Sjómannadagsblaðið

Árgangur

Sjómannadagsblaðið - 07.06.2009, Blaðsíða 8

Sjómannadagsblaðið - 07.06.2009, Blaðsíða 8
8 SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ 7. JÚNÍ 2009 Landssamband íslenskra útvegs- manna, LÍÚ, hefur mótað afstöðu sína til hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu og er skýra og afdráttarlausa stefnumótun sambandsins að finna á heimasíðu þess, liu.is. Afstaða LÍÚ byggir á þeim „...grundvallarsjónarmiðum að Íslendingar fari með forræði yfir fiskimiðunum, hafi samningsforræði við skiptingu veiðiréttar úr deilistofnum og tali eigin máli á vettvangi alþjóðastofnana. Með aðild að ESB yrði lagasetningarvaldið varanlega framselt frá Alþingi til ráðherraráðs Evrópusambandsins. Forræði og fyrirsvar í málefnum sjávarútvegs flyttist til framkvæmdastjórnar ESB Brussel. Værum við aðilar að Evrópusambandinu hefðum við óverulegt atkvæðavægi í ráðherraráðinu.“ Sjómannadagsblaðið leitaði til Jóns Sigurðssonar, rekstrarhagfræðings og fv.formanns Framsóknarflokksins, en Jón hefur m.a. kynnt sér málefni Evrópusambandsins með tilliti til hagsmuna Íslendinga í sjávarútvegsmálum. Jón hefur hvatt til aðildarviðræðna við ESB og var því spurður hvort varnaðarorð forustumanna í íslenskum sjávarútvegi bentu ekki til þess að hagsmunir Íslendinga og ESB séu ósamrýmanlegir hvað þá atvinnugrein varðaði. „Afstaða LÍÚ varðandi ESB er ekki óeðlileg þar eð aðild Íslands að ESB mun valda röskun á högum sjávarútvegarins og endurmeta verður mörg hagsmunamál á því sviði. Hér verður því óvissa og eðlilegur uggur um framvinduna, enda vita menn að ýmsir aðrir íslenskir hagsmunaaðilar munu ekki verja stöðu sjávarútvegarins. Ég tel að ef Íslendingar halda rétt á málum í aðildarsamningum munu þeir halda forræði yfir Íslandsmiðum innan ESB. Við eigum að geta samið um hagsmunastöðu varðandi deilistofna að einhverju marki. En við verðum hluti stærri heildar á vettvangi alþjóðastofnana og ákvörðun um árlegt heildarveiðimagn verður sameiginleg, en reyndar byggð á íslenskri tillögu og vísindaráðgjöf. Ef rétt verður á haldið í aðildarsamningum verður löggjafarvald ESB mjög takmarkað að því er lýtur að íslenskum sjávarútvegi og Íslandsmiðum. Forræði og fyrirsvar í sjávarútvegsmálum Íslendinga flyst þá ekki héðan að öllu leyti og takmarkanir á eignaraðild útlendinga að fyrirtækjum geta haldist varanlega,“ segir Jón. Fordæmin fyrir hendi Jón segir að ofangreint miðist m.a. við allmörg núgildandi fordæmi innan ESB. Nálægðarregla ESB og reglur ESB um stöðugt hlutfall skipti meginmáli. „Það má m.a. nefna 299. grein aðalsáttmála ESB, sem er 349. grein Lissabonsáttmálans, en samkvæmt þessum ákvæðum hafa afskekkt eyjasamfélög sérstöðu og eigið forræði um bæði sjávarútveg og landbúnað. Ennfremur má nefna reglur um svonefnd svæðisráð (RAC) og ákvæði í 2. bókun með aðildarsamningi Finna um „hembygdsrätt“ á Álandseyjum. Þá má nefna ákvæði í aðildarsamningi Maltverja, ákvæði um Hjaltlandseyjahólfið og írska hólfið. Einnig eru fordæmi í samningsfrumvarpinu sem Norðmenn felldu og í svonefndu Lúxembúrgarákvæði ESB,“ segir Jón. Forræðishyggja ESB LÍÚ gagnrýnir harðlega sameiginlega sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, m.a. vegna mikillar forræðishyggju þar sem einstök ríki, sem eiga mestra hagsmuna að gæta, hafi verið svipt ábyrgð og stjórnun á eigin fiskveiðum og valdið flutt til Brussel. Því sé stjórn veiðanna nú meira og minna í molum, sem ekki hafi tekist að bæta þrátt fyrir margar tilraunir. Afleiðingin sé viðstöðulaus ofveiði, of stór fiskveiðifloti, óhagkvæmur rekstur og umfangsmikið og kostnaðarsamt styrkjakerfi til þess að viðhalda starfsemi í greininni. Jón Sigurðsson tekur undir þessa gagnrýni enda hafi framkvæmd sameiginlegrar fiskveiðistefnu ESB misheppnast að talsverðu leyti. „Ég bind vonir við að haldi íslenskir samningsaðilar rétt á málum í aðildarviðræðum ættu þau vandræði ekki að berast út hingað.“ Hlutfallslegi stöðugleikinn Ein grunnreglna í sjávarútvegsstefnu ESB er reglan um hin svokalluðu stöðugu hlutföll. Til hennar, segir á vef LÍÚ, hefur mjög oft verið vísað af þeim sem telja Íslandi betur borgið í Evrópusambandinu en utan þess, þar sem hún feli í sér að tekið er tillit til veiðireynslu einstakra landa úr einstökum stofnum á ákveðnum miðum. „Engin tygging er hins vegar fyrir því að reglan um hlutfallslegan stöðugleika, fremur en aðrar reglur, standi óbreytt,“ segir LÍÚ. Að mati Jóns væri óvarlegt að treysta einfaldlega á almenn ákvæði um stöðug hlutföll eða önnur sambærileg núgildandi ákvæði og reglur. „Öll atriði, sem Íslendingar vilja halda til haga, verður að taka fram berum orðum í aðildarsamningi. Sama á við um ákvæði í 50. grein Lissabonsáttmálans um fortakslausan einhliða úrsagnarrétt. En aðildarsamningur hefur sama varanlegt gildi sem aðalsáttmáli ESB, fyrir það aðildarríki sem málið varðar. Undanþágur eru allt annað mál og mega alls ekki snerta grundvallarréttindi eða lífshagsmuni,“ segir Jón. Fiskveiðar pólitískt bitbein LÍÚ bendir á að fiskveiðar innan ESB hafi verið pólitískt bitbein í áratugi. Byggðasjónarmið og félagsleg sjónarmið ráði þar miklu. Íslenskur sjávarútvegur hafi hins vegar að leiðarljósi skynsamlega nýtingu auðlinda, sjálfbærni og arðsemi veiðanna enda ekki tiltækir aðrir tekjustofnar til að styrkja íslenska sjávarútveginn. „Sjávarútvegur innan Evrópusambandsins er rekinn með öðrum formerkjum en þekkist hér á landi. Atvinnugreinin sem heild er óarðbær og nýtur gríðarlegra styrkja. Í júlí 2008 var tilkynnt að styrkir ESB til sjávarútvegs næstu þrjú ár næmu 340 milljörðum króna (2 milljörðum evra). Íslenskur sjávarútvegur er arðbær atvinnugrein, án ríkisstyrkja þar sem menn standa ábyrgir gerða sinna,“ segir LÍÚ. „Þetta er rétt mat hjá LÍÚ á stöðu mála,“ segir Jón. En því má ekki gleyma að sá veldur er á heldur. Það er mikilvægt í aðildarsamningum að tryggja að skilvirkni íslensku stjórnsýslunnar haldist og tryggja jafnframt áframhaldandi samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs andspænis því styrkjabákni sem ESB heldur uppi.“ Brottkast uppálagt af ESB Sjómönnum innan Evrópusambandsins er beinlínis uppálagt að stunda brottkast segir LÍÚ. „Reglurnar banna að fiski sem ekki er kvóti fyrir sé landað. Það sama gildir um fisk sem ekki uppfyllir kröfur um lágmarksstærð. Talið er að Skotar einir hendi árlega fiski að verðmæti sjö milljarða króna (40 millj. punda). Hér á landi er brottkast bannað með lögum.“ Jón Sigurðsson segir að gagnslaust sé að vera með meting um reglur og framkvæmd varðandi brottkast. „Þetta er vandamál sem æskilegast væri að þjóðirnar tækju sameiginlega á,“ segir Jón. Kvótahopp – arðurinn úr landi LÍÚ bendir á þau vandamál sem fylgi kvótahoppi innan ESB. „Með kvótahoppi nýta útgerðir glufur í reglum til að skrá skip sín í öðrum löndum sambandsins en eigin heimalandi til þess að komast yfir aflaheimildir annars aðildarríkis. Mikilvægt er að tryggja að arður af nýtingu auðlinda verði eftir í íslensku samfélagi. Til að verja þá samfélagslegu hagsmuni eru lög sem heimila ekki að erlendir aðilar eignast meirihluta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Kæmi til aðildar að Evrópusambandinu héldu þessi lagaákvæði ekki. Þar með væri engin trygging fyrir því að arður af sjávarútvegi héldist í íslensku efnahagskerfi,“ segir LÍÚ. Jón segir að reglur hafi verið settar um kvótahopp innan ESB og önnur núgildandi fordæmi og ákvæði sem framar er getið komi líka að gagni í þessu efni. „Það er þó hyggilegt að mínu mati að halda frjálsræði fyrirtækjanna til beinnar aflasölu á erlendum markaði,“ segir Jón. Greiðslujöfnuður og tollasamningar Beinn fjárhagslegur ávinningur Íslands af aðild að Evrópusambandinu yrði enginn segja talsmenn LÍÚ. „Samkvæmt skýrslu Evrópunefndar forsætisráðuneytisins frá 2007 myndu beinar greiðslur Íslands til ESB umfram tekjur nema 2,5 - 5 milljörðum króna. Aðildarríki ESB hafa að jafnaði greitt 1,07% af vergum þjóðartekjum árlega til sambandsins. Að hámarki getur þetta hlutfall orðið 1,24%. Sé horft til ársins 2005 hefði Ísland greitt 10,5 milljarða króna til sambandsins. LÍÚ aðhyllist viðskiptafrelsi og leggur áherslu á nauðsyn góðra samskipta við ríki Evrópusambandsins jafnt sem önnur, nú sem fyrr. Ef til aðildar að Evrópusambandinu kæmi féllu niður núgildandi tollar á útfluttar sjávarafurðir til aðildarríkja ESB en samtímis féllu úr gildi allir tvíhliða tollasamningar Íslands við ríki utan sambandsins,“ segir LÍÚ. „Það er alveg ljóst,“ segir Jón „að þessi mál ásamt fjölmörgum öðrum hagsmuna- og réttindamálum íslensku þjóðarinnar myndu koma til álita í aðildarsamningum við ESB. Það liggur alveg fyrir að við verðum að velja og hafna, við fáum eitt en missum annað, hvort sem við kjósum að standa utan ESB eða ákveðum að sækja um aðild,“ segir Jón Sigurðsson. Með eða á móti ESB – það er spurningin!

x

Sjómannadagsblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannadagsblaðið
https://timarit.is/publication/557

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.