Dagblaðið Vísir - DV - 09.10.2020, Blaðsíða 18

Dagblaðið Vísir - DV - 09.10.2020, Blaðsíða 18
18 EYJAN 9. OKTÓBER 2020 DV PÓLITÍKIN EINKENNIST FREKAR AF STJÓRNLYNDI EN FRJÁLSLYNDI Fáir íslenskir stjórnmálamenn virðast tortryggja vald, sem vekur upp spurningar um hversu frjálslyndir þeir eru í raun. Merking hugtaksins er mjög á reiki í umræðunni. Á ÞINGPÖLLUM Björn Jón Bragason eyjan@eyjan.is Flokkspólitískur ágrein-ingur er fjarri því jafn-djúpstæður og hann var hér á árum áður. Pólitískar kennisetningar og hugmynda- fræðilegar heildarlausnir, hafa að mestu leyti vikið fyrir tæknilegum úrlausnarefnum. Á sama tíma er merking hug- taka í stjórnmálaumræðunni mjög á reiki. Hvað er vinstri og hvað er hægri? Jú, líklega er það almennur skilningur að tilteknir stjórnmálamenn séu vinstra megin í tilverunni, en hvenær tekur miðjan við og hverjir myndu teljast til hægrimanna hér á landi? Því er ekki auðsvarað. Óljóst hugtak Annað hugtak sem notað er með mjög óljósum hætti er frjálslyndi. Hvenær er maður frjálslyndur og hvenær ekki? Svo virðist sem langstærstur hluti íslenskra stjórnmála- manna vilji skilgreina sig frjálslyndan. Í stefnuskrá Framsóknarflokks segir að flokkurinn byggi á frjálslyndi. Flokkurinn starfaði lengi í samtökum frjálslyndra flokka, Liberal International, og Stein- grímur Hermannsson, for- sætisráðherra, var um skeið varaforseti þeirra samtaka. Í stefnuskrá Viðreisnar er kom- ist svo að orði að flokkurinn sé „frjálslyndur og alþjóðlega sinnaður flokkur“, svo dæmi sé tekið. Viðreisn undirstrikar þessa afstöðu með aðild að ALDE, samtökum frjálslyndra flokka í Evrópu. Þessir tveir flokkar, Fram- sóknarflokkur og Viðreisn, boða engu að síður gerólíka stefnu í veigamiklum málum. Þá er annar þéttbýlisflokkur á meðan hinn sækir einkum fylgi til hinna dreifðari byggða. Mikið notað hugtak Að minnsta kosti fjórir ís- lenskir flokkar hafa kennt sig við frjálslyndi. Frjálslyndi flokkurinn gamli var forveri Sjálfstæðisflokksins, Samtök frjálslyndra og vinstrimanna voru stofnuð 1969 og fengu menn kjörna í alþingiskosn- ingunum 1971 og 1974. Þing- flokkur frjálslyndra hægri- manna var stofnaður 1989 af tveimur þingmönnum úr Borgaraflokknum. Og þá átti Frjálslyndi flokkurinn hinn síðari menn á Alþingi árin 1999–2009. Ekki verður séð að þessir flokkar hafi almennt boðað neitt frekara frjálslyndi en aðrir flokkar. Ólíkar áherslur Frjálslyndishugmyndir eiga rætur sínar að rekja til and- stöðu við einveldi konunga og um leið trúarofstækis, sem gegnsýrði vestræn þjóðfélög fyrri alda. Valddreifing er stundum nefnd í sömu andrá og frjálslyndi; með frjálslyndi eigi að verja einstaklinginn frá alræði meirihlutans. Ef við horfum vestur um haf þá eru hugmyndir um frelsi mjög skiptar. Stór hluti fólks þar berst fyrir frelsi frá afskiptum hins opinbera af efnahagsmálum og vopnaeign, en aðhyllist ekki sama frjáls- lyndið þegar kemur að hjóna- böndum samkynhneigðra eða rétti til fóstureyðinga, svo dæmi séu tekin. Þeir sem að- hyllast sem mest frjálsræði í siðferðisefnum, hafa síðan gjarnan lítinn áhuga á frelsi í verslun og viðskiptum og aðhyllast jafnvel sem mesta opinbera forsjá í þeim efnum. Frjálslyndir um sumt og annað ekki Píratar eru gott dæmi um flokk sem í byrjun boðaði mjög frjálslynda stefnu, en þegar frá líður hefur mál- flutningur talsmanna flokks- ins verið sitt á hvað. Allt frá því að vera afar frjálslyndur yfir í umtalsvert stjórnlyndi. Þingmenn flokksins hafa svo dæmi sé tekið verið miklir talsmenn skoðana- og tján- ingarfrelsis. Í borgarstjórn Reykjavíkur hefur flokkurinn aftur á móti fylgt stjórnlyndri stefnu í samgöngu- og skipu- lagsmálum. Líkt og almenn- ingur vestanhafs sem nefndur var að framan, kjósa menn að vera frjálslyndir um sumt en alls ekki annað. Að tortryggja vald Afstaða til sóttvarnaráðstaf- ana undanfarið hefur leitt í ljós að íslenskir stjórnmála- menn hallast að líkindum flestir frekar í átt til stjórn- lyndis en frjálslyndis. Nú er þeim sem greinast með kórónaveiruna gert að sæta einangrun mun lengur hér á landi en á hinum Norður- löndunum. Með einangrun er gengið harkalega á borgaraleg réttindi, en lítið sem ekkert hefur farið fyrir umræðu um það í stjórnmálunum hvers vegna ástæða sé til harðari skerðingar mannréttinda á Ís- landi en í nágrannalöndunum. Hér er ekki lagt mat á það hversu mikil þörf er á um- ræddum aðgerðum, en frjáls- lyndur stjórnmálamaður myndi spyrja gagnrýnna spurninga þegar jafnlangt er gengið í að hefta borgaraleg réttindi. Það er í eðli hins frjálslynda að tortryggja vald. Meira í orði en á borði Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðarins, fylgirits Frétta- blaðsins, komst svo að orði í forystugrein blaðsins í síðustu viku að samfélaginu stafaði „fyrst hætta af því þegar meg- inþorri almennings tekur því orðið sem sjálfsögðum hlut að gengið sé freklega á athafna- frelsi og borgaraleg réttindi fólks í nafni almannaöryggis“. Ljóst er að þær harkalegu aðgerðir sem gripið hefur verið til í sóttvörnum hafa ekki skilað þeim árangri sem lagt var upp með. Færð hafa verið fram ítarleg rök fyrir því að vægari aðgerðir hefðu getað skilað betri árangri. Bent hefur verið á að í Þýska- landi sé nýgengi smita aðeins fjórðungur af því sem hér er, en þar hefur samt ekki verið farin sú leið að loka landinu. Svo virðist sem umræðan eða umræðuleysið um sótt- varnaráðstafanir stjórnvalda dragi fram útbreitt stjórn- lyndi í íslenskum stjórn- málum. Í reynd eru þeir ekki margir sem tortryggja valdið. Þegar á reynir eiga frjálslynd viðhorf miklu minna fylgi að fagna en ætla mætti, af lestri stefnuskráa flokka og pólitísk- um greinum. n Þegar á reynir eiga frjálslynd viðhorf miklu minna fylgi að fagna en ætla mætti. Gjarnan eru sömu stjórnmálamennirnir mjög frjálslyndir um sumt en stjórnlyndir um annað. MYND/ERNIR

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.