Sjómannadagsblaðið - 07.06.2009, Blaðsíða 20
20 SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ 7. JÚNÍ 2009
Sendum íslenskum
sjómönnum
árnaðaróskir á
hátíðisdegi þeirra
Jón Bragi segir þróun Penzims eiga
sér langa sögu og langan aðdraganda.
„Þetta hófst þegar ég var við nám
í efnafræði við Háskóla Íslands. Á
sumrin var ég sjómaður á togaranum
Halkion frá Vestmannaeyjum. Þegar
ég var að gera að þorskinum þá sá
ég nánast með berum augum hvað
ensímin voru öflug sem meltu fæðu
fisksins,“ segir Jón Bragi og útskýrir
nánar: „Þorskurinn gleypir fæðuna
en tyggur hana ekki eins og við. Þar
að auki meltir hann við lágt hitastig,
0-5°c, þannig að það þarf ofboðslega
öflug ensím til að melta fæðuna.“
Jón Bragi segir þorskensímin hafa
verið sér afar hugleikin í gegnum
BS námið og doktorsnámið. „Þegar
ég kom heim að loknu námi og fór
að starfa við Háskóla Íslands árið
1978 var ég fullur af eldmóði sem
ég vildi nýta til að vinna gagn fyrir
Ísland svo ég fór að rannsaka nánar
ensímin úr þorskinum,“ segir hann en
ensímin finnur hann fyrst og fremst í
meltingarveginum fyrir neðan maga,
úr skúfum og þörmum fisksins.
Jón Bragi rannsakaði og birti
vísindalegar greinar um þessi ensím
og virkni þeirra næstu árin. „Við
þróuðum líka aðferð til að búa til
bragðefni úr ensímblöndunni og nú
framleiðir fyrirtækið Norðurbragð á
Höfn í Hornafirði sjávarbragðefni til
útflutnings.“
Einkaleyfi í 29 löndum
Úr þorskensímunum hafa nú orðið til
þrír vöruflokkar; snyrtivörurnar Dr.
Bragi í Bretlandi og Bandaríkjunum,
Penzim húðvörur og náttúruvörur,
og nú er í gangi lyfjaþróun þar sem
þorskensímin eru meginuppistaðan.
Jón Bragi segir lyfjaþróunina skiptast
í þrjá flokka. „Í fyrsta lagi eru það
húðsjúkdómar og má þar nefna exem,
unglingabólur og sáragræðslur. Á
sviði bólgu og verkja má nefna gigt
og skylda sjúkdóma og í þriðja lagi
er um að ræða veiru-, bakteríu- og
sveppasýkingar. Rannsóknir á þessu
sviði eru í samstarfi við erlend
lyfjafyrirtæki,“ segir Jón Bragi.
Vörur úr þorskensímum eru nú
seldar í Bandaríkjunum, Kína og víða
í Evrópu en einnig er unnið að því
að komast inn á japanskan markað.
„Við gerum þetta á þann hátt að við
vinnum ekki sjálf sem fyrirtæki á
þessum mörkuðum heldur leyfum
við fyrirtækjum að vera með eigið
vörumerki á viðkomandi markaði.
Þannig er Penzim vörumerkið bara
selt á Íslandi. Sama varan er hins
vegar seld undir þremur mismunandi
vörumerkjum í Frakklandi.
Markaðsstarf þeirra fyrirtækja
verður þannig þeirra eign en ekki
okkar. Við sendum þeim efnið og þeir
pakka,“ segir Jón Bragi en fyrirtækið
Ensímtækni hefur nú einkaleyfi á
vörunni í 29 löndum.
Æskuljóminn endurheimtur
Jón Bragi segir aðspurður að ensím
úr einum þorski dugi í tíu flöskur af
Penzimi. „Ef við segjum að aflinn á
Íslandi sé um 200.000 tonn af þorski
þá dugar það í 500 milljón flöskur
svo að hráefnisskortur er ekki orðið
vandamál ennþá,“ segir hann og
brosir.
Í Penzim flöskunni eru ensím úr
þorski grunnuppistaðan og Jón Bragi
segir önnur efni vera í eins litlu magni
og mögulegt er til þess að varan valdi
ekki ofnæmi. „Við höfum breytt
vörunni fimm sinnum frá upphafi til
þess að þróa sem allra bestu vöruna,
bæði þannig að ensímið þoli það
og húðin. Varan inniheldur engin
rotvarnarefni því hún rotver sig sjálf.
Þá eru engin ilmefni eða litarefni og
engar fitur eða olíur.“
Spurður um virkni Penzims, þá
segir Jón Bragi hana margvíslega.
„Það má segja að efnið hafi
yngingarmátt því það endurnýjar
húðina. Þegar húðin byrjar að eldast,
upp úr tvítugu, þá minnka þessi
ensím í húðinni. Penzim hjálpar til
við að halda þeim við og fjarlægir
einnig dauðar húðfrumur og eykur
blóðflæðið út í húðina. Þetta gerir
það að verkum að til dæmis virðast
hrukkur minnka.“ Jón Bragi segir
gott að nota Penzim sem andlitskrem
kvölds og morgna. „Það virkar vel sem
grunnur, jafnvel undir farða, og gefur
húðinni mikinn ljóma, það má segja
að það gefi æskuljóma,“ segir Jón
Bragi og brosir.
Þorskensím hafa
yngingarmátt
Dr. Jón Bragi Bjarnason hefur þróað vörur úr þorskensímum frá því
hann hóf nám við Háskóla Íslands upp úr 1970. Þekktasta varan
hér á landi er Penzim áburðurinn sem margir þekkja en vörurnar eru
einnig seldar víða um heim undir mismunandi vörumerkjum.
Áttu þetta blað?
Sjómannadagsblaðið hefur komið út í rúm 70 ár. Blaðið er merkileg
heimild um starfsemi Sjómannadagsráðs, sögu og baráttumál íslenskra
sjómanna. Sjómannadagsráð hefur kappkostað að halda vel utan um
gömul blöð en einn árganginn vantar í heildarsafn Sjómannadagsráðs,
það er blaðið frá árinu 1991.
Ef eintak af blaðinu er til í þínum fórum þá biður Sjómannadagsráð um
að fá blaðið til varðveislu fyrir komandi kynslóðir.
Hægt er að senda blaðið til Sjómannadagsráðs, Hrafnistuheimilinu
Laugarási, 104 – Reykjavík.