Tölvumál - 01.01.2016, Side 4
4
Í tilefni af þema Tölvumála í ár fengum við að ræða við Vigdísi
Finnbogadóttur fyrrum forseta og velgjörðarsendiherra Sameinuðu
þjóðanna í tungumálum. Eins og þjóðin veit þá hefur Vigdís mikinn
áhuga á varðveislu tungumála sem eru í útrýmingarhættu. Þó er ekki
alveg hægt að segja að íslenskan sé í útrýmingarhættu í dag en hver
veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Oft heyrast þær raddir að við þurfum
að passa okkur að varðveita málið og vara okkur á áhrifum
tölvutækninnar.
En hvernig blasir þetta við Vigdísi Finnbogadóttur?
Það er mín trú að það verði nægilega margir til að halda uppi tungu
málinu okkar. Ég trúi því að íslenskan muni lifa, það er mikið skrifað á
henni, ríkt og gott mál og afar sjaldan sem gefnar eru út bækur sem
skrifaðar eru á slæmu máli. Við þurfum ekki erlend mál til að tjá okkur.
Ég hef trú á bókmenntunum, þær eru haldreipið okkar og núna hafa
þær haslað sér völl um allan heim. Við eigum góða þýðendur og þegar
íslenskar bókmenntir og íslenskur raunveruleiki kemst til skila innan
lands og utan þá bindum við okkur við okkar tungumál. Þýðendur eru
mjög vel að sér í málinu, þó þeir vinni með aðstoð tækninnar þá þurfa
þeir að kunna íslenskuna vel og þýddar bækur eru yfirleitt mjög vel
þýddar.
Enskan er orðin vinnumál eða hliðarmál hjá mörgum, enda mikið notað
við vísindaskrif til að ná eyrum umheimsins en við skulum vona að á
Á MEÐAN VIÐ KUNNUM
ENN AÐ SEGJA SÖGUR Á
ÍSLENSKU
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands
Viðtalið tók Ásrún Matthíasdóttir
meðan við höfum sterkt skólakerfi með öfluga háskóla sé íslenskunni
vel borgið. Þó að Íslendingar noti ensku meira en áður eru engu að síður
margir sem varast slettur. Sem dæmi nefni ég að það er blessunarlega
lítið af erlendum slettum í ríkisútvarpinu, sem ég kann vel að meta og tel
það vera grundvallaratriði að þar sé vandað til máls. Aftur á móti hnýt ég
stundum um að ensk hugsun á það til að læðast inn í íslenskuna í
daglegum viðskiptum og menn segja í vinsemd og kurteisi „hafðu
góðan dag“. Eða þá þegar karlar eru almennt tilgreindir menn og það
gleymist að konur eru líka menn.
Því miður býr unga kynslóðin ekki yfir jafn miklum íslenskum orðaforða
og áður. Sú kynslóð hefur áberandi mikil tengsl við enskuna, sem má
jafnvel kalla allt um lykjandi tungumál. Þessi þróun er fylgifiskur
tækninnar sem alls staðar er á næsta leiti. Við þurfum að stafræna
tungumálið til að vera með í nútímanum og við erum til allra hamingju
farin að huga að því. Þegar við verðum farin að tala við tækin þá þarf
málið að vera stafrænt annars tölum við þau á ensku.
Ég hef nokkrar áhyggjur af þeim sem ekki hugsa um tungu og tungutak
og hugsa ekki um hvaða vald tungumálið hefur, misnota málið og jafnvel
er hægt að tala um kvikindislega íslensku á samskiptamiðlum. Þessi
hópur talar vont mál þó hann sé ekki að tala ensku.
Við getum notað ýmsar leiðir til að varðveita tungumálið og efni sem
unga fólkinu er boðið upp á þarf að vera á bjartri og vandaðri íslensku.
Framsetningin þarf að vera í anda þess sem það er vant, stafrænt, og
skapað með það í huga að það höfði til bæði heyrnar og sjónar. Tæknin
er orðin svo mikil og fjölbreytt og við þurfum að nýta hana sem best til
að bæði varðveita og efla íslenskuna. Mér dettur auðvitað í hug leikrit.
Ég er viss um að ungt fólk vill horfa á leikrit, þykir það ekki leiðinlegt og
því ekki að koma leikritum til þeirra í gegnum tæknina á fjölbreyttan
hátt? Íslensk verk eða góð þýðing á erlendu verki, sem ungt fólk nýtur,
getur örvað íslenskuna og höfðað til þeirra, ekki bara til að læra af
heldur líka til að fá áhuga á efninu og upplifa gott mál.
Í mínum huga er hægt að nota margar aðferðir við að efla íslenskuna hjá
ungu fólki. Nýta tal, tón og myndmál á fjölbreyttari hátt, svipað og gert
er við kennslu erlendra mála. Eflaust eru einhverjir að nýta þetta, en ég
held að það mætti gera meira af því og gera íslenskt efni aðgengilegra
fyrir ungt fólk. Við þurfum að horfa á alla möguleika sem tæknin býður
okkur upp á og finna leiðir til að skerpa á íslenskunni.
Við finnum ekki alltaf orð á okkar tungumáli og grípum þá í önnur mál.
En við þurfum að skerpa vitund okkar fyrir því að við höfum fengið
gersemar í arf, aldagamalt mál sem miðaldabókmenntirnar voru
skrifaðar á. Við skrifum enn á íslensku, segjum sögur á listrænan hátt á
þessu gamla máli. Íslendingar höfðu ekki efni á að skapa listir hér áður
fyrr og gripu því til tungumálsins, orðanna, til að skapa listir. Einangrunin
hafði sköpunarmátt, fólkið hélt sér vakandi með hugrenningum og
notaði málið til að segja sögur og búa til listrænar myndir. Á meðan við
kunnum enn að segja sögur á íslensku þá er tungumálinu borgið.