Sjómannadagsblaðið

Árgangur

Sjómannadagsblaðið - 07.06.2009, Blaðsíða 18

Sjómannadagsblaðið - 07.06.2009, Blaðsíða 18
18 SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ 7. JÚNÍ 2009 Stefán Friðriksson, aðstoðar- framkvæmdastjóri Vinnslu- stöðvarinnar í Vestmannaeyjum, en Vinnslustöðin hefur náð hvað mestum árangri við veiðar á gulldeplu, er þeirrar skoðunar að gulldeplan sé komin í hóp varanlegra nytjastofna hér við land, sem sjómenn eigi eftir að ná betri tökum á varðandi veiðar og vinnslu. Í upphafi ársins hélt Huginn VE til tilraunaveiða á norrænni gulldeplu, eða laxsíld eins og hún er einnig kölluð. Gulldepla er afar smávaxinn fiskur, einungis 6-7 cm að lengd, svokallaður miðsjávarfiskur, sem heldur sig á 100 til 200 m dýpi á nóttunni en á allt að hálfs kílómetra dýpi á daginn. Lítið er vitað um gulldeplu við Ísland, en þó er vitað að fiskurinn finnst allt í kringum landið. Á síðasta ári veiddu íslensk skip tæp 50 þúsund tonn innan lögsögunnar. Í fyrsta túrnum í upphafi þessar árs fékk Huginn um 50 tonn og þeim næsta rúm 600 tonn sem veiddust á Grindavíkurdýpi. Tilraunir með gulldepluveiðar hafa vakið athygli og áhuga fleiri útgerða enda brugðust undanfarnar síld- og loðnuveiðar algerlega. Sjávarútvegsráðuneytið gaf tæplega tuttugu skipum leyfi til tilraunaveiða á þessu ári og hafa þau aðallega landað aflanum í Vestmannaeyjum, en einnig í Helguvík og víðar. Í marsmánuði lauk veiðunum að þessu sinni er fiskurinn hvarf úr lögsögunni og hélt suður á bóginn. Enn verið að læra á veiðarnar Vitað hefur verið af gulldeplu hér við land um nokkurt skeið. Tilraunaveiðar fóru fram árið 2002 en einhverra hluta vegna var þeim ekki fylgt eftir í kjölfarið. Þá er ljóst að enn eru sjómenn að læra á veiðar og vinnslu á þessari nýju tegund en gulldepla er svo smá að möskvar þurfa að vera mun minni en menn eiga að venjast hér við land. Þá er einnig komið í ljós hátt saltinnihald í fiskinum, sem hugsanlega stafar af meðhöndlun við dælingu í lestar þannig að á því sviði er einnig ýmislegt ólært. Mikil verðmæti Gulldeplan er mjög feitur fiskur og fer eingöngu til bræðslu. Mjölið er aðallega selt til Noregs og Danmerkur, þar sem það er notað í fiskeldi. Ætla má að útflutningsverðmæti gulldeplu verði á fjórða milljarð króna á þessu ári. Vegna óvissu um stofnstærð og veiðiþol setti Hafrannsóknastofnunin m.a. þau skilyrði að veiðarnar skyldu stundaðar á a.m.k. 200 dýpi og annar afli aðgreindur við dælingu í lestar. Hjá stofnuninni er verið að finna leiðir til að meta magn gulldeplu innan lögsögunnar. Á meðan ekki liggur ljóst fyrir hver veiðigetan er leggja fiskifræðingar áherslu á að veiðileyfi séu tímabundin og aflinn ekki umtalsverður. Þörf á rannsóknum „Hversu mikið við komum til með að veiða af gulldeplu í framtíðinni get ég ekki spáð fyrir um á þessu stigi, til þess eru óvissuþættirnir of margir. Það eiga eftir að fara fram rannsóknir á stærð stofnsins, viðgangi og dreifingu,“ segir Stefán hjá Vinnslustöðinni. Veiðar á makríl í íslenskri fiskveiðilögsögu hófust fyrir alvöru á síðasta ári þegar tegundin kom í umtalsverðu magni inní lögsöguna. Alls nam aflinn um 112 þúsund tonnum, sem skiluðu um sex milljörðum króna í þjóðarbúið. Sjávarútvegsráðherra heimilaði leyfi til veiða á sama magni á þessu ári og 2008 og er gert ráð fyrir að veiðarnar hefjist síðar í sumar og standi fram eftir hausti. Veiðar Íslendinga hafa verið harðlega gagnrýndar af Norðmönnum og Evrópusambandinu og raunar einnig af sérfræðingum hjá Hafrannsóknastofnuninni. Þannig segir Ólafur Karvel Pálsson fiskifræðingur á heimasíðu sinni að úthlutun sjávarútvegsráðuneytisins á veiðikvótanum í vor hafi sett stjórn veiða á makríl í uppnám og ákvörðunin sé ekki byggð á þeim vísindalega grunni sem skilgreindur er af ráðuneytinu sem hornsteinn ábyrgrar fiskveiðistjórnar. Ljóst þykir að þrefalda megi verðmæti aflans með fullvinnslu til manneldis en erlendis hefur bæði verið gagnrýnt að Íslendingar skuli yfirhöfuð veiða makríl enda þótt hann komi inní lögsöguna, en einnig fyrir þær sakir að afli íslensku skipanna fari nær eingöngu til bræðslu. LÍÚ hefur bent á að Íslendingar hafi annars vegar fullt leyfi til veiða í eigin lögsögu og hins vegar að hingað til hafi aðrar þjóðir ekki viljað tala við Íslendiga um skiptingu stofnsins. Hvað vinnslu varði þá hafi verið bent á að ástand makrílsins á því tímabili sem hann sé í íslenski lögsögu sé með þeim hætti að erfitt sé að meðhöndla hann vegna þess hve feitur hann sé og laus í sér. Það sé atriði sem ná þurfi tökum á með fullvinnslu í huga. Ætla að tala við Íslendinga Íslendingar eru ekki aðilar að samningum um stjórn makrílveiða á Norður-Atlantshafi þrátt fyrir ítrekaðar óskir um aðild. Önnur strandríki, svo sem Noregur og Færeyjar og einstök ríki innan ESB, líta svo á að makríll veiðist ekki í íslenskri lögsögu og því eigi Ísland ekki erindi að samningaborðinu. Norðmenn gagnrýndu harkalega veiðarnar hér við land á síðasta ári og ennfremur ákvörðun sjávarútvegsráðherra frá því í mars að gefa út veiðikvóta fyrir þetta ár. Reyndar hafa Samtök framleiðenda uppsjávarfisks í Danmörku sagt að Norðenn séu ekki í aðstöðu til að gagnrýna veiðar Íslendinga enda hafi þeir ásamt Færeyingum úthlutað sér sjálfir auknum kvóta fyrir þetta ár án samráðs við aðrar þjóðir. Danir eru engu að síður óhressir með makrílveiðar Íslendinga en segja að Evrópusambandið ætti alfarið að stjórna veiðunum enda eini ábyrgi aðilinn í þessum efnum. Þess er að geta að Danmörk er aðili að ESB en hvorki Noregur né Færeyjar. Í lok apríl bárust íslenskum stjórnvöldum boð frá ESB, Færeyjum og Noregi um að taka þátt í fundi um stjórn makrílveiða sem haldinn verður í London 29.-30. júní n.k. Ísland hefur þegið boðið. Allir á makríl! LÍÚ gerir ráð fyrir að útvegsmenn muni nýta stofninn áfram veiðist hann á annað borð innan lögsögunnar. Til þess sé réttur Íslendinga óskoraður. Öll skip með leyfi til atvinnuveiða hér við land mega samkvæmt ákvörðun stjórnvalda veiða makríl og hafa útgerðir fjölmargra uppsjávarskipa reynt fyrir sér á veiðunum auk trilluútgerða á Austurlandi. Íslendingar að samningaborði um makríl Gulldepla: Nýr varanlegur nytjastofn við landið Gulldepla. Myndina tók Þorkell Lindberg Þórarinsson, forstöðumaður Náttúrustofa Norðausturlands vorið 2007. Þá fann Þorkell þrjá litla fiska í fjöruborðinu í Barminum á Tjörnesi. Slíkt er óalgengt enda hirða máfar svona góðgæti fljótt upp. Helst hefur gulldeplu verið að finna við skoðun magasýna úr stærri fiskum. Stefán Friðriksson

x

Sjómannadagsblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannadagsblaðið
https://timarit.is/publication/557

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.