Sjómannadagsblaðið

Árgangur

Sjómannadagsblaðið - 07.06.2009, Blaðsíða 13

Sjómannadagsblaðið - 07.06.2009, Blaðsíða 13
137. JÚNÍ 2009 SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ Íslensk skip hafa af og til reynt fyrir sér á túnfiskveiðum, bæði í íslenskri lögsögu og á fjarlægum miðum. Er um veiðar á bláuggatúnfiski að ræða sem er verðmætasta tegundin í túnfiskflórunni. Þessar veiðar hafa þótt skila litlu miðað við tilkostnað. Skip frá Vestmannaeyjum fóru á sínum tíma á veiðar á öðrum og verðminni túnfisktegundum við Brasilíu og gáfu þær sömuleiðis lítið af sér. Ísland er aðili að Atlantshafstúnfiskveiðiráðinu og hefur sem slíkt heimild til veiða á um 50 tonnum af bláuggatúnfiski á ári, nánar tiltekið úr stofni Austur-Atlantshafs-bláuggatúnfisks en útbreiðslusvæði hans nær allt frá Grænhöfðaeyjum í suðri til Noregs í norðri. Í ár ákvað sjávarútvegsráðuneytið að geyma íslenska kvótann og flytja óskertan til ársins 2011. Bláuggatúnfiskur er talinn vera einn sá verðmætasti í heimi og er gríðarlega eftirtsóttur af veitingahúsum. Á þeim er hann skorinn í smábita og eru réttirnir jafnan með þeim dýrustu á matseðlunum. Sem dæmi má nefna að í upphafi ársins fékkst metverð fyrir bláuggatúnfisk á uppboði á fiskmarkaðnum í Tókýó, en þá greiddu tveir veitingastaðir um 13 milljónir króna fyrir 130 kg fisk, eða sem svarar 100 þúsund krónum fyrir kílóið. Japanir við landið „Japanir og fleiri þjóðir hafa stundað veiðar á úthafinu í N-Atlantshafi síðustu áratugi og færðu sig stöðugt norðar þar til þeir sóttust eftir að stunda veiðar innan íslensku lögsögunnar árið 1995. Lítil vitneskja var um túnfisk á íslensku hafsvæði á þessum tíma og ein af fáum heimildum um túnfisk við landið var frá miðri síðustu öld þegar staðfestar fregnir bárust um túnfiskgöngur inni á Ísafjaðardjúpi. Af þessum sökum var ákveðið að Hafrannsóknastofnunin gengi til samstarfs við japanska útgerðaraðila um tilraunaveiðar á túnfiski í íslenskri lögsögu árið 1996. Skipin stunduðu aðallega veiðarnar suður af landinu á hverju hausti allt til ársins 2005. Rannsóknamenn Hafró voru um borð og fylgdust með afla og aflabrögðum auk þess sem þeir tóku sýni til rannsókna. Veiðarnar leiddu í ljós að bláuggatúnfiskur gekk í nokkru magni inn í íslenska lögsögu á haustin. Aflinn náði hámarki á árunum 1997 og 1998 en minnkaði síðan jafnt og þétt þar til árið 2005 þegar ákvörðun var tekin um að hætta veiðum,“ segir Droplaug Ólafsdóttir, líffræðingur á Hafrannsókastofnuninni. Ofveiði kemur í veg fyrir göngur Þrátt fyrir aukinn sjávarhita virðist túnfiskurinn ekki ganga eins langt norður á bóginn nú og hann gerði í upphafi tilraunaveiðanna. Þaðan af síður er göngumynstur hans líkt því sem það var upp úr miðri síðustu öld þegar túnfiskur gekk langt norður með Noregsströndum. Ljóst er að sókn í túnfisk hefur verið langt umfram afrakstursgetu stofnanna í Norður Atlantshafi undanfarna áratugi og sennilega er lítil stofnstærð skýring á núverandi göngumynstri. Aflaheimildir hafa verið töluvert umfram ráðgjöf fiskifræðinga og þar að auki eru sterkar vísbendingar um að raunverulegur afli hafi verið langt umfram veiðiheimildir. Mikil óvissa ríkir því um túnfiskstofna í N-Atlantshafi og ósennilegt að túnfiskurinn fari að ganga norðar í verulegum mæli nema stofnarnir rétti sig við. „Ég á ekki von á því að túnfiskveiðar hér við land verði raunhæfur möguleiki fyrr en tekst að ná betri stjórn á veiðum og byggja stofninn upp að nýju. Túnfiskurinn mun líklega ekki ganga hingað norður aftur fyrr en hann nær sér nægilega á strik á ný,“ segir Droplaug. Veiðar við Líbýu Á síðasta ári fékk útgerð í Hrísey úthlutað íslenska kvótanum sem nýtti hann við strendur Líbýu í samvinnu við erlenda útgerð. Í ár barst ein umsókn til veiða á þeim 50 tonnum sem Ísland hefur samkvæmt reglum Atlantshafs- túnfiskveiðiráðsins. Var sótt um leyfi til veiða í Miðjarðarhafi í samvinnu við erlenda aðila. Sjávarútvegs- og landbúnaðar- ráðuneytið ákvað að hafna leyfi til samvinnuveiða í ár enda samþykktu túnfiskveiðiþjóðirnar fyrr á árinu að minnka veiðar á bláuggatúnfiski um 20% 2009 miðað við fyrri ár í viðleitni sinni til að draga úr ofveiði. Stundar því engin íslensk útgerð veiðar á túnfiski á þessu ári. Ofveiði kemur í veg fyrir túnfiskgöngur norður á bóginn Um borð í japönsku túnfiskveiðiskipi við Íslandsstrendur. Myndin sýnir yfir dekkið þegar línan er dregin. Um borð standa menn vaktina allt upp í 12 klst meðan drátturinn stendur yfir. Droplaug Ólafsdóttir

x

Sjómannadagsblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannadagsblaðið
https://timarit.is/publication/557

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.