Lögmannablaðið - 2018, Page 22
22 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/18
svo á að refsing sem dæmd væri án aðkomu hins dæmda
teldist ekki þegar af þeirri ástæðu óréttmæt málsmeðferð.
Mikilvægt væri hvort hinn dæmdi gæti í kjölfarið fengið
dóm til þess að meta málið heildstætt bæði hvað varðaði
málsatvik og lagarök. Áfrýjunarferlið og málsmeðferð
fyrir Hæstarétti hefði veitt lögmönnunum slíkt tækifæri
enda væri þar gefinn kostur á því að fjalla um öll atriði
málsins, munnlegur málflutningur færi fram og einnig
væri heimilt að taka skýrslur. Engin takmörk hefðu þannig
verið á málsmeðferðinni og heimildum Hæstaréttar til þess
að taka málið til endurskoðunar að öllu leyti.
Niðurstaða Mannréttindadómstólsins um málsmeðferð
og mögulega málsmeðferð í Hæstarétti er áhugaverð.
Í niðurstöðuna vantar þó sárlega umfjöllun um rétt til
þess að fá úrlausn máls á tveimur dómstigum en ekki var
efnislega fjallað um réttinn til áfrýjunar þar sem ekki hafði
reynt á slíkt í málinu fyrir íslensku dómstólunum. Fyrir
lögmenn er þó ekki síður áhugavert að skoða málið í ljósi
skyldna verjenda. Sá þáttur málsins kom ekki til skoðunar
hjá Mannréttindadómstólnum að öðru leyti en því að hann
gerði ekki athugasemd við þá afstöðu Hæstaréttar Íslands
að sektin teldist refsing. Hvað varðar tilefni sektarinnar
og þar með skyldur verjenda er því einungis að finna
leiðbeiningar í dómi Hæstaréttar.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni
skylt að taka við skipun eða tilnefningu sem verjandi eða
réttargæslumaður í sakamáli, enda fullnægi hann til þess
hæfisskilyrðum og hafi ekki ósamrýmanlegra hagsmuna
að gæta vegna sjálfs sín, venslamanna sinna eða annars
umbjóðanda síns. Lögmanni er aftur á móti ekki skylt að
taka að sér einkamál.
Ástæður verjendanna fyrir því að segja sig frá málinu voru
í meginatriðum þær að ákæruvaldinu hefði verið heimilað
að leggja fram skýrslu rannsakenda sem væri skriflegur
málflutningur. Ákæruvaldið hefði takmarkað aðgang
verjenda að fjölmörgum tölvugögnum og skjölum sem
þýðingu kynnu að hafa og jafnframt komist upp með að
ákveða sjálft hvaða gögn yrðu lögð fram. Við rannsókn
málsins hefði sérstakur saksóknari virt reglur um trúnað
að vettugi með því að hlera og vista símtöl milli verjanda
og sakbornings. Eftir að aðalmeðferð hefði verið ákveðin
hefði ákæruvaldið lagt fram fjölmörg ný gögn sem
verjendur höfðu ekki áður haft aðgang að. Hefðu þau gögn
meðal annars gefið til kynna breytingar á málatilbúnaði
ákæruvaldsins. Í þinghaldinu hefði ákæruvaldið einnig
látið bóka um að lykilvitni búsett erlendis, sem ákæruvaldið
hefði áður boðað að leidd yrðu fyrir dóm, myndu ekki
gefa skýrslur.
Af þessum sökum lýstu lögmennirnir því að þeir teldu sér
ekki fært að sinna hlutverki verjenda enda myndu þeir með
áframhaldandi þátttöku í réttarhöldum ljá málsmeðferðinni
það yfirbragð að réttindi sakbornings hefðu verið virt. Svo
gróflega hefði verið brotið gegn lögvörðum réttindum
sakborninga að þeir sæju sig knúna til þess að segja sig
frá verjendastörfunum. Fram kom að þeir hefðu kynnt
skjólstæðingum sínum þessa afstöðu og þeir samþykkt
óskir lögmannanna um að láta af störfum.
Hæstiréttur (bæði meiri og minnihluti) taldi að lögmönn
unum hefði verið óheimilt að mæta ekki til aðal meðferðar
fyrir héraðsdómi og að með því hefðu þeir brotið gegn
skyldu sinni til þess að taka að sér og sinna verjendastörfum.
Virðist þar einungis hafa reynt á ákvæði lögmannalaga
en ekki var fjallað um álitaefnið út frá öðrum lagarökum
og sjónarmiðum, eins og t.d. atvinnufrelsi. Verður því
ekki farið nánar út í slíkar hugleiðingar hér en þær gætu
örugglega átt rétt á sér. Dómur Hæstaréttar er afdráttarlaus
um að lögmenn mega ekki segja af sér verjandastörfum af
samviskuástæðum eða í mótmælaskyni við málsmeðferð
sem þeir telja ólögmæta. Ber verjendum þess í stað skylda
til að halda starfi sínu áfram og koma mótmælum sínum
að við meðferð sakamálsins.
Hæstiréttur einblíndi á skyldu verjenda til þess að sinna
starfi sínu en fjallaði ekki um réttindi sakborninga sem
eru nátengd. Burtséð frá skyldum verjanda er væntanlega
ekki draumastaða sakbornings að hafa verjanda sem
vill ekki sinna því hlutverki. Má enda líta til þess að
sakborningar verjendanna höfðu fallist á að þeir hættu
störfum. Til samanburðar er rétt að skoða aðstöðuna
þegar sakborningur vill skipta um verjanda og hefur að
því frumkvæði. Auðvitað eiga aðeins önnur sjónarmið
við um slíkt en dómstólar virðast þó oftast taka slíkum
beiðnum athugasemdalaust. Má nefna nýlegt dæmi í
stóru sakamáli þar sem sakborningur skipti um verjanda
eftir málsmeðferðina fyrir héraðsdómi og þegar einungis
nokkrir dagar voru til greinargerðarskila í Landsrétti. Nýr
lögmaður þurfti þá að setja sig inn í málið með tilheyrandi
töfum.
Eins og áður segir lagði Hæstiréttur mikla áherslu á
skyldur verjenda samkvæmt lögum um lögmenn og um
meðferð sakamála. Er athyglisvert að bera niðurstöður
dómsins, um skyldur verjanda og einnig um fullnægjandi