Morgunblaðið - 20.12.2019, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 20.12.2019, Blaðsíða 38
38 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 20. DESEMBER 2019 Árás á Borginni Það gerðist snemma árs 1980, í febrúar, að ég varð fyrir alvarlegri árás. Fyrr um kvöldið hafði mér verið boðið á Hótel Sögu, ég man nú ekki alveg hvað um var að vera, en það var Knútur Hallsson sem bauð mér og þetta var á vegum menntamála- ráðuneytisins, kannski tengt Kvikmyndahátíð- inni. Steinunn Harðardóttir, sambýliskona mín, var á ein- hverju líffræðiballi. Það var mikill fjöldi alþingismanna þarna í Súlna- salnum og þegar ég fór á klósettið að pissa var að létta af sér í næstu skál Pálmi Jónsson landbúnaðarráðherra. Og ég sagði við hann: „Hér stendur þú með Pálmann í höndunum.“ Stein- grímur Hermannsson var þarna líka og hann átti oft eftir að segja þessa sögu og rifja hana upp, en Stein- grímur var húmoristi. Svo eftir Súlnasalinn fór ég á Hótel Borg, sem þá var mikið stundaður skemmtistaður. Það hafði verið veitt vel á Sögu og þarna á Borginni settist ég við borð með vinum og kunn- ingjum, meðal annarra Steingrími heitnum Eyfjörð Guðmundssyni bassaleikara og Birni Roth. Einhvers staðar fyrir aftan mig sat mjög reiður maður; hann sagði mér síðar að ástæðan fyrir reiði sinni hefði verið sú að hjákona hans eða viðhald sagði honum upp fyrr um kvöldið. Og hann fékk útrás fyrir reiði sína með því að berja næsta mann sem reyndist vera ég. Hann náði svaka höggi, eiginlega neðan úr gólfi sem kom aftan frá á kjálkabeinið sem brotnaði; það brotn- uðu þarna sex bein í hausnum á mér. Ég reyndi að standa upp en skall nið- ur á borð, en maðurinn þusti burt. Hann starfaði við erfiðisvinnu og var sterkur þótt ekki væri hann sérlega stór. Örn Clausen lögfræðingur hans sagði síðar við mig að sér hefði þótt líklegra að ég berði hann en öfugt. Ég gekk svo út á lögreglustöð sem þá var í Tollhúsinu við Tryggvagötu, ásamt Steingrími Eyfjörð Guð- mundssyni, og ætlaði að kæra mann- inn. Þar var fyrir gamall varðstjóri og hann greip það ráð að láta stinga mér inn í fangaklefa. Ég var auðvitað blóðugur og illa til reika, auk þess að vera æstur og síðhærður sem göml- um varðstjórum líkaði ekki. Inni í klefanum var ég alveg að drepast, sársaukinn var hroðalegur og jókst stöðugt, hausinn bólgnaði æ meir og blóðið spýttist út. Ég reyndi að kalla á hjálp en því var ekki sinnt. Þarna var ég þar til æskuvinur minn úr Stórholtinu, Sigurbjörn Ás- geirsson, fór rúntinn og leit inn í fangaklefana. Hann keyrði mig akút í lögreglubílnum á slysadeildina. Þar var ég lagður inn og þar lá ég næstu þrjá mánuðina illa haldinn. Læknarn- ir byrjuðu á að stoppa blæðinguna og settu mig svo á deyfilyf. Lækning- arnar fólust annars í því að kvölds og morgna var klippt á bláæð sem var föst inni í einhverju kinnbeinsbroti og olli miklum þrýstingi. Þetta var auðvitað eftirminnileg sjúkrahúslega. Ég var á sex manna stofu og þar af höfðu háls-, nef- og eyrnalæknar umráð yfir þremur rúmum; þau voru ætluð mönnum sem voru að koma í ennisholuhreinsun. Þetta voru mest hressir reykinga- menn úr viðskiptalífinu sem höfðu gaman af að glettast við mig þegar þeir komu inn: „Hvað er þetta Friðrik að láta fara svona með þig, geturðu ekki barið frá þér?!“ En svo fóru þeir í aðgerðina sem var þannig að ein- hverjum tveimur metrum af grisju var troðið inn í ennisholurnar, og svo var grisjan dregin aftur út ásamt reykingatjörunni. Það var mjög sárs- aukafullt svo þeir voru ekki jafn brattir þegar þeir komu aftur, heldur lágu vælandi á meðan konurnar stumruðu yfir þeim. Það var einn morguninn meðan ég lá þarna að það kom inn heljarmikill hópur á stofugang og raðaði sér kringum rúmið mitt með mjög alvar- legum svip. Sá sem var greinilega yf- irlæknirinn settist hjá mér og spurði með mikilli elskusemi hvernig ég hefði það. Ég bar mig nú bara sæmi- lega, eins og ég er vanur. Þá segir hann að oft verði menn fyrir nokkru áfalli að vakna upp í fyrsta skipti eftir svona aðgerð. Ég var hættur að skilja hvað væri í gangi. Hann bætti við að menn hefðu tilfinningu í honum ein- hvern tíma eftir að hann hefði verið tekinn, svo að mér rann kalt vatn á milli skinns og hörunds og þreifaði svona á mínum prívat pörtum. Svo fer læknirinn að athuga með vinstri fótinn á mér og eitthvað vekur honum greini- lega furðu. Afgangurinn af hópnum stendur gapandi, en loks láta allir sig hverfa og ég er beðinn afsökunar á ónæðinu. Ég fékk engan botn í málið fyrr en ég síðar um daginn frétti að í sama rúmi í næstu stofu lægi ungur maður sem þeir höfðu tekið af fótinn um nóttina. Meira frá bókarhöfundi um kvik- myndina (Djöflaeyjan: Þegar handritið átti loks að heita klárt og peningamálin voru komin í höfn átti framleiðslan sér þó enn nokkuð langan aðdraganda – það þurfti meðal annars að byggja leik- myndina, braggahverfið, næstum ári áður en tökur hófust svo það yrði orðið sæmilega ryðgað og veðrað þegar far- ið yrði inn með leikarana og mynda- vélarnar. Það var Ari Kristinsson tökumaður sem þá rak jafnframt framleiðslufyrirtækið, Íslensku kvik- myndasamsteypuna, sem dreif í því að láta byggja hverfið á meðan Friðrik var á ferðalögum út og suður um heiminn. En þegar allt var tilbúið og ekki eft- ir neinu að bíða var eins og Friðrik ætti bágt með að koma sér að verki; það er erfiður og slítandi prósess að hella sér út í að stýra stórri bíómynd og fylgja henni á leiðarenda og við Ari fengum á tilfinninguna að Frikki væri í vandræðum með að koma sér upp í rétta stuðið. Alltaf sagðist hann ætla að bretta upp ermarnar og vaða í verkefnið þeg- ar hann kæmi heim úr næstu utan- landsferð, en þegar þar að kom reynd- ist alltaf einhver önnur nauðsynleg útlandareisa verða að klárast fyrst, og svona gekk það vikum saman. Það er sífellt verið að halda kvikmyndahátíðir um allan heim og Friðrik var mjög eft- irsóttur sem gestur eða dómnefnd- armaður eða eitthvað. Og það hugboð varð áleitið að þegar hann nennti ekki að takast á við erfið og aðkallandi verkefni þá blaðaði hann einfaldlega í gegnum póstinn sinn, veldi skemmti- lega hátíð á góðum stað og væri kom- inn upp í flugvél til að dvelja á hóteli og eyða deginum í bíósýningar og kokteilpartí næstu vikuna. Vert er þess að geta að þegar þetta er rifjað upp aftekur Friðrik með öllu að það hafi verið á honum hik eða ein- hver verkkvíði, hann hafi einfaldlega ekki viljað byrja fyrr en allt væri örugglega tilbúið. En hvað sem því líður þá höfðum við Ari áhyggjur af þessu þá. „Maður skilur hann að sumu leyti vel,“ sagði Ari Kristins, „hefurðu séð draslið heima hjá honum?! Ég myndi sjálfur vera fljótur að þiggja boð um að gista á hóteli ef þetta væri svona hjá mér!“ Friðrik og Hera höfðu þá fyrir nokkru slitið samvistum og hún var flutt út úr íbúðinni, sem var ágætlega stór og rúmgóð, og þetta var áður en þau Anna María fóru að búa saman. Líklega hafði hann aldrei vanist á að það væri hans hlutverk að sinna heim- ilisstörfum og því hafði mjög sigið á ógæfuhliðina í þeim efnum. Hann eld- aði varla heldur og þegar börnin hans voru hjá honum var gjarnan pantaður heim skyndibitamatur, hamborgarar eða pizzur, og umbúðir eða leifar af slíku söfnuðust upp. Svo var stundum gleðskapur í húsinu og ekki búið að ganga frá eftir það; að auki safnaðist fyrir óhreinn þvottur af ýmsu tagi og ófrágengið úr ferðatöskum sem lágu hálfopnar hér og þar innan um furðu mikið af bikurum og styttum og alls- konar fíniríi sem var að hlaðast á leik- stjórann í reisum hans um heiminn. Í stuttu máli ægði öllu saman og yrði herkúlesarþraut að moka út úr þessu ágíasarfjósi, svo vitnað sé í fornrit. „Honum fallast hendur þegar hann kemur heim,“ sagði Ari, „og vill koma sér sem fyrst í burtu aftur. Þess vegna er hann alltaf að fresta því að byrja á myndinni. Ég er búinn að segja honum að semja við einhvern um að koma einu sinni í viku og laga til og þrífa, hann hefur leikandi efni á að borga fyrir slíkt og fullt af fólki sem munar um þannig þægilegan aukapening!“ „Og hvað segir hann við því?“ spurði ég. „Svo sem ekkert frekar en vana- lega nema kannski einhvern útúr- snúning,“ sagði Ari, „þú veist hvernig hann er. En þú ættir líka að fara og stinga upp á þessu við hann, kannski drífur hann í að gera þetta ef þrýst- ingurinn er nægur.“ Það varð úr að ég bankaði upp á hjá Frikka, gott ef það var ekki síðar sama dag. Hann opnaði og tók mér vel að vanda, vísaði mér til stofu, var sjálfur með símann við eyrað sem oft- ar. Ari hafði engu logið um það að hér þyrfti að taka til hendinni. Og þegar Frikki var búinn að bjóða upp á kók eða kaffi og við sestir til að slúðra þá herti ég upp hugann og fór með ræðu sem ég hafði verið að semja í hug- anum. Um að hann ætti að ráða ein- hvern til að koma vikulega; skóla- krakkar til dæmis myndu fegnir taka slíku djobbi og þá myndi muna um peninginn. „Líttu í kringum þig,“ sagði ég að lokum; „þú sérð að þetta er ekki hægt!“ Um það bil sem ég þagnaði hringdi farsíminn og húsbóndinn svaraði. Svo að ég fékk örlítinn frest á að heyra hver yrðu viðbrögð Friðriks; kannski yrði hann vondur og segði mér að vera í fjandanum ekki að skipta mér af því sem mér kæmi ekki við, og væri svo sem alveg í fullum rétti til þess; það er auðvitað alveg á mörkum hins siðlega að vaða óboðinn inn á heimili annars fólks og fara að móralísera um drasl þar og subbuskap. En Frikki var í símanum og greinilega að tala við einhvern vin eða kunningja, ein- hvern sem við báðir þekktum því að það mátti ráða að sá hefði spurt hvort hann væri heima og hvað hann væri að gera. „Já, ég er nú bara heima hjá mér,“ sagði Frikki. „Einar Kárason er hérna að vísu líka en það er allt í lagi; hann kemur bara alltaf einu sinni í viku og lagar til og þrífur. Ég borga honum einhvern smápening fyrir, ég hef alveg efni á því, en hann munar auðvitað um allt svoleiðis, greyið!“ Með sigg á sálinni Bókarkafli | Í bókinni Með sigg á sálinni segir Einar Kárason rithöfundur frá ævi Friðriks Þórs Friðrikssonar, allt frá bíódögum og sveitasögum bernskunnar til óskarsverðlaunatilnefningar og kynna leikstjórans af stórstjörnum af ýmsu tagi. Morgunblaðið/Eggert Bíósögur Vinirnir og samstarfsmennirnir Friðrik Þór Friðriksson og Einar Kárason.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.