Morgunblaðið - 12.05.2020, Page 16
16 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 12. MAÍ 2020
PÖNTUN AUGLÝSINGA:
Til mánudagsins 18. maí
NÁNARI UPPLÝSINGAR GEFUR:
Katrín Theódórsdóttir
Sími 569 1105, kata@mbl.is
Blaðið verður með góðum
upplýsingum um garðinn,
pallinn, heita potta,
sumarblómin, sumar-
húsgögn og grill ásamt
ótal girnilegum uppskriftum.
Garðablað
fylgir Morgunblaðinu föstudaginn 22. maí
SÉRBLAÐ
Það sem fær mig
hér til að stinga niður
penna er klárlega
stærsta ógnin sem ég
veit til að mannkynið
hafi staðið frammi
fyrir. Loftslagsváin!
Mér þótti afar vænt
um að heyra frú
Agnesi Sigurðardóttur
biskup nefna þessa vá
í predikun sinni á
páskadagsmorgni 12. apríl síðastlið-
inn, sem var útvarpað frá Dómkirkj-
unni í Reykjavík. Frú Agnes notaði
þar orðalag um loftslagsmál, sem
var frumlegt, sterkt og í anda
páskanna.
Hún talaði þar um krossfestingu
jarðarinnar af mannavöldum. Orðið
krossfesting í tilfelli jarðarinnar
fékk mig til að ganga einu skrefi
lengra og ég setti þetta orð í sam-
band við orðið upprisa. Verði sá
ólýsanlegi harmleikur að veruleika
að mannkyninu takist að krossfesta
jörðina, hvað verður þá um uppris-
una? Er hún möguleg í þessu tilfelli?
Já, hún er möguleg, en einungis ef
mannkyni tekst að koma í veg fyrir
krossfestinguna. Þá
blasir nýtt tímabil við
jarðarbúum, sem vel
væri hægt að kalla upp-
risu. Tími, þar sem
virðing fyrir öllu lífi
væri í hásæti. Ástæðan
fyrir titli mínum á
þessu greinarkorni,
„Ákall til kirkjunnar“,
er einfaldlega sú bón
mín og von að prestar
landsins taki þetta mál,
þessa heimsógn, upp í
ræðum sínum og hvetji
til aðgerða á heimsvísu ásamt öllum
öðrum sem láta sig þessi mál varða.
Því fleiri sem fjalla um þessi mál og
skilja alvöru þess því betra.
Mér er það fullljóst eins og öllum
öðrum að kórónuveirufaraldurinn
hefur nú þegar leikið heiminn grátt.
Enginn getur nákvæmlega séð fyrir
hvernig heimsmyndin verður þegar
búið verður að ná tökum á honum.
Eitt er víst að margt mun breytast
þegar þar að kemur, en mikilvæg-
astar eru þær breytingar sem verða
hið innra með manneskjunni, bæði
hugarfarslega og viðhorfslega. Þeir
sem sigrast á kreppum koma út úr
þeim sterkari, reyndari og þakklát-
ari. Svo mun einnig vera um þjóðir
og þar með gjörvallan mannheim.
Það er til mikils að vinna að bjarga
jörðinni frá meiri eyðileggingu en
nú þegar hefur átt sér stað. Hvað þá
frá óafturkræfri tortímingu. Þetta
eru stór orð og þung, en við hljótum
að taka alvarlega mark á öllum þeim
mikla fjölda aðvarana sem færustu
vísinda- og fræðimenn heimsins hafa
látið frá sér fara á undanförnum ár-
um og áratugum. Ég trúi að hin al-
heimslega barátta við kórónufarald-
urinn muni auka skilning, bræðralag
og samkennd milli þjóða. Gjörvallur
heimur hlýtur og verður að nýta sér
þetta. Kórónufaraldurinn og lofts-
lagsváin eiga það sameiginlegt að
þau snerta alla heimsbyggðina.
Ákall til kirkjunnar
Eftir Gunnar
Kvaran
Gunnar Kvaran
» Verði sá ólýsanlegi
harmleikur að veru-
leika að mannkyninu
takist að krossfesta
jörðina, hvað verður þá
um upprisuna?
Höfundur er sellóleikari og prófessor
emeritus við Listaháskóla Íslands.
sellokvaran@gmail.com
Í dag, 12. maí, eru
200 ár liðin frá fæð-
ingu Florence Night-
ingale. Af þessu tilefni
tilnefndi Alþjóðaheil-
brigðismálastofnunin
árið 2020 ár hjúkr-
unarfræðinga og ljós-
mæðra.
Hjúkrun innan
heilsugæslunnar hér á
höfuðborgarsvæðinu á
sér langa sögu og má
rekja hana aftur til 1915 þegar
Hjúkrunarfélagið Líkn var stofnað
að frumkvæði Christophine Bjarn-
héðinsson sem var fyrsta fulllærða
hjúkrunarkonan sem starfaði á Ís-
landi. Líkn var mjög framsýnt félag
og fólst starfsemi þess í heima-
hjúkrun, aðstoð við fátæka, berkla-
vernd, mæðra- og ungbarnavernd.
Hjúkrunarkonur Líknar reyndu að
aðstoða fátækar fjölskyldur eftir
föngum hvað húsnæði snerti og
koma börnum í sveit eða á barna-
heimili til sumardvalar.
Árið 1927 hóf Líkn skipulagða
ungbarnavernd í Templarasundi 3.
Þangað gátu mæður komið með
börn sín og fengið læknisskoðun og
leiðbeiningar um meðferð ungbarna
endurgjaldslaust. Fyrsta hjúkrunar-
konan var Bjarney Samúelsdóttir og
fyrsti yfirlæknirinn var Katrín
Thoroddsen barnalæknir. Heima-
vitjanir voru frá fæðingu og hálfs-
mánaðarlega til sex mánaða aldurs.
Fátækt var mikil á þessum árum og
deildi ungbarnaverndin út mjólk,
lýsi, matvörum, fatnaði, útvegaði
barnarúm, sængurfatnað og fleiri
nauðsynjar til fátækra fjölskyldna.
Boðið var upp á ljósböð fyrir börn
með langvarandi kvef, beinkröm og
þau sem þrifust illa. Reykjavík var
skipt í 3 hverfi og fékk hver hjúkr-
unarkona vigt og leðurtösku til að
hafa með sér í heimavitjanir.
Skólaheilsugæslan á sér einnig
langa sögu. Árið 1910 var fyrsti
skólalæknirinn, Guðmundur
Hannesson, ráðinn við Barnaskól-
ann í Reykjavík til að fylgjast með
heilsufari barna. Árið 1920 var síðan
fyrsta skólahjúkrunar-
konan ráðin, Guðný
Jónsdóttir, ásamt
fyrsta skólatannlækn-
inum og fyrsta skóla-
augnlækninum. Helstu
vandamál skólabarna á
þessum tímum voru
næringarskortur,
berklar og almenn fá-
tækt vegna kreppu.
Heilsuverndin fólst
fyrst og fremst í matar-
gjöfum og hreinlæt-
isuppeldi. Börnin fengu
lýsi í skólanum og þau sem á þurftu
að halda að mati læknis fengu ljós-
böð.
Á þessum rúmum 100 árum hafa
aðstæður og tíðarandi breyst.
Hjúkrun hefur þróast af miklum
metnaði en tilvistin sem fagið byggir
á er ávallt sú sama. Tilvistin að
standa nærri náunganum, efla heilsu
hans og fyrirbyggja sjúkdóma. Þessi
tilvist er sérstaklega sterk í heilsu-
gæsluhjúkrun. Að vera hluti af nær-
samfélaginu, fylgja þar fólki frá
vöggu til grafar, taka þátt í sorgum
þess, gleði og sögu. Vera talsmaður
heilsu í samfélaginu og hafa áhrif á
samfélagið, í því felst heilsugæslu-
hjúkrun.
Hjúkrun innan heilsugæslunnar
mun halda áfram að takast á við nýj-
ar áskoranir á hverjum degi. Við
horfum til framtíðar með virði
hjúkrunar að leiðarljósi. Sýn og vilji
munu finna veg og vegferð fyrir það
sem við teljum vera mikils virði.
Sögulegar heimildir: Bergljót Líndal, 2016.
Heilsuverndarstöð Reykjavíkur 1953-2006
Nýjar áskoranir
á hverjum degi
Eftir Ragnheiði
Ósk Erlendsdóttur
Ragnheiður Ósk
Erlendsdóttir
» Í dag eru 200 ár
frá fæðingu
Florence Nightingale.
Til hamingju með dag-
inn, kæru hjúkrunar-
fræðingar og ljósmæður
heilsugæslunnar.
Höfundur er framkvæmdastjóri
hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuð-
borgarsvæðisins.
Fyrir um þremur
áratugum hrundi
kommúnisminn í Aust-
ur-Evrópu enda engar
efnahagslegar for-
sendur fyrir honum
lengur. Nú stendur
kapítalisminn gagn-
vart hliðstæðum örlög-
um. Í höfuðlandi kap-
ítalismans,
Bandaríkjum Norður-
Ameríku, er nú svo komið að pestin
hefur lagt gjörvalla byggðina í
dróma og er staðan þannig að heil-
brigðiskerfið er allt að
því handónýtt nema
gagnvart því 1% þjóð-
arinnar sem hefur efni
á því að leita sér heil-
brigðisþjónustu. Allir
aðrir sjá fram á gjald-
þrot þurfi þeir á dýrri
heilbrigðisþjónustu á
að halda enda hefur
lítil áhersla verið lögð
á samfélagslega
ábyrgð Bandaríkja-
manna í uppbyggingu
góðs og trausts heil-
brigðiskerfis á vegum hins opin-
bera.
Að þessu leyti standa sjúkrahús
og heilbrigðiskerfið mun betur í
Norður- og Mið-Evrópu. Í þeim
löndum standa heilbrigðisstofnanir
opnar öllum þjóðfélagsþegnum án
tillits til efnahags. Að halda úti
góðu opinberu heilbrigðiskerfi hef-
ur reynst nokkuð dýrt, mjög mis-
jafnt eftir löndum. Einhvers staðar
milli 5 og 15% ríkisútgjalda.
En hvað er einna dýrast í opin-
berum rekstri meðal þegna BNA?
Ætli það sé ekki bandaríski herinn
sem tekur um 20% af öllum ríkisút-
gjöldum BNA. Ekkert þróunarland
leggur jafnmikla áherslu á hernað
með tilheyrandi kostnaði og BNA.
Það er helst að líta til olíufram-
leiðslulanda eins og Sádi-Arabíu
þar sem þarlend stjórnvöld eru
nánast áskrifendur að nýjusta her-
gagnaframleiðslu BNA og annarra
ríkja.
Þegar Dwight Eisenhover lét af
embætti 35. forseta BNA 21. janúar
1961 varaði hann bandarísku þjóð-
ina við ofurvaldi hergagnaiðnaðar-
ins og óhóflegum fjárframlögum
BNA til hernaðarmála í kveðjuræðu
í Hvíta húsinu. Þetta eru mjög
áhugaverð sjónarmið þar sem hern-
aður hafði verið hans aðalatvinna,
þekktastur sem yfirhershöfðingi
BNA í Evrópu í seinni heimsstyrj-
öldinni. Eiginlega var hann enginn
sérstakur herforingi í strategt-
ískum herstjórnarfræðum en hann
var einkar laginn við að skipuleggja
allar birgðaflutningaleiðir þannig að
allir hermenn BNA gátu verið bar-
dagafærir, nægur matarforði, her-
gögn og varnarbúnaður. Því miður
áttu Bandaríkjamenn eftir að horfa
upp á meiri dýrkun hergagna með
sívaxandi þátttöku sinni í Víetnam-
stríðinu sem var Bandaríkjunum til
mikils vansa. Hergagnaiðnaðurinn
hafði forseta BNA meira og minna í
vasanum eftir forsetatíð Kennedy,
sem hafði meiri áhuga fyrir fögrum
konum en kjarnorkuvopnum og
öðrum hertólum.
Spurning er hversu mikil áhrif
þessi heimspest hafi á samfélög
heimsins. Ljóst er að forsendur
kapítalismans eru brostnar rétt
eins og kommúnismans áður. Nú
reynir meira á samvinnu allra frem-
ur en frumkvæði einstaklingsins að
skara að eigin hagsmunum. Ef kap-
ítalisminn á sér framtíð verður
hann að aðlagast raunveruleikanum
en byggja ekki tilveru sína einungis
á stundargróða m.a. með hergagna-
framleiðslu. Því er óskandi að upp-
gangur hergagnaiðnaðar verði
stöðvaður með þessum heimsfar-
aldri enda þarf að nýta hráefni,
fjármuni og orku betur og þá til
hagsbóta fyrir mannkynið.
Er kapítalisminn
að líða undir lok?
Eftir Guðjón
Jensson » Ljóst er að for-
sendur kapítalism-
ans eru brostnar
rétt eins og komm-
únismans áður.
Guðjón Jensson
Höfundur er eldri borgari og leið-
sögumaður búsettur í Mosfellsbæ.
arnartangi43@gmail.com
Hvar er næsta
verkstæði?
FINNA.is