Morgunblaðið - 23.10.2020, Qupperneq 71
MENNING 71
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 23. OKTÓBER 2020
SÝND MEÐ
ÍSLENSKU TALI
SÝND MEÐ
ÍSLENSKU TALI
FYRSTA STÓRMYND ÁRSINS
Nýjasta Meistaraverk
Christopher Nolan
★★★★★
★★★★★
★★★★★
The Guardian
The Times
The Telegraph
Nánari upplýsingar um sýningartíma á sambio.is
MÖGNUÐ MYND SEM
GAGNRÝNENDUR HLAÐA LOFI :
★★★★★
★★★★★
★★★★★
Roger Ebert.com
San Fransisco Cronicle
The Playlist
88%
SPLÚNKUNÝ MYND FYRIR
ALLA FJÖLSKYLDUNA
SÝND MEÐ ÍSLENSKU TALI.
MYNDIN SEM HEFUR SLEGIÐ Í GEGN
Í EVRÓPU UNDANFARNAR VIKUR.
SÝND MEÐ
ÍSLENSKU TALI
SÝND MEÐ ÍSLENSKU TALISÝND MEÐ ÍSLENSKU TALI
Kvikmyndaheimurinn get-ur verið harður hús-bóndi. Kanadíski leik-stjórinn Sean Durkin
sendi frá sér hina stórgóðu frum-
raun Martha Marcy May Marlene
árið 2011 og hlaut meðal annars
leikstjóraverðlaunin á Sundance-
kvikmyndahátíðinni fyrir verkið.
Gagnrýnanda þótti myndin vera
hápunktur á RIFF á sama ári og
því er gleðiefni að sjá Durkin loks
snúa aftur með Hreiðrið. Ótvíræð
stjarna myndarinnar er þó leik-
konan Carrie Coon sem á stórleik
í aðalhlutverkinu.
Hreiðrið hverfist um hjónaband
og fjölskyldulíf hinnar bandarísku
Alisson (Carrie Coon) og hins
breska Rory O‘Hara (Jude Law).
Börn þeirra eru tvö: unglings-
stúlkan Sam (Oona Roche), sem
Alisson átti áður en hjónin kynnt-
ust, og hinn hálfstálpaði Benjamin
(Charlie Shotwell) sem hjónin eiga
saman. Sagan gerist undir lok ní-
unda áratugarins en það má
sjaldnast merkja á sögusviðinu. Í
upphafi myndar lifir fjölskyldan
þægilegu úthverfalífi vestanhafs
og allt virðist með kyrrum kjörum.
Alisson vinnur við reiðmennsku
sem hún hefur mikla unun af en
Rory fæst við viðskipti. Krakk-
arnir eru í skóla og tómstundum
og samgangur er milli fjölskyld-
unnar og foreldra Alissonar.
Draumafjölskyldufaðirinn Rory
færir eiginkonu sinni kaffi í rúmið
á morgnana og spilar fótbolta með
stráknum úti í garði eftir skóla.
Spennuþrungin tónlist og upp-
bygging upphafsatriðarununnar
gefur þó sterklega til kynna að
ekki sé allt með felldu.
Einfalt fjölskyldulíf er nefnilega
ekki nóg fyrir viðskiptajöfurinn
Rory, hann þarf eitthvað meira til
að öðlast lífsfyllingu. Hann þarf
meiri pening, meiri velgengni og
það hefur honum ekki hlotnast í
Bandaríkjunum. Hann tilkynnir
eiginkonu sinni að gamall yfir-
maður hans í fjárfestingarfyrir-
tæki í London hafi boðið sér að
snúa aftur til fyrri starfa. Hér sé
tækifærið til að verða loksins rík
og eignast eigið hesthús eins og
þau hefur alltaf dreymt um. Alis-
son hefur slæma tilfinningu fyrir
áformum Rorys og vill ekki rífa
fjölskylduna upp með rótum í enn
eitt skiptið en lætur til leiðast.
Við tekur átakanleg tilraun fjöl-
skyldunnar til að aðlagast nýjum
aðstæðum í Bretlandi. Rory hefur
tekið á leigu stórt sveitasetur í
Surrey, tryggt börnunum vist í
einkaskólum í grenndinni, flutt inn
hest og hafið byggingu á nýju
hesthúsi. Fyrirætlun Rorys um
skjótan gróða fer fljótlega út um
þúfur og peningar fara að verða af
skornum skammti. Á táknrænan
máta stendur hesthúsið hálfbyggt
á jörð sveitasetursins og endur-
speglar þar með hjónaband sem
stendur höllum fæti.
Í kynningarefni um myndina er
Hreiðrið, líkt og fyrri mynd Durk-
ins, framsett sem sálfræðitryllir.
Styrkur myndarinnar liggur þó
engan veginn í óvæntri framvindu
enda virðist frá upphafi fremur
augljóst í hvað stefnir. Myndin er
á köflum einnig að leika sér að
hugrenningartengslum við hryll-
ingsgreinina og má greina hlið-
stæðu milli óðalsetursins í Surrey
og Overlook-hótelsins í The Shin-
ing. Daðrað er við yfirnáttúruleg
stef með húsakynnin og afdrif að-
flutta hestsins en fóru þær þreif-
ingar fyrir ofan garð og neðan hjá
pistlahöfundi. Hesturinn og heilsu-
brestir hans var eilítið ofnotuð og
klunnalega beitt myndlíking fyrir
hlutskipti Alisson. Sé hins vegar
litið á Hreiðrið sem fjölskyldusögu
og karakterstúdíu, þar sem sterk
frammistaða leikarahópsins fær að
njóta sín, eru kostir hennar
umtalsverðir.
Jude Law er hér á kunnulegum
slóðum sem hinn útsmogni en
sjarmerandi frjálshyggjufýr (hann
er nokkurs konar andlegur bróðir
Gordons Gekko úr Wall Street) og
fjölskyldufaðir sem siglir undir
fölsku flaggi. Rory er í raun alger-
lega týndur maður sem mun aldrei
finna hugarró með óbreyttum leið-
um. Carrie Coon hefur áður sést í
aukahlutverkum á hvíta tjaldinu
(The Avengers: Infity War, Gone
Girl og Widows m.a.) en stígur hér
fram sem stórleikkona í sínu
fyrsta bitastæða aðalhlutverki.
Alisson er virkilega sterk persóna
sem berst í bökkum við að halda
fjölskyldunni og lífi sínu gangandi.
Hún er skemmtilega blátt áfram
og amerísk í samhengi bresku
yfirstéttarinnar sem Rory vill svo
gjarnan verða hluti af. Skemmti-
legustu senurnar eru þegar Aliss-
on er búin að átta sig á fölsku yfir-
skyni eiginmanns síns og lætur allt
flakka á fínu veitingastöðunum
með viðskiptavinunum; drekkur
eðalvínið af stút og segir liðinu að
hún vinni við að moka flórinn á
næsta sveitabæ til þess að skrimta
fyrir helstu útgjöldum. Einmana-
legur og kraftmikill dans hennar í
næturklúbbssenu er annar há-
punktur. Oona Roche og Charlie
Shotwell standa sig fantavel í hlut-
verkum barnanna.
Allt kemur þetta saman undir
sterkri handleiðslu Durkins. Leik-
stjórn og handrit hans einkennast
af hófsemi og treystir áhorfandan-
um til þess að draga eigin álykt-
anir um persónurnar og framvind-
una. Stuttar samtalssenur aðal-
persónanna við mæður sínar eru
ekki nauðsynlegar fyrir fléttuna en
draga upp ákveðinn bakgrunn
þeirra og dýpka þá mynd sem
áhorfandinn fær að ráða úr.
Hreiðrið færir okkur hrífandi og
klassíska frásögn um mannlegan
breyskleika sem hefur sig til flugs
þegar aðalleikkonan Carrie Coon
er miðpunkturinn. Óskandi er að
hún og leikstjórinn Sean Durkin
fái sem fyrst fleiri tækifæri í bíó-
heimum.
Amerískt sprund í Surrey
Stórleikur Rýnir segir Hreiðrið hrífandi og klassíska frásögn um mannlegan breyskleika sem hefji sig til flugs þeg-
ar aðalleikkonan Carrie Coon er miðpunkturinn. Hér sést Coon með Jude Law sem leikur eiginmann hennar, Rory.
Sambíóin
Hreiðrið/The Nest bbbmn
Leikstjórn og handrit: Sean Durkin.
Kvikmyndataka: Mátyás Erdély. Aðal-
leikarar: Jude Law, Carrie Coon, Charlie
Shotwell, Oona Roche, Addel Akhtar.
Bandaríkin, Bretland og Kanada, 2020.
107 mínútur.
GUNNAR
RAGNARSSON
KVIKMYNDIR