Sjómannadagsblaðið

Árgangur

Sjómannadagsblaðið - 07.06.2009, Blaðsíða 12

Sjómannadagsblaðið - 07.06.2009, Blaðsíða 12
12 SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ 7. JÚNÍ 2009 Öflug öryggisgæsla var við landganginn og greinilegt að engum var hleypt um borð nema hann ætti þangað brýnt erindi. Eftir að öllum formsatriðum hafði verið fullnægt var okkur fylgt upp í brú, þar sem „kallinn“ stóð í miðjum hópi ungra manna sem spurðu hann spjörunum úr. Þetta voru nemendur í Stýrimannaskólanum, sem Hákon hafði boðið til sín um borð í flutningaskipið. „Það er mikilvægt fyrir þessa stráka að fá að koma um borð í svona skip og átta sig á því að þeir hafa góða möguleika á að taka við stjórn á svona skipi einn góðan veðurdag,“ segir Hákon, „jafnvel þótt við séum búin að missa skipin úr landi.“ Vantar 35.000 yfirmenn Strákunum í Stýrimannaskólanum fannst mikið til koma enda hafa þeir tæpast heimsótt stærra skip. Hákon gaf sér góðan tíma til þess að spjalla við þá og var ótrúlega þolinmóður og hvetjandi. Hann lagði mikla áherslu á að þeir einir gætu lagt grunn að framtíð sinni. „Ef þið sleppið öllu rugli og farið eftir lögum og reglum þá getið þið vel stjórnað skipi á borð við þetta í framtíðinni,“ útskýrði Hákon. „Tölfræðin er með ykkur. Nú er talið að um 35.000 yfirmenn vanti um borð á alþjóðlega kaupskipaflotann. Þannig að það er ekki hægt að kvarta yfir skorti á atvinnutækifærum. Ástandið á eftir að breytast verulega á næstu árum og þörfin mun aukast mikið. Það hefur verið reiknað út að árið 2012 komi til með að vanta hvorki fleiri né færri en áttatíu og fjögur þúsund yfirmenn á flotann. Það eru því heilmikil tækifæri fyrir unga og metnaðarfulla menn sem vilja gera eitthvað annað en veltast um borð í fiskibátum eða togurum á Íslandsmiðum,“ segir Hákon. Skóli fyrir útgerðina Að sögn Hákonar er Santa Marta hálfgert skólaskip. „Ég hef verið hjá útgerðinni í fjórtán ár og er með reynslumestu skipstjórnarmönnum þeirra. Það kemur því í minn hlut að „skóla“ til unga menn og kenna þeim rétta hugarfarið. Að lokinni þjálfun um borð hjá mér, sem tekur um eitt ár eða rúmlega það, þá þykir óhætt að færa piltana yfir á önnur skip.“ Hákon neitar því að hann sé strangur, „en ég vil að menn vinni vinnuna sína og skili því verki sem af þeim er krafist. Ég skipti mér ekki af mönnum sem standa sig en ef þeir skila ekki sínu starfi þá eiga þeir ekki heima um borð hjá mér. Það er nú svo einfalt. Ég vil líka að menn virði reglur. Ég leyfi mönnum til dæmis að fá sér öl eða léttvín á frívöktum. Menn verða þá að geta farið vel með það. Sumir geta drukkið einn bjór eða tvo án þess að vera til vandræða meðan aðrir breytast í óargadýr við það eitt að fá sér sopa. Ef eitthvað slíkt gerist um borð í skipi hjá mér fer viðkomandi í áfengisbann og á því eru engar undantekningar. Ef einhver úr áhöfninni gefur viðkomandi vín þá fer hann líka í áfengisbann. Ég hef haft þessa reglu lengi og hún virkar vel.“ 140 skipa útgerð Útgerð Santa Marta heitir Intership Navigaton og er að sögn Hákonar pappírsfyrirtæki sem erfitt er að segja nákvæmlega til um hverjir eiga. Fyrirtækið er með 140 skip á sínum snærum og þar af eru rúmlega fimmtán í sama stærðarflokki og Santa Marta. Skipið er nýtt, rétt um ársgamalt. Það hlýtur að vera mikil upphefð fólgin í því að fá að taka við nýju skipi, eða hvað? Hákon er ekki á því. ,,Þeir voru búnir að nauða í mér í töluverðan tíma áður en ég samþykkti að taka við nýju skipi. Það fylgir því nefnilega heilmikil vinna að standsetja skip. Ég man eftir því þegar ég tók við fyrsta skipinu sem verksmiðjan smíðaði fyrir útgerðina, þá var allt klappað og klárt og hægt að ferma skipið og sigla af stað. En núna eru vinnubrögðin önnur. Skipið er klárað en innréttingar og fleira eru settar í lestina og síðan þurfum við sjá um allan lokafráganginn. Það er bæði tímafrek og leiðinleg vinna,“ segir Hákon. Engin íslensk lög um kjölfestu Hákon segir góðan gang á Santa Mörtu. Skipið gengur þetta 14 til 15 mílur og haggast lítið sem ekkert, jafnvel þótt það sigli tómt yfir úthafið, rétt eins og það gerir frá Íslandi. „Við getum verið með allt að 12 þúsund tonna kjölfestu og það leiðir hugann að reglum hér á landi eða öllu heldur skorti á reglum. Það er sama hvert við siglum, við þurfum alls staðar að gera grein fyrir kjölfestunni, hversu mikinn sjó við erum með, hvar við dældum honum í kjölfestutankana og það er stranglega bannað að dæla kjölfestunni úr skipunum nema úti á rúmsjó. Það er annað uppi á teningnum á Íslandi. Engin íslensk lög eru til um þessa hluti og skipstjórnendur geta hæglega dælt sjónum úr tönkunum við strendur landsins, jafnvel í höfn. Einhver gæti sagt að sjór sé sjór, hvaðan sem hann kemur, en sú er aldeilis ekki raunin. Enginn veit með vissu hvernig sjórinn er sem dælt er í tankana hinum megin á hnettinum, svo dæmi sé tekið. Enginn veit heldur hvaða dýr og örverur eru í þeim sjó sem hugsanlega er dælt úr skipunum undan ströndum landsins og hvaða áhrif þau geta haft á lífríkið hér við land. Ég skil ekki af hverju land sem stærir sig af hreinni náttúru, fersku vatni og ómenguðum sjó skuli leyfa sér slíkt kæruleysi. Hvað hafa umhverfisráðherrar landsins verið að hugsa?“ spyr Hákon. Ætlar að ganga heim Sjómennskuferill Hákonar hófst er hann var þrettán ára en þá fór hann í sinn fyrsta róður. „Ég man að kaupið var 500 krónur fyrir róðurinn og það fyrsta sem ég keypti mér voru fokdýrir skór sem kostuðu 80 krónur,“ segir Hákon sem vill ekki gefa upp hvað hann getur keypt mörg skópör á dag miðað við núverandi laun. „En launin eru ágæt en ekkert mikið meira en það. Ég var farinn að hugsa um að hætta þessu enda nóg komið en þá hrundu bankarnir og ég tapaði eitthvað af peningum eins og margir aðrir, þannig að ég verð að vinna eitthvað lengur. En ég vona að síðasti túrinn minn verði hingað til Straumsvíkur því þá get ég gengið heim í Kópavog eftir þessum fína göngustíg, sem búið er að leggja meðfram sjónum. Það væri nú ekki slæmt,“ segir Hákon Ísaksson, skipstjóri á flutningaskipinu Santa Mörtu. Hákon ræðir við verðandi skipsstjórnendur. Íslendingar eiga möguleika þótt skipin séu farin úr landi Santa Marta er enginn smádallur. Skipið er tæplega 32 þúsund tonn og um 172 metrar að lengd, smíðað í Japan á síðasta ári. Það er skráð á Kýpur og öll áhöfnin er frá Filipseyjum nema skipstjórinn, Hákon Ísaksson. Sjómannadagsblaðið mælti sér mót við Hákon þegar skipið lá við bryggju í Straumsvík, nýkomið með 30 þúsund tonna súrálsfarm fyrir álverið.

x

Sjómannadagsblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannadagsblaðið
https://timarit.is/publication/557

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.