Morgunblaðið - 21.08.2020, Síða 16

Morgunblaðið - 21.08.2020, Síða 16
16 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 21. ÁGÚST 2020 ✝ Dóra SigríðurBjarnason fæddist í Reykja- vík 20. júlí 1947. Hún varð bráð- kvödd á heimili sínu 5. ágúst 2020. Foreldrar hennar voru Steinunn Ágústa Bjarnason gjaldkeri, f. 22. maí 1923, d. 7. febrúar 2017, og Ingi Hákon Bjarnason efna- verkfræðingur, f. 30. júní 1914, d. 27. desember 1958. Systkini Dóru eru Inga Bjarna- son, kennari og leikstjóri, f. 1951, og Ingi Þorleifur Bjarna- son, jarðeðlisfræðingur og rannsóknarprófessor við Jarð- vísindastofnun Háskóla Ís- lands, f. 1959. Sonur Dóru er Benedikt Hákon Bjarnason, f. 1980. Hann er í hlutastarfi hjá Hallgrímskirkju í Reykjavík. Eftir Dóru liggur fjöldi fræðibóka og fræðigreina. Af ritum um almennt efni kom út eftir hana árið 1996 bókin Undir huliðshjálmi – sagan af Benedikt. Sagan er um Dóru og son hennar, Benna, og bar- áttu þeirra fyrir mannréttind- um fatlaðs fólks. Árið 2019 gaf hún út bókina Brot – Konur, sem þorðu. Þar er sögð saga þriggja kynslóða stórbrotinna kvenna, sem tengdust fjöl- skyldu hennar. Sögusviðið er frá 1863 til 2004, á meginlandi Evrópu, Íslandi og í Argent- ínu. Árið 2002 fékk Dóra Múr- brjótinn, viðurkenningu Landssamtakanna Þroska- hjálpar, „vegna einarðrar bar- áttu og rannsókna í þágu fólks með fatlanir“. Útför Dóru Siggu fer fram frá Neskirkju í dag, 21. ágúst 2020, og hefst athöfnin klukk- an 13. Vegna aðstæðna í þjóð- félaginu er útförin fyrir nán- ustu aðstandendur eingöngu, en streymt verður á slóðinni: https://youtu.be/yb- VU8Oa5Loo – og deilt á face- book-síðu Dóru. Dóra lauk stúd- entsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1967, BA-prófi í félags- fræði frá Man- chesterháskóla í Englandi 1971 og MA-prófi í félags- fræði frá Keele- háskóla í Englandi 1974. Hún lauk doktorsprófi (dr. philos.) frá Óslóarháskóla 2003 í fötlunarfræði-sérkennslu. Dóra hóf störf sem stunda- kennari við Kennaraháskóla Ís- lands haustið 1971 og var fast- ráðin 1981. Hún varð prófessor í félags- og fötlunarfræði við Kennaraháskóla Íslands árið 2004 (sem síðar varð Mennta- vísindasvið Háskóla Íslands); prófessor emeritus frá 2017. Dóra hefur verið gistiprófessor við háskóla víða erlendis. Ég trúi ekki að þú sért farin. Ég sá þig síðast daginn sem þú lést. Við fórum saman í kaffi til sameiginlegrar vinkonu okkar og þú varst svo glöð og hress. Þú sagðir sögur af okkur, eins og söguna um heimsókn okkar til maóríanna á Nýja-Sjálandi þegar ég var lítill. Þar fékk ég hálsmenið sem ég hef borið æ síðan. Við höfum ferðast víða saman og upplifað ótrúlega margt. Eignast góða vini um all- an heim. Við höfum líka gert svo margt skemmtilegt hérna heima. Við höfum ræktað okkar sameiginlega áhugamál, tónlist- ina, og farið á ótal tónleika sam- an. Allt frá áhrifamiklum sinfón- íutónleikum í Hörpunni til notalegra djasstónleika á Jóm- frúnni. Og við vorum yfirleitt mætt saman þegar áhugaverðir viðburðir voru í miðbænum, svo sem kertafleyting á Tjörninni eða Gleðiganga á Laugavegin- um. Þér fannst mikilvægt að styðja við samfélagið með því að taka þátt og þú kenndir mér að taka þátt í þessu öllu saman líka. Ég mun aldrei gleyma góðu stundunum sem við höfum átt saman, ýmist heima hjá mér í íbúðinni minni á Reynimel, á æskuheimili mínu á Bollagöt- unni og seinna í nýju íbúðinni þinni í Tjarnargötu. Þar eldaðir þú alltaf góðan mat handa mér þegar ég kom í heimsókn. Þú varst frábær kokkur. Og svo tal- aðir þú við mig um allt milli himins og jarðar. Í aðdraganda kosninga var mikið rætt um pólitík og þú hafðir þína ákveðnu skoðun á því. En þú passaðir upp á að ég fengi sjálf- ur að mynda mér mína skoðun á hlutunum og hvattir mig alltaf til að nýta kosningaréttinn minn. Þú varst alltaf tilbúin að leggja líf þitt í hættu fyrir mig. Þetta hefur verið tæpt nokkrum sinnum, til dæmis þegar ég veiktist skyndilega eftir að ég var fluttur að heiman. Þá keyrð- ir þú á ofsahraða með hvíta tusku út um gluggann alla leið frá Laugarvatni, þar sem þú varst að kenna, til þess að kom- ast í bæinn og passa upp á að ég fengi þá þjónustu sem ég þurfti á spítalanum. Þú hefur alltaf verið til staðar fyrir mig og gott betur en það. Þú hefur líka verið til staðar fyrir fólkið í kringum mig, alla þessa aðstoðarmenn sem hafa komið og farið í lífi okkar. Þú vildir allt fyrir þá gera. Ef þeir þurftu á stuðningi að halda varstu strax komin í málið, hvort sem það var vegna erf- iðrar reynslu í æsku, ástarsorg- ar eða erfiðleika við að fóta sig sem útlendingur í nýju landi. Þú hugsaðir vel um aðstoðarfólkið af því að þú vissir að ef þeim liði vel þá myndi mér líka líða vel. En þú gerðir þetta ekki bara fyrir mig. Þú gerðir það líka af því þú varst með svo stórt hjarta. Þú gast einfaldlega ekki látið það afskiptalaust. Það sem þú óttaðist mest af öllu var að þú myndir falla frá áður en þú værir búin að ganga frá öllum hlutum þannig að ég gæti lifað áfram mínu lífi. Þú eyddir mörgum stundum í að hugsa þetta og þú passaðir upp á að safna góðu fólki í kringum okkur sem þú vissir að myndi vera tilbúið að aðstoða mig þeg- ar á þyrfti að halda. Ég á eftir að hugsa til þín með söknuði á hverjum degi en ég er ákveðinn í að halda áfram að njóta lífsins eins og þú hefur kennt mér. Benedikt og Theodór (persónulegur talsmaður). Kær frænka okkar Dóra Sig- ríður Bjarnason er mjög óvænt fallin frá. Ævinlega þegar ætt- ingjar og vinir falla skyndilega frá, kemur upp söknuður og minningar frá liðinni tíð streyma fram í hugann. Dóra Sigga og við undirrituð vorum þremenningar. Amma hennar, Sigrún Ísleifsdóttir Bjarnason sem og afi okkar Gísli Ísleifsson, fyrrum sýslu- maður og síðar skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, voru systkin. Faðir okkar Grímur hélt góðri vináttu við föðursystur sína Sigrúnu og börn hennar. Karitas, sem Sigrún átti með fyrri manni sínum, Birni Ólafs- syni augnlækni sem lést 1909 langt um aldur fram, og þá Leif og Inga Hákon sem Sigrún eignaðist með síðari eiginmanni, Þorleifi H. Bjarnason yfirkenn- ara. Þeir frændur, Grímur og bræðurnir Leifur og Ingi voru jafnaldrar en þeir bræður urðu skammlífir. Leifur lést 1954 í bílslysi í New York 42 ára gam- all og Ingi lést fjórum árum síð- ar af völdum slyss við störf sín á rannsóknastofu Hvals hf. í Hvalfirði. Ekkja Inga, Steinunn Jóns- dóttir, missti Inga í blóma lífs- ins og systurnar Dóra Sigga og Inga voru aðeins 11 og 7 ára gamlar og sonurinn Ingi Þor- leifur fæddist um 6 mánuðum eftir andlát föður síns. Þetta var þeim mikið áfall og sorg og um einu ári eftir andlát Inga dó amma Sigrún, líka búin að fá sinn skerf af mótlæti og sorg. Fjölskyldan bjó í hjarta bæj- arins. Sigrún Bjarnason sem hjá okkur var oftast kölluð tante Sigrún, var afar gestrisin og henni til aðstoðar var Una, hennar mikla hjálparhella, og muna margir enn eftir heima- lagaða gómsæta konfektinu þeirra. Mikil vinátta var með foreldr- um okkar og fjölskyldunni að Tjarnargötu 18 og einnig með dóttur Sigrúnar, Karitas Björnsdóttur, sem giftist dönsk- um manni, Jens Andersen. Kar- illa eins og hún var kölluð bjó í Danmörku frá 1930 og voru þau hjón og börn þeirra, Sigrun og Peter, mjög gestrisin. Allir ætt- ingjar, sem dvöldu í Danmörku eða áttu leið þangað voru au- fúsugestir hjá þeim. Kynni okkar og Dóru Siggu voru fremur lausleg um árabil en við fylgdumst vel hvert með öðru. Við dáðumst að dugnaðin- um í Dóru Siggu hvort sem var við nám, kennslu, ritstörf eða annað. Hún vakti sérstaka at- hygli okkar og annarra fyrir þrotlausa baráttu fyrir réttind- um fatlaðra og gerði allt sem í hennar valdi stóð til að tryggja syni sínum, Benedikt, þá miklu umönnun sem hann þurfti. Hún fylgdi honum eftir í skólum, fór með hann utan til þjálfunar og náms, tók hann með sér í ferðir utan og sýndi honum margt og kenndi á ferðum sínum um fjar- lægar slóðir. Hin síðari ár efldist vinátta okkar og samheldni við Dóru Siggu og dásamlegt var að sam- fagna henni við útgáfu bókar- innar „Brot – konur sem þorðu“ sem er saga föðursystur hennar, Ingibjargar Stein Bjarnason, og móður hennar og dóttur. Bókin kom út fyrir jólin 2019 og er af- rakstur þrotlausrar rannsókn- arvinnu Dóru Siggu víða um lönd. Þessi bók er góður minnis- varði um líf og starf Dóru Siggu. Við sendum Benedikt syni hennar og systkinunum Ingu og Inga og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðj- ur. Lucinda Grímsdóttir. Almar Grímsson. Það eru forréttindi að hafa fengið að vera hluti af lífi Dóru og að hafa hana sem hluta af okkar fjölskyldu. Fyrir okkur var hún alltaf amma Dóra því hún var amman sem var í bæn- um en hinar ömmurnar í fjöl- skyldunni okkar búa langt í burtu. Börnin segja: „Hún var svona alvöru amma.“ Og það er alveg rétt. Börnunum þótti mjög vænt um hana og henni um þau. Það var alltaf gaman að koma í heimsókn til ömmu Dóru. Hún passaði upp á að eiga alltaf Ri- bena-saft og blöðrur og ein- hverja skemmtilega hluti í skúffunni inni í stofu sem hægt var að leika sér með. Dóra lagði mikla áherslu á að búa til minn- ingar með börnunum og það þurfti oft ekki mikið til. Hún sýndi börnunum alltaf mikla virðingu og áhuga og fannst gaman að spjalla við þau. Hún hvatti þau áfram í því sem þau tóku sér fyrir hendur og mætti stolt á fimleika- og ballettsýn- ingar. Hún fór í það sjálfskipaða hlutverk að sjá um menningar- legt uppeldi barnanna og bauð þeim reglulega í leikhús. Fram- undan var að fara saman á Kardimommubæinn. Nú förum við án hennar … Dóra bjó yfir mikilli lífsspeki og var fróð um marga hluti. Börnin segja: „Hún vissi svo mikið um Ísland og var góð í að segja frá.“ Hún vann líka sem leiðsögumaður þegar hún var ung og hún sagði okkur gjarnan sögur af því. Hún var greinilega stolt af því að vera Íslendingur, stolt af landinu sínu, sögu þess og menningararfi. En henni þótti líka vænt um hitt landið okkar, Danmörku, og öfundaði okkur svolítið af því að eiga tvö lönd. Hún bjó um tíma í Kaup- mannahöfn og fannst alltaf gott að koma þangað og þótti gaman og pínu flott að tala dönsku. Það var draumur okkar að fara sam- an til Norður-Jótlands, heim- sækja Skagen og skoða birtuna og hin frægu listaverk. Það hefði verið svo gaman … Við munum sakna þess að spjalla við Dóru um lífið og til- veruna. Hún hafði húmor fyrir sjálfri sér og sagði gjarnan sög- ur um ýmislegt sem hún hafði lent í. Eins og þegar hún var að gera morgunleikfimi heima í stofu og allt í einu stóð röð af kínverskum ferðamönnum fyrir utan gluggann og horfði á. En það var líka bara ótrúlega gott að spjalla við Dóru. Hún var einstaklega næm á fólk og henni var aldrei sama. Ósjaldan fékk maður símtal frá henni þar sem hún var að velta fyrir sér hvað hægt væri að gera fyrir ein- hvern sameiginlegan kunningja sem þurfti á stuðningi að halda. Hún veitti okkur oft ómetanleg- an stuðning. Eins og þegar við vorum nýbúin að eignast okkar fyrsta barn og hún vissi að við áttum fáa að hér nálægt. Þá mætti hún með heimatilbúna kjötsúpu og skildi eftir við dyrn- ar. Nákvæmlega það sem við þurftum! Við hittumst síðast í matar- boði á Tjarnargötunni núna í lok júlí. Við sátum úti í garði í góða veðrinu og það voru grillaðir hamborgarar og spjallað. Allir voru eitthvað svo glaðir, kannski af því að sólin skein, kannski líka af því að það var eitthvað svo bjart framundan. Það er gott að eiga þessa minn- ingu núna þegar amma Dóra er allt í einu farin. Við kveðjum hana með söknuð í hjarta. Blessuð sé minning hennar. Theodór og Helle, Karl Sören, Edith Anna og Anton Lúðvík. Hér er ekki staður eða stund til að gera ævi og starfi Dóru Bjarnason viðunandi skil en nú, svo skömmu eftir sviplegt and- lát hennar, kemur eitt lykilhug- tak helst í hugann: barátta. Dóra var baráttukona allt frá því að ég kynntist henni fyrir um 50 árum til dauðadags. Hún var óhrædd við að láta að sér kveða í þeim málum sem henni þóttu þess virði að berjast fyrir, hvort sem var í samskiptum við fólk augliti til auglitis eða á op- inberum vettvangi. Eftir að hún eignaðist Benedikt, sem fæddist með fötlun, voru það aðallega málefni fólks með fötlun. Þar háði hún fjölmarga hildi og þótt ekki hefðist sigur í þeim öllum gafst hún ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Hún var menntuð félagsfræð- ingur en var aldrei hlutlaus fræðimaður; hún tók afstöðu í mörgum samfélagslegum álita- málum og beitti til þess hug- myndafræði af félagsfræðileg- um toga. Iðulega var afstaðan einkar persónuleg; of persónu- leg fannst sumum; því voru Dóra og aðgerðir hennar oft umdeildar. Hún var frumkvöðull sem vildi breyta viðhorfi fólks í átt til meðvitundar um aukið jafnrétti og mennsku. Hún vildi skilja eitthvað eftir sig sem hefði áhrif til langframa. Hún áttaði sig vel á því að réttinda- baráttu fyrir jafnrétti væri aldr- ei lokið; varðstaðan væri enda- laus. Í baráttunni beitti hún kennslu, rannsóknum, skrifum og félagslegum aðgerðum. Segja má að hún hafi verið eins manns baráttusamtök fyrir rétt- indum minnihlutahópa. Við störfuðum lengi á sama sviði við kennslu og rannsóknir við Kennaraháskólann að því er varðaði fólk með fötlun og nem- endur með sérþarfir í námi og á þeim vettvangi þar sem fé- lagsfræði og sálfræði takast oft á laust okkur oft saman á tíma- bili, stundum svo mjög að hrikti í öllum stoðum. En Dóra erfði slíkt aldrei og áður en langt um leið gátum við tekið upp sam- starfsþráðinn að nýju. Dóra hugsaði stórt og dæmdi stund- um hart en var tilbúin til að fyr- irgefa og þola margt í barátt- unni ef henni fannst málefnið mikilvægt. Arfleifð hennar er víða sýnileg, einkum á sviði fé- lagslegra réttinda fólks með fötlun. Þar verður hennar sárt saknað. Hugurinn er nú einkum hjá Benedikt sem þarf við þessar aðstæður persónulegan stuðn- ing sem aldrei fyrr. Ég votta honum og eftirlifandi systkinum Dóru samúð mína. Gretar L. Marinósson. Við vorum sennilega um 10 eða 11 ára gamlir þegar Dóra bauð okkur fyrst heim til sín og Benna á Bollagötuna í snúða, kókómjólk og bíómynd á föstu- degi eftir skóla. Fyrst vorum við örfáir, en svo bættust fleiri í hópinn. Þegar mest var vorum við yfir 15 bekkjarfélagar, allir að háma í okkur snúða og kókó- mjólk yfir vídeóspólu að eigin vali. Þegar best lét keypti Dóra hátt í 100 súkkulaðisnúða á mánuði, en hún var víst hálfgerð goðsögn í heimi íslenskra bak- aría. Það er ekki ólíklegt að Dóra eigi ennþá metið í fjölda keyptra snúða á Íslandi, enda lifði föstudagsklúbburinn okkar í mörg ár. „Dóra, mamma Benna“ – kölluðum við vinir Benna hana alltaf. Það segir allt sem segja þarf. Þegar hún eignaðist Benna breyttist líf hennar að öllu leyti. Hún varð aðsópsmikil baráttukona fyrir bættum rétt- indum fatlaðra, drifin áfram af þeirri sannfæringu að fötlun sonar hennar skyldi aldrei hamla honum, hvort sem er í menntun, ferðalögum eða vin- áttu. Dóru tókst til dæmis að koma Benna í bekkinn okkar, þótt það væru engin fordæmi fyrir því að svo fjölfatlaður ein- staklingur sæti þar. Guði sé lof fyrir þrautseigju hennar og ákveðni, því annars hefðum við aldrei kynnst honum eða henni. Síðar þegar við komumst á full- orðinsár og urðum einnig vinir Dóru áttuðum við okkur betur á því hvers konar baráttukona og hugsjónamanneskja hún var. Dóra sá ekki veggi, bara dyr. Ekki vandamál, bara lausnir. Hún var bráðgáfaður töffari sem fór alltaf sínar eigin leiðir, ein af þessum manneskjum sem snerta líf allra sem hún kynnt- ist. Við munum aldrei gleyma þér, elsku Dóra, né föstudög- unum með súkkulaðisnúðunum. Strákarnir í ÆSK. Andri, Baldur, Benedikt, Brynjar, Davíð, Helgi, Helgi Már, Hlynur, Jóhann- es, Kristinn og Óttar. Elsku Dóra og Benedikt. Mér brá svo við að lesa að þú sért farin elsku Dóra, því ég hafði svo sannarlega búist við að hitta þig aftur. En núna ert þú vonandi búin að hitta Ástu, móður mína, hin- um megin á himnum uppi því þið voruð vinkonur. Ég man þegar við fluttum heim til Íslands að þá byrjuðu okkar kynni af ykkur Benna. Þið komuð í heimsókn og ég var mjög forvitinn um Benna og hans miklu og sérstöku fötlun. Þær mamma og Dóra unnu saman að málefnum fatlaðs fólks og ég er Dóru innilega þakklátur fyrir að hafa barist fyrir því að Benni fengi samning þar sem hann gæti dvalið heima hjá sér með reisn og ró því þannig urðu NPA-samningar til svo við öll gætum dvalið heima hjá okkur með reisn og ró. Ég minnist þess með gleði og stolti þegar Dóra tók á móti hvatningarverðlaununum „Rós- in“ árið 2009 frá Þroskahjálp til minningar um móður mína, Ástu B. Þorsteinsdóttur, en þessi verðlaun voru veitt fyrir framúrskarandi störf sem stuðla að þátttöku fatlaðs fólks í sam- félaginu til jafns við aðra. Elsku Benni minn, ég veit hvernig er að missa besta vin og móður sem svo sannarlega trúir á mann. Megi hinn himneski faðir á himnum styrkja þig og þína í sorg ykkar. Kær kveðja, Blær Ástríkur Stefán Ástuson Ástráðsson. Dóru verður ugglaust lengst minnst vegna óþrjótandi bar- áttu sinnar fyrir réttindum þeirra sem minnst mega sín og hugsjónastarfs í þágu „skóla fjölbreytileikans“. Ég var lán- samur að kynnast hugsjónakon- unni Dóru betur en baráttukon- unni. Barátta svelgir mátt fólks; hugsjónir næra hann. Það sem sló mig fyrst í fari Dóru var hve orðgæf og orðvör hún var, jafnvel um andstæð- inga sína innan „kerfisins“ sem sífellt reyndu að varna henni vegar. Hún var ekki eingöngu merkisberi fjölbreytileikans í orði, hún hafði einstakan skiln- ing á mannlegum fjölbrigðum, lífbrigðum og ekki síst breysk- leika. Hún var mannvinur af hugsjón um leið og hún var vin- ur vina sinna. Ég minnist heimsóknar Dóru fyrir nokkrum árum til Birm- ingham að hitta mig og vinkonu sína, prófessor Julie Allan. Við áttum ógleymanlega stund sam- an á indversku veitingahúsi í stúdentahverfinu. Hún var tæp- lega sjötug, og um það bil að setjast i helgan stein, en hafði umfangsmeiri framtíðarplön en nýstúdent. Síðast átti ég eftir- minnilegt skype-samtal við hana fyrir um ári. Stórmerkileg bók hennar, Brot, um lyginni líkasta ævi þriggja kvenna, var þá ekki komin út en Dóra hafði þegar ákveðið að skrifa fræðigrein í al- þjóðlegt tímarit um hvernig ævi kvennanna endurspeglaði mun- inn á sjálfi og sjálfsmynd. Ég sagði henni að það tæki hana nokkra mánuði að setja sig inn í heimspeki- og sálfræðiskrif um þetta efni, en hún setti það ekki fyrir sig. Dæmigerð Dóra. Ég efast um að þessi grein hafi klárast fyrir ótímabært andlát vinkonu minn- ar. En ef líf er eftir þetta þá veit ég að Dóra er önnum kafin nú þegar í handanheimi að sinna hugsjónum sínum og rækta mannkosti sína í þágu annarra: aðalsmerki hennar í lífi sínu á jörðinni. Kristján Kristjánsson, Háskólanum í Birmingham. Dóra Sigríður Bjarnason  Fleiri minningargreinar um Dóru Sigríði Bjarna- son bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.