Lögmannablaðið - 2019, Page 6
6 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/19
SIÐAREGLUR
LÖGMANNA
Siðareglur lögmanna (Codex Ethicus) fela í sér skilgreiningu
á því hvað teljist góðir lögmannshættir en jafnframt er þar
kveðið á um skyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum
sínum og hvernig lögmenn skuli haga samskiptum sínum
innbyrðis og við dómstóla og gagnaðila. Okkur lögmönnum
er hollt að rifja þessi ákvæði reglulega upp og verður hér
tæpt á nokkrum atriðum.
Í I. kafla siðareglnanna er fjallað um góða lögmannshætti
almennt. Samkvæmt 2. gr. skal lögmaður gæta heiðurs
lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem
öðrum. Samkvæmt 4. gr. má lögmaður ekki ljá þeim nafn
sitt eða lögmannsaðstoð, er stunda vilja lögmannsstörf, en
hafa ekki til þess rétt að lögum. Þá má lögmaður á engan
hátt stuðla að því, að þeir er ekki hafa lögmannsréttindi, fái
unnið verk, sem skulu lögum eða venju samkvæmt aðeins
unnin af lögmanni.
II. kafli fjallar um skyldur lögmanns gagnvart skjólstæðingi
sínum. Þar kemur fram í 3. mgr. 8. gr. að lögmaður skuli
ekki taka að sér verkefni, sem hann veit eða má vita að
hann er ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku,
nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á
viðkomandi sviði. Þá á lögmaður ekki að taka að sér verkefni
fyrir skjólstæðing sem hann veit ekki hver er.
Um samskipti lögmanna og dómstóla er fjallað í III. kafla
og kemur fram í 19. gr. að lögmaður skuli sýna dómstólum
fulla tillitssemi og virðingu í ræðu, riti og framkomu.
Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. er lögmanni óheimilt að leggja
fram í dómi sáttatillögur gagnaðila, lagðar fram utan réttar
nema með samþykki hans.
Í IV. kafla er að finna ákvæði um samskipti lögmanna
innbyrðis. Þar kemur fram í 25. gr. að lögmenn skuli hafa
góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu
í ræðu, riti og framkomu. Samkvæmt 26. gr. má lögmaður
ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður
fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji.
Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt.
Tekið er fram í 28. gr. að ef lögmanni er falið verkefni,
sem annar lögmaður hefur áður sinnt, skuli hann ekki
hefja vinnu við það fyrr en hann hefur fullvissað sig um að
hagsmunagæslu fyrri lögmannsins sé lokið eða verði lokið
án tafar. Lögmanni sé þó heimilt að gera nauðsynlegar
ráðstafanir til að firra aðila réttarspjöllum. Þá kemur fram
í 33. gr. að lögmanni sé óheimilt að áskilja sér úr hendi
annars lögmanns eða annars aðila sérstaka þóknun fyrir
að vísa skjólstæðingi til lögmannsins. Lögmanni er einnig
óheimilt að greiða öðrum aðila sérstaka þóknun fyrir að
láta hann vísa skjólstæðingnum til sín.
Fjallað er um lögmannsskrifstofu, auglýsingar o.fl. í VI.
kafla siðareglnanna. Samkvæmt 38. gr. ber lögmaður
persónulega ábyrgð á lögmannsstörfum sínum og fulltrúa
sinna. Við firmanafn lögmannsskrifstofu skal ávallt tilgreina
fullt nafn og starfstitil þess eða þeirra lögmanna sem hana
eiga og ábyrgð bera á lögmannsstörfum hennar. Firmanafn
lögmannsskrifstofu má ekki gefa í skyn að þar sé veitt
nein önnur þjónusta en lögmanns- og fasteignaþjónusta.
Lögmaður skal tilkynna stjórn LMFÍ hverjir séu eigendur
félags um rekstur lögmannsstofu. Skal lögmaður sérstaklega
gæta þess að óheimilt er að stunda lögmannsstörf nema á
skrifstofu, sem rekin er af lögmanni, sbr. 19. gr. laga um
lögmenn nr. 77/1998, nema undanþága hafi verið veitt
samkvæmt 12. gr. laganna. Í 39. gr. segir að lögmanni sé
óheimilt að tilkynna til dómstóla eða auglýsa aðra fulltrúa
en þá sem eru starfandi á lögmannsskrifstofu hans. Skylt
sé lögmanni að tilkynna fulltrúa sína til skrifstofu félagsins
og gæta að öðru leyti skyldna samkvæmt 11. gr. laga um
lögmenn.
Þá segir í 43. gr. að stjórn félagsins hafi eftirlit með því að
reglum þessum sé fylgt.
BERGLIND SVAVARSDÓTTIR LÖGMAÐUR
FORMAÐUR