Morgunblaðið - Sunnudagur - 13.12.2020, Blaðsíða 6
VETTVANGUR
6 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13.12. 2020
Vinur minn var svo elskulegur um dag-inn að deila uppskrift að eftirréttisem var alveg sérstaklega girnileg-
ur. Ekki nóg með það. Hann var líka heilsu-
samlegur, sykurlaus og bara hrein hollusta.
Maður hafði á tilfinningunni að ef maður
kæmi sér bara í að borða þetta á hverjum
degi myndu kílóin hreinlega renna af
manni. Eftir nokkrar vikur væri maður
kominn með maga eins og Rúrik Gíslason.
Þetta hljómar of gott til að vera satt og
ef það er eitthvað sem ég hef lært þá er það
að þegar það gerist, þá er það bara ná-
kvæmlega þannig. Svo hefur maður líka
vanist því að nánast allt sem er gott virðist
alltaf nauðsynlega líka þurfa að vera fit-
andi. Meira að segja vondu konfektmolarnir
eru fullir af hitaeiningum. Hvursu ósann-
gjarnt er það?
Vissulega er það þannig að það er enginn
sykur í þessu en sykurinn er eins og syndin
– lævís og lipur. Hann er bara þarna, búinn
að koma sér fyrir í allskonar matvælum og
helst náttúrlega í því sem okkur finnst gott.
Stundum hefur hann falið sig sem ávaxta-
sykur eða undir einhverju öðru furðulegu
nafni sem oft hljómar eins og eitthvað sem
maður ætti að taka í ráðlögðum dags-
kömmtum.
Þannig er það með til dæmis eitthvað
sem hljómar (og er) mjög hollt og manni
finnst að eigi að vera grennandi, eins og
hnetur, að það er bókstaflega hlaðið orku.
Það eru til dæmis fleiri hitaeiningar í hnet-
um en sykri! Fimmtíu grömm af sykri inni-
halda um 190 hitaeiningar. Sami skammtur
af hnetum er tæplega 300 hitaeiningar. Og
ein matskeið af kókosolíu (sem hljómar al-
veg sérstaklega vel) inniheldur litlar 120
hitaeiningar. Þetta veit ég núna. Ekki af því
ég sé svo mikill sérfræðingur, heldur hefur
fólkið á netinu verið svo elskulegt að setja
upp reiknivélar um hitaeiningar í öllu
mögulegu.
Eftir þessar rannsóknir komst ég að því
að 100 grömm af þessum girnilega eftirrétti
innihéldu um 600 hitaeiningar. Sem er sama
magn og við gætum fundið í tveimur kílóum
af agúrkum eða rúmlega hálfu öðru kílói af
tómötum. Nú eða tæpu kílói af gulrótum.
En þá kemur að því sem gerir okkur svo
merkileg. Lífið snýst nefnilega ekki allt um
hitaeiningar og matur, sem er mögulega fit-
andi, getur líka verið hollur og góður fyrir
okkur. Það er víst eitthvað til sem heitir
góðar og vondar hitaeiningar. Það er til
dæmis gott að borða hnetur og möndlur á
hverjum degi. Og það er líka allt í lagi að
vera ekki vaxinn eins og súpermódel eða
áhrifavaldur. Vera bara venjulegur.
Lífið væri svo tilgangslaust ef við mynd-
um aldrei leyfa okkur
neitt. Við værum alla
daga troðandi í okkur
hreinni hollustu, teljandi
hitaeiningar og reikna út
vítamíninntöku líkamans.
Ég hef nefnilega lært
það að fegurðin liggur í
meðalhófinu. Það er nán-
ast sama hvað við gerum, það er alltaf best
ef við gerum það í passlegum skömmtum.
Það er til dæmis ekkert sérstaklega spenn-
andi þegar fólk drekkur of mikið en það er
heldur ekki notaleg tilhugsun að borða ekk-
ert nema gulrætur og agúrkur.
Ég hef heldur aldrei náð að tengja við
pælinguna að borða eins og rómverskur
keisari í svallveislu um helgar og byrja svo
vikuna fastandi til að reyna að kolefnisjafna
sukkið. Hljómar ekki aðeins betur að vera
einhvers staðar í miðjunni?
Það er ekki svo galið að spá aðeins í
þetta núna þegar jólin eru að koma. Tíminn
þegar smákökur verða viðurkenndur
morgunmatur og kjötið verður alltaf aðeins
feitara og reyktara. Réttirnir aðeins fleiri
og enginn skortur á eftirréttum. Vatn
breytist í malt og appelsín.
Þá er gott að hugsa til þess að það eru
ekki alltaf jólin.
’Tíminn þegar smá-kökur verða viður-kenndur morgunmatur ogkjötið verður alltaf aðeins
feitara og reyktara.
Á meðan ég man
Logi Bergmann
logi@mbl.is
Fegurðin í meðalhófinu
Þarnæsta mánudag byrjar sólinað hækka á lofti. Það eru tíma-mót sem fela alltaf í sér
ákveðna tilhlökkun og bjartsýni í
hugum okkar sem búum við langa og
dimma vetur. Að þessu sinni fara
vetrarsólstöður saman við aukna
bjartsýni um að nú fari senn einnig að
birta til í því kófi heimsfaraldurs sem
við höfum búið við undanfarna tíu
mánuði eða svo.
Áfram land tækifæranna
Viðspyrnan mun að öllum líkindum
verða fyrr en við höfum áætlað
undanfarna mánuði. Það verður gef-
andi verkefni að koma Íslandi aftur í
gang, eftir allt sem á undan er gengið.
Krafturinn er þarna, þrautseigjan og
seiglan. Vissulega munu margir
koma skaddaðir frá
þessari raun en von-
andi tökum við með
okkur lærdóm um
hvað við sem sam-
félag þurfum að
vera: Auðmjúk
gagnvart því sem við
höfum ekki stjórn á;
þakklát fyrir öflugt velferðarkerfi
sem við höfum komið upp og styrkt
enn frekar; og þakklát öllu því fólki
sem þar starfar; minnug þess að án
öflugs einkaframtaks, öflugs atvinnu-
lífs, berum við einfaldlega ekki uppi
þau lífsgæði sem við viljum bjóða upp
á. Úrræði stjórnvalda eru fjárfesting
í öflugu samfélagi sem spyrnir hratt
við botni og vex út úr kófinu. Ég er
sannfærð um það. Og áfram verður
Ísland land tækifæranna.
Efling nýfjárfestinga
Leiðarljós mitt í stjórnmálum er að
stuðla að þessu; að Ísland sé land
tækifæranna frá sjónarhóli bæði ein-
staklinga og fyrirtækja. Það eru for-
réttindi að fá að beita sér fyrir þessu.
Nýlegt dæmi um slíkt verkefni er
rakið í minnisblaði sem ég lagði fram
í ríkisstjórn síðastliðinn föstudag.
Það gengur út á að efla stuðning við
þá sem sýna áhuga á að ráðast í verð-
mætaskapandi nýfjárfestingar-
verkefni á Íslandi, einkum þau sem
tengjast grænum fjárfestingum.
Verkefnið hefur fengið vinnuheitið
„Græni dregillinn“, sem vísar til þess
að við viljum leita leiða til að greiða
götu nýfjárfestingaverkefna allt frá
hugmynd að rekstri með einfaldari og
skýrari ferlum. Allmörg verðmæta-
og atvinnuskapandi tækifæri eru nú í
skoðun víðsvegar um landið en fjár-
festar hafa úr fleiri löndum að velja
og leggja mikið upp úr samkeppnis-
hæfu almennu viðskiptaumhverfi,
markvissri þjónustu, fyrirsjáanleika
og skýrum og einföldum ferlum. Ís-
landsstofa hefur í samvinnu við ráðu-
neyti mitt lagt drög að þessu verkefni
og m.a. greint hvernig staðið er að
þessum málum í nágrannalöndunum.
Greiningin bendir til að nokkuð vanti
upp á að við stöndum vel að vígi, sem
getur hæglega leitt til þess að við
missum af verðmætum tækifærum.
Úr því þarf að bæta.
Það er raunar almennt áhyggjuefni
hve við Íslendingar virðumst gjarnir
á að flækja hlutina í hnútum reglu-
verks og óskilvirkrar málsmeðferðar.
Og það er dálítið einkennileg tilhneig-
ing hjá þjóð sem oft er bendluð við
kæruleysi, skjótar „reddingar“ og
óþol gagnvart flækjum. OECD-
skýrslan um byggingariðnað og
ferðaþjónustu varpaði skýru ljósi á
þessa „flækjuhlið“ á okkar ágæta
samfélagi. Annað dæmi var rakið á
fundi hjá Samorku nýlega, þar sem
bent var á að ein og sama opinbera
stofnunin getur þurft að koma allt að
10 sinnum að sömu framkvæmdinni á
hinum ýmsu stigum leyfisveitinga og
umsagna. Samorka, SI og SA hafa
gert þessa áhuga-
verðu greiningu
aðgengilega og er
full ástæða til að
hvetja áhugafólk
um skilvirkt reglu-
verk til að kynna
sér hana.
En aftur að um-
bótum á þessu sviði: Í því sambandi
má nefnilega líka nefna mikilvægt
frumvarp sem fjármála- og efnahags-
ráðherra hyggst leggja fram um efl-
ingu nýfjárfestinga. Þar er í fyrsta
lagi um að ræða heimild til að hraða
afskriftum, sem þýðir að skatt-
greiðslur lækka á fyrstu árunum eftir
fjárfestingu. Í öðru lagi er um að
ræða sérstaka ívilnun til að styðja við
umhverfisvænar fjárfestingar, sem
felur í sér heimild til að reikna 15%
fyrnanlegt álag ofan á kaupverð
grænna eigna, sem styður enn frekar
við slíkar fjárfestingar.
Jólakúlujól
Eftir bankahrunið 2008 gaf Baggalút-
ur út jólalagið „Það koma vonandi
jól“. Það var gráglettni sem á ekki
síður við í dag. Þó að jólin séu að
miklu leyti hugarástand sem við get-
um ræktað innra með okkur þá eru
þau líka tími samveru með fjölskyldu
og vinum. Samveran verður af skorn-
um skammti að þessu sinni. Hugtakið
„jólakúla“ hefur fengið nýja og
óvænta merkingu. Nú reynir á okkur
að njóta hátíðanna við þessar óvenju-
legu aðstæður, hvert í sinni kúlu. En
sú tilhugsun ætti að létta okkur þessa
„kúluhátíð“ að nú hillir undir bjartari
tíma.
Þar sem þetta er síðasta grein mín
á þessum vettvangi fyrir jól vil ég
nota tækifærið og óska lesendum öll-
um gleðilegrar hátíðar með von um
að hún verði ykkur friðsæl og endur-
nærandi.
Morgunblaðið/Kristinn.
Hækkandi sól
Úr ólíkum
áttum
Þórdís Kolbrún R.
Gylfadóttir
thordiskolbrun@anr.is
’Leiðarljós mitt ístjórnmálum er aðstuðla að því að Íslandsé land tækifæranna
frá sjónarhóli bæði ein-
staklinga og fyrirtækja.
„Hugtakið „jólakúla“
hefur fengið nýja og
óvænta merkingu,“
skrifar höfundur.
VEIÐIHNÍFAR Í ÚRVALI
VERÐ FRÁ 7.320.-
Laugavegi 29 | sími 552 4320 | www.brynja.is | verslun@brynja.is
Erum með þúsundir vörunúmera
inn á vefverslun okkar brynja.is