Morgunblaðið - 19.02.2020, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 19.02.2020, Blaðsíða 27
GRIKKLAND Kristján Jónsson kris@mbl.is „Persónulega hefur gengið mjög vel hjá mér þessi tæpu tvö ár sem ég hef verið hérna. Ég hef því ekki yfir neinu að kvarta,“ segir Ögmundur Krist- insson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, um lífið og spilamennskuna í Grikklandi. Ögmundur er á sínu öðru tímabili í Grikklandi en hafði áður leikið í Danmörku, Svíþjóð og Hol- landi. Til tíðinda telst ef Ögmundur missir úr leik í seinni tíð en hann hefur leikið alla deildarleiki sinna liða síðan í apríl 2018. Hann hefur ekki misst úr deildarleik í Grikklandi og er fyrir vikið næstleikjahæsti Íslendingurinn í efstu deild Grikklands frá upphafi. Þar hefur einungis Arnar Grétarsson vinninginn með 67 leiki. Sjálfur gerir Ögmundur ekki of mikið úr þessu og segir heppni spila inn í. „Jú jú, maður reynir nú að passa upp á sig enda er það hluti af vinnunni en maður hefur verið heppinn. Meiðsli gera ekki alltaf boð á undan sér og menn geta ver- ið misheppnir í þeim efnum. Ég hef verið heppinn undanfarið og reyni að halda því þannig.“ Larissa er sem stendur í 11. sæti af fjórtán lið- um í grísku deildinni með 26 stig eftir 24 umferð- ir. „Deildin er ansi njöfn og sérstaklega er miðju- moðið mjög jafnt. Nú eru tveir leikir eftir í deildakeppninni eða áður en úrslitakeppnin byrj- ar. Við þurfum að sjá hvað gerist ef okkur tekst að vinna síðustu tvo leikina. Þá kemur í ljós hvort okkur tekst að hanga í efri hlutanum.“ Samningurinn rennur út í sumar Samningur Ögmundar rennur út í sumar og forráðamenn Larissa hafa tekið upp viðræður við markvörðinn um framhaldið. „Larissa vill semja aftur við mig og við höfum rætt málin. Ég er að skoða stöðuna en önnur félög hafa sýnt mér áhuga. Ég á því eftir að leggjast yf- ir það sem er í boði. Ég vil ekki segja allt of mikið um þessi mál að svo stöddu en ég er alla vega spenntur fyrir framtíðinni,“ segir Ögmundur en hann var á dögunum orðaður við AEK í Aþenu en þar hafa þeir Arnar, Eiður Smári Guðjohnsen og Elfar Freyr Helgason leikið. Spurður um baklandið og umgjörðina hjá Lar- issa segir Ögmundur það vera gott. „Baklandið er fínt. Larissa er eitt þeirra liða sem koma næst á eftir stóru liðunum og hefur til dæmis orðið meist- ari. Völlurinn er flottur en mætingin gæti verið betri þótt stuðningsmennirnir séu góðir. Mikill áhugi er á fótbolta í Grikklandi sem er mjög skemmtilegt. Grikkirnir eru mjög heitir yfirhöfuð og sérstaklega þegar kemur að fótboltanum. Allir eiga sitt lið og allir hafa skoðanir á hlutunum. Mikið er rætt um fótboltann og fólk fylgist með. Í kringum félögin er oft alls kyns pólitík sem snýr að eigendunum en það er eitthvað sem ég hef ekki sett mig inn í og ætla ekki að gera.“ Larissa kom til Íslands Ýmsar kempur hafa spilað fyrir Larissa í gegn- um árin. Þar má nefna Geremi, Luis Boa Morte, Nolberto Solano, Lauren Robert og Stelios Gian- nakopoulos til að nefna einhverja. Larissa kom til Íslands sumarið 2009 og mætti KR í forkeppni fyrir Evrópudeildina. KR sigraði 2:0 í Frosta- skjólinu og liðin gerðu 1:1 jafntefli. Ekki eru þetta þau úrslit sem menn eru stoltastir af hjá gríska félaginu en eru menn nokkuð búnir að gleyma því þar á bæ að hafa verið slegnir út af íslensku liði? „Nei nei, alls ekki. Sjúkraþjálfarinn í liðinu var að ég held með Larissa í þessari ferð og veit allt um þetta. Fleiri menn hjá félaginu hafa nefnt þetta við mig. Þeir segjast hafa haldið að þeir væru á leið í skemmtiferð til Íslands til að mæta áhugamannaliði en fengið að kenna á því.“ Ögmundur segist skilja eitthvað í grískunni en segir að innan hópsins sé bæði töluð gríska og enska. „Annaðhvort er töluð gríska, og þá með hjálp frá enskum túlk, eða það er töluð enska. Maður reynir að koma sér inn í grískuna eins mikið og maður getur. Eftir tæp tvö ár er maður farinn að geta bjargað sér en ekki alveg nógu mikið.“ Lífsgæði í Grikklandi fóru niður á við eftir bankakreppuna eins og frægt varð og fluttar voru fréttir af efnahagserfiðleikum í Grikklandi um nokkurt skeið. Eru Grikkir að ná vopnum sínum? „Auðvitað er lífið hér frábrugðið því sem maður hefur kynnst heima á Íslandi. Töluvert ódýrara er að lifa í Grikklandi heldur en á Norðurlöndunum. Maður verður var við að hér hafi verið kreppa. Þetta tekur tíma eins og við Íslendingar vitum sjálfir. Ég vona Grikkjanna vegna að stöðugleik- inn verði meiri hérna enda hafa þeir ýmsa tekju- möguleika, til dæmis í ferðaþjónustunni. En ég er svo sem ekki neinn sérfræðingur í þjóðfélagsmál- unum í Grikklandi,“ segir Ögmundur Kristinsson, en Morgunblaðið tók púlsinn á honum í gær. Hefur enn ekki misst úr deildarleik í Grikklandi  Ögmundi markverði stendur til boða að vera áfram hjá Larissa AFP Traustur Ögmundur Kristjánsson hefur ekki misst af deildarleik síðan í apríl árið 2018. ÍÞRÓTTIR 27 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 19. FEBRÚAR 2020  Thelma Dís Ágústsdóttir, landsliðs- kona í körfubolta, var valin íþrótta- maður vikunnar hjá Ball State- háskólanum í Indiana vestanhafs. Thelma skoraði 26 stig, tók sjö fráköst og gaf tvær stoðsendingar í 69:58- sigri á Buffalo. Hefur hún nú í tvígang hlotið viðurkenninguna.  Þýska knattspyrnufélagið Borussia Dortmund keypti í gær þýska miðju- manninn Emre Can frá Juventus. Can kom til Dortmund á lánssamningi í janúar, en þýska félagið hefur nú keypt hann á 25 milljónir evra. Can lék með Liverpool áður en hann fór til Juven- tus.  Knattspyrnudeild Magna hefur fengið miðjumanninn Tómas Veigar Eiríksson að láni frá KA. Tómas lék tvo leiki með Magna síðasta sumar, en var einnig að láni hjá KF. Hann skrifaði ný- verið undir samning við KA sem gildir til 2021.  Danski miðvörðurinn Andreas Christensen hjá Chelsea var nefbrot- inn þegar hann reyndi að koma í veg fyrir að Anthony Martial kæmi Man- chester United yfir á lokamínútum fyrri hálfleiksins í viðureign liðanna á Stamford Bridge í fyrrakvöld. Fjórum mínútum áður en Martial skoraði fékk Christensen þungt högg frá Frakk- anum í návígi þeirra og þurfti aðhlynn- ingu í smástund. Hann hélt áfram en á 45. mínútu hafði Martial betur í skalla- einvígi við Danann og skoraði fyrir United. Christensen var síðan skipt af velli í hálfleik. Chelsea missti líka N’Golo Kanté af velli snemma leiks vegna meiðsla og Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, sagði að um tognun væri að ræða sem ætti eft- ir að skoða betur en útlitið væri ekki gott.  Danski knattspyrnumaðurinn Mart- in Braithwaite gæti orðið leikmaður Barcelona á næstu dögum en félagið íhugar að kaupa hann af Leganés. Þar sem Ousmane Dembélé verður frá keppni í meira en sex mánuði má Barcelona kaupa leikmann strax, þó félagaskiptaglugginn sé ekki opinn, samkvæmt reglum spænsku 1. deild- arinnar. Sá leikmaður má þó aðeins koma frá öðru spænsku liði og yrði ekki gjaldgengur með Barcelona í Meistaradeild Evrópu. Braithwaite hef- ur skorað 6 mörk í 19 leikjum með Leganés í vetur og sjö mörk í 39 lands- leikjum fyrir Danmörku.  Forseti portúgalska knattspyrnu- félagsins Porto hefur staðfest að Iker Casillas, markvörðurinn reyndi, sé formlega hættur sem leikmaður hjá félaginu en Casillas tilkynnti um fram- boð sitt til kjörs forseta spænska knattspyrnusambandsins á mánudag- inn. Forsetinn, Pinto de Costa, sagði við O Jogo að þeir hefðu sest saman yfir morgunverði þar sem Ca- sillas hefði tjáð honum ákvörðun sína. Markvörð- urinn hefur ekkert spilað síðan hann fékk hjartaáfall á æf- ingu með Porto síðasta vor en hóf æfingar á ný með liðinu í nóvember. Hann lék 725 mótsleiki fyrir Real Madrid og 167 landsleiki fyrir Spán og vann fjölda titla með báðum liðum. Eitt ogannað Valsmenn gætu mætt sínum fornu fjendum í Potaissa Turda frá Rúmeníu, takist þeim að sigra Halden frá Noregi í átta liða úrslitum Áskorendabikars karla í handknattleik. Dregið var til átta liða úrslitanna í gær og Valur dróst gegn Halden, þar sem fyrri leikurinn á að fara fram í Noregi, en Potaissa mætir AEK frá Grikk- landi. Tvö ár í röð náði rúmenska félagið að slá út ís- lensk lið með einu marki samanlagt í undanúrslitum í þessari sömu keppni, Val vorið 2017 og ÍBV vorið 2018. Seinni leikur Vals og Potaissa í Rúmeníu var sérstaklega sögulegur, Valur hafði unnið 30:22 á Hlíðarenda en tap- aði 32:23 í Turda eftir allskrautlega dómgæslu sem HSÍ kvartaði yfir til EHF. Mótherjar Valsmanna í átta liða úrslitunum, Halden, eru í áttunda sæti af tólf liðum í norsku úrvalsdeildinni og hafa verið á þeim slóðum síðustu ár. Liðið er frá samnefndum bæ syðst í Noregi, skammt frá sænsku landa- mærunum, mitt á milli Óslóar og Gautaborgar. Leikið er tvær síðustu helg- arnar í mars, fyrst í Noregi. vs@mbl.is Valur gegn fornum fjendum? Valsmenn fara til Noregs. Stuðningsmenn enska knattspyrnufélagsins Tottenham Hotspur fengu slæmar fréttir í gær þegar félagið skýrði frá því að suðurkóreski sóknarmaðurinn Heung-min Son væri handleggsbrotinn eftir leikinn gegn Aston Villa á sunnudaginn. Þar skoraði hann tvö mörk í 3:2 útisigri, sigurmarkið í uppbótartíma, en lék brotinn eftir að hafa meiðst þegar hann skoraði fyrra mark sitt í leiknum á lokamínútu fyrri hálfleiks. Son er á leið í aðgerð og sam- kvæmt tilkynningu félagsins verður hann frá keppni í nokkrar vikur. José Mourinho knattspyrnustjóri sagði á fréttamannafundi í gær að hætt væri við að fjarvera hans yrði lengri, jafnvel út tímabilið. Tottenham er því án tveggja sinna bestu sóknarmanna þar sem Harry Kane fyrirliði er úr leik fram á vor eftir að hafa meiðst illa á nýársdag. Tottenham verður í það minnsta án Son í leikjunum gegn RB Leipzig frá Þýskalandi í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu en fyrri leikurinn fer fram í London í kvöld. Atalanta mætir Valencia í hinum leik kvöldsins í keppninni. vs@mbl.is Annar lykilmaður úr leik Heung-min Son

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.