Morgunblaðið - Sunnudagur - 05.01.2020, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - Sunnudagur - 05.01.2020, Blaðsíða 14
VIÐTAL 14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 5.1. 2020 É g kem stríðmannaður til fundar við Ragnar Bragason; fast á hæla mér koma eigi færri en fjórir ljósmynd- arar, Ragnar Axelsson, Árni Sæ- berg, Kristinn Ingvarsson og Gunnar Vigfússon. „Það er bara „crew“,“ segir Ragnar svolítið undrandi á svipinn yfir þessum mikla viðbúnaði. Á þessu sjálfsagt ekki að venjast úr blaðaviðtölum. Það er að vísu aðeins nafni hans Axelsson sem er mættur til að taka myndirnar, hinir eru bara fyrir tilviljun að hittast þarna yfir kaffibolla á sama tíma. En Ragnar þarf ekkert að vita af því. Ekkert jafn- ast á við tilþrifamikla innkomu! Á dagskrá fundarins eru umræður um nýj- ustu kvikmynd Ragnars, Gullregn, sem for- sýnd er í dag, sunnudag, en kemur í almennar sýningar í kvikmyndahúsum frá og með næsta föstudegi. Í Gullregni er hermt af Indíönu, konu á besta aldri, sem býr í lítilli íbúð í Fella- hverfinu í Breiðholti, þar sem hún lifir á bótum þótt hún sé alheilbrigð. Indíana er umkringd fólki af erlendum uppruna sem hún fyrirlítur og heimi hennar er snúið á hvolf þegar stálp- aður sonur hennar, sem hún hefur alið upp við sömu gildi, kemur heim með pólska unnustu, eins og ekkert sé sjálfsagðara. Ekki léttist lund frúarinnar þegar maður frá umhverfis- ráðuneytinu bankar upp á og tilkynnir Indíönu að öll erlend tré á Íslandi skuli fjarlægð en í litlum garði við íbúðina hefur hún ræktað for- láta gullregn sem er hennar stolt og yndi. Var upphaflega leikrit Kvikmyndin Gullregn byggist á samnefndu leikriti eftir Ragnar sjálfan, sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu árið 2012 og var hans fyrsta sviðsverk. „Ég hafði aldrei velt því fyrir mér að vinna í leikhúsi þegar Magnús Geir Þórðarson, sem þá var borgarleikhússtjóri, nefndi það við mig nokkru fyrr,“ segir Ragnar. „Til að byrja með sneri ég mig bara út úr þessu með þeim orðum að leikhúsið væri ekki minn heimur, ekki minn tebolli. Ég kynni þetta einfaldlega ekki. Magnús Geir gafst hins vegar ekki upp; hélt áfram að færa þetta í tal og bauð mér á endanum að koma og gera það sem mig langaði. Á endanum lét ég tilleiðast og sé ekki eftir því. Það var mjög skemmtileg og gefandi reynsla að skrifa og setja upp leik- rit,“ segir Ragnar sem lét raunar ekki þar við sitja en hann hefur skrifað og leikstýrt tveim- ur öðrum verkum á sviði, Óskasteinum í Borg- arleikhúsinu og Risaeðlunum í Þjóðleikhúsinu. Til að gera langa sögu stutta þá gekk Gull- regn vonum framar; umsagnir voru lofsam- legar og aðsókn góð. Raunar svo góð að færa þurfti verkið af Nýja sviðinu yfir á Stóra svið- ið. Á uppskeruhátíð leikhúsanna, Grímunni, var Ragnar svo valinn leikstjóri ársins og Brynhildur Guðjónsdóttir leikkona ársins í aukahlutverki. Vinnuferlið við uppsetningu Gullregns í Borgarleikhúsinu var býsna óvenjulegt en Ragnar vann mjög náið að persónusköpuninni með leikurunum og útvíkkaði með þeim hætti grunnhugmyndina að sögunni. „Ég kom að borðinu með sögu, upphaf, miðju og endi, en vann náið með hverjum og einum leikara til að bæta kjöti á beinin,“ segir hann. Algjörlega ný aðferð Rifjum til fróðleiks upp orð Sigrúnar Eddu Björnsdóttur úr viðtali í Morgunblaðinu haust- ið 2012 en hún lék Indíönu bæði í leikritinu og kvikmyndinni: „Ég hitti Ragnar fyrst í janúar á þessu ári þar sem hann sagði mér undan og ofan af hug- mynd sinni að leikritinu. Hann sagði mér hver litur minnar persónu væri í sögu hans. Í fram- haldinu hittumst við fjórum sinnum þar sem hann lagði fyrir mig ákveðnar spurningar sem kröfðust mikillar rannsóknarvinnu af minni hálfu. Hann hitti aðra leikara verksins eins- lega með sama hætti. Í maí hittumst við loks allir leikararnir og byrjuðum þá að vinna spunavinnu út frá lykilsetningum frá Ragnari. Hann tók þetta allt saman upp á kameru og var með 90 klst. spunaefni til að skrifa leikritið út frá í sumar. Í raun má segja að Ragnar vinni eftir sömu aðferðum og Mike Leigh þegar hann gerir kvikmyndir sínar, nema Ragnar færir þessar aðferðir inn í leikhúsið. Þetta er í fyrsta skipti, svo ég viti til, sem svona hefur verið unnið í leikhúsi. Þetta er mjög gefandi vinnuferli, bæði krefjandi og skemmtilegt, enda algjörlega ný aðferð fyrir mér.“ Þetta var óbeint ástæðan fyrir því að hætta þurfti að sýna Gullregn fyrir fullu húsi en einn leikenda, Halldóra Geirharðsdóttir, var þá á leið í heimsreisu. „Oftast er hægt að skipta nýjum leikara inn en í þessu tilfelli fannst mér það ekki ganga, þar sem Halldóra átti svo stór- an þátt í persónusköpuninni,“ segir Ragnar. Þegar sýningum lauk fór hann að velta fyrir sér hvort verkið ætti sér mögulega framhalds- líf á hvíta tjaldinu; úr því það hefði fallið svona vel í kramið. „Þess utan hafði ég hugsað þetta verkefni filmískt frá upphafi og velt fyrir mér samhliða sviðsetningunni hvernig sagan kæmi út í sjónvarpinu eða í kvikmynd. Kvikmynd býður upp á stærra spektrúm, leikritið gerist allt í einni íbúð í Breiðholtinu, auk þess sem þetta var kærkomið tækifæri til að kynnast persónunum betur og kafa dýpra í þeirra líf.“ Ennþá að koma á óvart Þetta var ný áskorun enda hefur Ragnar allan sinn feril litið svo á að þegar verkefni sé lokið þá sé því lokið. „Ég hef ekki séð neitt af mínum verkum eftir frumsýningu. Ég sleppi þeim bara út í kosmósinn og nýtt verkefni tekur við. Það er svolítið skrýtin tilfinning að hafa lifað með Gullregni í átta ár og að sagan og persón- urnar séu ennþá að koma mér á óvart.“ Eðli málsins samkvæmt leitaði Ragnar til sömu leikara þegar fyrir lá að myndin yrði að veruleika. Með einni undantekningu, Bryn- hildur Guðjónsdóttir, sem lék pólsku unn- ustuna í leikritinu, er ekki með að þessu sinni. „Það gilda önnur lögmál á tjaldinu en á sviðinu og Brynhildur hafði orð á því af fyrra bragði hvort ekki væri betra að ég fyndi leikkonu sem væri pólsk í húð og hár,“ segir Ragnar sem leiddi hann að Karolinu Gruszka, sem er stór- stjarna í heimalandinu, bæði í leikhúsi og kvik- myndum. Það fékk Ragnar snemma staðfest. „Þegar hún kom hingað í fyrsta skipti til æfinga og undirbúnings fórum við nokkrum sinnum sam- an á kaffihús í miðborginni og það brást ekki að andlitið datt af starfsfólkinu. Það trúði ekki að Karolina Gruszka væri stödd á Íslandi,“ segir Ragnar hlæjandi en margir Pólverjar starfa sem kunnugt er á kaffi- og veitinga- húsum í Reykjavík. Vann þrekvirki Karolina hafði aldrei komið til Íslands og tal- aði að vonum ekki stakt orð í íslensku. Hlut- verkið var því mikil áskorun fyrir hana en per- sóna hennar tjáir sig eingöngu á íslensku í myndinni. Og Karolina þurfti ekki aðeins að læra og skilja sínar línur, heldur líka línur mótleikaranna til að geta brugðist eðlilega við. Henni til halds og trausts á æfingaferlinu var Jasek Godek, sem talar bæði tungumál og hef- ur um árabil verið lykilþýðandi á íslenskum skáldskap yfir á pólsku, auk þess að vera van- ur leikhúsmaður. „Þetta tókst einstaklega vel og Karolina vann þrekvirki; gerði hlutverkið algjörlega að sínu. Hún náði ótrúlegu valdi á textanum en hún lærði línurnar sínar meira eins og músík en tungumál.“ Hallgrímur Ólafsson er einnig í burðar- hlutverki í myndinni en hann leikur Unnar, son Indíönu. Af öðrum leikendum má nefna Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur og Ingibjörgu Reynisdóttur. Karolina Gruszka var ekki eini liðsaukinn frá Póllandi en þarlent fyrirtæki, Madants, framleiðir Gullregn ásamt kollegum sínum hér heima, Mystery. Þá fékkst vegleg fjárfesting- arupphæð úr pólska kvikmyndasjóðnum sem hafði að sögn Ragnars mikla þýðingu. Sjálfur hefur hann verið meira og minna í Varsjá frá því í sumar en þar fóru hljóðvinnsla og tónlist- arupptaka meðal annars fram. „Þetta hefur verið mikið ævintýri en við fengum til að mynda heila viku í upptökuveri til að taka upp tónlistina, sem Mugison gerir, með sinfóníu- hljómsveit og kór. Samstarfið við pólsku fram- leiðendurna hefur gengið mjög vel og gaman að fá ferskt auga inn í verkefnið,“ segir Ragn- ar og bætir við að mikill áhugi sé að vonum fyr- ir Gullregni í Póllandi. Að ekki sé talað um Pól- verja sem búa á Íslandi en þeir losa nú tuttugu þúsund. Hringrás ofbeldis Spurður hvaðan sagan sé sprottin svarar Ragnar því til að hann sé í grunninn að fjalla um fjölskyldu og samskiptin innan hennar. „Án þess að ég ætli mér það þá verða fjöl- skyldur yfirleitt miðlægar í mínum verkum. Ég skal ekki segja hvað veldur, það er fyrir aðra að sálgreina,“ segir hann brosandi. „Ætli megi ekki líka segja að Gullregn fjalli um for- dóma og ofbeldi í ýmsum myndum. Einskonar hringrás ofbeldis. Sprettur ofbeldi ekki gjarn- an af fordómum? Annars er ekki alltaf gott að segja hvort kemur á undan, eggið eða hænan.“ – Eru miklir fordómar á Íslandi? „Við erum ekki fordómafyllra samfélag en gengur og gerist. Eins og ég segi þá hef ég ver- ið mikið í Póllandi undanfarna mánuði og um- ræðan þar er mjög áhugaverð enda eru menn að glíma við mjög neikvæða hluti í stjórnmálum og samfélaginu yfirhöfuð. Það eru öfgaöfl við stjórnvölinn; flokkur sem elur á fordómum gagnvart minnihlutahópum, samkynhneigðum og fleirum. Af þessum sökum er sýnileg ólga í Póllandi; hjá þjóð sem á sér dramatíska sögu og hefur á löngum köflum verið fótum troðin. Hvað okkur Íslendinga varðar, þá erum við í grunninn ekki fordómafull þjóð en okkur hættir samt til að loka augunum fyrir vandamálum af þessu tagi. Við viljum vera víðsýn en undir niðri krauma fordómar sem sett hafa svartan blett á okkar sögu. Í því sambandi nægir að nefna beiðni íslenskra stjórnvalda í seinni heimsstyrj- öldinni þess efnis að hingað kæmu ekki þel- dökkir hermenn.“ Hann þagnar stutta stund en heldur síðan áfram. „Í mínum huga er Gullregn enginn áfellis- dómur yfir íslensku þjóðinni en minnir okkur hins vegar á að við erum ekki fullkomið þjóð- félag. Frekar en önnur. Af hvaða meiði spretta Öld konunnar er upp runnin Fordómar eru miðlægir í nýjustu kvikmynd Ragnars Bragason- ar, Gullregni, sem frumsýnd verður á föstudaginn kemur. Sjálf- ur hefur Ragnar óbeit á rasisma og xenófóbíu, sem aðalpersónan er heltekin af, en nálgast persónuna eigi að síður af virðingu, líkt og aðrar persónur sem hann hefur skapað. Og í seinni tíð eru það ekki síst konur – enda öld konunnar upp runnin. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.