Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - Jan 2019, Page 20

Læknablaðið - Jan 2019, Page 20
20 LÆKNAblaðið 2019/105 S J Ú K R A T I L F E L L I var reynd nálastungumeðferð sem framkvæmd var utan spítala. Að sögn sjúklingsins var fíngerðum nálum stungið neðan við herðablöð beggja vegna, aftan við axlir, en einnig í framanverðan brjóstkassa og neðri útlimi. Strax eftir stungurnar fann hún fyr- ir mæði og takverk sem ágerðust á næstu klukkustundum. Ein- kennin héldu áfram að versna og því leitaði hún á bráðamóttöku um 7 klukkustundum eftir nálastungumeðferðina. Við lungna- hlustun heyrðust minnkuð öndunarhljóð yfir lungnatoppum beggja vegna. Öndunartíðni var 26/mín í hvíld (viðmið 12-20/mín), súrefnismettun 100% án súrefnis, púls mældist 99/mín og blóð- þrýstingur 112/73 mmHg. Á röntgenmynd af lungum sást nánast algjört samfall á báðum lungum með ívið stærra loftbrjósti hægra megin (mynd 1). Blóðrannsóknir voru eðlilegar nema hvít blóð- korn sem voru hækkuð (15,9 x109/L) og kalíum sem var lækkað (3,0 mmól/L). Skömmu eftir komu var brjóstholskerum komið fyrir í bæði fleiðruhol sem tengdir voru við sog og þöndust bæði lungu út við það (mynd 2). Degi síðar var enginn loftleki í kerunum og því var lokað fyrir þá og sá vinstri fjarlægður. Hægri kerinn var fjarlægður degi síðar. Fylgst var áfram með sjúklingnum á hjarta- og lungnaskurðdeild og hún útskrifuð heim við góða líðan þremur dögum frá komu. Við eftirlit viku síðar lét hún vel af sér og þess má geta að með- gangan gekk vel eftir þetta. Umræða Hér er lýst sjaldgæfum en lífshættulegum fylgikvilla eftir nála- stungumeðferð á brjóstholi. Svipuðum tilfellum hefur verið lýst áður þar sem bæði lungu hafa fallið saman og eru dæmi um að af því hafi hlotist dauðsföll.4,6,7 Svo fór þó ekki í þessu tilfelli, enda súrefnismettun í hvíld eðlileg þrátt fyrir mikið samfall á báðum lungum. Einungis hefur einu öðru tilfelli verið lýst þar sem þunguð kona fékk loftbrjóst beggja vegna eftir nálastungur, en þeirri meðferð var beitt vegna astma.7 Nálastungumeðferð nýtur sífellt meiri vinsælda á Vestur- löndum. Árið 2002 fóru um 1% allra fullorðinna Bandaríkjamanna í nálastungumeðferð en árið 2012 var hlutfallið um 1,5% fullorðinna Bandaríkjamanna, eða um 3,5 milljónir manna.8,9 Slíkar tölur eru ekki til hér á landi, enda nálastungur sem inngrip ekki eftirlits- skylt. Þó er ljóst að nálastungumeðferð er víða beitt hérlendis við meðgönguógleði og heilbrigðisstofnanir bjóða til að mynda upp á slíka meðferð.10 Nálastungur sem meðferð við ógleði er umdeild, enda hafa niðurstöður verið misvísandi um ágæti hennar borið saman við hefðbundna lyfjameðferð.11,12 Þannig hafa tvær slembi- rannsóknir borið saman nálastungumeðferð og svokallaða gervi- nálastungur og reyndist árangurinn svipaður.12-14 Algengustu fylgikvillar nálastungumeðferðar eru verkir á stungustað, minniháttar blæðingar og yfirborðssýkingar.15-17 Alvarlegri fylgikvillar nálastungumeðferðar eru mun fátíðari og hafa stærri rannsóknir sýnt að tíðni loftbrjósts er á bilinu frá 1/50.000 til 125.000 meðferðir.15-18 Tíðni samfalls beggja lungna eft- ir nálastungumeðferð er hins vegar ekki þekkt en ljóst er að hún er mun lægri. Sýnt hefur verið fram á að þjálfun þess sem veitir meðferðina hefur áhrif á tíðni fylgikvilla15,16 en til að bæta öryggi mætti til dæmis nota nálar með bremsu svo þeim sé ekki stungið of djúpt. Lokaorð Þetta tilfelli er ágætis áminning um þá fylgikvilla sem hlotist geta af nálastungum og mikilvægi þess að upplýsa sjúklinga um þá fyrirfram. Hafa verður loftbrjóst í huga sem mismunagreiningu við bráðum brjóstverk og mæði hjá sjúklingi sem farið hefur í nálastungumeðferð. Mynd 2. Röntgenmynd af brjóstholi sem sýnir fullþanin lungu fljótlega eftir ísetningu brjóstholskera beggja vegna.

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.