Bændablaðið - 17.11.2016, Qupperneq 48
48 Bændablaðið | Fimmtudagur 17. nóvember 2016
Í apríl 2012 keyptum við jörðina
af Pálmari og Sigurbjörgu
og fluttum á Egg. Þá hafði
kúabúskap hér verið hætt. Við
tókum fjósið í gegn og keyptum
kýr og vorum byrjuð að mjólka
um miðjan maí. Davíð er frá
Réttarholti í Akrahreppi en þar
er kúabúskapur, en Embla er frá
Grásteinum í Mosfellsdal þar
sem garðplöntustöð var.
Á Egg er básafjós, byggt 1977–
1978 með 36 básum og kálfastíum
og áfastri 300 fermetra hlöðu. Við
breyttum gömlu fjárhúsi í 10 hesta
hús í fyrra en einnig höfum við
byggt tvö 40 fm gróðurhús.
Við höfum verið í skógrækt
síðan 2013 en við höfum plantað
nokkrum km af skjólbeltum auk
um 30.000 plöntum í skóg. Það er
þó nóg eftir því fyrirhugaður er 36
ha skógur.
Býli: Egg.
Staðsett í sveit: Í Hegranesi í
Skagafirði.
Ábúendur: Davíð Logi Jónsson og
Embla Dóra Björnsdóttir.
Fjölskyldustærð (og gæludýra):
Við eigum eina dóttur, Auði
Fanneyju Davíðsdóttur, köttinn
Óreó og Border Collie-inn Glímu.
Stærð jarðar? 253 hektarar.
Gerð bús? Kúabú.
Fjöldi búfjár og tegundir? 36
mjólkurkýr og auk þess u.þ.b. 60
kvígur í uppeldi. 4 reiðhross og 20
stóðmerar.
Hvernig gengur hefðbundinn
vinnudagur fyrir sig á bænum?
Allir dagar byrja á mjöltum um
sjöleytið. Við gefum kúnum og
kálfunum aftur milli 1 og 2 á
daginn og svo eru kvöldmjaltir
aftur um klukkan 6 á kvöldin. Milli
mála gerum við svo ýmislegt en
það er að mestu árstíðabundið.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu
bústörfin? Það fer eftir því hvort þú
talar við Davíð eða Emblu. Davíð
finnst heyskapur skemmtilegastur
en Emblu ekki. Embla er meira
fyrir garðyrkju, jarðrækt, skógrækt,
mjaltir og útreiðar.
Hvernig sjáið þið búskapinn
fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm
ár? Vonandi stærri og meiri.
Hvaða skoðun hafið þið á
félagsmálum bænda? Það er
nauðsynlegt að halda uppi
málefnum bænda en okkur finnst
kannski vanta skýrari stefnu til
langs tíma. Það mæðir mikið á
kerfinu núna og mikilvægt að vel
takist til.
Hvernig mun íslenskum
landbúnaði vegna í framtíðinni?
Það er ómögulegt að segja.
Hvar teljið þið að helstu tækifærin
séu í útflutningi íslenskra búvara?
Skyr, fyrst og fremst og grænmeti ef
það er markaðssett rétt.
Hvað er alltaf til í ísskápnum?
Ostur, smjör og rifsberjasulta.
Hver er vinsælasti maturinn á
heimilinu? Grillað folaldakjöt og
grænmeti.
Eftirminnilegasta atvikið við
bústörfin? Það er náttúrlega
eftirminnilegt að hefja búskap og
setja fyrstu kýrnar inn í fjósið,
en líklega er eftirminnilegast
samt þegar kviknaði í fjósinu að
næturlagi 2013. Sem betur fer urðu
nágrannar okkar varir við reykinn
og vöktu okkur. Það hefði getað
farið mun verr.
Líf og lyst
BÆRINN OKKAR
Kanilsnúðar, kransatoppar og Snickerskaka
Hér er uppskrift að sígildum
snúðum. Hinum fullkomna snúð
er náð með því að baka hann í
formi því þá verður fyllingin að
karmellu í forminu og snúðarnir
hreint sælgæti.
Kanilsnúðar bakaðir í
muffinsformi
um 12 stykki
Deigið
› 5 dl köld mjólk
› 50 g ger
› 1 stórt egg
› 1 kg af hveiti
› 150 g af sykri
› 10 g af salti sjávar
› 15 g kardimommur muldar eða smá
sletta af kardimommudropum
› 150 g smjör
Fylling
› 200 g mjúkt smjör
› 200 g sykur
› 20 g mulinn kanill
Þar að auki
› 1 egg til að pensla fyrir bakstur
› smá sykur til að strá yfir fyrir bakstur
Hellið kaldri mjólk í skál og hrærið
saman við gerið. Bætið eggjum,
hveiti, sykur, salt og kardimommum
saman við og hnoðið deigið þar til
það er alveg slétt og gljáandi og
losnar frá skálinni. Það tekur
um 7–8 mínútur. Best er að nota
hrærivél, setja hana á krók eða
spaða og hræra á litlum hraða.
Skerið smjörið í litla teninga og
setjið þá í deigið, sem verður
nú hnoðað þar til það er slétt
og glansandi. Það tekur um 7–8
mínútur. Leyfið deiginu svo að
hvíla undir klút í 1½ klukkustund
þangað til það hefur stækkað um
helming. Sláið deigið niður og
látið kólna í kæli í að minnsta kosti
klukkustund. Meðan deigið hvílir er
hrært í fyllinguna með því að blanda,
smjöri, sykri og kanil saman.
Fletjið deigið út á hveitistráðu
yfirborði og rúllið út í stykki sem
eru um 30 sinnum 60 sentimetrar að
stærð. Smyrjið fyllingunni jafnt ofan
á deigið. Rúllið út og skerið í sneiðar,
setjið í smurð form, til dæmis silikon
eða ál muffinsform. Látið hefast á
heitum stað þangað til snúðarnir hafa
tvöfaldast í stærð. Penslið með eggi
og bakið við 200 gráður í um 12–14
mínútur (það má strá kanilsykri yfir
fyrir bakstur til að fá stökka skel á
toppinn).
Kransatoppar
› 500 g gott marsípan (að minnsta
kosti 60 prósent möndlur)
› 200 g sykur
› ½ bolli eggjahvítur
Skiptið marsípaninu í litla bita
og setjið í hrærivél. Hrærið
sykur og eggjahvítur saman í
skál. Hellið sykurblöndunni yfir
marsípanblönduna og hrærið
saman. Hitið ofninn í 190 gráður.
Mótið kransabitana eins og óskað
er og bakið þar til þeir eru orðnir
gulbrúnir, eða um 10 mínútur. Gæti
tekið minni tíma svo passið upp á
að bitarnir séu mjúkir.
Látið standa í klukkutíma áður en
kransabitarnir eru borðaðir.
Svo er hægt að dýfa þeim í súkkulaði,
eða gera ýmis bragðafbrigði; til
dæmis með berjum eða eplum. Það
má líka fylla með hnetum eða pistasíu
hnetumassa.
Kransatopparnir geymast í nokkra
mánuði í frysti.
Snickerskaka
20 stykki
Hér er lúxusútgáfa af sígildu Snickers,
með hnetu smjöri og ríkulega húðað
með mjólkur súkkulaði.
Kökubotn
› 240 g af mjúku smjöri
› 160 g flórsykur
› 60 g möndlumjöl eða fínt saxaðar
möndlur
› 2 meðalstór egg
› korn af ½ vanillufræbelg eða 2 tsk.
vanilludropar
› 470 g af hveiti
› 1 tsk. fínt salt
Setjið smjör, flórsykur, möndlu-
mjöl, egg, vanillufræ og 120 grömm
af hveiti í hrærivélaskál og hrærið
deigið saman með krók. Verið varkár
og ofþeytið blönduna ekki. Bætið við
restinni af hveitinu, um 350 g, og salti.
Blandið hratt en vel saman.
Skiptið deiginu í tvo jafna hluta og
rúllið deigið út í 2,5 mm þykkt milli
tveggja blaða af vaxpappír. Setjið
það í kæli og látið deigið hvíla í að
minnsta kosti klukkustund. Hitið
ofninn í 180 gráður.
Takið deigið úr kæli og setjið í form
að eigin vali og gatið nokkrum
sinnum með gaffli. Takið álpappír og
pressið niður í bakstri með þurrkuðum
baunum eða hrísgrjónum (má sleppa
en þá gæti deigið lyfst aðeins upp við
baksturinn). Bakið ljósbrúnt í nokkrar
mínútur.
Jarðhnetufylling
› 150 g af hunangi
› 100 g kókosfita
› 60 g af smjöri
› 600 g salthnetur
› mjólkursúkkulaði til að hjúpa stykkin
Hitið hunang og kókosfitu saman.
Bræðið smjör og hellið því yfir
blönduna. Saxið salthnetur og setjið
í blönduna (spara smá fyrir skraut).
Hellið öllu yfir botninn. kælið og
skerið í 20 löng stykki.
Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og
dýfið svo hverju stykki í eða smyrjið
yfir og skerið svo í langa bita á eftir.
Skreytið toppinn með hökkuðum
salthnetum.
MATARKRÓKURINN – BJARNI GUNNAR KRISTINSSON MATREIÐSLUMEISTARI
Egg