Dagblaðið Vísir - DV - 14.08.2020, Page 38

Dagblaðið Vísir - DV - 14.08.2020, Page 38
38 SPORT 433 14. ÁGÚST 2020 DV MISTÖK ERU PARTUR AF LEIKNUM Pálmi Rafn Pálmason, leikmaður KR, hóf sinn knattspyrnuferil árið 2001 með Völsungi. Hann var í atvinnumennsku í sex ár og hef- ur spilað 18 leiki fyrir A-landslið Íslands. Pálmi fagnaði Íslands- meistaratitli með KR í fyrra. Hér segir Pálmi frá nokkrum atriðum sem hafa hjálpað honum að ná góðum árangri á vellinum. Pálmi Rafn Pálmason býr að áralangri reynslu sem knattspyrnumaður. MYND/ANTON BRINK SJÖ HEILRÆÐI PÁLMA RAFNS Aukaæfingin Með því að æfa aukalega eykur maður bæði getu og sjálfstraust. Þegar ég var yngri æfði ég mikið aukalega með því bæði að fara í ræktina og styrkja mig, vera lengur úti á velli eftir æfingar og æfa sendingar, skot, fá fyrirgjafir og „slútta“. Næring Það er mikilvægt að hugsa um hvað maður borðar til þess að vera í sem bestu líkamlegu standi. Ég borða í rauninni allt en fyrir mér snýst það líka um að borða í hófi og borða meira af því sem er hollt heldur en öfugt. Ég leyfi mér stundum að borða nammi og frekar óhollan mat. Mér finnst gos t.d. mjög gott en ég reyni að tak- marka mjög hvað ég drekk af því. Svefn Ég reyni að sofa alls ekki minna en sjö tíma á nóttu, helst að ná allavega átta tímum. Börn þurfa auðvitað meiri svefn og þau ættu að venja sig á að fá svefninn sem líkami þeirra þarfnast. Líkaminn hvílist og nær endurheimt sem styrkir hann þegar maður sefur. Að sama skapi þarf heilinn í okkur svefn til að hvílast. Svefnleysi getur haft mikil áhrif á andlega heilsu og hefur til dæmis áhrif á getu til að læra og viðbragðs- tíma, hlutir sem eru ansi mikilvægir í flestum íþróttum allavega. Markmiðasetning Að setja sér bæði langtíma- og skammtímamarkmið. Það getur hjálpað manni að taka rétt, eitt skref í einu, í átt að toppnum. Ef maður setur sér markmið þá getur það auðveldað manni að komast á þann stað sem maður er að leitast eftir. Sem dæmi mætti nefna að ung stelpa eða strákur setur sér langtímamarkmið um að verða atvinnumaður í fótbolta. Hún/hann setur sér svo nokkur skammtímamarkmið, eitt þeirra gæti verið að ná undir ákveðnum tíma í einhverju hlaupi, annað að halda bolta á lofti ákveðið oft og svo framvegis. Skynmyndun Ég nota skynmyndun mikið. Fyrir leiki loka ég alltaf augunum og sé fyrir mér t.d. að ég sé inni í teig og bolt- inn er að koma til mín á mismunandi hátt. Ég reyni þá að sjá fyrir mér hvernig ég myndi afgreiða hvern bolta. Ég sé líka fyrir mér að ég sé að fá bolta til mín í erfiðum aðstæðum og vinn svo úr því hvernig ég myndi leysa þær aðstæður. Eftir leiki, þegar maður fer að sofa, er gott að hugsa út í atriði sem gerðust í leiknum. Atriði sem maður hefði getað leyst betur og hvernig maður hefði átt að gera það og líka atriði sem maður leysti vel og hvernig maður gerði það. Sjálfstal Mistök eru partur af leiknum. Ef maður verður smeykur við að gera mistök eykur maður líkurnar á að gera þau. Það er mjög algengt, ef maður t.d. á sendingu sem klikkar, að hugsa næst þegar maður er að fara að senda boltann að maður verði að passa sig að klikka ekki aftur. Það eykur líkurnar á að maður geri mistök. Gott er að hugsa alltaf þegar maður gerir mistök að þau séu partur af leiknum og maður verður að reyna sem fyrst aftur að gera sama hlutinn til að sýna sjálfum sér að maður geti gert hann betur. Maður á ekki að hugsa HVORT hlutur er að fara að takast hjá manni, maður á að hugsa að hann ER að fara að takast! Aldrei verða södd/saddur Maður á alltaf að leitast eftir því að bæta sig og aldrei halda að maður sé kominn á toppinn. Maður getur alltaf meira!

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.