Spássían - 2011, Blaðsíða 39
39
„STAÐSETJA, útvega, flokka, raða og varðveita“, eftir Kristínu Eiríksdóttur (Doris
deyr 2010) virðist við fyrstu sýn tjalda óskyldum efnisþáttum en þegar betur er
að gáð koma í ljós býsna áhugaverðar tengingar.
Nítján ára stúlka segir okkur söguna af því hvar hún og karlkyns vinir hennar
tveir voru stödd þegar tveir Suðurlandsskjálftar riðu yfir sumarið 2000. Í þeim
fyrri var hún á sínum síðasta vinnudegi á elliheimilinu Grund þar sem hún hafði
ákveðið að segja upp störfum vegna þess að hún gat ekki vanist því að vinna
með deyjandi fólk. Þegar sá seinni ríður yfir er hún stödd heima hjá vini sem hún
kynntist á skyndihjálparnámskeiði vegna starfa í sundlaug. Sá heitir Sindri og
hafði ákveðið að fara á námskeiðið vegna áverka sem móðir hans hlaut í fyrri
jarðskjálftanum. Hann er ákaflega óöruggur en virðist fá öryggistilfinningu við
það að safna alls kyns munum, m.a. beinum dýra og manna, flokka þá og raða
þeim snyrtilega í kassa. Skömmu áður en skjálftinn ríður yfir er stúlkan farin að
óttast að hann vanti hana í safnið. Tengingin við hinn vininn felst í því að hann
er í sjálfsmorðshugleiðingum þegar báðir skjálftarnir ríða yfir: „Vignir, vinur
minn sem sat á bekk í Hljómskálagarðinum og hugsaði um að fremja sjálfsmorð
þegar fyrri jarðskjálftinn kom, reyndi að hengja sig skömmu fyrir þann seinni.
Sennilega um svipað leyti og ég talaði um hann við Sindra“ (33). Vignir fer
inn á geðdeild en þegar hann útskrifast er stúlkan orðin ástfangin af honum,
jafnvel þótt hún sjái hann fyrir sér með skrýtnum augum: „sýndist andlitið á
honum bráðna af skínandi hvítri hauskúpu sem síðan bráðnaði líka“ (36). Þetta
tengist hauskúpu af barni sem pilturinn með söfnunaráráttuna hafði sýnt henni.
Til viðbótar þessu er lýst áföllum sem sundlaugargestir fá og stúlkan þarf að
takast á við.
Hér eru ýmsar birtingarmyndir hnignunar og dauða. Jarðskjálftarnir tveir, sem
ógna röð og reglu, eru notaðir til að tengja þær saman og verða skjálftarnir í
senn að hreyfiafli og eins konar ramma utan um söguna. Úr verður svipmynd af
nöturlegu tilvistarástandi sem unga fólkið í sögunni verður að gera sér að góðu.
Sagan fangar með óhugnaðinum sem einkennir andrúmsloftið í henni og nær
hámarki heima hjá piltinum með söfnunaráráttuna.
Í BÓK Ólafs Gunnarssonar, Meistaraverkið og fleiri sögur (2011), er að finna
nokkrar vel heppnaðar sögur. „Hlákan“ fjallar um bræðurna Þórð og Jónas
sem vinna og búa saman og hefur sá síðarnefndi „búið við harðræði af hálfu
bróður síns svo lengi sem hann mundi eftir sér“ (27). Framarlega í sögunni, þar
sem Jónas hefur grafið ofan á hauskúpu, dregur höfundur upp ljóslifandi mynd
af samskiptum bræðranna. Þórður heldur Jónasi í skefjum með því að gera
lítið úr honum, ekki síst í kvennamálum. Jónas drekkur þó í sig kjark og kynnist
konu á dansstað og skömmu síðar flytur hún heim til þeirra bræðra. Fljótlega
fer Þórður á fjörur við stúlkuna og réttlætir það með því að hún sé hóra fyrst
hún hafi verið í ástandinu og eignast barn með Kana. Jónas svarar þessu með
því að ráða sig í vinnu annars staðar. Þórður kann hinum nýju aðstæðum illa og
endar á því að lemja konuna að syni hennar ásjáandi. Við svo búið flytur hún út.
Inn í þessa atburðarás fléttast tvær sögur sem tengjast Hafravatni og ljá
sögu Ólafs þann listræna galdur sem gera hana að margræðu verki. Þórður
hefur sent Jónas upp í fjall að grafa hauskúpuna á nýjum stað. Þaðan horfir
hann á vatnið og rifjast þá upp fyrir honum saga af voveiflegum atburði sem
gerðist á vatninu árið 1912, árið sem Titanic sökk, eins og fram kemur í sögunni.
Þrátt fyrir viðvaranir hafði maður nokkur hleypt á hesti sínum út í kalt vatnið og
þeir báðir horfið ofan í það. „Jónas velti því fyrir sér hvort einhverjar leifar af
hrossinu og eiganda þess væri enn að finna á botni Hafravatns“ (30). Seinni
sagan tengist brottför bandaríska hersins: „þeim var fyrirskipað að keyra um
þrjátíu trukka og jeppa út á harðfrosið vatnið, þar sem bílunum var ætlað að
standa þar til kæmi hláka og ísinn bráðnaði“ (46). Jónas fer með Þórði bróður
sínum að kíkja á bílana skömmu eftir að konan fer frá honum. Hann rotar
Þórð með barefli, treður upp í hann svefntöflum og kemur honum fyrir í einum
trukknum í hlákunni. Þar sekkur hann í vatnið ásamt Kanagóssinu en með vatninu
sem seytlar inn í bílinn læðast lúmskar ef ekki eitursnjallar tengingar milli ytri og
innri heims svo úr verður margslungin mynd af áhrifum hernámsins á mannlegt
líf í landinu.