Fréttablaðið - 17.10.2020, Síða 20

Fréttablaðið - 17.10.2020, Síða 20
Jóhanna var 32 ára móðir einnar dóttur, Önnu, sem þá var 10 ára, þegar hún kynnt-ist eiginmanni sínum Geir Sveinssyni.„Þegar við kynntumst fyrir alvöru var hann 39 ára og ég 32, en við höfðum vitað hvort af öðru í mörg ár, börnin okkar tvö voru saman í leikskóla og ég hafði tekið við hann viðtöl þegar ég starfaði í fjölmiðlum og flogið með hann sem flugfreyja hjá Icelandair. Ég þekkti líka Guðrúnu heitna, fyrri konu hans. Hún var bæði að vinna í sjónvarpi og f ljúga eins og ég. Við Geir vorum því ekki alveg að kynnast þegar við svona fórum að horfa á hvort annað með öðrum hætti,“ útskýrir Jóhanna þegar hún er spurð út í upphaf sambandsins sem öllu breytti. „Það voru í raun vinir sem drógu okkur saman og ég held að Jónína Ben hafi spilað stóran þátt í því á sínum tíma. Svo bara urðum við ástfangin og þá er allt mögulegt, en auðvitað voru þetta áskoranir enda fórum við að draga okkur saman um hálfu ári eftir að eiginkona Geirs féll frá og einhverjum hefur ef til vill fundist það alltof snemmt,“ rifjar Jóhanna upp, en fyrri eiginkona Geirs, Guðrún Helga Arnardóttir, lést árið 2003 og auk sonar þeirra, Arnars Sveins sem var þá 12 ára, höfðu þau hjón nýverið tekið að sér ungt stúlkubarn. „En ástin spyr ekki um stað eða stund og í svona aðstæðum er í raun enginn réttur eða rangur tími. Maður snýr ekki baki við ástinni þegar hún verður á vegi manns enda ekkert víst að hún banki upp á aftur. En ég fann aldrei neitt annað en kærleik frá fjölskyldu Guðrúnar Helgu heitinnar og við höfum átt gott samband við þau. Þau hafa líka alltaf umvafið og stutt Arnar Svein enda er hann mjög náinn móður- fjölskyldunni.“ Sjálf átti Jóhanna sambönd og hjónaband að baki og hafði reynsl- una af samsettri fjölskyldu. „Ég gekk í hjónaband þegar ég var 27 ára með Birgi Þór Bragasyni sem átti þrjá unglingsstráka sem bjuggu allir hjá okkur á tímabili auk dóttur minnar.“ Þetta var risa ákvörðun Hún óttaðist því ekki að kynnast manni sem ætti börn en aðstæður voru vissulega erfiðar. „Þarna var bæði fjölskylda í sorg og stutt um liðið. Arnar Sveinn var aðeins tólf ára og nýbúinn að missa mömmu sína og svo Ragnheiður Katrín sem þau voru nýbúin að taka að sér og var aðeins eins og hálfs árs.“ Ragnheiður Katrín var rúmlega tveggja ára þegar Jóhanna og Geir fóru að búa saman og segir Jóhanna það hafa gert það að verkum að ákvörðun hennar var stærri og meiri. „Á þeim tímapunkti er ég ekki bara að ákveða að fara að búa með Geir heldur líka að taka hana að mér og tengjast henni sem móðir. Hún er svo ung þegar ég kem inn í hennar líf að hún á enga minningu um aðra móður, en hún hefur lært að þekkja uppruna sinn. Eins er hún í góðum tengslum við fjölskyldu Guðrúnar heitinnar og er sérlega rík, á fullt af fólki sem þykir vænt um hana.“ Heimilisaðstæður Jóhönnu og dóttur hennar breyttust töluvert með ákvörðuninni, eðli máls- ins samkvæmt. „Þó ég væri ekki að fara að ganga Arnari Sveini í móðurstað var ég meðvituð um þá ábyrgð sem fylgir því að ganga inn í þessar aðstæður og taka því ekki léttvægt. Það var risa ákvörðun en um leið ein besta ákvörðun lífs mín. Við höfum alveg þurft að mæta alls konar áskorunum í okkar sambandi eins og öll önnur hjón eða pör, en við eigum yndislegt samband í dag og dásamleg börn og fjölskyldu,“ segir Jóhanna og bætir við að þau hafi verið svo heppin að Arnar Sveinn og Anna höfðu þekkst frá því á leikskóla og séu bestu vinir í dag. Áskorun og líka gjöf „Maður hefði kannski átt að leita sér meiri aðstoðar á þessum tíma enda er ég ekki sérfróð í þessum efnum, en ég leit á það sem stórar gjafir að fá Arnar Svein og Röggu inn í líf okkar Önnu. Það var áskorun og líka gjöf. Mestu áskoranirnar í lífinu þroska mann mest. Það er auðvelt að fara í gegnum lífið með því að reyna að sneiða hjá öllu erfiðu. Náin sam- skipti þroska mann mest enda mætir maður þar sínum veiku blettum. Það er nefnilega staðreynd að það er ekki alltaf hinn aðilinn sem þarf að laga eitthvað hjá sér heldur þarf maður að horfa inn á við. Það eru kannski stærstu gjafir lífsins, þessar áskoranir, því þær færa mann hraðast fram í þroska og benda manni á eigin veikleika.“ 18 mánuðir á milli sona Jóhanna segist í dag líta á stóra fjöl- skyldu sína sem algjöra guðsgjöf og það skipti hana miklu að lifa í þakk- læti. „Ég er raunverulega þakklát fyrir það hvernig þetta allt þróaðist og fyrir að hafa ákveðið að eignast tvö börn í viðbót,“ segir hún, en saman bættu þau Geir og Jóhanna síðar við sonunum Vilhjálmi og Sveini. „Við höfðum alltaf verið að eign- ast hálfgerð einbirni og langaði því að eignast systkini sem myndu alast upp saman.“ Það varð úr og eru aðeins 18 mánuðir á milli sonanna yngstu. „Þetta var auðvitað gríðarleg vinna og maður spyr sig eftir á, hvert fór tíminn?“ segir Jóhanna í léttum tón. „Það var auðvitað gott að eignast börn saman, en eins og f leiri pör upplifa þá tekur hversdagurinn hressilega við í þessum aðstæðum. Þegar pör eru að kynnast sjá þau varla gallana í fari hins og allt er yndislegt. Svo þegar hversdagur- inn tekur við koma upp áskoranir og við fórum alveg í gegnum þannig tímabil líka. Ennþá skotin í honum Það er ákvörðun að vera í svona nánu sambandi og láta það ganga. Það er kannski sá þroski sem við tókum inn í þetta samband. Þegar koma erfið tímabil í samböndum getur það virkað freistandi að hlaupa í burtu, en þetta snýst um þá ákvörðun að vilja vera saman, vera meðvitaður hvern dag um sam- bandið, rækta það og taka því aldrei sem sjálfsögðum hlut. Það er auðvelt að halda að grasið sé grænna hinum megin, þar sem það er það kannski í stutta stund en þar tekur hversdagurinn einn- ig við. Því þarf maður að spyrja sig hvort maður ætli að rækta samband sem hefur einhverja dýpt með ein- hverjum, eða alltaf lifa á yfirborð- inu. En auðvitað er neistinn líka mikilvægur. Hann þarf að vera til staðar og hjá okkur hefur hann aldrei slokknað. Ég horfi á Geir og er ennþá skotin í honum og finnst hann alltaf langflottastur, sem mér finnst góð tilfinning.“ Vorum öll að gera okkar besta Arnar Sveinn Geirsson, stjúpsonur Jóhönnu, hefur verið opinskár um sjálfsvinnu þá sem hann fór í þegar hann fullorðnaðist, til að takast betur á við móðurmissinn í æsku. Þar hefur hann meðal annars talað um hvernig hann hafi bælt niður til- finningar og minningar sem urðu of sárar og hvernig fólkið í kring hafi ekki alveg vitað hvernig taka ætti á málum. „Það hefur verið yndislegt að fylgjast með því og þeim þroska sem hann hefur tekið út. Við vorum öll að gera okkar besta og Geir alveg sérstaklega í öllu þessu ferli, til að hjálpa honum og líka að vinna úr þessari stöðu fyrir sjálfan sig. Og svo má ekki gleyma því að hann var þarna líka með nýju, litlu dótturina sem þurfti sitt líka. En svona stór sár eru ekki löguð á stuttum tíma og eru í raun ævi- löng verkefni. Við mennirnir erum byggðir til að lifa af og þannig eru sum okkar varnarviðbrögð, til þess einmitt að lifa svona stórt áfall af. Þegar maður lítur til baka má draga ýmsan lærdóm af ferlinu og maður getur alltaf gert betur. Svo kom augnablik í lífi Arnars þar sem hann gat tekið þetta alla leið á þennan hátt og um leið hjálpað öðrum. Sem er auðvitað alveg dásamlegt og við erum ótrúlega hamingjusöm með þessa vegferð sem hann er á í dag og stolt af honum. Við erum einnig svo þakklát fyrir hvernig Anna, dóttir mín, stóð sig í öllu þessu ferli og vin- átta þeirra Arnars var svo dýrmæt og er enn í dag.“ Lítið áreiti í Þýskalandi Í dag eru komin sautján ár frá því Jóhanna og Geir fóru að vera saman en stór breyting varð hjá fjölskyld- unni fyrir átta árum þegar hjónin fluttu utan með yngstu börnin þrjú. Í dag hafa þau komið sér vel fyrir í gömlu, fallegu húsi í rúmri klukku- stundar akstursfjarlægð frá Berlín. „Þar höfum við upplifað mikla nánd og lítið áreiti. Ég segi stund- um að COVID hafi litlu breytt fyrir okkur enda takturinn hægari,“ segir Jóhanna, en þau fluttu utan í ævintýraleit. „Geir bauðst að þjálfa handbolta í Austurríki og við slóg- um til en undanfarin sex ár höfum við verið á okkar stað í Þýskalandi.“ Við erum náttúran Jóhanna Vilhjálmsdóttir varð landsmönnum kunn í gegnum starf sitt í fjölmiðlum en undanfarin ár hefur aukin vitund um heilsu og umhverfi átt hug hennar allan og auðvitað fjölskyldan, sem stækkaði snarlega á einni nóttu, en alls eru börnin nú fimm. Jóhanna er sannfærð um að stærstu áskoranirnar séu jafnframt stærstu gjafirnar, því þær færi mann fram í þroska og bendi manni á eigin veikleika. Mikilvægt sé að horfa inn á við og takast á við eigin galla. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN ÞAÐ ÞÝÐIR EKKI AÐ HUGSA ÞETTA ÞANNIG AÐ VIÐ SÉUM AÐSKILIN FRÁ NÁTTÚRUNNI. VIÐ ERUM NÁTTÚRAN. VIÐ ERUM HLUTI AF ÖLLU ÞESSU KERFI. Björk Eiðsdóttir bjork@frettabladid.is 1 7 . O K T Ó B E R 2 0 2 0 L A U G A R D A G U R20 H E L G I N ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð
Síða 1
Síða 2
Síða 3
Síða 4
Síða 5
Síða 6
Síða 7
Síða 8
Síða 9
Síða 10
Síða 11
Síða 12
Síða 13
Síða 14
Síða 15
Síða 16
Síða 17
Síða 18
Síða 19
Síða 20
Síða 21
Síða 22
Síða 23
Síða 24
Síða 25
Síða 26
Síða 27
Síða 28
Síða 29
Síða 30
Síða 31
Síða 32
Síða 33
Síða 34
Síða 35
Síða 36
Síða 37
Síða 38
Síða 39
Síða 40
Síða 41
Síða 42
Síða 43
Síða 44
Síða 45
Síða 46
Síða 47
Síða 48
Síða 49
Síða 50
Síða 51
Síða 52
Síða 53
Síða 54
Síða 55
Síða 56
Síða 57
Síða 58
Síða 59
Síða 60
Síða 61
Síða 62
Síða 63
Síða 64
Síða 65
Síða 66
Síða 67
Síða 68
Síða 69
Síða 70
Síða 71
Síða 72
Síða 73
Síða 74
Síða 75
Síða 76
Síða 77
Síða 78
Síða 79
Síða 80
Síða 81
Síða 82
Síða 83
Síða 84
Síða 85
Síða 86
Síða 87
Síða 88

x

Fréttablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.