Lögmannablaðið - 2019, Blaðsíða 32

Lögmannablaðið - 2019, Blaðsíða 32
32 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/19 Það var seint í desember á því herrans ári 1999 sem við sátum tíu lögmenn við fundarborð eitt í Reykjavík og skrifuðum undir samning um samruna tveggja lögmannsstofa. Úr þessu varð LOGOS lögmannsþjónusta sem hóf starfsemi 17. janúar 2000 og hefur dafnað ágætlega fyrir tilstilli samstilltra eigenda og starfsmanna. Þetta voru tíu karlar á aldrinum 32 ára til 64 ára, ef mér skjátlast ekki, sem sátu við borðið. Hann var annar frá vinstri handan borðsins frá mér séð hann Hákon Árnason sem hér er minnst. Hann var á þessum tíma næst elstur í hópnum, sextugur að aldri. Hákon var maður norðlenskur, ættaður úr Svarfaðardal í föðurætt og af Árskógsströnd í móðurætt. Hann var laglegur maður, með ljóst hár og síðar grátt, grannvaxinn og fíngerður. Hann var yfirvegaður og hógvær með eindæmum, en undir niðri kraumaði kímnigáfa sem hann fór sparlega með. Hann gat verið harður í horn að taka ef á þurfti að halda, en oftar en ekki leiddi hann mál sín til lykta af rökvísi. Sjálfur hafði ég átt nokkur samskipti við Hákon er hér var komið við sögu og hafði m.a. flutt dómsmál á móti honum. Hann var frábær málflytjandi sem hélt vel athygli þeirra sem á hann hlustuðu. Hann greindi sakarefni hvers máls af mikilli kostgæfni. Hann vandaði mál sitt og það sem hann sagði skipti máli. Þess vegna voru honum falin mörg vandasöm verkefni á starfsævinni. Hann var góð fyrirmynd. Hákon Árnason fæddist á Stóru-Hámundarstöðum í Eyjafirði 5. júní 1939. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 24. október 2019. Hann var kvæntur Berthu Stefaníu Sigtryggsdóttur, kennara. Þau eignuðust þrjú mannvænleg börn og barnabarnabörnin eru orðin átta talsins. Hákon lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1960 og kandídatsprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 1966. Að loknu prófi sneri hann sér strax að málflutningstörfum, varð héraðsdómslögmaður 1966 og hæstaréttarlögmaður 1972. Hann var óslitið við málflutningsstörf þar til á síðasta ári að hann neyddist til að draga sig í hlé vegna heilsubrests. Hákon sat tvívegis í stjórn LMFÍ 1977-1979 og 1986-1989. Hann var formaður félagsins 1988-1989 og gerður var hann að heiðursfélaga árið 2011. Stjórnvöld fólu honum ýmis trúnaðarstörf og hann var prófdómari og stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands um langt skeið. Þá veitti hann leiðsögn í mörg ár um munnlegan málflutning á námskeiðum til öflunar málflutningsréttinda fyrir héraðsdómi. Málflutningsstörfin fóru Hákoni vel og vel fór á með honum og samferðafólki. Svo sem hér hefur verið rakið starfaði hann sem málflytjandi í rúmlega hálfa öld og ætla má að fjöldi þeirra dómsmála sem hann kom að séu vel á annað þúsund. Hann var mjög vel að sér á mörgum fræðasviðum lögfræðinnar, en hans sérsvið voru skaðabóta- og vátryggingaréttur. Það var ómetanlegt fyrir okkur samstarfsmenn hans á LOGOS að geta leitað til hans um margvísleg álitaefni, ekki síst varðandi réttarfar. Dyrnar á skrifstofu hans stóðu ávalt opnar og hann virtist alltaf hafa tíma til þess að setja sig inní faglegar raunir okkar félaga sinna. Oftast gekk maður af fundi hans margs vísari. Ef ekki tókst að finna réttu leiðina þann daginn átti hann það til að dúkka upp hjá manni eða hringja skömmu síðar, þá kominn með það sem hann taldi rétt að leggja til mála. Hann tók virkan þátt í hvers kyns viðburðum með samstarfsfólki og kom okkur flestum á óvart er hann í fyrsta HÁKON ÁRNASON MINNINGARORÐ

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.