Morgunblaðið - Sunnudagur - 10.11.2019, Qupperneq 17
byrjun. Ráðherrann sá varð að biðjast afsökunar í
bak og fyrir á særandi ummælum sínum og láta sig
því næst hverfa í skammarkrók fram yfir kosningar.
Næst barst tilkynning um að annar ráðherra úr
aðalkjarna ríkisstjórnarinnar væri grunaður um að
hafa stuðlað að eða hafa vitað um tilburði til að hylma
yfir staðreyndir sem tengdust nauðgunarmáli sem
væri í meðferð í dómskerfinu. Sá sendi í ofboði bréf til
Borisar og tilkynnti afsögn sína sem stæði að minnsta
kosti á meðan fyrrgreindar meintar ávirðingar væru
rannsakaðar sem ráðherrann tók fram að hann væri
alsaklaus af.
Fleiri mál með neikvæðum formerkjum tóku að
hrella forsætisráðherrann og flokk hans þennan
fyrripart fyrsta dags kosningabaráttunnar og of
langt upp að telja.
Stuðningsmönnum Borisar brá í brún og fannst
sem myrkur hefði skollið á um miðjan dag og kross-
festing fyrirliðans hafin og sæi ekki fyrir neinn enda.
Hjálpræði úr óvæntri átt
En þá barst skyndilega önnur frétt af allt öðrum
toga: „Varaleiðtogi breska Verkamannaflokksins,
Tom Watson, hefur sagt af sér og jafnframt tilkynnt
að hann verði ekki í framboði í kjördæmi sínu í kosn-
ingunum og hefur flokkurinn aðeins örfáa daga til að
finna frambjóðanda fyrir lok framboðsfrests.“ Í einni
svipan sópuðust öll vandræði Borisar undir þykkt
teppi og laghentir menn munduðu hamrana til að
krossfesta Corbyn.
Þekkt örlög í Verkamannaflokki
Hver var að japla á að vika væri langur tími í pólitík?
Hálftími eða minna er augljóslega hellingur.
Tom Watson var ekki einungis varaformaður
flokksins síns svo notuð sé íslensk skilgreining. Hann
var þungavigtarmaður þar og með lykilspil á hendi.
Og þar skipti mestu að hann var leiðtogi þeirra sem
komust næst því að flokkast sem borgaraleg öfl innan
Verkamannaflokksins. Fólkið sem var tilfinningalega
tengt Blair og horfir enn í hillingum til ótrúlegra
sigra hans í þrennum kosningum frá 1997 og síðar og
horfir um leið til með hryllingi til Corbyns og þykir
hann vera langt handan við þau mörk að teljast tæk-
ur sem leiðtogi.
Corbyn er sagður vinstrisinnaðasti leiðtogi í nú-
tímasögu Verkamannaflokksins og er þá Michael
Foot talinn með. Árið 1981, í formennskutíð Foots,
var miðjan í Verkamannaflokknum búin að fá upp í
kok og braut sig út og stofnaði krataflokk með fullu
viti. Var sá flokkur undir forystu David Owen, Roy
Jenkins og Shirley Williams sem töldust áður til
framvarðarsveitar Verkamannaflokksins. Náði nýi
flokkurinn verulegu fylgi í könnunum en það stóð
fremur stutt. En Foot var talinn með einstrengings-
hætti sínum hafa lagt grundvöllinn að sigurgöngu
Íhaldsflokksins undir forystu sigursælasta foringja
hans, Margrétar Thatcher.
Áhrifavaldur
Tom Watson hefur verið helsti talsmaður „lýðræð-
isarms Verkamannaflokksins“ og sagt er að hann
hafi talið drjúgan hluta þingflokksins á að umbera
yrði harðsósíalistann Jeremy Corbyn og bíða hann
hreinlega af sér. Ekki löngu eftir að sprengjufréttin
barst héldu tveir fyrrverandi þingmenn Verka-
mannaflokksins opinn blaðamannafund þar sem þeir
skoruðu á flokkssystkini sín að styðja forsætisráð-
herrann Boris Johnson í þessum kosningum því að
Jeremy Corbyn væri, sem leiðtogi, verri en óhæfur.
Hann væri, að þeirra mati, beinlínis hættulegur.
Þegar fréttir bárust af þeirri viðbót við brottför
Watsons úr flokknum sögðu fjölmiðlar, hlynntir
Verkamannaflokknum, að þarna glitti óneitanlega í
saman tekin ráð og að upplýsa yrði hverjir hefðu
kostað hinn opna fund og þau auglýsingaspjöld sem
voru bakgrunnur á fundinum. Slíkt þurfi tíma og fé
til að hanna og útbúa. En skaðinn var skeður, hvað
sem þessum vangaveltum leið.
Fréttaskýrendur af öllum köntum voru sammála
um að þeir þekktu ekki til dæma úr nýlegri sögu
landsins um að háttsettur ráðherra segði sig úr rík-
isstjórninni í upphafi kosninga og að samdægurs
bærust fréttir úr herbúðum andstæðinganna sem
næðu að toppa þau ósköp og gera gott betur.
Aðstoðarritstjóri Daily Mail sagði að þeir íhalds-
menn sem væru yfirlýstir guðleysingjar þyrftu held-
ur betur að skoða sín mál á ný því að varla hefði
nokkur annar en guð almáttugur verið í færum um að
senda þeim Tom Watson svo hratt og óvænt á stund
neyðar og örvæntingar.
Niðurstaða að hætti hússins
Skoðanakannanir sýna Íhaldsflokkinn enn í álitlegri
stöðu þótt nokkuð hafi dregið saman með stóru flokk-
unum tveimur síðustu daga. En ítrekað er bent á að
kannanir um fylgi á landsvísu segja fjarri því alla
söguna vegna breska kosningakerfisins sem flokkar
nýti sér nú eða misnoti í ríkari mæli en áður til að
gera bandalag í kjördæmum til að nýta til fulls at-
kvæði þeirra sem vilja vera áfram í ESB, hvað sem
tautar eða raular. Og eins sé enn á huldu hversu mik-
ið fylgi Nigel Farage kann að hafa af stóru flokk-
unum og þá einkum af flokki Borisar sem hefur fram
að þessu algjörlega afþakkað allt samkrull við flokk
Farage, hvað sem ráðleggingum Trumps vinar hans
líður.
Á sambærilegu augnabliki orðaði stjórnmálafræð-
ingurinn dr. Ragnar Reykás, cand. sjúr, þetta svona:
„Staðan er sem sagt mjög flókin og óljós, þótt hún sé
að öðru leyti gagnsæ og útkoman blasi við hverjum
manni, nema glöggt sé skoðað.“
Bréfritari heldur að þetta kunni að vera rétt hjá
Ragnari nema síður sé, sem Ragnar er augljóslega
ekki.
Morgunblaðið/RAX
10.11. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17