Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.10.2020, Blaðsíða 22
22 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25.10. 2020
HEILSA
Rótarmálin eiga hug minn allan,“ segirKristín I. Pálsdóttir yfir kaffibollaeinn fallegan haustdag. Hún hefur
menntað sig í vímuefnavanda kvenna, en auk
hennar er starfandi í Rótinni góður hópur
kvenna sem hafa margar hverjar sérhæft sig
í málefnum kvenna, áföllum þeirra og vímu-
efnaneyslu. Kristín segir Rótina hafa í upp-
hafi orðið til þegar nýjar hugmyndir hafi
kviknað hjá konum innan SÁÁ.
„Ég var þá í ráði hjá Femínistafélagi Ís-
lands og þær báðu mig að halda erindi um
jafnréttismál. Ég hafði sjálf hætt að drekka
2007 og farið í gegnum meðferð hjá SÁÁ og
þaðan inn í tólfsporasamtök. Ég fékk mjög
mikinn áhuga á þessu,“ segir Kristín, sem er
nú í hálfu starfi hjá Rótinni.
„Mér fannst strúktur tólf spora kerfisins
heillandi; valdið kemur neðan frá og upp, en
ekki ofan frá og niður. Það er mjög merkilegt
hvernig AA-samtökin starfa. Þarna er ókeyp-
is stuðningur fyrir fólk sem er kannski búið
að loka mörgum dyrum. En mér fannst þau
líka fornaldarleg að mörgu leyti því þau eru
föst í upprunanum, eru stofnuð af körlum í
Bandaríkjunum um miðja síðustu öld og bera
þess merki. Auðvitað er þróun en AA-bókin
er biblía og henni verður aldrei breytt. Vegna
þess er fólk fast í hugmyndum sem eru að
mörgu leyti úreltar. Þegar bókin er skrifuð
var til dæmis ekki til áfallafræði. Í bókinni
eru allt aðrar útskýringar á því hvers vegna
fólk drekkur, eins og að alkóhólismi sé með-
fæddur sjúkdómur en ekki mótaður að miklu
leyti af félagslegum þáttum, eins og við vitum
í dag,“ segir Kristín.
„Við byrjuðum á að stofna kvenfélag innan
SÁÁ en fundum fljótt að það var enginn
hljómgrunnur fyrir því þar þannig að við
stofnuðum Rótina árið 2013. Við erum núna á
fimmta hundrað í félaginu.“
Fíknigen finnst ekki
Kristín segir ástæðu þess að konur tóku sig
saman og stofnuðu sitt eigið félag hafi verið
sú að það vantaði alla hugsun um kynjamun
sem er til staðar við fíknivanda.
„Það er mjög mikill kynjamunur, hvernig
konur fara inn í fíkn og út úr henni. Það hef-
ur ekki verið tekið tillit til þess. Þórarinn
Tyrfingsson mótaði þennan málaflokk mjög
mikið en er með allt annað módel í huga held-
ur en við erum með. Það er sannað í dag að
fíknivandi er að miklu leyti félagslegur. Kon-
ur nota önnur efni en karlar og það er svo
margt ólíkt sem þarf að skoða,“ segir hún.
„Það er búið að eyða milljörðum í leit að
fíknigeninu og það finnst ekki. Þegar talað er
um erfðir er yfirleitt verið að vísa í fylgni og
hún getur vissulega verið af félagslegum
völdum þó að erfðafræðilegir þættir eigi líka
hlut að máli. Þetta er þó ekki svart-hvítt. Í
dag vitum við til dæmis að alvarleg áföll hafa
áhrif á erfðaefnið. Við Rótarkonur notum
ekki þetta sjúkdómstungutak en auðvitað
verður fólk veikt af mikilli og langvarandi
notkun vímuefna.“
Ef þetta er ekki heilasjúkdómur og mann-
eskja vinnur sig út úr áföllum, er viðkomandi
þá ekki lengur alkóhólisti?
„Það fer eftir mörgu. Það er fullt af fólki
sem getur drukkið aftur. Það er til fólk sem
hefur átt við vanda að stríða á einhverju
tímabili í lífi sínu en ekki síðar meir. En við
erum ekki með neina meðferð til að kenna
fólki að drekka. Það er ekki tilgangurinn hjá
okkur. Sýnt hefur verið fram á að vímu-
efnaneysla sé viðbragð við einhverju. Ef þú
leysir vandann, minnkar þörfin fyrir skaðleg
bjargráð.“
Konur voru faldar
Nú hefur Rótin starfað í átta ár, hvað hefur
áunnist?
„Helsta breytingin er umræðan; hvernig
við tölum um vímuefnavanda. Hún er allt
önnur. Konukot og Frú Ragnheiður hafa ver-
ið að berjast fyrir skaðaminnkun sem hefur
líka haft mikil áhrif, en við komum inn með
umræður um kynjamismun og tenginguna
við áföll. Það er straumur núna í heiminum
að taka áfallafræðina inn í meðferðarúrræði.
Hjá Reykjavíkurborg hefur verið mikil
stefnubreyting með skaðaminnkandi aðferð-
arfræði. Við verðum að horfast í augu við það
að það er ekkert sérstaklega góður árangur
af afeitrunarmeðferð. Hún hentar kannski
ákveðnum hópi en ekki öðrum. Það er rosa-
lega hátt hlutfall kvenna sem fara í meðferð
sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi sem
börn. Og þær konur eru líklegri til að lenda í
ofbeldissamböndum, þannig það bætist alltaf
ofan á áföllin. Inni í okkar meðferðarkerfi
hefur ekkert verið fjallað um þetta. Fyrir
þessar konur er ekki nóg að taka af þeim efn-
ið, heldur þarf að skapa öryggi í líf þeirra til
þess að þær geti unnið sig út úr sinni stöðu,“
segir hún.
„Það kom í ljós þegar við hófum störf að
konur voru mjög faldar í kerfinu. Þegar skoð-
uð voru úrræði fyrir húsnæðislaust fólk með
vímuefnavanda í Reykjavík voru þá 30 pláss
merkt konum, en 116 körlum. Þar hefur verið
mikil breyting hjá Reykjavíkurborg; konur
hafa verið að koma í ljós og meira verið að
gera fyrir þær.“
Áföll og vímuefni
Rótin breytti um stefnu árið 2018 og ákvað að
bjóða upp á meiri þjónustu við konur.
„Við byrjuðum með námskeið fyrir konur
með vímuefnavanda. Okkur var svo boðið að
koma inn í Bjarkarhlíð með okkar sérþekk-
ingu á á konum sem lent hafa í áföllum og eru
í vímuefnavanda og fórum þar inn með nám-
skeiðin og hópana í janúar 2019 og ári seinna
byrjuðum við að bjóða þar ráðgjöf. Í fyrra-
haust var okkur boðið að taka þátt í nýsköp-
unarhraðlinum Snjallræði og þar þróuðum
við hugmyndir um hvernig þjónustu við vild-
um bjóða og útkoman varð Ástuhús. Þetta er
ekki húsbygging, heldur hugmynd utan um
okkar starf. Við fengum núna tíu milljónir frá
heilbrigðisráðuneytinu og er það fyrsta fjár-
magnið inn í verkefnið. Við erum að leita að
húsnæði til að hefja starfið, en við hugsum
þetta sem göngudeildarþjónustu. Þetta er í
startholunum, en í dag erum við inni í Bjark-
arhlíð með megnið af okkar starfi,“ segir
hún.
Kristín telur að Ástuhús muni henta mörg-
um konum í framtíðinni og verður þar ólík
meðferð en boðin er upp á á Vogi.
„Það er mikill þröskuldur fyrir marga að
fara á Vog. En það eru líka breytingar hjá
SÁÁ og ný forysta.“
Konukot er neyðarathvarf
Rótin tók við rekstri Konukots fyrir örfáum
vikum.
„Við komum inn með mjög stuttum fyrir-
vara en við tókum við núna 1. október og
stefnum ekki að miklum breytingum til að
byrja með heldur viljum kynnast starfsem-
inni. Við tökum við góðu búi af Rauða kross-
inum og góðum starfskonum. Konukot getur
hýst tólf konur eins og er. Það er eitt augljóst
vandamál og það er að neyðarathvörf eru
ætluð fólki í bráðavanda en þarna eru konur
sem hafa verið þarna árum saman. Það er
ekki hlutverk neyðarathvarfa,“ segir Kristín
og bendir á að þarna sé lokað yfir daginn.
„Það eina góða sem komið hefur út úr
Covid að mínu mati er að þjónusta við þenn-
an hóp hefur verið bætt til muna og vandinn
orðið sýnilegri.“
Vogur hentar ekki konum
Helmingur kvenna sem lendir í vímuefna-
vanda hefur orðið fyrir kynferðisbroti undir
átján ára aldri og einn þriðji kvenna lent í
kynferðisbroti eftir átján ára aldur, sam-
kvæmt grein sem birtist á vef Rótarinnar.
Þar segir einnig að konur séu ekki óhultar í
meðferð með körlum og verða þær jafnvel
fyrir kynferðisofbeldi í meðferð.
„Það er þannig, því miður,“ segir Kristín
og telur að það ætti að kynjaskipta meðferð
við vímuefnanotkun.
„Margar konur sem koma í meðferð hafa
verið beittar ofbeldi og eru þar með varnar-
lausari en aðrar sem ekki hafa orðið fyrir of-
beldi. Við vitum líka að hátt hlutfall karla
sem kemur í meðferð hefur beitt ofbeldi.
Þannig það liggur í augum uppi að þetta er
ekki góð blanda, og hvað þá að vera með börn
á sama stað,“ segir hún.
„Mikilvægasta atriðið á meðferðarstað er
öryggi. Án þess skapast ekki meðferðar-
aðstæður. Þess vegna er staður eins og Vog-
ur ekki góður staður fyrir konur.“
Geta konur í vanda leitað til ykkar?
„Já, það sem við bjóðum í dag er ráðgjöf og
sjálfshjálparhópa, auk námskeiða og leið-
sagnarhópa. Þar er farið yfir hvað séu áföll
og við kennum bjargráð; hvernig á að takast
á við afleiðingar áfalla. Dagskráin er inni á
síðunni okkar, rotin.is. Við höfum þó gert hlé
á dagskránni vegna Covid og reynum að fara
varlega,“ segir hún.
„En markmiðið er að nota fjárstyrkinn frá
ríkinu til að koma okkur upp húsnæði og
bjóða upp á fjölbreyttari þjónustu. Það er
mikið í gangi og margt spennandi fram und-
an.“
Ekkert gen sem útskýrir fíkn
Rótin, félag um konur, áföll og
vímugjafa, vill opna á umræð-
ur og bjóða sérstök meðferð-
arúrræði fyrir konur. Kristín I.
Pálsdóttir, talskona Rót-
arinnar, segir fylgni milli
áfalla og vímuefnaneyslu.
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar, telur
að meðferð eigi að vera kynjaskipt þar sem
vandi kvenna er oft annar en karla. Einnig eru
konur oft varnarlausar í blandaðri meðferð og
segir hún margar þeirra verða fyrir ofbeldi þar.
Morgunblaðið/Ásdís
’Það er rosalega hátt hlutfallkvenna sem fara í meðferðsem hafa orðið fyrir kynferðisof-beldi sem börn. Og þær konur
eru líklegri til að lenda í ofbeldis-
samböndum, þannig það bætist
alltaf ofan á áföllin.
Rótin er félag áhugakvenna og eru all-
ar konur með áhuga á málefninu vel-
komnar til þátttöku.
Markmið félagsins eru eftirfarandi:
„Markmið Rótarinnar eru að stofna
til umræðu um konur, fíkn, áföll, of-
beldi og geðheilbrigði og huga að sér-
stökum meðferðarúrræðum fyrir kon-
ur. Félagið vill að komið sé á samstarfi
á milli stofnana, samtaka og annarra
fagaðila sem fást við vímuefna-
meðferð, ofbeldi og úrvinnslu áfalla.
Félagið vill beita sér fyrir öflun upplýs-
inga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna
um þessi málefni konum til góða, og
stuðla að rannsóknum á þessu sviði.
Ennfremur að afla þekkingar, halda
fyrirlestra, standa að ráðstefnum og
námskeiðum, eitt eða í samstarfið við
önnur félög, og efla umræður um fíkni-
tengd málefni sem snerta konur sér-
staklega.“
Rótin