Skessuhorn - 09.08.2020, Blaðsíða 16
MIÐVIKUDAGUR 9. SEptEMBER 202016
Valentin Fels Camilleri kemur frá
Frakklandi en flutti til Íslands fyr-
ir fjórum árum til að kenna brasil-
ískt jiu-jitsu hjá Mjölni í Reykjavík.
Nú hefur hann flutt á Akranes og
er byrjaður að þjálfa bæði unglinga
og fullorðna. Brasilískt jiu-jitsu er
bardagaíþrótt sem á rætur að rekja
til brasilísku bræðranna Carlos,
Oswaldo, Gastão Jr, George og
Hélio Gracie. Árið 1917 fór Car-
los Gracie til Japans þar sem hann
lærði Kodukan júdó en upp frá því
þróuðu bræðurnir sitt eigið sjálfs-
varnarkerfi sem þeir kölluðu Gra-
cie jiu-jitsu sem var upphafið af
brasilísku jiu-jitsu. Í brasilísku jiu-
jitsu er lögð áhersla á að smærri
og léttari manneskjur geti varið
sig gegn stærri og sterkari árásar-
mönnum. „Upphaflega var jiu-jitsu
bardagaíþrótt sem aðallega snér-
ist um sjálfsvörn en hefur svo þró-
ast yfir í meiri íþrótt með reglum.
Þökk sé Gunnari Nelson þekkja Ís-
lendingar jiu-jitsu best sem hluta af
MMA, sem er blönduð bardagaí-
þrótt,“ segir Valentin í samtali við
Skessuhorn. Hann bætir við að jiu-
jitsu sé sá partur af MMA sem fram
fer þegar keppendurnir eru komnir
niður á gólfið.
Féll fyrir Íslandi
Valentin hefur æft bardagaíþróttir
frá fjögurra ára aldri. „Ég æfði júdó
í mörg ár og svo karate, box, glímu,
MMA og fleiri bardagaíþróttir. En
það var ekki af alvöru fyrr en ég
var svona 18 ára, fram að því hafði
ég meiri áhuga á tölvuleikjum en
íþróttum,“ segir Valentin. „Þeg-
ar ég var um tvítugt kynnist ég svo
brasilísku jiu-jitsu og hef stundað
það síðan, eða í níu ár,“ bætir hann
við. Í gegnum bardagaíþróttirn-
ar kynntist Valentin Gunnari Þór.
„Við kynntumst í heimabæ mínum
í Frakklandi þar sem Gunnar var
sem au pair. Hann stundaði box og
ég var í sjálfur að æfa bardagaíþrótt-
ir og við kynntumst í ræktinni og
urðum vinir. Hann bauð mér svo að
koma í heimsókn til Íslands sumar-
ið eftir, en á þeim tíma vissi ég varla
hvar Ísland væri á kortinu. Ég hafði
mjög staðlaða hugmynd um landið
og sá fyrir mér víkinga, ís og mik-
inn kulda,“ segir Valentin og hlær.
Hann kom svo til Íslands nokkr-
um mánuðum síðar og dvaldi hjá
Gunnari og Sunnu, kærustu Gunn-
ars. „Þar kynntist ég líka nágrönn-
um þeirra en þau virtust öll vera að
æfa brasilískt jiu-jitsu eða að þjálfa
það. Ég fór með þeim á æfingar í
gamla húsnæði Mjölnis. Ég féll al-
veg fyrir landinu, náttúrunni hér
og ferska lofti og ég fann sterkt þá
tilfinningu að hingað langaði mig
að koma aftur á einhverjum tíma-
punkti,“ segir Valentin.
Ætlaði bara að vera í
nokkra mánuði
Eftir dvölina á Íslandi kláraði Val-
entin meistaranám í íþróttafræðum
í Frakklandi og Austurríki. Hann
hélt þó alltaf sambandi við íslenska
vini sína. „Eftir námið fannst mér
ég þurfa að finna mér stærri verk-
efni. Ég hugsaði mér að fara ann-
að hvort til parísar eða Bandaríkj-
anna. Ég ákvað að fara í heimsókn
til Íslands á meðan ég væri að skoða
möguleika mína og kom hingað í
apríl 2016. Á þessum tíma átti að
fara að opna Mjölni í stærri aðstöðu
og vinir mínir hvöttu mig til að
sækja um sem þjálfari. Fjórum mán-
uðum seinna flutti ég til Íslands og
ætlaði bara að vera í nokkra mán-
uði, en hér er ég enn, fjórum árum
seinna,“ segir Valentin og brosir. Á
Íslandi kynntist hann tinnu Maríu,
kærustunni sinni, en hún á rætur að
rekja á Akranes. „Foreldrar hennar
koma frá Akranesi en þau bjuggu í
Hafnarfirði á þessum tíma en fluttu
stuttu seinna á Akranes. Þau fóru
strax að reyna að sannfæra okkur
um að koma líka. Ég var sko ekki
til í það. Allir vinir mínir voru í
Reykjavík og vinnan mín líka og ég
sá bara enga ástæðu til að flytja upp
á Akranes, það var í mínum huga
félagslegt sjálsmorð,“ segir Valent-
in og hlær. „Ég var rosalega drama-
tískur með þetta,“ bætir hann við.
Líður vel á Akranesi
Það var svo þegar tinna María var
ófrísk sem viðhorf Valentin gagn-
vart því að flytja á Akranes fór að
breytast. „Foreldrar hennar voru
ekki lengi að byrja að sá fræjum
hjá mér eins og um það hversu gott
væri að hafa barnapössun nær okkur
og svoleiðis. Ég fór aðeins að skoða
þetta þá út frá öðru sjónarhorni og
sá að kannski hefði ég aldrei hugs-
að nógu vel út í kostina við að flytja
nær þeim. Ég skipti því alveg um
skoðun og hugsaði með mér að
það væri alltaf hægt að prófa, það
væri þá ekkert mál að flytja aftur
til Reykjavíkur ef okkur líkaði ekki
að búa hér,“ segir hann. „Mér líður
ótrúlega vel hér á Akranesi. Ég kem
sjálfur frá litlum bæ, með um fimm
þúsund íbúum og ég kann að meta
nálægðina við allt í svona litlum bæ.
Svo höfum við hér á Akranesi bæði
sjóinn og fjöll og svo líka skógrækt-
ina, sem er frábært,“ bætir hann
við.
Jiu-jitsu er fyrir alla
Aðspurður segir Valentin brasil-
ískt jiu-jitsu vera fyrir alla sem vilja
bæta líkamlega hreysti og ekki síð-
ur andlega. „Ég hef þjálfað fólk á
öllum skalanum, fólk í góðu formi
og lélegu, ungt fólk og eldra fólk og
líka fólk með líkamlega fötlun. Það
er alltaf hægt að aðlaga allar æfing-
ar að hverjum og einum,“ segir Val-
entin. Æfingarnar snúast aðeins að
litlum hluta um að berjast en mestur
tími fer í að læra hreyfingarnar og
byggja sig upp hægt og rólega. „Ég
kenni þetta líka sem meira en bara
íþrótt, jiu-jitsu snýst um allt lífið
og hvernig við getum verið góðar
manneskjur. Stór partur af þessari
íþrótt er kúltúrinn í kringum hana,
sem upphaflega kemur frá Japan og
snýst um virðingu, kurteisi, sjálf-
stjórn og bara að læra á lífið. Við
lærum til dæmis hvernig við getum
tekið því að tapa. Það er í lagi að
vera miður sín en svo þarf bara að
fara yfir það sem maður gerði, hvað
var gott, hvað ekki og hvernig má
bæta það. Svona byggir maður sig
upp og getur stöðugt verið að bæta
sig, bæði sem íþróttamann og sem
manneskju,“ segir hann.
Snýst ekki bara
um bardaga
Allar æfingar byrja með upphitun
þar sem liðir og vöðvar eru búnir
undir æfingu dagsins. „Við erum
ekki bara að æfa ákveðin brögð til
að beita í bardaga heldur hluti eins
og hvernig við eigum að detta en
það er eitthvað sem gagnast okkur
í daglegu lífi, sérstaklega á Íslandi
þar sem maður er næstum alltaf í
hættu á að renna á svelli og slasa
sig,“ segir hann og hlær. „Við
lærum líka sjálfsvörn og hvern-
ig við getum sjálf brugðist við
hvort sem er úti á götu eða í bar-
daga. Ég byrja á að kenna hreyf-
ingarnar og fólk æfir sig í þeim án
mótstöðu þar til færnin er orðin
nógu góð til að bæta við smá mót-
stöðu. Svo byggjum við mótstöð-
una upp hægt og rólega þangað til
fólk hefur næga færni til að berj-
ast,“ útskýrir Valentin. Aðspurður
segist hann leggja mikla áherslu
á að fólk gæti þess að meiðast
ekki. „Það er engin ástæða til að
æfa alltaf 100% til þess að bæta
sig. Fyrst og fremst þarf að læra
tæknina og nota hana á þeim
hraða sem færnin leyfir og endur-
taka oft frekar en að fara of langt,
þá er meiri hætta á meiðslum.
Með þessu fáum við líka betri lík-
amsvitund og lærum inn á okkar
líkama, hvað við þolum og hvenær
við eigum að stoppa,“ segir Val-
entin. En er enn hægt að skrá sig
á æfingar hjá honum á Akranesi?
„Það eru ekki mörg laus pláss en
ég hvet fólk til að hafa samband
við mig. Ef það eru nógu marg-
ir sem vilja byrja að æfa gæti ég
bætt við tímum og svo eru alltaf
einhverjir sem gætu hætt og aðrir
komist að. Ég bara hvet alla til að
hafa samband. Þetta er ótrúlega
skemmtileg íþrótt, æfingarnar eru
skemmtilegar, félagsskapurinn
líka og svo er gaman að læra eitt-
hvað nýtt og byggja upp færni,“
segir Valentin, þjálfari í brasilísku
jiu-jitsu.
Hægt er að hafa samband við Val-
entin á Facebook undir nafninu BJJ
Akranes, á Instagram undir nafn-
inu valentinfcmma eða í tölvupósti
í netfangið valentin.felscamilleri@
gmail.com arg/ Ljósm. úr einkasafni
Jiu-jitsu snýst ekki bara um að þjálfa líkamann heldur líka að hugann og læra að vera almennt góð manneskja.
Kennir nú brasilískt jiu-jitsu á Akranesi
Valentin er byrjaður að þjálfa brasilískt jiu-jitsu á Akranesi. Ljósm. arg
Flestir Íslendingar þekkja jiu-jitsu kannski best eftir að hafa fylgst með Gunnari
Nelson keppa í MMA, en jiu-jitsu er einn hluti af MMA. Brasilískt jiu-jitsu er fyrir alla.