Víkurfréttir - 26.03.2020, Blaðsíða 21
21 // VÍKURFRÉTTIR Á SUÐURNESJUM Í 40 ÁR fimmtudagur 26. mars 2020 // 13. tbl. // 41. árg.
— Hvernig ert þú að upplifa ástand-
ið í kringum COVID-19?
„Þetta er ótrúlega skrítið ástand
og eitthvað sem maður hefur ekki
upplifað áður svo það er erfitt að
lýsa þessu. En maður er svoldið í
lausu lofti og fer að sofa á kvöldin
með ákveðnar forsendur sem eru
svo allt aðrar þegar maður vaknar á
morgnanna“.
— Hefurðu áhyggjur?
„Já og nei. Maður hugsar auðvita
stanslaust um þetta og þetta er allra
vörum, en ég hef reynt að hafa það
að leiðarljósi að þetta er eitthvað sem
við stjórnum ekki og því reynt að
gera það besta úr því sem við höfum
stjórn á“.
— Hvaða áhrif hefur faraldurinn á
þitt daglega líf?
„Ég hef reynt að halda í rútínuna.
Vakna á morgnana og kem börn-
unum á fætur svo fara þau ýmist í
skólann eða vinna heima. Við höfum
verið að reyna að brjóta daginn upp
með göngutúrum, spili og annarri
afþreyingu þar sem engar íþrótta-
æfingar eru. Þetta er áskorun sem
maður reynir að takast á við með
jákvæðni að vopni“.
— Hefur þú þurft að gera miklar
breytingar varðandi þína vinnu?
„Ég vinn sem grunnskólakennari
á unglingastigi í Myllubakkaskóla
og við höfum haft þann háttinn á að
við kennum þeim í fjarkennslu. Ég
hef því ýmist sinnt þeim heiman frá
mér eða farið upp í skóla og unnið
þar. Þetta er vissulega allt annað um-
hverfi sem við erum að vinna í en
skemmtilegt engu að síður“.
— Er þú eða þitt fólk í sóttkví?
„Nei, ekki enn komið að því hjá
okkur, en maður er vissulega farin
að finna fyrir því að þetta færist nær
manni“.
— Hvenær fórstu að taka COVID-19
alvarlega?
„Þetta fór að bíta mig kannski
hvað fastast þegar maður þurfti að
fara að hagræða vinnunni á annan
hátt. Eins þegar umræðan í samfélag-
inu fór að verða meiri þá fór maður
að átta sig á alvarleikanum“.
— Hvað varð til þess?
„Eins og ég sagði þá fór maður að
þurfa að hugsa skipulagið á vinnunni
á annan hátt og umræðan fór að
aukast í samfélaginu“.
— Hvernig ert þú að fara varlega?
„Ég hef aukið handþvott verulega
og samneiti við annað fólk. Ég hef
alltaf haft frekar mikla snertiþörf og
því hef ég þurft að temja mér aðrar
leiðið þegar ég hitti fólkið mitt“.
— Hvernig finnst þér stjórnvöld
standa sig í sóttvörnum?
„Ég get ekki annað sagt en að
okkar frábæra framlínu fólk og
stjórnvöld eru að standa sig gríðar-
lega vel. Algjörlega til fyrirmyndar
hvað allir eru að reyna að gera sitt
allra besta til að takast á við þetta
ástand“.
— Hvað finnst þér mikilvægast á
þessum tímum?
„Að halda rútínu og hafa eitthvað
fyrir stafni yfir daginn. Vanda sig
í samskiptum við hvort annað og
reyna að finna allt það jákvæða við
stöðuna eins og hún er“.
— Finnst þér að sveitarfélagið þitt
gæti gert meira?
„Sveitarfélagið er að gera sitt besta
eins og allir. Við erum öll í sama liði
og verðum að vinna þetta saman“.
— Er samkomubannið að hafa áhrif
á þig?
„Auðvitað hefur þetta áhrif á
okkur eins og aðra. Fjölskyldan eyðir
töluvert meiri tíma saman, sem er að
vissu leyti gott, og við heyrum meira
í okkar nánustu símleiðis frekar en
að hitta það“.
— Hvernig hagar þú innkaupum í
dag?
„Ég hef enn ekki prufað að gera
innkaupinn á netinu en ég hef verið
að fara sjaldnar í búð og reyni að
vera skipulagðari í innkaupunum“.
— Hvað gerir þú ráð fyrir að
ástandið muni vara lengi?
„Það er ómögulegt að segja. En
miða við stöðuna í dag þá verður
heljarinnar partý hjá okkur í ágúst.
Hugsanlega geta skólarnir ekki
byrjað fyrr en í byrjun september ef
við ætlum að koma þessu fjöri öllu
fyrir sem er búið að fresta“.
— Þegar faraldurinn er yfirstaðinn,
gerir þú ráð fyrir að ferðast innan-
lands eða utan?
„Vonandi getur maður gert sitt
lítið af hvoru“.
— Hvernig eru börnin á heimilinu að
upplifa þetta?
„Já við erum með tvö börn á
heimilinu. Þau eru vitanlega uggandi
yfir þessu en við reynum að kaffæra
þeim ekki í þessari umræðu. En það
sem snertir þau kannski hvað mest
það er að æfingarnar þeirra eru ekki.
Þau æfa bæði tvær íþróttir og það er
mikil missir að hafa þær ekki. Einn-
ig þegar það er verið að herða enn
meira á því að börn úr öðrum skóla-
hópum séu ekki að hittast, það flækir
samskipti þeirra. En þessi tími gefur
okkur tækifæri til að slípa okkur
betur saman sem fjölskyldu og gera
hluti saman sem við gætum mögu-
lega ekki gert í hraðanum í hvers-
dagsleikanum“.
Hilmar Bragi Bárðarson
hilmar@vf.is
HEIMSFARALDUR COVID-19 OG ÁHRIF HANS Á SUÐURNESJAFÓLK
Ég vinn sem grunnskólakennari á ungl-
ingastigi í Myllubakkaskóla og við höfum
haft þann háttinn á að við kennum þeim
í fjarkennslu. Ég hef því ýmist sinnt þeim
heiman frá mér eða farið upp í skóla og
unnið þar. Þetta er vissulega allt annað
umhverfi sem við erum að vinna í en
skemmtilegt engu að síður.
HILDUR MARÍA MAGNÚSDÓTTIR
Áskorun sem maður reynir að takast
á við með jákvæðni að vopni
Hildur María Magnúsdóttir er kennari á unglinga-
stigi við Myllubakkaskóla í Keflavík. „Við höfum haft
þann háttinn á að við kennum þeim í fjarkennslu. Ég hef
því ýmist sinnt þeim heiman frá mér eða farið upp í skóla
og unnið þar. Þetta er vissulega allt annað umhverfi
sem við erum að vinna í en skemmtilegt engu að síður“.
Hildur svaraði nokkrum spurningum frá Víkurfréttum um
ástandið í heiminum dag.