Hugur og hönd - 2018, Blaðsíða 17

Hugur og hönd - 2018, Blaðsíða 17
32 HUGUR OG HÖND 2018 2018 HUGUR OG HÖND 33 innsetninga og flúxus-stefnunnar, er skemmtileg saga um mikilvægi þess að kynslóðabilið sé brúað. Tveir yngri myndlistarmenn voru samkennarar Kristins í Glerárskóla veturinn 1981-82. Annar þeirra var Anna Þóra Karlsdóttir sem hlaut menntun sína í Myndlista- og handíðaskólanum, MHÍ, og kynntist þar grafíklistinni. Í Glerárskóla var þá lítil grafík- pressa sem var notuð til kennslu. Meðal þess sem Kristinn átti að kenna þennan vetur var myndmennt og þar með grafík sem hann hafði þá ekki haft mikil kynni af. „Ég fékk örnámskeið hjá Önnu Þóru í þrykki og þar með hófst grafíkferillinn!“ segir Kristinn. Hinn samkennarinn var Haraldur Ingi Haraldsson sem hafði útskrifast frá nýlistadeild MHÍ, sem þá var nýstofnuð, en Haraldur Ingi var einn hinna ungu lista- manna í Rauða húsinu á Akureyri. Í spjalli yfir kaffibolla á kennarastofu Glerárskóla kviknaði hugmynd Kristins um að sýna í þessu nýja listhúsi og hann hafði orð á því við Harald Inga. Gefum Kristni orðið: „Árið 1982 höfðu ungir listamenn, snillingar og hugsjónafólk, stofnað til gallerís í Rauða húsinu, sem áður hafði verið kaffistofa og athvarf verkamanna, þeirra sem þá unnu við höfnina á Torfunefsbryggju. Þetta fólk vildi hrista upp í menningarlífinu. Í augum þess var ég, held ég, forneskjan ein. Samt fékk ég að sýna þarna en var ekki viss um að stílfærðar myndir af bátum, húsum og fólki í Ólafsfirði, sem ég hafði verið að fást við árin á undan, félli að því sem þar teldist gjaldgengt.“ Svo fór að það var samþykkt að Kristinn skyldi sýna í Rauða húsinu þótt unga hugsjónafólkið hefði ekki séð neitt af því sem sýnt yrði. Stóð þá listamað- urinn frammi fyrir því verkefni að töfra fram verk sem hentuðu fyrir þetta framúrstefnulega gallerí. Kristinn hafði á árum sínum við Listaháskóla Edin- borgar lært að færa myndefnið í stílfærð form sem voru einfölduð og vinna út frá sínu nánasta umhverfi. „Ég ákvað að fara í hina áttina, leita til baka. Ég hafði lengi verið aðdáandi einlægs handbragðs sem birtist í smíðuðum, ofnum eða prjónuðum hversdags- hlutum, fordildarlausri list. Þar leitaði ég fanga. Nú skar ég í dúk munstur sem ég sótti í prjónskap, vefnað og útskornar fjalir. Þetta þrykkti ég á pappír með mínum hætti og velti fyrir mér á ýmsa vegu. Ég var óvanur dúkskurði, ekki sérlega handlaginn heldur, og þetta varð dálítið harðsnúin barátta þangað til ég komst loks að niðurstöðu. Ef til vill þóttist ég vera að F rá s ý n i n g u K r i s t i n s í s a l M j ó l k u r b ú ð a r i n n a r á A k u re y r i 2 015 . feta í fótspor forfeðra minna, vefara og prjónafólks. Ekkert er nýtt í listinni en þarna var einlægnina að finna og frumleikann. Síðan hef ég verið að vinna með þennan dúkskurð og kannað ýmsa möguleika til að gera hann að undirstöðu myndverka,“ segir Kristinn, skorinort um upphaf ferils síns í grafíklist. Handverkið Hið svokallaða hæðarprent hefur verið notað af mörgum merkum listamönnum í gegnum tíðina. Má þar nefna Albrecht Dürer, Emil Nolde, Edward Munch og M.C. Escher. Aðferðin felst í því að rista eða skera í línóleumdúk eða tré og þrykkja á pappír. Það sem er skorið burtu verður hvítt. Talað er um dúkristur eða tréristur eftir því hvor efniviðurinn er notaður við verkið. Knappasta form þessarar ævafornu aðferðar er að þrykkja með einum lit á hvítan pappír. Til þess að ná fram mismunandi blæbrigðum í svarta litinn er skorið með tvenns konar hnífum, öðrum nokkuð grófum en hinum fínni. Grófari hnífurinn gefur sver- ari hvítar línur og þannig ljósari flöt. Fínni hnífurinn gefur grennri hvítar línur og þannig ekki eins ljósan tón. Kristinn beitir aðferðinni í grafík sinni og er allur skurðurinn í sömu átt, lóðréttar samsíða línur sem skapa ímynd þráðanna í vefnaðinum eða æðanna í tréskurðinum. Þrykkt er með svörtum lit þannig að munstrið verður svart en ímynduðu þræðirnir eru hvítir. Hollenski grafíklistamaðurinn M.C. Escher (1898- 1972) sagði einhverju sinni: „Við dáumst að óreiðunni af því að við höfum unun af því að koma á hana reglu.“ Escher vann meðal annars með munstur í grafíklist sinni, tréristum, tréstungum og ætingum. Hann lék sér eins og Kristinn að þessum mörkum myndlistar og handverkshefða. Escher notar oft táknmyndir fugla, hesta, fiska, svo einhver dæmi séu tekin, raðar formunum saman í negatíf (hvít) form og pósitíf (svört). Hið pósitífa er ef til vill fugl en hvítu formin, bilin á milli fuglanna, eru táknmyndir fiska. Formin eru margendurtekin og þau látin fylla allan myndflötinn. Með svipuðum hætti sker Kristinn út munstur, til dæmis átta blaða rós sem hann þrykkir í mörgum eintökum, raðar síðan saman og fyllir heilan myndflöt allt upp í 150 x 80 sm. Þannig má jafnvel þekja heilan vegg. Þá hefur listamaðurinn leikið sér með myndefnið þannig að hann raðar stórum flekum, þöktum með munstrunum, á heilan vegg og út frá honum þannig að þeir myndi eins konar harmonikku. Þannig þróaði Kristinn þessa myndgerð í þrívídd. Í hvert sinn sem hann hefur sýnt þessi munstur, en það hefur hann nú þegar gert á fimm sýningum, þá hefur hann raðað munstrunum upp á ólíkan hátt. Orð Eschers um yndi okkar á óreiðunni og því að koma á hana skipulagi, eiga vel við í tilfelli Kristins. Hann hefur stöðugt verið að raða niður á myndflöt, ekki bara munstrum í dúkristum, heldur einnig bátum, húsum, fólki og fyrirbærum í málverkinu. Þannig raðar hann stöðugt þekkjanlegum formum í eins konar skipulag og myndbyggingu. Hér er um að ræða skemmtilega þversögn í fagurfræði og stærðfræði sem í þessari gerð myndlistar vinnur vel saman, fjölbreytni og samræmi, eða samræmd fjöl- breytni, skipulagt kaos. Ekkert verður til af engu Framlag Kristins er gott dæmi um það hvernig list vekur list og ýmislegt sem gerist í lífi listamannsins setur af stað ferli sem í umræddu tilfelli endar með sýningu eða sýningaröð. Hér sannast hið fornkveðna að ekkert verður til af engu. Yrkisefnið úr munstruðum vefnaði entist Kristni í fimm sýningar sem hver hafði sína sérstöðu og sú Ve rk K r i s t i n s á s ý n i n g u n n i í M j ó l k u r b ú ð i n n i .

x

Hugur og hönd

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hugur og hönd
https://timarit.is/publication/1414

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.