Bændablaðið - 07.07.2016, Side 7
7Bændablaðið | Fimmtudagur 7. júlí 2016
Þann 20. júní síðastliðinn var opnuð
ljósmyndasýningin Bændur á Jökuldal
á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal.
Ljósmyndarinn er Ragnhildur Aðal-
steinsdóttir en hún er fædd og uppalin
á Vaðbrekku, innst í dalnum. Sýningin
hefur yfir sér látlaust yfirbragð en fangar
á einstakan hátt daglegt líf bænda.
Ragnhildur er búsett í Hafnarfirði en
sumarið 2015 ferðaðist hún um sínar
heimaslóðir og tók ljósmyndir af bændum.
Hún segir þetta vera gamlan draum sem
loksins rættist en ljósmyndaáhuginn kviknaði
strax við 10 ára aldurinn þegar hún fékk sína
fyrstu myndavél. Hún tók BA í fjölmiðlafræði
frá Háskólanum á Akureyri og skellti sér svo
í ljósmyndanám til Kanada. Núna starfar hún
sem blaðamaður á Vikunni. Ragnhildur segir
að þetta verkefni hafi gefið sér tækifæri til að
tengjast sveitinni sinni og uppruna að nýju
eftir áralanga fjarveru sem sé afar dýrmæt
reynsla. Áhersla var lögð á að fanga augnablik
í daglegu lífi bændanna og segir hún að þeir
hafi tekið sér afar vel, verkefnið hafi verið
mjög skemmtilegt og gefandi. Að sjálfsögðu
fjölmenntu bændur og búalið á sýninguna en
hún verður opin alla daga í sumar frá kl. 8–22.
Á Skjöldólfsstöðum er rekin ferðaþjónustan
Á hreindýraslóðum en þar var áður
heimavistarskóli sem Ragnhildur sótti fyrstu
ár grunnskólagöngunnar. Ragnhildur segir að
Jökuldælingar séu einstaklega skemmtilegir
og virkilega gaman að njóta samverustunda
með þeim enda glettnir og jákvæðir með
eindæmum. Hún er stolt að tilheyra þessari
sveit. Alveg óhætt er að mæla með þessari
sýningu fyrir þá sem eiga leið um Jökuldalinn.
/GBJ
Líf og starf MÆLT AF
MUNNI FRAM
Í síðasta vísnaþætti birtust vísur Björns Ingólfssonar frá hagyrðingasamkomu Karlakórs Eyjafjarðar í mars sl. Þar
spurði stjórnandinn Björn, hvern úr hag-
yrðingahópnum hann kysi til að dæma
kvenlega fegurð í kjöri fegurðardrottningar
Íslands. Björn forsómaði hagyrðingana en
valdi þess í stað Stefán Vilhjálmsson,
einn rómaðasta kjötmatsmann íslenskra
sauðfjárbænda:
Mistakast okkur mun með sanni
matið á hinu fagra kyni.
Í þetta treysti ég engum manni
öðrum en Stefáni Vilhjálmssyni.
Hvað finnst Birni um þann geysilega
ferðamannafjölda sem nú streymir til
landsins?
Fagnandi grípum við flækingana
í forvitnisskyni sem koma hér,
Kínverja, Íra og Ameríkana
Ítali og Frakka að leika sér.
Umfram allt skulum að engu flana,
einkum í minni hafa ber
vandlega að plokka af þeim peningana
og passa að þeir skíti ekki hvar sem er.
Birgir innti Björn álits á því hvernig sölu-
mann hann teldi Árna Geirhjört vera?
Signum fiski, hákarl‘ og hamsatólk
harðfiski í alls kyns pökkum, stærri og
minni
treður hann upp á ótrúlegasta fólk
með ísmeygilegri tungulipurð sinni.
Og þegar spurt var um frækileg læknis-
afrek þeirra Hjálmars Freysteinssonar
og Péturs Péturssonar þá orti Björn:
Það er að frétta af þessum tveim
- og þar er ég ekki að plata -
að hreyknastir séu þeir af þeim
þremur sem fengu bata.
Síðan var Björn spurður hvort þeirra
hann kysi til forseta, Donald Trump eða
Hillary Clinton?
Hér er, Birgir, ekki um gott að gera,
grundað hef ég málið alveg helling.
Niðurstaðan: Hvorki vil ég vera
vitleysingur eða snobbuð kelling.
Lokavísa Björns þetta kvöld var þessi
vísa:
Hagyrðingar sem hent var á pall
voru helvíti glaðir í framan
og ánægðir með það sem út úr þeim vall
en ekki var það nú gaman.
En Björn fékk líka að flytja sitthvað æti-
legt úr eldri kveðskap sínum. Sú fyrsta ort
á sauðburði á Grund hjá Þórarni tengda-
syni hans, en þar sinnir Björn „yfirsetu“
hvert vor:
Til fjalla þær bráðum brokka
og bjóða af sér góðan þokka
þegar bithaginn grær
goltóttar ær
með augnskugga og eyrnalokka.
Með hækkandi sól orti Björn þann 15.
mars sl.:
Sólin á himninum hækkaði um fet
þá hitnaði af fögnuði jörðin,
en skaflinn í brekkunni bölvaði og grét
og bráðnaði og hvarf oní svörðinn.
Á morgungöngu eftir þorrablót:
Sennilega sofa flestir
sofa jafnvel lengi enn
og allir þeirra góðu gestir
gamalkunnir timburmenn.
Fyrir margt löngu sendi Björn tengdaföð-
ur sínum, Friðbirni Guðnasyni, þessa
afmælisvísu:
Náttúran syngur sólskinsbrag
síst gerist þörf að kvabba.
Ætlar að gera sér dælt í dag
Drottinn við tengdapabba.
157
Umsjón:
Árni Geirhjörtur Jónsson
kotabyggð1@gmail.com
Jökuldælingar í daglegu lífi
Ragnhildur Aðalsteinsdóttir við opnun sýning-
arinnar. Myndir frá opnun sýningar / GBJ
Guðrún á Skjöldólfsstöðum í Rangárlónsrétt
á Jökuldalsheiði. Mynd / RA
Ragnhildur ásamt Ingu Birnu Elísdóttur, Lilju Óladóttur og Ásdísi Jóhanns-
dóttur.
Feðgarnir Gunnar og Valgeir á Smáragrund. Mynd / RA
hans, Aðalsteinn Aðalsteinsson, faðir Ragnhildar.
Aðalsteinn Aðalsteinsson, bróðir Ragnhildar, Vilhjálmur Snædal og
Sigfús Guttormsson.