Lögmannablaðið - 2018, Qupperneq 20

Lögmannablaðið - 2018, Qupperneq 20
20 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/18 Útivist og listaverk Útivist og fjallgöngur voru aðaláhugamál Þórunnar áður en hún veiktist af MS­sjúkdómnum og gekk hún á fjöll og jökla bæði innanlands og erlendis. „Helgi Jóhannesson, samstarfsfélagi minn á LEX til 30 ára, spurði mig stundum af hverju ég væri að ganga á fjöll eins og hver önnur sauðkind,“ segir hún og hlær. „Hann hefur reyndar skipt um skoðun á þessu hin seinni ár og er illa haldinn af fjallabakteríunni sjálfur.“ Áður en Þórunn lagði gönguskóna á hilluna var hún komin í háfjallamennsku. Á einu ári kleif hún þrjú háfjöll í Afríku; Kilimanjaró í Tansaníu, sem er hæsta fjall í Afríku eða 5896 metrar, Kenýafjall, sem er næsthæsta fjall Afríku og um 5000 metrar, og Jebel Toubkal í Marokkó, sem er hæsta fjall í Norður­Afríku eða 4167 metrar. „Maður tekur þessum sjúkdómi eins og hverju öðru hundsbiti og aðlagar sig bara. Það hefur hver sinn djöful að draga. Í dag er ég í mikilli líkamsrækt og æfi þrisvar í viku. Ég hef verið með sama þjálfarann, Jón Ívar Ólafsson í World Class, í 16 ár sem verður að teljast dágott samstarf. Það er ótrúlegt að hann skuli hafa þolað mig allan þennan tíma.“ Þórunn er líka mikill listunnandi og á heimili hennar eru fjölmörg verk eftir íslenska listamenn sem hún hefur viðað að sér í gegnum tíðina. „Ég kaupi bara það sem mér finnst fallegt. Ég er ekki í markvissri söfnun.“ Að lokum segir Þórunn að það verði alltaf dýrmætara að eiga gæðastundir með manninum sínum, fjölskyldu og vinum og að hún hafi í nægu að snúast þar enda í nokkrum góðum vinahópum sem hittast misreglulega. „Svo á ég fullt af ættingjum, sem ég vil umgangast og vilja umgangast mig! Það er enginn sem segir í banalegunni að hann eða hún sjái mest eftir því í lífinu að hafa ekki eytt meiri tíma í vinnunni. Þá er betra að hafa eytt fleiri stundum með góðu fólki.“ Eva Halldórsdóttir og Marín Guðrún Hrafnsdóttir

x

Lögmannablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.