
um Siglufjarðarbraut á ný.
Hreinlætisaðstöðu á slíkum vinnustöðum hef-
ur víst alla tíð verið haldið í lágmarki og á þeim
tíma þótt gott að hafa einhvern vatnssopa til að
gutla af sér mesta óhroðann. Um hreinlætisað-
gerðir Árna skálds ortu þeir félagar en þess skal
getið að önnur línan er að uppistöðu til nýyrði
sem Árni notaði um verkamannaskýlið:
Þvoði drullu af sjálfum sér
í syndabulluranni.
Aldrei fullur örfagrér
er því gull að manni.
Svo sem gengur með unga menn og hrausta
sem stunda erfiðisvinnu þurftu vegamenn að
sjálfsögðu gnægðir góðs matar og matreiðslu-
meistari þar í Skarðinu var þá Símon Jóhanns-
son í Goðdölum afabróðir Þórólfs Matthías-
sonar hagfræðings. Ekki var Símon talinn með
orðvörustu mönnum að jafnaði en fisk keyptu
þeir félagar gjarnan frá Siglufirði. Um þá mat-
araðdrætti hafði Símon oft og tíðum orðfæri
sem prestar nota ekki jafnaðarlega í kirkjum
og hafði ljúfmetið samkvæmt lýsingu mat-
sveins gjarnan keim sem kenndur er við skolp-
veitur. Nú kom svo síðsumars að kjötlaust varð
og bauðst þá einn vinnufélaginn, Hafþór frá
Smiðsgerði, að útvega kjöt af nýslátruðu heim-
an frá sér. Gekk hann þegar í verkið og var
burtu tvo daga. Ekki brást þó matsveinninn við
með fögnuði nema síður væri. Um þessa við-
burði og viðbrögð Símonar kvað Stefán frá
Móskógum:
Ó, það verður aldrei til auranna metið
er inneftir hljóp´ann og sótt´okkur ketið
og dögunum tapaði tveim.
Þá ærskrokka þótt´okkur ágætt að borða
og auka svo líkamans vítamínsforða;
en Símon fann sitthvað að þeim.
Hann kvað þetta helvískan hundamat vera
og Hafþórinn bæri með réttu að skera
við djöfulsins dall eða krús.
Hann sagði það óætt á sumri og vetri
og siglfirska mannaskíts-náþorskinn betri
en lambsogið horket með lús.
Þó ekki væri allt tómt guðsbarnamál sem tal-
að var eða ort þar í Skarðinu var þó fjarri því
að ekki mætti finna í þeim kveðskap aðra tóna
og um Sauðárkrók var kveðið í alllöngum brag
sem nefndur er ,,Skartar mörgu Skagafjörður“:
Hér er frægur höfuðstaður
af héraðsbúum marglofaður
þangað sækir sérhver maður
Sauðárkrókur nefndur er.
Þar er margt sem miklu varðar,
matjurta og blómagarðar.
Bestu skáldin Skagafjarðar
skrifa sínar bækur hér.
Á dónum hafður harður agi,
hafnarvirki af besta tagi,
barnafræðsla í fínu lagi,
frystihús og orkuver.
Einn af þeim sem unnu í Siglufjarðarbraut
var Stefán nokkur Pétursson en um hann var
einnig kveðin ríma þó ekki sé fullljóst hvort hún
varð til þarna í Skarðinu. Hef þó frekar grun um
að hún hafi orðið til síðar. Sumir eigna Lúðvík
Kemp þessa rímu en ég tel meiri líkur á að höf-
undurinn sé Stefán Stefánsson frá Móskógum.
Hvað sem um það er þá var Stefán sá (Péturs-
son) nokkur ævintýramaður og kom víða við á
lífsbrautinni:
Að Axlarhaga eitt sinn bar
utan af snaga veraldar.
Alla daga drakk hann þar
djöfuls lag á honum var.
Hirti á Svaðastöðum stóð,
stör og taði saman hlóð,
kæfu og spaði í kirnur tróð
krossbölvaði í djöfulmóð.
Að Reykholtsskóla ráðinn var,
á rýra hóla skarnið bar,
hellti úr skjólum hlandi þar
á höfuðbóli Framsóknar.
Í Síðumúla sinu hjó,
síst við púlið af sér dró.
Þandi gúla, gróf upp mó,
griðku fúla niður sló.
Með þökk fyrir lesturinn,
Dagbjartur Dagbjartsson
Hrísum, 320 Reykholt
S 435 1189 og 849 2715
dd@simnet.is
Undanfarna tvo laugardagsmorgna
hafa verið endurfluttir í Ríkisút-
varpinu þættir úr safni Braga Þórð-
arsonar sagnamanns um fólk og at-
burði, sem tengjast Akranesi. Þætt-
irnir eru byggðir á viðtölum hans
við viljasterkt og kraftmikið fólk
sem setti svip á bæinn og mundi
tímana tvenna. Einnig rifjar hann
upp sögur af örlagaríkum atburð-
um. Fyrstu þætti sína um fólk og
atburði á Akranesi og í Borgarfirði
flutti Bragi í útvarp 1983. Þættirn-
ir urðu alls um 60 talsins. Allir voru
þeir í upphafi samdir sem útvarps-
þættir. Síðar komu þeir út í bókum
höfundar sem eru flestar uppseldar,
en einnig til á hljóðbókum. Nokkr-
ar þeirra eru einnig fáanlegar sem
rafbækur. Sumir þáttanna hafa verið
endurfluttir í útvarpi á liðnum árum
undir heitinu Útvarpsperlur.
Fyrsta konan sem las
Passíusálma í útvarp
Laugardagur 4. apríl var endurflutt-
ur þátturinn „Fyrsta konan sem las
passíusálmana í útvarpið.“ Í kynn-
ingu segir: Eftir áratuga einokun
karlmanna, ýmist presta eða kenni-
manna, á lestri Passíusálmanna í út-
varpið á lönguföstu voru það vissu-
lega tíðindi að allt í einu skyldi kona
valin til þess hlutverks. Þessi kona
var Valbjörg Kristmundsdóttir,
verkakona á Akranesi. Valla í Bæn-
um var hún kölluð. Valla hafði aldrei
sýnt sérstakan áhuga á trúmálum,
lét þau nánast afskiptalaus. Vin-
ir hennar og samborgarar á Akra-
nesi urðu því undrandi þegar rödd
hennar hljómaði á öldum ljósvak-
ans og flutti Passíusálma Hallgríms
Péturssonar á föstunni. Fólki fannst
það skemmtilegt, flutningur hennar
var látlaus, í góðu samræmi við efn-
ið. Sjálf lét Valla sér fátt um finn-
ast þá athygli sem þetta vakti með-
al þjóðarinnar. Í þættinum fjallar
Bragi einnig um æviferil Völlu, en
hún var einstæð móðir sem lifði
við kröpp kjör. Fyrstu árin á Akra-
nesi bjó hún í gamla Melshúsabæn-
um, sem stóð á lóðinni á horni Suð-
urgötu og Melteigs, þar sem nú er
verið að byggja nýtt gistiheimili
fyrir sjóstangveiðimenn. Melshúsa-
bærinn stóð skammt frá æskuheim-
ili Braga. Hann kveðst hafa komið
þar oft og var kunnugur Völlu. Síð-
ar gaf hann út bók með kveðskap
hennar og æviminningum. Bókin
heitir ,,Ég var sett á uppboð”.
Höfðingi smiðjunnar
Laugardagur 11. apríl var svo end-
urfluttur þátturinn: Höfðingi smiðj-
unnar. Þar segir Bragi: Þorgeir Jós-
efsson er einn þeirra manna sem
höfðu mikil áhrif á Akranesi á sinni
tíð og er samtímafólki eftirminni-
legur. Hann var mikill vexti – en
þó hægur og lítillátur. Þorgeir var
umsvifamikill í atvinnurekstri sín-
um. Skipasmíðastöð, trésmiðja, raf-
magnsverkstæði, lagerhús og skrif-
stofa; næstum 6000 fermetrar og
150 manns í vinnu: Þaðan hafa kom-
ið 40 ný skip en hundruð gamalla úr
viðgerð. Um 600 manns numu iðn
sína hjá fyrirtækjum Þorgeirs; vél-
virkjun, rafsuðu, rennismíði, skipa-
smíði, rafvirkjun og húsasmíði. Í
þessu er falið líf Þorgeirs Jósefs-
sonar. Svo hefur hann ,,fiktað” við
ýmislegt, eins og hann sagði sjálf-
ur; setið í bæjarstjórn í 30 ár, gert
út togara, rekið steypustöð, reist
hús, lagt vegi og grafið fyrir hita-
veitulögnum. Bjartsýni og kjarkur
einkenndi öll störf Þorgeirs: ,,Ann-
að hvort fer fyrirtækið á hausinn,”
segir hann; ,,ellegar það er í stöð-
ugum vexti. Það skiptir öllu að vera
heppinn með fólk og haldast vel á
góðu fólki. Ég hef haft gaman af líf-
inu. Og sú hefur verið mín gæfa, að
til mín hefur ráðist afbragðsfólk og
það hefur unnið hjá mér áratugum
saman.” Og gömlum manni finnst
hann ekki hafa lifað til einskis.
Vélsmiður í Winnipeg
Laugardaginn 18. apríl kl. 8.05
verður fluttur þátturinn: Vélsmið-
ur í Winnipeg. Einar Vestmann
var annar bjartsýnismaður á Akra-
nesi. Hann flutti til Kanada í æv-
intýraleit. Starfaði sem fiskimað-
ur við Winnipegvatn og vélsmið-
ur í Gimli. Hann missti eiginkon-
una frá átta börnum og flutti með
þeim eignalaus til Akraness Alþing-
ishátíðarárið 1930. Á síðustu ævi-
árum Einars ræddi Bragi við hann
og skráði ævintýralegar minningar
hans.
Hættuspil á hafinu
Loks verður laugardaginn 25. apríl
kl. 8.05 fluttur þáttur sem nefnist:
Hættuspil á hafinu. Þórður Guð-
jónsson hóf ungur að stunda sjó-
inn frá Akranesi og varð síðar feng-
sæll skipstjóri, útgerðamaður og
aflakóngur. Hann komst oft í hann
krappan á sjómannsferli sínum og
átti því láni að fagna bjarga mörgum
sómönnum úr sjávarháska. Þórður
taldi að yfir sér væri haldið verndar-
hendi æðri máttarvalda. Þórður var
fróður og minnugur. Bragi skráði
minningar hans frá viðburðaríkum
æviferli snemma árs 2005.
Þættina sem búið er að endur-
flytja er hægt að hlusta á á Sarpi
Ríkisútvarpsins á ruv.is
mm/bþ
Endurflytja Útvarpsperlur í samantekt og flutningi Braga Þórðarsonar
Gamli Melshúsabærinn við Suðurgötu þar sem Valla í Bænum bjó fyrstu árin sín á
Akranesi. Á lóðinni er nú að rísa gistihús fyrir sjóstangveiðimenn.
Bragi Þórðarson.