Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.10.2020, Blaðsíða 24
Þrátt fyrir aukna umræðu er bein dán-araðstoð eða læknisaðstoð við sjálfsvígóvíða leyfð. Í Evrópu eru það einkum
Holland, Belgía, Sviss og Lúxemborg. Utan
Evrópu eru það síðan helst Kanada, ákveðin
ríki Bandaríkjanna og Viktoríufylki í Ástralíu.
Í umræðunni um dánar-
aðstoð er æskilegt að horfa
til þess hvernig þjóðir sem
hana leyfa hafa lögfest hana
og hver reynsla þeirra sé af
því. Í þessari grein verður
lauslega litið til þess hvern-
ig Holland, Belgía og Sviss
hafa borið sig að. Þó skal
nefna að fleiri og ítarlegri
skilyrði þarf að uppfylla til
að geta hlotið dánaraðstoð en unnt er að fjalla
um í stuttri grein. Ber að lesa greinina í því
ljósi.
Hollendingar voru fyrstir
Dánaraðstoð í Hollandi á sér langa sögu. Árið
1886 var slík aðstoð gerð refsiverð samkvæmt
hegningarlögum. Þrátt fyrir það mun hún hafa
verið veitt að einhverju marki átölulaust allt til
ársins 1952 þegar læknir var fyrst ákærður
fyrir dánaraðstoð og síðar dæmdur til eins árs
skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar fyrir að
hafa veitt bróður sínum beina dánaraðstoð.
Um 1970 fór að bera á gagnrýni meðal almenn-
ings á að verið væri að halda dauðvona sjúk-
lingi á lífi í stað þess að veita honum aðstoð við
að deyja. Það hefur verið álitinn ákveðinn upp-
hafspunktur umræðunnar sem leiddi síðar til
þess að Holland varð fyrst allra landa til að
lögleiða beina dánaraðstoð árið 2002. Samtímis
því var lögleidd læknisaðstoð við sjálfsvíg, sem
er þó mun sjaldgæfari í Hollandi en bein
dánaraðstoð.
Með dánaraðstoðarlögunum í Hollandi var
ekki lögfest skylda lækna til að veita sjúklingi
aðstoð við að deyja, heldur réttur sjúklings til
að óska hennar, að uppfylltum lagaskilyrðum.
Var bæði lögfestur lagabálkur um dánaraðstoð
og undanþágum aukið við þau hegningarlaga-
ákvæði sem áður lögðu við því bann. Er bein
dánaraðstoð því lögleg ef læknir fylgir þeim
reglum í þaula áður en meðferðin er veitt og
tilkynnir síðan um andlát sjúklings, svo að
rannsaka megi hvort andlátið hafi borið að
með saknæmum hætti. Uppfylli læknir ekki
skyldur sínar samkvæmt lögunum gæti hann
þurft að sæta ákæru á grundvelli hegningar-
laga, en vart virðist þó mega finna dæmi þess
síðan dánaraðstoð var lögleidd árið 2002. Í
Hollandi nær rétturinn til að óska dánarað-
stoðar til sjúklinga sem upplifa bæði óbærilega
þjáningu og vonleysi. Óbærileg þjáning er skil-
greind sem sú þjáning, andleg eða líkamleg,
sem engin meðferð getur linað með fullnægj-
andi hætti. Vonleysi er síðan skýrt sem það
þegar sjúklingur hefur ekki réttmætt tilefni til
að vonast eftir bata. Samkvæmt tölfræði frá
2016 má rekja nærri 4% árlegra dauðsfalla í
Hollandi til dánaraðstoðar.
Dánaraðstoð í Hollandi nær einnig til barna
allt frá tólf ára aldri. Í þeim tilfellum þarf auk
almennra lagaskilyrða um dánaraðstoð, m.a.
að liggja fyrir samþykki forráðamanns. Þá er
dánaraðstoð ungbarna fram til eins árs aldurs
lögleg í sérstökum aðstæðum. Til þessa hefur
dánaraðstoð barna á aldursbilinu eins til tólf
ára ekki verið lögleg en samkvæmt fréttum frá
seinustu viku virðist sem ríkisstjórn Hollands
hyggist leiða í lög dánaraðstoð langveikra
barna á þeim aldri í ákveðnum tilfellum. Verði
sú raunin mun dánaraðstoð í Hollandi, þó með
misströngum skilyrðum, ná til allra aldurs-
hópa. Þess ber þó að geta að dánaraðstoð
barna er fátíð í Hollandi og má sem dæmi
nefna að árin 2017 og 2018 hlutu aðeins fjögur
börn beina dánaraðstoð.
Engar aldurstakmarkanir í Belgíu
Eftir að dánaraðstoð var lögfest í Hollandi,
fylgdi Belgía fljótt á eftir með lögleiðingu laga
um dánaraðstoð í maí 2002 sem tóku gildi í
september sama ár. Ólíkt Hollandi ákvað
Belgía þó einungis að lögleiða beina dánarað-
stoð, en ekki læknisaðstoð við sjálfsvíg.
Í Belgíu mega þeir sjúklingar óska beinnar
dánaraðstoðar sem eru í læknisfræðilega von-
lausu ástandi (e. medically futile condition)
vegna stanslausra og óbærilegra líkamlegra
eða andlegra þjáninga sem eru afleiðing veik-
inda eða slyss og ekki er hægt að lina.
Dánaraðstoðarlögunum í Belgíu hefur tví-
vegis verið breytt. Fyrst árið 2005 þegar
tryggt var réttaröryggi þeirra lyfjafræðinga
sem útvega lyf sem nauðsynleg eru til að veita
aðstoðina og aftur árið 2014 þegar Belgía
rýmkaði lögin þannig að þau næðu einnig til
barna og varð þar með fyrst landa til að heim-
ila slíkt. Rýmkun réttarins fór fram í kjölfar
skoðanakönnunar meðal lækna þar sem meiri-
hluti þeirra studdi hana. Enginn aldur var til-
greindur með lagabreytingunni, heldur var
kveðið á um að ungmenni sem sé dómgreind-
arbært geti óskað dánaraðstoðar. Erfitt er að
meta hvenær barn getur talist hafa dómbærni
til að taka slíka ákvörðun og hefur sú rýmkun
þannig ekki verið án gagnrýni. Í tilfellum
barna eru heimildir til að óska eftir dánarað-
stoð þrengri og þurfa fleiri aðilar að sam-
þykkja og staðfesta að aðstoðin skuli veitt og
þá takmarkast hún við líkamlegar þjáningar
og nær þannig ekki til andlegra veikinda. Árið
2016 hafði einungis tvívegis verið tilkynnt um
dánaraðstoð barna í Belgíu.
Lögin veita einstaklingum heimild til að
óska fyrirfram eftir dánaraðstoð missi þeir
meðvitund sem afleiðing af sjúkdómi eða slysi.
Er það gert með sérstakri yfirlýsingu sem
gildir í fimm ár, en til samanburðar má geta að
sambærileg yfirlýsing í Hollandi gildir ótíma-
bundið. Þrátt fyrir slíka yfirlýsingu ber lækni
að ganga úr skugga um að sjúklingur sé sann-
anlega meðvitundarlaus, að ástand hans sé
óafturkræft miðað við læknavísindin hverju
sinni og skilyrði dánaraðstoðar séu að öðru
leyti uppfyllt.
Svissneska leiðin
Ólíkt Belgíu og Hollandi er bein dánaraðstoð
ólögleg í Sviss. Að aðstoða annan við sjálfsvíg
er hins vegar löglegt og sérstaklega undan-
þegið refsingu í hegningarlögum þar, svo
fremi sem það er ekki vegna eigingjarnra
hvata. Lagaheimildin er óbreytt allt frá því að
svissnesku hegningarlögin tóku gildi 1942. Til
umræðu hefur komið að lögleiða einnig beina
dánaraðstoð en því verið hafnað.
Þrátt fyrir að litlar skorður séu reistar við
því að aðstoða við sjálfsvíg, gilda strangari
reglur gagnvart læknum. Hafa þeir einir
heimild til að skrifa upp á lyfið pentóbarbítal
sem almennt er notað til verksins og ber þeim
að ganga úr skugga um að sjúklingur uppfylli
allar kröfur laga áður en aðstoðin er veitt,
þ.m.t. að meta hæfni sjúklings til að óska að-
stoðarinnar og staðfesta að hann sé haldinn
sjúkdómi sem sé banvænn eða ólæknandi og
alvarlegum geðsjúkdómi sem ekki sé mögu-
legt að lækna. Slík aðstoð í Sviss fer almennt
fram í gegnum samtök sem starfa gagngert í
þeim tilgangi að aðstoða aðra við sjálfsvíg.
Mega samtökin ekki vera rekin í hagn-
aðarlegum tilgangi enda bryti það gegn fyrr-
nefndu hegningarlagaákvæði. Þeirra stærst
eru samtökin Exit og Dignitas. Exit-samtökin
hafa réttilega orðið fyrir mikilli gagnrýni í
gegnum tíðina, enda tekið upp á ýmsu vafa-
sömu, svo sem að senda félagsmönnum leið-
beiningarbækling um aðferðir til að fremja
sjálfsvíg eða til að komast yfir lyf frá læknum.
Litlar kröfur eru gerðar um félagsaðild að
samtökunum og engar kröfur til þjóðernis
þeirra sem vilja fá aðstoð við að deyja í Sviss.
Hefur þetta orðið til þess að margir í sjálfs-
vígshugleiðingum hafa ferðast til Sviss gagn-
gert til að hljóta þessa aðstoð. Hefur það í al-
mennri umfjöllun m.a. verið kallað
sjálfsmorðsferðalög eða Svissneska leiðin.
Læknisaðstoð við sjálfsvíg nær einungis til
fullveðja og dómgreindarbærra sjúklinga í
Sviss og geta börn og sjúklingar sem skortir
getu til að veita gilt samþykki ekki hlotið slíka
aðstoð. Samkvæmt upplýsingum úr skýrslu
heilbrigðisráðuneytisins eru sjálfsvíg með að-
stoð í dag orsök 1,5% allra árlegra dauðsfalla í
Sviss.
Þrátt fyrir að margt sé frábrugðið eiga lönd-
in þrjú einnig margt sammerkt. Sem dæmi er í
öllum þeirra krafist aðkomu fleiri en eins sér-
fræðings sem þurfi sjálfstætt að meta ástand
sjúklings og hvort aðstoðin skuli veitt. Jafn-
framt beri læknum að kynna sjúklingum
mögulegar batahorfur og önnur meðferðar-
úrræði, svo sem líknandi meðferð, áður en fall-
ist er á beiðni sjúklings. Þá er sjúklingum
ávallt heimilt að falla frá beiðni sinni á öllum
stigum máls og alveg fram að seinustu stundu.
Af framangreindu er ljóst að nálgast má lög-
leiðingu víðtækari lífslokameðferða með mis-
munandi hætti. Ef lögleiða á dánaraðstoð á Ís-
landi þarf að hafa lög og reynslu annarra þjóða
í huga.
Þetta er þriðja grein Arnars um dánaraðstoð.
Umfjölluninni lýkur í næsta tölublaði Sunnu-
dagsmoggans.
Höfundur er lögmaður.
Dánaraðstoð í Evrópu
Dánaraðstoð hefur ekki verið
lögleidd víða, en þó er á
nokkrum stöðum komin
reynsla á lögleiðingu. Arnar
Vilhjálmur Arnarson gerir
grein fyrir stöðunni í
Hollandi, Belgíu og Sviss, sem
lögleiddu dánaraðstoð með
ólíkum hætti.
Morgunblaðið/Eggert
Arnar Vilhjálmur
Arnarsson
’Af framangreindu er ljóstað nálgast má lögleiðinguvíðtækari lífslokameðferðameð mismunandi hætti. Ef
lögleiða á dánaraðstoð á Ís-
landi þarf að hafa lög og
reynslu annarra þjóða í huga.
24 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25.10. 2020
LÍFSLOK