Lögmannablaðið - 2018, Page 37
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/18 37
„In god we trust“.Á spjalli við dómara og lögmenn.
Dómarinn bauð okkur að sitja með sér á „bekknum“ á
meðan hann tók fyrir nokkur mál og sýndi okkur með
hvaða hætti væri ákvarðað hvort að sett er lausnargjald
eða viðkomandi sleppt gegn því að samþykkja að fara
í meðferðarprógramm. Það var stórkostleg upplifun að
fylgjast með hvernig ferlið er á þessu dómstigi auk þess
sem við náðum aðeins að setja okkur í spor dómara við
dómstólinn.
Sakadómstóllinn í Bronx og áfrýjunardómstóllinn í
Manhattan
Við heimsóttum einnig sakadómstólinn í Bronx, þar var
réttað yfir manni sem hafði ráðist á tvö börn og stolið af
öðru þeirra síma. Maðurinn hafði setið í gæsluvarðhaldi í
tvö ár vegna málsins og var loksins kominn fyrir dóm þar
sem kviðdómur myndi ákveða örlög hans. Að lokum tók
Darcel D. Clark aðalsaksóknari í Bronx á móti okkur á
skrifstofu saksóknara og spjallaði við okkur.
Þá var haldið til Manhattan þar sem Patricia Hennessey
(lögmaður fyrrverandi tengdadóttur Donalds Trump) tók
á móti okkur og við heimsóttum áfrýjunardómstólinn og
vorum viðstaddar þinghald sem varðaði kyrrsetningu barna.
Við áttum gott spjall við dómarann og það var áhugavert
að sjá hversu ólík málsmeðferðin er hjá bandarískum
dómstólum miðað við hina íslensku dómstólaframkvæmd.
Eftir maraþon heimsókna í New York var haldið til
Cooperstown í norður New Yorkfylki þar sem við tókum
þátt í þriggja daga ráðstefnu á vegum Women´s Bar
Association of the State of New York sem eru heildarsamtök
félags kvenna í lögmennsku í New Yorkfylki.
Á ráðstefnunni voru mörg áhugaverð erindi t.d um
siðareglur lögmanna, #metoo og vinnuumhverfið og
einnig var fjallað um innflytjendamál í ljósi nýrra tilskipana
Bandaríkjaforseta og fleira. Þá var ekki síður skemmtileg
dagskrá fyrir þátttakendur að loknum erindum dagsins þar
sem fulltrúar FKL tóku m.a. þátt í keppni í kokteilagerð
og fóru með sigur af hólmi.
Ferðin var afskaplega vel heppnuð og hefur Félag kvenna
í lögmennsku aflað nýrra og góðra tengsla við systurfélag
okkar vestan hafs.
Kolbrún Garðarsdóttir, lögmaður og formaður FKL