Skessuhorn - 18.09.2019, Blaðsíða 19
MIÐVIKUDAGUR 18. SEpTEMBER 2019 19
þurfti að taka af henni plástur áður
en við fórum heim,“ segir Liv Åse og
brosir. „Jú, og svo grét hún stund-
um þegar það þurfti að greiða hár-
ið,“ bætir Þorkell við og hlær. Þau
höfðu verið vöruð við aukaverkun-
um af meðferðinni en segja Ólav-
íu ekki hafa fengið neinar þeirra.
„Í geislameðferð myndast þrýst-
ingur sem getur valdið ógleði, höf-
uðverk og skert jafnvægi en Ólavía
fann ekkert svoleiðis. Til marks um
hversu hress hún var þá hljóp hún
og skoppaði um allt sem varð til þess
að hún datt fyrir utan sjúkrahótelið
og handleggsbrotnaði á viku tvö,“
segir Liv Åse og brosir. Þau segja
starfsfólk á spítalanum hafa sér-
staklega tekið eftir því hversu dug-
leg og sterk Ólavía er. „Við fundum
samt alveg að hún var þreyttari og
þrekminni en áður og við þurfum
að passa vel að hún ofgerði sér ekki.
Hún er mikill stuðbolti og stopp-
ar ekki sjálf heldur þurfum við að
stoppa hana. Við fundum það í eitt
skipti þegar við vorum í geislunum
og margir höfðu komið og heim-
sótt hana yfir daginn. Hún er mik-
il félagsvera og þótti þetta rosalega
gaman en seinni partinn var hún al-
veg útkeyrð og þá sáum við að við
þyrftum aðeins að stoppa hana af.
Við þekkjum merkin og tökum
hana bara úr aðstæðum þegar hún
er að verða þreytt og hún er bara
sátt við það,“ segja þau.
Dvelja ekki við
það neikvæða
Spurð hvor Ólavía viti sjálf hvað sé
að hrjá hana segjast þau hafa útskýrt
þetta á mjög einfaldan hátt fyrir
henni. „Við sögðum að það hefði
verið kúla í höfðinu hennar sem
gerði hana veika og að kúlan væri
núna farin en við þurfum að passa
að hún komi ekki aftur. Við lásum
fyrir hana bókina Líkaminn minn
er veikur, sem er ætluð fyrir börn
með krabbamein, og í henni miss-
ir stelpan hárið. Ólavía spurði okk-
ur þá hvort hún myndi missa hárið
og við sögðum að það gæti verið.
Þá hló hún bara og sagði „þá verð
ég eins og pabbi“,“ segir Liv Åse og
horfir glottandi á Þorkel.
En hvernig eru batahorfur? „Það
er erfitt að segja. Þeir segja að þar
sem þetta náðist allt breyti það
miklu en það er rosalega erfitt að
átta sig á þessu samt því þetta þekk-
ist bara ekki hjá börnum,“ svarar
Þorkell. „Það fyrsta sem okkur var
sagt var að fara ekki á netið að leita
að upplýsingum og auðvitað hlust-
aði maður ekki á það og fór beint að
gúgla,“ segir Liv Åse. „En það gaf
okkur ekkert. Það er ekkert til um
þetta og við vitum í rauninni ekki
neitt,“ bætir hún við. Þau segjast
sjá þetta sem verkefni næstu mán-
uði sem muni enda með að Ólavía
nái sér. „Við horfum bara fram á
veginn og vitum að lífið mun snú-
ast um þetta næstu mánuði en svo
mun þetta lagast. Við getum ekk-
ert setið og hugsað um hvað sé það
versta sem gæti komið fyrir,“ segir
Þorkell. „Þetta er bara eins og allt-
af þegar maður eignast barn getur
maður endalaust hugsað út í allt
það sem gæti komið fyrir barnið en
það er ekkert hægt að lifa svoleið-
is. Maður verður bara að ýta þess-
um hugsunum til hliðar og halda
áfram. Fyrst eftir að hún greindist
hugsuðum við alveg það versta en
svo hættir maður bara að dvelja við
það og ýtir því til hliðar og horf-
ir fram á við til að geta tekist á við
þetta verkefni,“ bætir Liv Åse við.
Söfnuðu mest í
Reykjavíkurmaraþoninu
Tveimur dögum áður en Ólavía
greindist með krabbamein kom
í ljós leki í húsi fjölskyldunnar á
Akranesi. Ljóst var að ráðast þurfti
í nokkuð stórar framkvæmdir þar
sem þurfti að skipta öllu út í her-
bergi á neðri hæð og eldhúsi. „Það
kom í ljós leki í eldhúsinu og það lak
niður í herbergi stelpnanna niðri
svo þegar allt var opnað niðri kom í
ljós að sprungin lögn og sem þurfti
að gera við. Það þurfti að rífa allt úr
herberginu þeirra, svo þetta dundi
bara allt yfir okkur á sama tíma,“
segir Liv Åse. „Maður óskar engum
að standa í svona á þessum tíma,“
bætir Þorkell við. Þau segja samfé-
lagið á Akranesi þó hafa staðið þétt
við bakið á þeim og hjálp hafi bor-
ist allsstaðar að. „Við finnum fyrir
mikilli samkennd og samhug í bæn-
um og til dæmis kom Jón Bjarni
pípari til okkar óumbeðinn og bara
reddaði þessum lögnum fyrir okk-
ur og það hafa margir haft samband
og boðið fram aðstoð sína,“ segir
Liv Åse. Mekkín og Olga Katrín,
systir og dóttur Liv Åse, ákváðu að
safna fyrir fjölskyldunni í Reykja-
víkurmaraþoninu í ágúst. Söfnun-
in fór langt fram úr væntingum og
safnaði Olga mest allra einstaklinga
í hlaupinu, eða 1.400.000 krónum.
Um 90 manns hlupu til styrktar
Ólavíu og sem hlaupahópur söfn-
uðu þau mest allra hópa, samtals
3.886.000 krónum. „Hlaupið var
eiginlega hugmynd systur minnar
og systra hennar og svo fengu þær
Olgu með sér. Þær stóðu alveg fyr-
ir þessu sjálfar og við komum ekk-
ert nálægt þessu,“ segir Liv Åse.
„Eiginlega fannst manni þetta bara
óþægilegt fyrst. Maður á erfitt með
að þiggja svona hjálp,“ bætir Þor-
kell þá við og Liv Åse tekur undir.
Þakklát fyrir stuðninginn
„Eins og ein vinkona mín benti mér
á þá vitum við ekkert um framtíð-
ina og hvort við þurfum að nota
þennan pening sem safnaðist. Að
vera með svona veikt barn eins og
Ólavíu er algjör óvissa. Þetta hef-
ur kennt manni auðmýkt, þakklæti
og að kunna að taka á móti hjálp án
þess að skammast sín. Það er styrk-
ur í því að geta bara þegið aðstoð og
þakkað fyrir,“ segir Liv Åse. „Svo
benti mér líka ein á að þetta snú-
ist líka um að þeir sem standa okk-
ur nærri fái að gera eitthvað fyrir
okkur. Fólk vill hjálpa en veit ekki
hvernig og þetta er leið fyrir þá að
gefa af sér og létta undir með okk-
ur án þess að þurfa að trana sér eitt-
hvað fram. Ég veit að ég væri örugg-
lega fyrst að bjóða fram aðstoð ef
vinir mínir eða fjölskyldumeðlimir
myndu lenda í þessari stöðu og það
myndi ég gera því ég virkilega vil
aðstoða. En í þessu verkefni okkar
er lítið sem fólk getur kannski gert
og fyrir þá var þetta ein leið til að
hjálpa. Við erum gríðarlega þakk-
lát fyrir þann hlýhug og stuðning
sem við höfum fundið. Við finnum
mjög sterkt að fólk stendur þétt við
bakið á okkur og við höfum eigin-
lega verið hálf meyr í allt sumar og
bara grátið af þakklæti. Það er klárt
mál að það er kostur að búa í litlu
bæjarfélagi þegar maður gengur í
gegnum svona. Skagamenn standa
saman þegar á reynir,“ segja þau að
endingu. arg/ Ljósm. úr einkasafni
Ólavía er lífsglöð og kát stelpa sem hefur ekkert kvartað í öllu ferlinu síðustu
mánuði.
Liv Åse og Þorkell segja Ólavíu hafa mikið jafnaðargeð og láti meðferðina ekki
hafa nein áhrif á sig.
Vinir Ólavíu söfnuðu fyrir fjölskylduna í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst. Hópurinn safnaði mest allra hlaupahópa.