Morgunblaðið - 20.12.2019, Page 27
miður yfirleitt ekki satt. En
stundum. Einn þeirra fáu sem
þetta á við var Helgi Seljan. Aldr-
ei man ég eftir því að hann hafi
sett sig framan við aðra í pólitísk-
um mannjöfnuði. Hann var
óvenju vandaður og traustur liðs-
félagi.
Hann sóttist eftir því að hafa
áhrif í þágu málstaðar en ekki
eftir upphefðinni; hann var sósí-
alisti.
Þegar við Guðrún komum
heim úr útlegðinni þá var Helgi
mættur á samkomum Eldri
vinstri grænna þar sem hann
sagði sögur, skemmtisögur og
þar hlífði hann ekki sjálfum sér ef
það lá beint við. Skemmtilegur.
Með þessum línum flyt ég
þakkir fyrir að hafa átt Helga að
félaga.
Samúðarkveðjur flyt ég Jó-
hönnu og niðjum þeirra öllum
fyrir hönd okkar Guðrúnar.
Svavar Gestsson.
Árið 1983 varð talsverð endur-
nýjun í stjórn Öryrkjabandalags
Íslands. Jafnframt urðu talsverð-
ar breytingar á vinnubrögðum og
tóku stjórnarmenn að sér ýmis
mál sem þeir sinntu vel.
Fljótlega varð ég þess var að
einn þingmaður öðrum fremur
sendi okkur erindi sem snertu
málefni fatlaðra. Það örlaði ögn á
pirringi hjá mér yfir því að þing-
maðurinn skyldi ekki vinna
heimavinnuna sína. Ég varð þess
fljótt áskynja að heimavinnan
hlyti að lenda á þeim sem stóðu
málaflokknum næst.
Þetta var Helgi Seljan, atorku-
samur þingmaður, vinsæll í öllum
flokkum þótt hann væri í Alþýðu-
bandalaginu. Stjórn Öryrkja-
bandalagsins taldi honum til
tekna hvað hann héldi okkur vel
við efnið.
Á aðalfundi Öryrkjabanda-
lagsins árið 1986 tilkynnti for-
maður mér í upphafi fundar að
hann segði af sér því að undir-
búningur Lottósins væri í há-
marki og yrði hann að sinna því.
Ég varð því formaður mun fyrr
en búist hafði verið við.
Stjórn Öryrkjabandalagsins
var um þetta leyti önnum kafin
við stefnumótun og eftir að samn-
ingar höfðu náðst um skipti tekn-
anna frá Íslenskri getspá milli
bandalagsins og hússjóðs var
augljóst að bandalagið gæti tekið
að sér frekari þjónustu við félög-
in.
Um svipað leyti varð Helgi á
vegi okkar og kom þá í ljós að
hann var atvinnulaus. Var ég
spurður hvort ég ætlaði ekki að
ráða hann til starfa.
Eftir að hafa rætt málið í
stjórninni var ákveðið að bjóða
Helga Seljan stöðu hjá bandalag-
inu. Skyldi fylgja henni stofnun
tímarits bandalagsins og yrði
hann jafnframt upplýsinga-
fulltrúi.
Samþykkt var að Ólöf Rík-
arðsdóttir, vinkona hans og sam-
flokksmaður, bæri honum þessi
boð. Tók hann því vel og var
gengið frá starfssamningi.
Starf Helga varð afar farsælt.
Hann átti auðvelt með að vinna
með fólki, leysti greiðlega úr
vanda fjölmargra einstaklinga og
kom málum þeirra áfram á ýms-
um stöðum.
Jafnframt stýrði hann blaði
bandalagsins og mótaði þá stefnu
sem það fylgdi fram yfir aldamót-
in.
Árið 2000 var leitað til mín um
að ég tæki við framkvæmda-
stjórn bandalagsins, en Helgi
hugðist hætta þá um áramótin.
Kom ég til starfa í desember það
ár og naut handleiðslu hans fram
til áramóta.
Á þessum tíma var talsverð
ásókn í að Öryrkjabandalagið
styrkti alls konar málefni. Sem
dæmi má nefna að maður nokkur
hafði fest kaup á gömlu skólahúsi
og gat ekki greitt fyrstu útborg-
un nema einhver tæki það á leigu
og stofnaði til sumardvalar. Kom
það í hlut undirritaðs að hafna
þessari beiðni.
Helgi var mér sammála þegar
ég sagði honum frá málinu og hló
þegar ég greindi honum frá því
hver kveðjuorð skólakaupandans
urðu: „Ég sakna innilega forvera
þíns, Helga Seljan.“
Helgi var stundum skemmti-
lega snöggur og í þetta sinn svar-
aði hann: „Andskotans maðurinn!
Heldur hann að ég sé einhver
gólftuska!“
Nú þegar Helgi er genginn al-
mættinu á vald eru honum þökk-
uð margvísleg áhrif og öll þau
málefni sem hann greiddi fyrir.
Eiginkonu hans, börnum og
skylduliði votta ég mína dýpstu
samúð.
Arnþór Helgason.
Við viljum í fáeinum orðum
minnast Helga Seljan, heiðurs-
félaga MS-félagsins.
Helgi Seljan var sérstakur vel-
unnari félagsins ásamt því að
sitja í laganefnd félagins um
margra ára skeið. Um hann má
segja að hann var einstaklega
bóngóður og gott að leita til um
stuðning og ráðgjöf í hinum ýmsu
málum.
Hann var gerður að heiðurs-
félaga á afmælishátíð félagsins
27. september 2008.
Eftirlifandi konu Helga, Jó-
hönnu Þóroddsdóttur, og börn-
um þeirra sendum við innilegar
samúðarkveðjur og þökkum
Helga innilega áratuga sam-
vinnu, hjálpsemi og hlýhug í garð
félagsins.
MS-félag Íslands,
Berglind Ólafsdóttir,
framkvæmdastjóri.
„Því óneitanlega er það örlítið
betra, að unnt sé að segja, að
gagn sé gert, að ekki sé til einskis
unnið.“
Svo skrifaði þá nýráðinn fé-
lagsmálafulltrúi Öryrkjabanda-
lagsins, Helgi Seljan, í fyrsta
tímarit bandalagsins árið 1988
sem kom út undir heitinu Frétta-
bréf Öryrkjabandalags Íslands.
Helgi hóf störf hjá bandalaginu í
lok árs 1987 sem félagsmála-
fulltrúi og ritstjóri fréttablaðsins.
Hann varð síðar framkvæmda-
stjóri 1998 þar til hann lét af
störfum vegna aldurs í lok árs
2000.
Helgi var bandalaginu happa-
fengur. Var hann sérlega góður í
samstarfi og samskiptum. Tók
öllum vel sem komu í viðtal til
hans á skrifstofu ÖBÍ og vildi allt
gera sem mögulegt var, enda
baráttumaður með mikla réttlæt-
iskennd.
Hann var vinamargur og þá
skipti engu máli hvar þeir stóðu í
stjórnmálum. Aldrei talaði Helgi
illa um nokkurn mann en ef hon-
um mislíkaði eitthvað hnussaði í
honum.
Hann var léttur í lund, stutt í
grínið en hann gat einnig verið
ákveðinn og röggsamur ef því var
að skipta. Eitt af fyrstu verkefn-
um Helga var að gefa út frétta-
bréfið og var það gert af mynd-
arskap enda var eitt af lífsgildum
hans að ganga í verkin strax og
klára þau.
Áralöng þingmennska kom sér
vel í störfum Helga en sem þing-
maður hafði hann látið til sín taka
þegar kom að málefnum fatlaðs
fólks og öryrkja. Það kom ber-
lega í ljós þegar hann tók hús á
þingmönnum. Þá hafði hann það
til siðs að bera aldrei upp erindið
beint.
Fyrst þurfti að ræða um sam-
eiginlega kunningja og ættir, og
svo uppteknir voru flestir að
hlusta á Helga að þeir urðu þess
vart varir þegar erindið var svo
loks borið upp.
Hann þótti enda orðheppinn
mjög, kastaði reglulega fram
stökum og málsnilld hans naut
sín einkar vel á síðum fréttabréfs
ÖBÍ.
Þar skrifaði hann reglulega
pistla og greinar og við leyfum
okkur að grípa niður í eina slíka.
„Það verður ekki rifjað upp
hér hvernig misskipting góðæris-
gróðans hefur verið, hversu þeir
betur settu með aðstöðuna mata
krókinn, meðan lítt hefur sést
bola á bættum hag þeirra er
skarðastan hlut bera frá borði,
þegar góðærisflóðið hefur gjarn-
an sjatnað nokkuð. Niðurskurð-
arhnífnum má og á aldrei að beita
þar sem bágast er fyrir.“
Þegar Helgi lét af störfum hjá
Öryrkjabandalaginu kvaddi hann
fulltrúa á aðalfundi bandalagsins
með þessum orðum:
Litið yfir liðna tíð
lítil eftirtekjan reynist.
Erjað mun þó ár og síð,
eitthvað bitastætt þar leynist.
Ykkar kynni mjög skal mæra,
merluð hlýju og sólaryl.
Eigið þökk og kveðju kæra,
komin eru þáttaskil.
Við þau þáttaskil sem nú eru
runnin upp viljum við hjá Ör-
yrkjabandalaginu snúa þessum
orðum upp á höfundinn sjálfan og
þakka góð kynni og störf í þágu
fatlaðs fólks og öryrkja. Aðstand-
endum færum við okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur. Gagn var
gert og ekki var til einskis unnið.
Lilja Þorgeirsdóttir,
framkvæmdastjóri ÖBÍ,
Þuríður Harpa Sigurð-
ardóttir, formaður ÖBÍ.
Látinn er heiðursmaðurinn og
bindindisfrömuðurinn Helgi Selj-
an.
Þegar IOGT var breytt úr
reglu í félag um síðustu aldamót
var sjálfgefið að leitað yrði til
Helga um formennsku í IOGT á
Íslandi fyrstu árin.
Helgi og Jóhanna voru félagar
í st. Einingunni nr. 14, en þar
lágu leiðir okkar saman í áratugi.
Helgi var einarður og rökfastur
bindindismaður og fylgdi skoðun-
um sínum fast eftir í ræðu og riti.
Stúkan hefur misst traustan fé-
laga og fremsta baráttumann fyr-
ir stefnu hreyfingarinnar. Sá var
siður stúkunnar að senda þeim
félögum sem áttu hátíðleg afmæli
ljóð og kom iðulega í hlut Helga
að semja, enda átti hann einstak-
lega gott með vandaða ljóðagerð.
Helgi samdi fjölda gamanljóða og
skemmtisögur sem gladdi þá sem
hlýddu á, hvort sem hann flutti
þau sjálfur, með öðrum eða færði
þau öðrum til flutnings. Ég naut
þeirrar hæfni hans í ríkum mæli
við dagskrárstjórn sparidaga
eldri borgara á Hótel Örk.
Helgi lagði mörgum góðum
málum lið, sat í stjórn félags eldri
borgara í Reykjavík og stjórnaði
vinsælum söngvökum við undir-
leik vinar síns Sigurðar Jónsson-
ar tannlæknis.
Helgi var í stjórn Skálatúns-
heimilisins um árabil þar sem
undirritaður starfaði við fram-
kvæmdastjórn. Helgi vakti at-
hygli fyrir skrif sín í blöð þar sem
réttsýni hans hreyfði við fólki, og
margar hlýjar minningargreinar
sýndu velvild hans til samferða-
manna.
Helgi lagði gott orð til allra,
enda vinmargur og traustur vin-
ur sem virti skoðanir, já jafnvel
stjórnmálaskoðanir annarra með
vinsemd. Helgi var vandaður al-
þingismaður og sem starfsmaður
Öryrkjabandalagsins leysti hann
vanda margra sinna skjólstæð-
inga.
Skarð er fyrir skildi er Helgi
er frá okkur farinn eftir stutta en
erfiða sjúkdómslegu. Við stúku-
félagar í IOGT þökkum dugnað
hans og forystu gegnum tíðina og
þökkum framlag hans til starf-
semi stúkunnar og dagskrár-
gerðar.
Fyrr á þessu ári gerði Helgi
tillögur um fjárhagsleg framlög
stúkunnar til nauðsynlegra verk-
efna.
Þeim tillögum hans verður
fylgt eftir á nýju ári.
Við vottum Jóhönnu konu
hans, svo og fjölskyldunni allri,
innilega samúð og biðjum þeim
blessunar.
Minningin um góðan mann lif-
ir.
Gunnar Þorláksson.
MINNINGAR 27
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 20. DESEMBER 2019
✝ Runólfur Guð-jónsson at-
hafnamaður fædd-
ist 13. nóvember
1935 í Reykjavík.
Hann lést á heimili
sínu í Innri-Njarð-
vík 12. desember
2019.
Foreldrar hans
voru Guðjón Run-
ólfsson bókbands-
meistari, f. 9. júlí
1907, d. 16. september 1999, og
Kristín María Gísladóttir bók-
bindari, f. 1. september 1908,
d. 31. ágúst 1972. Þau eign-
uðust þrjú börn, en systkini
Runólfs voru Gísli Hauksteinn
Guðjónsson, f. 12. júlí 1931, d.
12. mars 2006, og eftirlifandi
systir Margrét Guðjónsdóttir,
f. 19. ágúst 1932.
Fyrri eiginkona Runólfs var
Steinþóra Jóhannsdóttir, f. 10.
mars 1939, d. 27. apríl 2004,
þau skildu. Runólfur kynntist
síðan ástkærri eiginkonu sinni,
Inger Grétu Stef-
ánsdóttur, árið
1972, f. 6. febrúar
1937 á Siglufirði.
Þau hjónin bjuggu
lengst af í Vogum
á Vatnsleysu-
strönd og síðustu
árin í Innri-Njarð-
vík.
Runólfur lætur
eftir sig tvö upp-
komin börn, Jón
Hlíðar Runólfsson, f. 19. febr-
úar 1957, og Guðnýju Hildi
Runólfsdóttur, f. 29. október
1960. Jón er giftur Eygló Jóns-
dóttur og saman eiga þau
börnin Eyrúnu Ósk, Stein Hlíð-
ar og Sindra Hlíðar. Sambýlis-
maður Hildar er Þórður Guð-
mundsson og börn hennar eru
þau Alistair Jón Brown og
Christine Patterson. Langafa-
börnin eru átta talsins.
Útför hans fer fram frá
Innri-Njarðvíkurkirkju, í dag,
20. desember 2019, klukkan 13.
Elsku afi, við sitjum hérna
systkinin Eyrún, Steinn og
Sindri, börn Jóns, barnabörnin
þín, ásamt langafabörnunum Óla
og Ólavíu og rifjum upp allar
góðu stundirnar.
Steinn Hlíðar rifjaði upp þeg-
ar við vorum lítil og heimsóttum
ykkur í sumarbústaðinn í Gríms-
nesi, hvernig þú kenndir okkur
nöfnin á öllum fjöllunum í kring
og lést okkur segja þér svo hvað
þau öll hétu og fengum við
hundraðkall fyrir rétt svar.
Eyrún Ósk minnist þess síðan
að við fengum alltaf hundraðkall
líka fyrir að hlaupa úr heita
pottinum og þvert yfir lóðina
uppi í bústað í snjó og kulda á
sundfötunum og að grindverkinu
hinum megin svo við yrðum nú
sterk og hraust. Okkur þótti það
svo gaman og spennandi.
Sindri Hlíðar rifjar þá upp
hvað þú varst sjálfur harður
nagli og lést ekkert stoppa þig.
Þú gekkst með súrefniskút á þér
síðustu tíu árin, því lungun voru
léleg, en samt varstu alltaf að
smíða eitthvað í bílskúrnum, bát
eða hjólhýsi. Þú lést ekkert
halda aftur af þér. Og það er
ekki mjög langt síðan við stóð-
um öll þrjú og horfðum á þig
vaða út í Djúpavatn með súrefn-
iskútinn í annarri og veiðistöng-
ina í hinni og þú veiddir nokkra
silunga í veiðiferð fjölskyldunn-
ar.
Við munum einnig hvað þú
varst mikill húmoristi. Ein-
hverju sinni þegar Steinn var
unglingur bjó hann sér til ristað
brauð að morgni, með smjöri og
osti, og settist við hliðina á þér.
Þá greipstu brauðið, sleiktir það
allt og spurðir svo „ætlar þú að
borða þetta brauð?“ Þá hlógum
við mikið og Steinn eftir lét þér
brauðsneiðina.
Þú varst mikill dýravinur og
munum við ekki eftir þér öðru-
vísi en með hund eða hunda þér
við hlið. Eri, litli hundurinn ykk-
ar ömmu, vék ekki frá þér. Þeg-
ar þú lést ætlaði amma aldrei að
fá hann til að fara frá þér, hann
var svo hryggur, litla dýrið.
Hann sem geltir alltaf þegar
gestir banka upp á til að láta
ykkur vita var alveg þögull og
grafkyrr þegar alla þessa
ókunnugu gesti bar að garði
daginn sem þú féllst frá. Nú
huggar hann ömmu og passar
hana fyrir þig.
Þið amma voruð óaðskiljan-
leg. Þið gerðuð allt saman. Og
þið ferðuðust svo mikið, út um
allan heim og svo komuð þið
heim með alls konar dót sem var
ekki til á Íslandi í þá daga. Þú
varst einn af þeim fyrstu hér á
landi til að fá þér ferðasímtæki
og gekkst um allt með risatösku
með síma á.
Óli barnabarnabarnið þitt
saknar þín mikið, honum fannst
svo gaman að fá alltaf páskaegg
frá þér og svo alla þúsundkall-
ana sem þú gaukaðir að honum.
Þú varst líka svo glaður þegar
Sindri kom í heimsókn til ykkar
um daginn með myndir af Ólav-
íu litlu. Þér þótti svo vænt um
öll langafabörnin þín níu, en
Christine og Alistair, börn Hild-
ar dóttur þinnar eiga auk þess
sjö samanlagt. Og voru barna-
börnin og langafabörnin þitt
ríkidæmi.
Við söknum þín svo mikið. Við
vorum samt glöð að vita að þú
fékkst að deyja heima, í þínu
rúmi, við hlið elsku ömmu. Við
vitum að það var þér mikilvægt.
Takk fyrir allt, elsku afi, þín
barnabörn,
Eyrún, Steinn og Sindri og
langafabörn Óli og Ólavía.
Í dag kveð ég góðan og trygg-
an vin, vin til margra áratuga.
Þá góðu vináttu vil ég þakka. Að
lýsa lífshlaupi Runólfs, sem kall-
aður var Ronný, í örstuttri
minningargrein er ekki auðvelt
því með himinskautum þyrfti ég
að fara ef koma ætti ævintýra-
ferli hans eitthvað til skila.
Það sem hér fer á blað er að-
eins lítið brot af hans starfsferli
og öllum ævintýrum sem hann
upplifði í flestum heimsálfum
plánetu okkar. Fljótt kom í ljós
mikill vinnuvilji. Að skyldunámi
loknu fór hann 15 ára á togara,
af togurum á fossana. 17 ára
eignaðist hann söluturn sem
hann rak um tíma. Frá þeim
rekstri fór hann í skiparafvirkj-
anám, útskrifaðist sem skiparaf-
virki. Um leið og aldur leyfði tók
hann bílpróf, keypti vörubíl og
sótti á honum pússningarsand til
Þorlákshafnar fyrir byggendur í
Reykjavík. Ámokstur sá hann
um sjálfur með eigin handafli
með venjulegri malarskóflu. Í
tvö ár lét hann sig hafa það á
gamalli bíldruslu, án framrúðu,
gallaði sig bara vel á vetrum.
Í framhaldi gerðist hann
verktaki með vörubíla og til-
heyrandi mannskap. Kom sér
upp malbikunarstöð. Hann und-
irvann bílaplanið á Loftleiðum
og malbikaði það. Tók að sér að
fylla upp í Eyðið í Vestmanna-
eyjum með grjóti. Flutti Drápu-
hlíðargrjót af Snæfellsnesi til
Reykjavíkur. Víða annars staðar
bar hann niður.
Til Suður-Afríku flutti hann
1967. Fljótt gerðist hann verk-
taki þar, með vörubíla og til-
heyrandi mannskap. Að tveim
árum liðnum hætti hann þeim
rekstri. Tók sæng sína og kodda
og ók þvert yfir Suður-Afríku til
vesturstrandarinnar. Þar var
hann ráðinn sem aðstoðarraf-
virki á stórt flutningaskip sem
var á leið til Lundúna. Skipið
lagði af stað norður með vest-
urströnd Afríku. Margir hör-
undsdökkir menn voru um borð.
Þeir gerðu uppreisn á miðri leið
sem barin var niður með vopna-
valdi, án meiðsla. Öll áhöfnin var
sett beint í steininn er til Lund-
úna kom. Þetta var stórt mál.
Ronný var sleppt daginn eftir
enda alsaklaus og var mynd af
honum á forsíðu á einu stórblaða
Lundúna. Hann gekk af þessu
skipi og réði sig sem rafvirkja á
stórt skemmtiferðaskip sem
sigldi milli Lundúna og Rio de
Janeiro. Eftir tvær ferðir til Rio
de Janeiro réði hann sig á
norskt flutningaskip. Svo ótrú-
lega vildi til að þar vantaði að-
stoðarrafvirkja og var Ronný
ráðinn. Olsen-línan hét þessi
skipaútgerð, sem var með mörg
stór flutningaskip. Ronný sá
fljótt að margt þurfti að lagfæra
um borð, þar á meðal matarlyft-
una sem hafði verið biluð í tvö
ár. Það stóð ekki á útsjónarsemi
hans að lagfæra lyftuna. Mikil
ánægja um borð. Þetta spurðist
fljótt til höfuðstöðvanna í Nor-
egi. Eftir nokkra mánuði var
honum boðin yfirrafvirkjastaða
yfir allan flotann sem hann þáði.
Eftir það flaug hann milla
landa eftir því hvar skipin voru
staðsett hverju sinni. Þessu
góða starfi sagði hann upp og
flutti alkominn til Íslands. Fór
hann þá að framleiða sportbáta
úr trefjaplasti og framleiddi á
annan hundrað báta. Einum
slíkum báti stýrði hann til sigurs
við annan mann í hraðbáta-
keppni umhverfis Ísland 1978.
Með þessum orðum kveð ég
góðan vin. Hvíli hann í guðsfriði.
Hafsteinn Sveinsson.
Runólfur
Guðjónsson
Minningarvefur á mbl.is
Vefur þar sem er sameinað efni sem snýr að
andlátum og útförum. Þar eru birtar andláts-,
útfarar- og þakkartilkynningar sem eru að-
gengilegar öllum en auk þess geta áskrifendur
lesið minningargreinar á vefnum.
þjónustuaðila sem aðstoða þegar andlát ber
ætlaðar aðstandendum við fráfall ástvina.
www.mbl.is/andlát
Minningar
og andlát