Lögmannablaðið - 2018, Page 10
10 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/18
FULLVELDI
OG ÞJÓÐRÉTTAR -
SAMSTARF
I
Ísland fagnar hundrað ára fullveldi í ár. Þess er minnst á
margvíslegan hátt. Viðburðir í tilefni afmælisins, ráðstefnur,
ræður og skrif bera með sér að nálgast má viðfangsefnið
úr mismunandi áttum. Ljóst er að skilja má fullveldi á
ólíka vegu eftir því hver sjónarhóllinn er sem horft er
af. Þannig ræðir um fullveldið í sögulegum skilningi,
stjórnmálafræðilegum, hagfræðilegum, heimspekilegum,
menningarlegum og svo auðvitað lögfræðilegum. Hér eru
settar fram hugleiðingar um hið síðastnefnda og þá aðeins
afmarkaðan hluta þess, enda verður ekki lengra seilst í svo
stuttu greinarkorni.
Einn angi hinnar lögfræðilegu umræðu er fullveldi ríkis
í þjóðréttarsamstarfi. Í hefðbundnum skilningi hefur
þjóðaréttur að geyma reglur sem gilda um samskipti
fullvalda ríkja. Talað er um fjórar forsendur fullveldis í
þessu sambandi, en þær eru: fólk, land, lögbundið skipulag
og stjórnskipulegt sjálfstæði. Þegar sagt er í þjóðarétti að
ríki sé fullvalda er einkum vísað til þess síðasttalda. Í því
felst að ríki fari sjálft með æðstu stjórn málefna sinna óháð
yfirvöldum annarra ríkja eða, eftir atvikum, alþjóðlegum
stofnunum. Enginn ágreiningur er um að Ísland fullnægir
þessum forsendum og er fullgildur aðili þjóðaréttar nú á
tímum.
Heita má að álitaefni sé hvort Ísland varð fullgildur
þjóðréttaraðili þegar þann 1. desember 1918, en Íslendingar
tengja fullveldisdaginn við gildistöku sambands laga
samningsins þann dag, þótt strangt til tekið hafi eingöngu
falist í honum viðurkenning Danmerkur á fullveldi landsins.
Hver sem skoðun manna kann að vera á þessu er ljóst að
Íslendingar hafa síðan þá fengið fulla viðurkenningu í
alþjóðasamfélaginu á fullveldi sínu. Þetta birtist m.a. í þeim
fjölmörgu þjóðréttarsamningum sem Ísland hefur gert á
fullveldistímanum.
II
Fullveldið kemur reglulega til umræðu þegar íslenska
ríkið gerir þjóðréttarsamninga. Heyrist þá jafnvel að í
hvert sinn sem íslenska ríkið gerir slíkan samning feli
það í einhverjum skilningi í sér takmörkun á fullveldi.
Þessi skoðun nýtur takmarkaðs fylgis og verður henni
ekki haldið hér frekar á lofti. Raunin er sú, frá sjónarhóli
þjóðaréttar, að það felur þvert á móti í sér viðurkenningu
á Íslandi sem fullvalda ríkis að önnur ríki telji það
gildan viðsemjanda að þjóðarétti. Þetta breytir því ekki
að skuldbindingar í sumum þjóðréttarsamningum eru
þess eðlis að réttmætar spurningar vakna um hvort þær
DR. JUR. DAVÍÐ ÞÓR BJÖRGVINSSON
EF EKKI ER UNNT AÐ FINNA ÞEIRRI VERND STOÐ
INNAN ÓBREYTTRAR STJÓRNARSKRÁR BLASIR
VIÐ AÐ BREYTA ÞARF ÞEIRRI STJÓRNARSKRÁ