Morgunblaðið - 03.01.2020, Síða 26
26 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 3. JANÚAR 2020
G
uðmundur Arnar var
áður markaðsstjóri
Wow air, Íslandsbanka,
Nova og markaðsstjóri
Icelandair í Bretlandi.
Nú eru margir sem vilja verða
betri á samfélagsmiðlum og þurfa
jafnvel á því að halda vegna vinnunn-
ar. Hvað mælir þú með að þetta fólk
tileinki sér?
„Á netinu þurfum við að hugsa um
okkur sem vörumerki. Í grunninn
snúast vörumerki um allar þær hug-
myndir sem fólk hefur um okkur en
vörumerki eru eingöngu til í hug-
anum. Á samfélagsmiðlum getum við
auðveldlega fylgst með fólki og þann-
ig, meðvitað eða ómeðvitað, myndað
okkur skoðun á því. Það sem fólk sér
okkur skrifa og gera hefur mikil áhrif
á hugmyndir fólks um okkur. Við
þurfum því að hafa í huga að eitthvað
sem við gerum eða segjum með nán-
um vinum eða fjölskyldu á stundum
ekkert erindi á netið, frekar en á
kaffistofunni í vinnunni eða á öðrum
opinberum stað. Þegar við erum að
selja þjónustu eða sækja um vinnu
eru netmiðlar ein af leiðunum sem
mögulegir mótaðilar styðjast við til
að kynna sér okkur. Það getur því
haft mikil áhrif á tækifæri okkar á
vinnumarkaði að passa vel upp á það
hvernig við birtumst öðrum þar,“
segir Guðmundur Arnar.
Hvað kennir þú fólki á þínum nám-
skeiðum?
„Markaðsakademían er með fjöl-
breytta flóru af námskeiðum. Til
dæmis um stjórnun markaðsstarfs,
auglýsingakerfi Facebook og In-
stagram, tekjustýringu og sölu og
þjónustu. Ég kenni sjálfur Ofurþjón-
ustunámskeið og Stjórnun markaðs-
starfs. Á báðum námskeiðum er þátt-
takendum hjálpað á hagnýtan hátt að
ná mun meiri árangri í sínum störf-
um. Það voru hátt í 1.000 þátttakend-
ur á námskeiðunum okkar árið 2019
og hafa þátttakendur náð frábærum
árangri í framhaldi. Markaðs-
akademían hefur svo í auknum mæli
verið að klæðskerasníða nám, nám-
skeið og fyrirlestra fyrir fyrirtæki og
þá sérstaklega fjarnám. Þá geta
fyrirtæki verið að mennta nýtt og
eldra starfsfólk hvar og hvenær sem
er, og jafnvel með prófi til að tryggja
skilning. Það hefur hentað mjög
mörgum fyrirtækjum að útvista
fræðslu og þjálfun á þennan hátt. 23.
mars á næsta ári er svo stór dagur
hjá okkur. Þá mun Disney Institute
koma til Íslands og vera með fyr-
irlestur um það hvernig Disney býr
til sína þjónustugaldra ásamt því að
kenna okkur hvernig öll fyrirtæki
geta tileinkað sér Disney-trixin. Á
ráðstefnunni eru einnig stjórnendur
frá Toyota, Hjallastefnunni, Bláa lón-
inu, 66°Norður og Hreyfingu með er-
indi um hvernig þau hafa náð árangri
með þjónustu.“
Hvernig er markaðsheimurinn að
breytast?
„Þegar ég starfaði hjá Icelandair
fyrir mörgum árum átti að fara að
kynna nýjung hjá fyrirtækinu. Yfir-
menn mismunandi sölusvæða komu
saman á fundi vegna þessa og það var
farinn hringur þar sem allir fóru yfir
hvernig ætti að kynna þessa nýjung í
mismunandi löndum. Þegar kom að
Íslandi sagði svæðisstjórinn: „Ég
hugsa að við kaupum bara 1-2 heil-
síður í Morgunblaðinu“ og salurinn
hló, en á þeim tíma var það í raun nóg
til að ná til nánast allra. Í dag er um-
hverfið orðið flóknara og því þurfa
flestir fleiri miðla og aðferðir. Í
grunninn hefur markaðsstarf samt
kannski ekki breyst mikið. Við þurf-
um að vita hvað markhópurinn okkar
vill, skapa boð sem uppfyllir þær
þarfir og afhenda svo virðið á ein-
hvern stöðugan hátt. Svo grunnurinn
í því sem við kennum: að skilja fólk og
markaði ásamt stefnumótun hefur
kannski ekki breyst mikið en við höf-
um í dag fleiri tæki og tól fyrir að-
gerðirnar sem við notum til að ná
markmiðunum.“
Hvað þarf fólk að tileinka sér til
þess að verða ekki undir?
„Við lifum á tímum þar sem við
þurfum sífellt að vera að mennta okk-
ur. Þegar háskólanámi lýkur tekur
við stöðug endurmenntun. Heim-
urinn er að breytast hratt og störfin
með. Til að tryggja framtíðarmögu-
leika okkar á vinnumarkaði hefur því
aldrei verið mikilvægara að við séum
sífellt að læra. Þetta á ekki síður við
markaðsstörf en önnur. Eitt sem ein-
kennir sérstaklega markaðs-
fræðsluna er magnið af, í raun, vit-
leysu sem má finna á netinu og
annars staðar. Það er alltof mikið
skrifað og miðlað af vanþekkingu sem
hefur áhrif á stjórnendur með oft afar
neikvæðum og kostnaðarsömum af-
leiðingum. Við þurfum því að passa
hvaðan þekkingin kemur sem við lát-
um hafa áhrif á okkar störf.“
Nú nota sumir Facebook sem önd-
unarvél. Hefur þú heyrt að það hafi
hamlað fólki að fá vinnu að hafa látið
eins og bjánar á netinu?
„Ég veit um mörg dæmi um slíkt.
Einnig dæmi um að fólk hafi fengið
áminningu í starfi vegna ummæla og
mynda. Ef allt það sem fólk sér, heyr-
ir og les um okkur hefur áhrif, þá
þurfum við að passa að við séum á öll-
um stöðum að endurspegla þá ímynd
sem við viljum standa fyrir, rétt eins
og fyrirtæki þurfa að gera. Ímynd
fyrirtækja getur svo orðið fyrir áhrif-
um af ímynd starfsmanna.“
Hvert verður næsta stóra mál í
þessum rafræna heimi?
„Við eigum eftir að sjá gervigreind
leika stærra hlutverk í enn fleiri kerf-
um sem hjálpa okkur að ná árangri.
Meiri sjálfvirkni mun fækka starfs-
fólki við störf sem skapa lítið virði.
Mannleg samskipti verða þó enn mik-
ilvægari en fjöldi þeirra minnkar. Þó
að mest af samskiptum viðskiptavina
við banka og í matvöruverslunum
færist sífellt meira yfir í öpp og tæki
fara þau samskipti sem eftir standa
að hafa meiri áhrif á ímynd. Mik-
ilvægi vörumerkja mun jafnframt
aukast með sífellt fleiri kostum. Þeg-
ar fólk verslar í Bónus gengur það yf-
irleitt framhjá nánast öllum vörum í
hillum. Allar hafa því tækifæri til að
fá athygli frá okkur. Þegar fólk gúgl-
ar eða leitar í vefverslun koma aðeins
örfáar leitarniðurstöður upp í einu.
Hvaða síðu fólk fer inn á, tengil fólk
smellir á eða orð fólk gúglar stjórnast
því mikið af vörumerkjunum sem við
könnumst við eða þeim sem koma
fyrst upp í hugann. Mikilvægasta
leitarvélin er því enn sem áður sú sem
er í huga okkar!“
Hegðun á netinu getur
eyðilagt atvinnumöguleika
Guðmundur Arnar Guðmundsson, markaðsráðgjafi og stundakennari við Háskólann í
Reykjavík, er framkvæmdastjóri Markaðsakademíunnar. Hann heldur fjölbreytt námskeið
sem tengjast hinum stafræna heimi. Hann segir að stafræni heimurinn taki stöðugum breyt-
ingum og fólk þurfi að átta sig á því að það er að markaðssetja sig með hegðun á netinu.
Marta María Jónasdóttir | mm@mbl.is
Guðmundur Arnar
Guðmundsson,
framkvæmdastjóri
Markaðsakademíunnar.
Ljósmynd/Thinkstockphotos
Við þurfum að hugsa um okkur sjálf
sem vörumerki á netinu, að mati
Guðmundar Arnars.
Spennandi námskeið 2020
Námskeið í boði fyrir
börn og unglinga
• Teiknun, málun & mótun
Námskeið í boði fyrir
fullorðna
• Teiknun - Módelteiknun
• Vatnslitamálun
• Olíumálun & Akrýlmálun
• Myndlist
• Gömlu meistararnir
• Módelmálun
• Leirmótun