Spássían - 2011, Blaðsíða 32
32
BARNABÆKUR enska skáldsagnahöfundarins Richard Adams
fóru alveg framhjá mér í æsku. Þær hafa ekki enn komið út
í íslenskri þýðingu, þrátt fyrir að sú frægasta, kanínuepíkin
Watership Down (1972), hafi notið mikilla vinsælda á sínum
tíma og verið til á ensku prenti allar götur síðan. Enska var
þó aldrei fyrirstaða í æskulestri mínum og eflaust hefði ég
haft gaman af að lesa um ævintýralegt og á köflum ógurlegt
ferðalag kanínanna í leit að nýju heimili, ef einhver hefði
otað verkinu að mér. Mögulega hefði ég getað komist í kynni
við það í gegnum fræga kvikmyndaaðlögun sem kom út árið
1978 og skartaði m.a. rödd John Hurt í einu aðalhlutverkanna,
en þeirri ágætu teiknimynd tókst einnig að fara framhjá mér,
þrátt fyrir næstum sjúklega mikið vídjógláp á níunda og tíunda
áratugnum. En aldrei bar neitt á hugarverkum Richard Adams,
sem er synd og skömm, því sögur hans – og þá sérstaklega
lykilverkin tvö, Watership Down og The Plague Dogs (1977) –
eru afar skringilega staðsettar í landslagi barnabókmennta
og eiga skilið víðari útbreiðslu og nánari athugun.
Bækurnar sem um ræðir má út mörkin á milli barna- og
fullorðinsbókmennta á einkar áhugaverðan hátt með því
að velta upp gagnrýnum og á köflum erfiðum spurningum
um samband mannfólks við dýrin. Bækurnar segja báðar
frá manngerðum dýrum sem reyna að lifa af í sambýli við
mannfólkið og þrátt fyrir ævintýralegan blæ er undirtónn
harmleiksins aldrei fjarri, enda þurfa ófá dýr að lifa undir
harðræði og ofsóknum okkar mannanna. Sá dramatíski þáttur
er iðulega til staðar í dýrasögum og barnamenningu almennt
(Fagri-Blakkur, Bambi og 101 Dalmatíuhundur eru allt ágæt
skáldsöguleg dæmi) en sjaldan þora höfundar að ganga
jafnlangt og Richard Adams í að setja fram samband manns
og dýrs á hreinskilinn og ögrandi hátt. Hann neitar alfarið
að tala niður til barnanna og fegra heiminn með ýkjum og
lygum um líf annarra dýra. Þó merkir það ekki að hann
sé með áróðursbókmenntir sem snúist bara um að hræða
og hrylla – því fer fjarri. Það sem gerir bækur Adams svo
þræláhugaverðar er hvernig honum tekst að ná jafnvægi á
milli þess ævintýralega sem heillar svo við dýraríkið og þess
ógurlega sem hryllir svo við yfirgang okkar mannfólksins. En
kannski er það einmitt ástæðan fyrir því að sögurnar hafa
aldrei náð sömu hæðum og snoppufríðari systkini þeirra úr
verksmiðjum á borð við Disney-færibandið. Þær eru ljótar, eins
og veruleikinn, þótt þær séu líka fallegar, eins og veruleikinn.
Og þá bankar hin óumflýjanlega spurning upp á: Eiga börnin
ekki skilið að fá báðar hliðar? Því miður þori ég að veðja að
þeir séu í miklum minnihluta sem þekki nokkuð til kanínanna
Fiver og Hazel og þeim mun færri sem hafa nokkurn tímann
heyrt um hundana Snitter og Rowf.
EINKALÍF KANÍNUNNAR
Kvikmyndin Watership Down var sýnd í bíó hérlendis á sínum
tíma og hét Flóttinn langi í íslenskri þýðingu. Hún hlaut ágætar
viðtökur ef marka má umfjöllun úr Dagblaðinu sem birtist 30.
maí árið 1980. Þar er minnst á „geysilega aðsókn víða um
heim” og teiknimyndin sögð vera „dæmigerð fjölskyldumynd”
sem er „aðgengileg fyrir alla aldurshópa”.1 Þetta þykir mér
skrítinn dómur hjá kvikmyndadálki DB, því myndin er fjarri því
að vera dæmigerð fjölskyldumynd og margir hafa dregið í efa
aðgengileika hennar til allra aldurshópa. Á YouTube má finna
mörg myndbrot úr Watership Down og sérstaklega vil ég nefna
eitt – „Watership Down Violence” – sem hefst á eftirfarandi
lýsingu: „Ein sú blóðugasta og ofsafengnasta kvikmynd sem
hefur nokkurn tímann verið leyfð öllum aldurshópum – hvað
voru þeir að spá?!?”2 Því næst fylgir myndbútur sem klippir
saman öll grófustu atriði teiknimyndarinnar. Þar má meðal
annars sjá hund rífa kanínu á hol, kanínu festast með snöru um
hálsinn og hósta upp blóði, kanínu veidda af fálka, sundurtætt
Í barnabókum Richard Adams
eru kanínur ekki bara krútt og
mannfólkið kemur sannarlega
ekki fram við hunda eins og
besta vin sinn. Lykilverk hans
tvö frá 8. áratugnum, Watership
Down og The Plague Dogs, má
út mörkin á milli barna- og
fullorðinsbókmennta og eru í
senn myrk, hrottaleg og falleg.
Tvær blóðugar
barnabækur
Eftir
Gunnar Theodór
Eggertsson