Morgunblaðið - 08.11.2019, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 08.11.2019, Blaðsíða 20
20 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 8. NÓVEMBER 2019 þessum línum fjalla um stjórn- málaferil Birgis, sem var einarður sjálfstæðismaður frá ungum aldri, heldur þá ævilöngu vináttu sem við bundumst, ásamt eiginkonum okkar, en við kvænt- umst báðir ungir. Í þennan þrönga vinahóp bættist einnig þriðji bekkjarbróðirinn, ásamt eiginkonu, og höfum við sex hald- ið hópinn alla tíð síðan. Birgir var afar dagfarsprúður maður og þægilegur í viðmóti. Hann hafði mörg áhugamál utan stjórnmála. Var t.d. mikill knatt- spyrnuáhugamaður og hafði sér- stakan áhuga á ensku knatt- spyrnunni sem hann fylgdist með allt til dauðadags, en hann var mikill aðdáandi liðs Arsenal. Einnig var Birgir mikill áhuga- maður um tónlist og bjó yfir prýð- isgóðum tónlistarhæfileikum. Var liðtækur djasspíanisti og átti stórt og gott plötu- og diskasafn. Minnist ég ótal samverustunda þar sem við sátum og hlustuðum á hvers kyns tónlist þótt djassinn sæti þar í fyrirrúmi. Þá var hann ekki síður áhugamaður um bók- menntir og átti stórt bókasafn. Í því sambandi eru mér í minni margar stundir er við ræddum bókmenntir, ekki síst nýút- komnar bækur. Einnig minnist ég allra leikhúsferðanna sem við fórum saman vinahópurinn, en lengi áttum við áskriftarmiða í leikhúsunum. Sameiginleg ferðalög urðu mörg á langri ævi, bæði utan lands og innan. Má þar nefna veiðiferðir svo og fjölda sumar- leyfisferða víða um lönd. Vissu- lega er ofar í minni það sem nær er í tíma, svo sem heimsóknir til þeirra hjóna Birgis og Sonju til Flórída, þar sem þau áttu sér at- hvarf á efri árum. Margar fleiri minningar um vinatengsl okkar á langri ævi geymi ég í hugskoti mínu meðan mér endist líf og heilsa. Birgir var mikill gæfumaður í sínu einkalífi og átti góða og glæsilega eiginkonu, Sonju, sem kvödd var hinstu kveðju í október sl. Saman stóðu þau hjón vörð um stóra og stækkandi fjölskyldu, en Sonja var framúrskarandi móðir og húsmóðir. Að leiðarlokum kveðjum við Esther góðan vin með söknuði um leið og við vottum öllum af- komendum, svo og tengdabörn- um þeirra hjóna, okkar dýpstu samúð. Þorsteinn Júlíusson. Góður vinur, Birgir Ísleifur Gunnarsson, er til moldar borinn í dag. Ég leit við hjá honum fyrir hálfum mánuði rúmum þar sem hann lá á líknardeildinni í Kópa- vogi. Þar áttum við gott spjall og vorum ekkert að flýta okkur. Hann sagðist vera þreyttur en verkjalaus og hann vissi að hverju stefndi og gat orðið hve- nær sem var. Mér virtist hann sáttur við að kveðja þennan heim, nýbúinn að missa sína góðu og fallegu konu, Sonju Backman, og ekki eftir neinu að bíða. Hann hafði ekki einu sinni getað fylgt henni til grafar, heldur fylgdist með jarðarförinni í sjónvarpi. Það hefur verið þung raun, það fann ég. Við Birgir Ísleifur þekktumst síðan við vorum í menntaskóla ungir sveinar í Heimdalli. Hann var nokkru eldri en ég og ég fann þá þegar að af honum var mikils að vænta. Hann var prúðmann- legur í framkomu, rökfastur og fylginn sér í málflutningi og bjó yfir léttum húmor. Ég hef raunar tekið eftir því að svo er oft um góða músíkanta, hvort sem það er djass eða klassík nema hvort tveggja sé, að þeim eru öguð vinnubrögð eðlileg og svo var um Birgi Ísleif. Það kom engum á óvart að þegar á unga aldri skip- aði hann sér í forystusveit Sjálf- stæðisflokksins og naut þar mik- ils trúnaðar og óskoraðs trausts sem borgarstjóri, alþingismaður og ráðherra og síðar seðlabanka- stjóri. Þegar Geir Hallgrímsson lét af formennsku í Sjálfstæðis- flokknum kaus ég Birgi Ísleif sem arftaka hans. Það var létt yfir þessu síðasta spjalli okkar Birgis Ísleifs. Við náðum vel saman eins og jafnan og fórum yfir söguna í grófum dráttum, ræddum menn og mál- efni eins og gamlir stjórnmála- menn gera. Og Birgir Ísleifur hafði orð á því að okkur hefði aldrei greint á, sem er rétt. Þess vegna var hreinskilni og heiðríkja yfir þessari stund sem ég leit ekki á sem kveðjustund af því að ég ætlaði að koma aftur von bráðar. Við áttum svo margt ótalað. En Birgir Ísleifur kvaddi áður en svo gat orðið. Með honum fór góður drengur og öndvegismaður. Guð blessi minningu hans og Sonju. Halldór Blöndal. Ég hygg að Birgir Ísleifur hafi slegið nokkurn varnagla gagn- vart mér þegar fundum okkar bar fyrst saman í bankaráði Seðla- banka Íslands árið 1994, en þá var ég skipaður formaður þess. Sjálfur hafði ég verið nokkuð áberandi í þjóðlífinu og var mat samtíðarmanna á mér sannarlega ekki einhlítt. Ég var heldur ekki laus við vott af tortryggni í hans garð. Hann var fyrrverandi borgar- stjóri og menntamálaráðherra, en ég var fullur efasemda um hve heppileg sú ráðstöfun væri að gera fyrrverandi stjórnmálafor- ingja að bankastjóra Seðlabank- ans. Taldi að forystumenn í stjórnmálum væru ekki endilega þeirrar gerðar sem þyrfti til þeg- ar ákvarðanir væru teknar um gengi eða stöðugleika í peninga- málum. Þetta álit mitt reyndist ófullkomið þar sem Birgir Ísleif- ur átti í hlut. Á þeim tíma var samstarf bankaráðsformanns og formanns bankastjórnar allnáið. Fundum okkar bar því nokkuð oft saman. Frá því er skemmst að segja að samstarf okkar varð far- sælt. Ég fékk það á tilfinninguna að sá varnagli sem hann kann að hafa slegið gagnvart mér hafi lin- ast með tímanum. Mér varð það skjótt ljóst að þarna fór maður sem vandaði sig að megni og kast- aði ekki til höndunum þegar ákvarðanir voru teknar. Ég geri ráð fyrir því að störf og ábyrgð bankastjóra og bankaráðs Seðlabankans hafi breyst undan- farna áratugi. Fjármálaumhverf- ið hefur umturnast og þar með verksvið og starfsumgjörð bank- ans. Eflaust er nú í fleiri horn að líta en meðan gengi krónunnar var bundið sérstökum ákvörðun- um, verðbréfahöndlun í barna- skónum og fjármálahreyfingar landa á milli ekki fullkomlega frjálsar. Á starfstíma Birgis var endanlega losað um nánast öll höft og gengi krónunnar gefið frjálst. Í framhaldi af því hófst hrunadansinn. Þetta fjármála- frelsi var ríkjandi fjármálaspeki í mörgum vestrænum löndum. Það hafði hömluleysi í för með sér. Við vorum öll vanbúin að þekkingu og reynslu til að glíma við þessar gjörbreyttu aðstæður. Þar dugði ekki vandvirkni Birgis þótt mik- ilvæg væri. Í þessu nýja framandi fjármálaumhverfi ríktu hnatt- rænir meginstraumar sem bornir voru uppi af pólitískri hagfræði sem lagði línurnar þegar pen- ingastefnan var ákveðin. Fram- haldið er þekkt. Á milli okkar Birgis Ísleifs þró- aðist gott persónulegt samband. Fundir okkar voru alltaf þægileg- ir og ánægjulegir. Þegar hist var í vinnuferðum eða af öðru tilefni var einn af föstum dagskrárliðum að Birgir Ísleifur settist við pí- anóið og tók smá djasssveiflu öll- um til mikillar ánægju. Hann létti alltaf lund okkar. Tíminn sem ég starfaði með Birgi Ísleifi og þeim seðlabankamönnum er mér minn- isstæður og þegar honum lauk var söknuður í huga mér. Fráfall Birgis minnir mig enn sterklegar á að þessu ánægjulega tímabili ævi minnar er óumflýjanlega lok- ið. Það daprar mig. Að leiðarlok- um eru mér þakkir efst í huga fyrir farsælt samstarf og ánægju- leg kynni okkar Birgis Ísleifs. Samúð okkar hjóna er hjá af- komendum hans. Þröstur Ólafsson. Fyrir meira en fimmtíu árum hittumst við nokkrir ungir sjálf- stæðismenn til að ræða stöðu Sjálfstæðisflokksins. Allir vorum við virkir þátttakendur í Heim- dalli og Sambandi ungra sjálf- stæðismanna. Mikið rót var í stjórnmálunum á þessum tíma og róttækar stefnur í tísku. Á auka- þingi SUS haustið 1968, þegar Birgir Ísleifur Gunnarsson var formaður SUS, kom fram óánægja með forystu flokksins, rætt var um „flokksræði“ og þess m.a. krafist að prófkjör yrðu við- höfð í ríkari mæli. Það var í þessu andrúmslofti sem við stofnuðum Miðvikudagsklúbbinn og höfum hist allar götur síðan hálfsmán- aðarlega á veturna. Fyrstu árin hittumst við á miðvikudögum en í langan tíma hafa fundirnir verið á föstudögum án þess að nafn klúbbsins breyttist. Í tímans rás hafa umræðuefnin breyst og dag- skráin opnast fyrir nýjum áhuga- málum en vináttuböndin eru allt- af jafn traust. Elstur í þessum hópi var Birg- ir Ísleifur Gunnarsson, sem var borgarfulltrúi og formaður SUS þegar Miðvikudagsklúbburinn varð til. Honum hefur verið treyst fyrir mörgum ábyrgðar- störfum á lífsleiðinni. Hann var borgarfulltrúi, borgarstjóri, al- þingismaður, menntamálaráð- herra og loks seðlabankastjóri auk þess sem hann gegndi fjölda annarra trúnaðarstarfa. Öllum störfum sínum sinnti Birgir af al- úð og dugnaði. Hann var laus við tildur, barst lítt á og skaraði ekki eld að sinni köku. Hann var fag- urkeri, sinnti listum og bók- menntum og las mikið. Frá unga aldri lék hann á píanó og við minnumst með ánægju stunda þegar hann lék af innlifun verk djassmeistaranna. Birgir Ísleifur veiktist fyrir nokkrum árum og var lengi ljóst hvert stefndi. Af æðruleysi beið hann þess að kallið kæmi. Fram á síðasta dag fylgdist hann vel með og ræddi málin með þeirri íhygli sem einkenndi hann alla tíð. Þeg- ar Sonja, eiginkona hans, veiktist og lést hinn 5. október sl. eftir stutta banalegu var hann strax reiðubúinn til endurfunda við hana. Þau kynntust á unglingsár- unum og voru ávallt afar sam- rýnd og samhent. Við, félagarnir í Miðvikudags- klúbbnum, kveðjum samherja og kæran vin. Við þökkum fyrir öll samskiptin og minnumst hans með hlýju og virðingu. Börnum, tengdabörnum og barnabörnum vottum við okkar dýpstu samúð. Björgólfur Guðmundsson, Eggert Hauksson, Friðrik Sophusson, Jón Magnússon, Ólafur B. Thors, Páll Bragi Kristjónsson, Pétur Svein- bjarnarson, Ragnar Tóm- asson, Sigurður Hafstein og Valur Valsson. Ég kynntist Birgi Ísleifi Gunn- arssyni fyrst að gagni þegar ég kom aftur í Seðlabankann vorið 1991 eftir þriggja ára veru í fjár- málaráðuneytinu. Hann hafði þá í nokkra mánuði verið einn af þremur seðlabankastjórum en Jóhannes Nordal var formaður bankastjórnar. Eftir að Birgir var orðinn formaður banka- stjórnar og ég varð aðalhagfræð- ingur haustið 1994 tókst með okk- ur náið samstarf sem engan skugga bar á í þann áratug sem það varði. Það var líka á margan hátt árangursríkt. Má þar nefna hvernig tókst að komast í gegn- um gjaldeyriskreppuna 2000/ 2001, skipta úr gengismarkmiði í verðbólgumarkmið 2001 og halda verðbólgu nálægt markmiði frá því síðla árs 2002 og fram á vor 2004. Birgir var þegar þarna var komið í kringum sextugt og þeir mannkostir hans sem ég kynntist slípaðir af reynslunni. Hann var yfirvegaður í stefnumótun og átökum við verkefnin. Honum lét vel að vinna með öðrum að far- sælum lausnum mála, setti ekki sjálfan sig í fyrsta sæti og gaf öðr- um svigrúm. Hann var hófstilltur í orðum en gat sett í þau virðu- legan þunga ef á þurfti að halda. Þessir kostir nýttust Birgi vel í starfi seðlabankastjóra. Við- fangsefnin voru kannski ekki eins erfið og í aðdraganda og eftirmál- um fjármálakreppunnar. Það er hins vegar óhjákvæmilegt að erf- ið mál komi upp í flóknu starfi og á löngum ferli. Birgir fékk sinn skerf af slíkum án þess að það hafi allt komist í hámæli. Þrátt fyrir virðulegt fasið var Birgir lúmskur húmoristi og skemmtilegur á góðum stundum. Oft var þá Sonja honum við hlið og píanóið ekki langt undan. Ég minnist í þessu sambandi mót- töku í sendiráði Íslands í Wash- ington vorið 2005 sem haldin var í tilefni af vorfundum Alþjóða- gjaldeyrissjóðsins og Alþjóða- bankans. Ég sótti fundina fyrir hönd Alþjóðagreiðslubankans í Basel og Elsa var með í för. Það urðu fagnaðarfundir þegar við hittum Birgi og Sonju. Birgir var að sækja fundina í síðasta sinn og Helgi Ágústsson sendiherra flutti hjartnæma kveðjuræðu. Birgir svaraði fyrir sig með því að leika á píanóið og tilfinningin skilaði sér fullkomlega. Birgir starfaði í Seðlabankan- um í fjórtán ár og lauk þar starfs- ævi sinni. Ég þóttist skynja að Birgir hafi verið ánægðastur með þennan hluta starfsævinnar. Hann hélt tryggð við bankann eftir að hann lét af störfum. Hann mætti vel á samkomur á vegum bankans sem honum var boðið á og lék þá yfirleitt á als oddi. Sjálf- ur þakka ég fyrir það samband sem við Birgir áttum eftir að ég lét af störfum sem aðalhagfræð- ingur. Hann sótti fundi seðla- bankastjóra sem haldnir voru í Basel og kom þá stundum heim til okkar Elsu. Síðast hitti ég hann á heimili hans fyrr á þessu ári. Það var síðla eftirmiðdags og við spjölluðum margt. Hann sagði mér frá málum á sinni seðla- bankastjóratíð sem ég vissi lítið um áður. Mér þótti jafnvel enn meira til hans koma. Ég kveð mikinn höfðingja. Við Elsa vottum fjölskyldu Birgis samúð vegna fráfalls hans en einnig Sonju. Þau voru samrýnd og hún axlaði byrðar starfsins með honum. Forlögin höguðu því þannig að þau kvöddu með stuttu millibili. Már Guðmundsson. Eitt hið helsta hrós sem hægt er að sæma skipstjóra er að hann sé farsæll. Og það orð hæfir vel Birgi Ísleifi Gunnarssyni sem seðlabankastjóra. Birgir var skipaður bankastjóri árið 1991. Hann varð formaður banka- stjórnar árið 1994 – allt þar til hann lét af störfum árið 2005, eða í 11 ár. Á þessum starfstíma voru stigin mörg stór skref til nútíma- væðingar og framfara í íslenskri hagstjórn og fjármálakerfi. Hægt er að stikla á nokkrum kennileit- um. Árið 1992 var yfirdráttar- reikningi ríkissjóðs lokað hjá Seðlabankanum – sem hafði áður gefið fjármálaráðherrum heimild til þess að prenta peninga. Sama ár lækkaði verðbólgan í eins stafs tölu – í fyrsta skipti í áratugi. Árið 1993 var síðan formlegum gjald- eyrismarkaði komið á – sem batt enda á gengisfellingar er áður þekktust. Og ári síðar voru höft á fjármagnshreyfingum við útlönd afnumin – sem upphaflega var komið á árið 1931. Það gerðist í tengslum við inngöngu Íslands á evrópskt efnahagssvæði. Árið 1998 var síðan komið á nútíma- legum millibankamarkaði – sem gaf Seðlabankanum svigrúm til þess að beita stýrivöxtum. Síðast en ekki síst fékk Seðlabankinn sjálfstæði til þess að framfylgja peningastefnu sinni árið 2001 – samhliða upptöku verðbólgu- markmiðs. Birgir hafði m.a. með alþjóðleg samskipti Seðlabank- ans að gera, hann var virtur með- al kollega sinna erlendis og á starfstíma hans batnaði lánshæfi ríkissjóðs. Innanlands varð hann eiginlega að ímynd stöðugleikans í huga almennings með fram- komu sem einkenndist af festu og hógværð. Hugmyndir, hvatar og frum- kvæði að þessum umbótum komu vitaskuld ekki aðeins frá Seðla- bankanum sjálfum – hér komu t.d. margar ríkisstjórnir að verki auk þess sem samningurinn um evrópskt efnahagssvæði skipti miklu. Það breytir því þó ekki að það var undir forsjá Birgis Ísleifs Gunnarssonar sem þeim var hrundið í framkvæmd. Hann starfaði alls með átta öðrum bankastjórum á þessum tíma og naut þess frábæra starfsfólks sem Seðlabankinn hafði á að skipa. Sá Seðlabanki sem hann yfirgaf þegar hann lét af störfum var gerólíkur þeim sem hann gekk inn í árið 1991. Birgir var einstaklega dagfars- prúður og lipur í allri umgengni og samskiptum við starfsfólk og miðlaði af reynslu sinni og kunn- áttu af hógværð og með vinsam- legum ábendingum. Hann var mildur stjórnandi – þó líka fastur fyrir og ákveðinn þegar þess var þörf. Hann naut bæði vinsælda og virðingar innan bankans. Orð hans höfðu alltaf þyngd. Birgir og eiginkona hans, Sonja Backman, héldu alla tíð góðum tengslum við Seðlabankann eftir að Birgir lét af störfum og á meðan þau höfðu heilsu til. Ég vil fyrir hönd Seðlabankans og starfsfólks hans þakka Birgi fyrir ákaflega vel unnin störf í þágu bankans og votta ættingjum hans innilega samúð. Ásgeir Jónsson. Fallinn er frá maður sem vald- ist til forystu í íslensku samfélagi. Borgarstjóri, menntamálaráð- herra og seðlabankastjóri, en líka tónelskur djassisti og traustur vinur. Birgi Ísleifi kynntist ég er ég réðst til starfa í Seðlabanka Ís- lands. Það var ljóst hverjum sem hitti hann að þar færi afar vand- aður maður. Maður sem væri annt um virðingu bankans og legði ómælda áherslu á vandaða starfshætti. Þegar hann talaði var hlustað. Á móti kunni hann að hlusta á aðra og sýna samstarfs- fólki virðingu, bæði í orðum og gjörðum. Seðlabankastjóratíð Birgis Ís- leifs var stórmerkileg. Í hans tíð var verðbólgumarkmið tekið upp formlega, sem skilgreint stöðugt verðlag með 2,5% verðbólgu á tólf mánuðum, fjármálastöðugleika- svið sett á laggirnar og öll útgáfu- mál Seðlabankans bætt, svo þau yrðu sambærileg því sem best þótti erlendis. Útgáfumálin vöktu reyndar athygli út fyrir land- steinana, þar sem hagfræðingar lofuðu bankann fyrir útgáfu þjóð- hagsspár, peningamála, fjármála- stöðugleika, hagvísa og annarra greina sem voru mikilvægar fyrir hagkerfi Íslands. Birgir Ísleifur lagði ríka áherslu á að rækta samskiptin við alþjóðahagkerfið og naut sín á vettvangi Alþjóðagjaldeyris- sjóðsins, sem fulltrúi Norður- landa- og Eystrasaltsríkja. Þar naut hann mikillar virðingar og trausts meðal seðlabankastjóra, enda var nærveran einstök og framkoman fáguð. Orðspor hans í menntamálaráðuneytinu er sam- bærilegt, þar sem hann þótti grandvar og vinna sitt starf ein- staklega vel. Á stuttum skipunar- tíma, frá árinu 1987 til 1988, lagði hann m.a. fram frumvörp sem urðu að lögum um framhalds- skóla, lögum um Kennaraháskóla Íslands og lögum um Listasafn Íslands. Ég varð þeirrar gæfu aðnjót- andi snemma á ferlinum að vinna og fylgjast með Birgi Ísleifi. Einnig var ég gæfurík að kynnast konu Birgis Ísleifs, Sonju Back- man, sem er nýfallin frá. Hún var einstök; hlý og hyggin. Um- hyggja þeirra hjóna fyrir fjöl- skyldu sinni og stolt var eftirtekt- arverð. Þau lögðu mikla áherslu á mikilvægi fjölskyldunnar og sam- band þeirra var fallegt. Sonja og Birgir lifðu fyrir að auðga sam- félagið sitt, hvort sem það var á sviði hagstjórnar, menningar- eða menntamála. Ákveðin töfrastund varð til þegar Birgir Ísleifur settist við píanóið og spilaði djass. Hann vissi allt um djass og hafði mikil áhrif á samferðafólk sitt í þeim efnum eins og fleirum. Ég þakka Birgi Ísleifi fyrir traustið og ferðalagið. Minning um góðan mann lifir. Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningar- málaráðherra. Birgir Ísleifur Gunnarsson Birgir Ísleifur borgarstjóri á hverfafundi Laugarnes- og Langholtshverfis árið 1978.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.