Hugur og hönd - 01.06.2000, Page 24
Veggteppi
Þórhildar Tómasdóttur
Þetta forlátateppi eignaðist ég að
föður mínum látnum árið 1992.
Teppið mun að sögn vera allt að
300 ára gamalt, það er úr búi Þór-
hildar langalangömmu minnar.
Þórhildur Tómasdóttir langa-
langamma mín fæddist á Breiða-
bólstað í Fljótshlíð 28. september
1835. Foreldrar hennar voru séra
Tómas Sæmundsson, sem nú er
kunnastur sem einn af Fjölnis-
mönnum, og kona hans Sigríður
Þórðardóttir. Hún var dóttir hjón-
anna Þórðar sýslumanns Björns-
sonar í Garði í Aðaldal. Kona
Þórðar hét Bóthildur Guðbrands-
dóttir. Talið er að teppið góða sé
ættað frá Þórði í Garði eða öllu
fremur frá Bóthildi konu hans, sem
var fædd í kringum 1780. Hver
saumaði teppið og hvenær það var
saumað er ekki vitað með vissu.
Þórhildur missti föður sinn ung
að árum. Móðir hennar giftist síðar
Olafi M. Stephensen í Viðey. Þar
ólst Þórhildur upp hjá móður sinni
og stjúpföður. Teppið hefur því
fylgt henni úr Fljótshlíðinni til Við-
eyjar og síðar út á Alftanes en hún
giftist árið 1855 sr. Helga Hálfdán-
arsyni presti í Görðum á Álftanesi,
síðar kennara og forstöðumanni
við Prestaskólann í Reykjavík. Ævi
Þórhildar lauk í byrjun árs 1923 en
þá var hún flutt til dóttur sinnar
Álfheiðar, langömmu minnar, sem
var ekkja eftir Pál Briem, og bjó í
Tjarnargötu 24 í Reykjavík.
Mér hefur verið sagt að líklega
hafi verið til þrjú svipuð teppi og
teppið mitt, í eigu Þórhildar, en
hún hafi gefið hin einhverju fá-
tæku fólki til að hlýja sér á
kroppnum, eins og faðir minn
kemst að orði í grein um Þórhildi
Tómasdóttur sem birtist í Hús-
freyjunni, 3. tölublaði 1986.
Til gamans vil ég geta þess að
móðir mín, Eva Úlfarsdóttir, hefur
unnið það þrekvirki að sauma út
nákvæmlega eins teppi og teppið
mitt. Hún teiknaði mynstrið eftir
röngunni á því gamla og fylgdi
litavali þess til hins ítrasta. Einnig
saumaði amma mín, og nafna,
teppi með samskonar mynstri en í
öðrum litum.
Ég tel þetta forna teppi mitt
vera hinn mesta dýrgrip enda
bindur það ættarbönd sem ég met
mikils.
Þórhildur Undal
24 Hugur og hönd 2000